Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 8/2014

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

Listaháskóla Íslands

 

Kærandi, sem er kona, kærði ráðningu karlmanns í starf C tónlistardeildar kærða. Kærandi hafði meiri menntun en sá sem ráðinn var en bæði höfðu þau að baki langan listrænan feril. Kærunefndin taldi að það mat stjórnar kærða að veita niðurstöðum úr viðtölum, þar sem spurt var um framtíðarsýn og áherslur við mótun hlutverks tónlistardeildar í íslensku tónlistarlífi og skólaumhverfi, meira vægi en menntun hafi verið lögmætt og málefnalegt. Taldi nefndin því ekki að kærði hefði brotið gegn lögum nr. 10/2008 við ráðningu í starfið.

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 12. maí 2015 er tekið fyrir mál nr. 8/2014 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 2. Með kæru, dagsettri 19. desember 2014, kærði A ákvörðun Listaháskóla Íslands um að ráða B í starf C tónlistardeildar skólans. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 5. janúar 2015. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 3. febrúar 2015, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 6. febrúar 2015. Kærunefndinni bárust bréf kæranda, dagsett 20. og 22. febrúar 2015, með athugasemdum við greinargerð kærða og voru þau kynnt kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 24. febrúar 2015. Með sama bréfi óskaði kærunefndin eftir afriti af niðurstöðum matsblaða fyrir kæranda og þann sem ráðinn var. Með bréfi kærunefndar, dagsettu 12. mars 2015, var kæranda tilkynnt að kærða hafi verið veittur frestur til 8. apríl 2015 til að skila inn frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kærða með bréfi, dagsettu 13. apríl 2015, og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi kærunefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dagsettu 27. apríl 2015, og voru þær sendar kærða til kynningar með bréfi kærunefndar, dagsettu 28. apríl 2015. 

 4. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

  MÁLAVEXTIR

 5. Kærði auglýsti laust starf C tónlistardeildar Listaháskóla Íslands þann 21. mars 2014. Í auglýsingu kom fram að rektor myndi ráða í starfið í samráði við stjórn skólans að undangengnu mati dómnefndar sem dæmi um hæfi umsækjenda í samræmi við reglur um veitingu akademískra starfa við skólann. Helstu verkefni voru talin þessi: Að fara með yfirstjórn tónlistardeildar, leiða stefnumótun fyrir deildina og rækta samstarf kennara og sérfræðinga, byggja upp brýr atvinnulífs og annarra skóla og vera fulltrúi Listaháskóla Íslands í alþjóðlegu samstarfi á sviði tónlistar. Bera ábyrgð á gerð og eftirfylgni fjárhagsáætlunar og annarra áætlana sem varða deildina sérstaklega, sitja í framkvæmdaráði og fagráði skólans og sinna trúnaðarstörfum. Í auglýsingunni voru jafnframt skilgreindar hæfniskröfur um að umsækjandi skyldi vera tónlistarmaður eða tónskáld með mikilsverða reynslu í list- og atvinnuumhverfi tónlistar. Það skilyrði var sett að umsækjandi hefði meistaragráðu eða sambærilega háskólagráðu í greininni. 

 6. Alls bárust ellefu umsóknir, átta frá konum og þrjár frá körlum. Á grundvelli 18. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla, fékk sérstök dómnefnd umsóknirnar til umsagnar og skilaði hún áliti á hæfi umsækjenda með bréfi, dagsettu 3. júní 2014. Dómnefndin komst að þeirri niðurstöðu að átta umsækjendur væru hæfir til að gegna stöðunni og var kærandi þar á meðal. Umsækjendurnir átta voru allir boðaðir í viðtal en þrír voru boðaðir í síðara viðtal. Kærandi var ekki einn þeirra. Tekin var ákvörðun um að ráða karl í starfið og var kærandi upplýst um það með bréfi, dagsettu 30. júní 2014. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ráðningunni með bréfi, dagsettu 2. júlí 2014, og barst rökstuðningur kærða með bréfi, dagsettu 14. ágúst 2014.

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA

 7. Kærandi greinir frá því að hún hafi verið ótvírætt hæf til að gegna starfi C tónlistardeildar kærða samkvæmt mati dómnefndar um hæfi umsækjenda. Sá er ráðinn var í starfið uppfylli ekki lágmarkskröfur um háskólamenntun þar sem hann sé ekki með meistarapróf eða ígildi þess en hún sé með doktorspróf í tónlist. Kærandi telur ljóst að kærði hafi brotið 26. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þegar gengið hafi verið framhjá henni við ráðninguna. Kærandi óskar eftir að ráðningin verði ógild og kærði greiði henni bætur sem nemi launamissi C til þriggja ára frá og með 1. ágúst 2014 enda hafi verið ráðið í stöðuna til þriggja ára.

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA

 8. Kærði krefst þess að kærunefnd jafnréttismála hafni öllum kröfum kæranda og að kærandi greiði kostnað hans vegna málsins. Kærði hafnar því að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við skipun C tónlistardeildar kærða. Kyn umsækjenda hafi ekkert haft með ráðninguna að gera en sá er ráðinn var hafi verið metinn hæfastur á grundvelli þeirra málefnalegu sjónarmiða sem lögð hafi verið til grundvallar við mat á hæfi umsækjenda um starfið. Ákvæði laga nr. 10/2008 hafi því ekki verið brotin.

 9. Kærði bendir á að skólinn hafi lagt sig fram í hvívetna um að vanda til verka við ráðningu C tónlistardeildarinnar og einkum haft að leiðarljósi að ráðningin væri á faglegum forsendum. Með það að markmiði hafi kærði til að mynda notið aðstoðar ráðningarþjónustu við ferlið. Sérstök hæfisnefnd hafi verið skipuð vegna ráðningarinnar og öllum umsækjendum hafi verið tilkynnt um skipunina. Þeim hafi verið veitt tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum en einungis kærandi hafi gert athugasemdir við skipan nefndarinnar. Stjórn kærða hafi fjallað um athugasemdir kæranda og hafi ekki séð ástæðu til að taka þær til greina og breyta skipan hæfisnefndarinnar.

 10. Kærði rekur að öllum umsóknum hafi verið vísað til hæfisnefndarinnar sem hafi lagt sjálfstætt mat á hæfi umsækjenda á grundvelli framlagðra gagna og veitt sérhverjum þeirra umsögn. Hæfisnefndin hafi síðan skilað rökstuddu áliti á hæfi umsækjenda og veitt þeim tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum við matið. Engar athugasemdir hafi borist. Kærandi og sá er ráðinn var hafi bæði verið talin ótvírætt hæf til að gegna stöðu C. Að þessu ferli loknu hafi þeir einstaklingar sem hæfisnefndin hafi metið hæfa verið boðaðir til viðtals við rektor skólans, stjórnarmann skólans og fulltrúa ráðningarþjónustunnar. Til að tryggja hlutlægan samanburð umsækjenda hafi viðmælendum verið gert að fylla út sérstök matsblöð fyrir sérhvern umsækjanda. Sérstaklega hafi verið leitað eftir því hvaða sýn umsækjendur hefðu á framtíð og stefnumótun deildarinnar og hverjir hefðu einkenni góðs leiðtoga eða stjórnanda. Eftir fyrri viðtalslotu hafi verið fullkomið samræmi milli viðmælenda um það hvaða þrír einstaklingar teldust hæfastir og þeir hafi verið boðaðir til annars viðtals við rektor skólans, framkvæmdastjóra skólans, stjórnarmann skólans og erlendan ráðgjafa, sem er fyrrverandi C og fræðimaður á sviði tónlistar í virtum erlendum tónlistarskóla, svo og fulltrúa ráðningarþjónustunnar. Þar sem kærandi hafi ekki verið meðal þessara þriggja umsækjenda hafi hún ekki verið boðuð til seinna viðtals. Það hafi verið sameiginlegt mat allra viðmælenda í fyrri viðtalslotu að kærandi hefði ekki haft nægilega mótaðar eða áhugaverðar hugmyndir um framtíðaruppbyggingu deildarinnar. Kyn kæranda hafi ekki haft neitt með það að gera. Í seinni viðtalslotu hafi einnig verið leitast við að tryggja hlutlægan samanburð umsækjenda á þann hátt að viðmælendur hafi verið látin fylla út sambærileg matsblöð og í fyrri viðtalslotu. Í seinni viðtalslotu hafi hins vegar áherslan í matinu verið lögð á persónulega eiginleika umsækjenda og hæfi þeirra sem stjórnenda. Að þessu ferli loknu hafi það verið samdóma álit allra þeirra sem komu að ráðningarferlinu að sá er ráðinn var hafi verið hæfastur allra umsækjenda til að gegna stöðunni.

 11. Kærði bendir á að við mat á því hverjir séu hæfir til að gegna starfi C tónlistardeildar kærða verði í fyrsta lagi að líta til þess hvaða kröfur séu gerðar í auglýsingu til starfsins. Í öðru lagi beri að líta til þess hvað felist í starfinu og í þriðja lagi verði C tónlistardeildarinnar að uppfylla hæfisskilyrði um ráðningu háskólakennara samkvæmt 18. gr. laga nr. 63/2006. Þessum kröfum megi skipta í kröfur sem hægt sé að meta annars vegar á grundvelli umsóknar og hins vegar á grundvelli viðtals.

 12. Kærði tekur fram að gerð hafi verið krafa um að C tónlistardeildar væri tónlistarmaður eða tónskáld. Kærandi sé píanóleikari og sá er ráðinn var sé tónskáld og því uppfylli þau bæði þessa kröfu. Gerð hafi verið krafa um mikilsverða reynslu í list- og atvinnuumhverfi tónlistar sem bæði kærandi og sá er ráðinn var hafi uppfyllt. Einnig hafi verið gerð sú krafa að sá er fengi starfið hefði meistaragráðu eða sambærilega háskólagráðu í greininni. Kærandi hafi lokið doktorsprófi á fagsviðinu og sá er ráðinn var hafi lokið diplómaprófi í tónsmíðum og tónfræði sem hæfisnefndin hafi metið sambærilegt meistaraprófi. Hæfisnefndin hafi verið einróma í þeirri niðurstöðu sinni að sá er starfið hlaut hafi staðist hæfismatið þegar lögð væri saman formleg menntun hans og listrænt framlag sem tónskáld. Hann hafi lokið lokaprófi við tónfræðideild Tónlistarskólans í Reykjavík, sem hafi að jafnaði verið metið sem ígildi bakkalársgráðu, og fimm ára diplómanámi. Það hafi verið faglegt álit hæfisnefndarinnar að samanlegt jafngildi námið meistaragráðu. Þar af leiðandi sé ekki hægt að fallast á það sem fram komi í kæru um að sá er ráðinn var uppfylli ekki skilyrði um menntun. Ljóst sé samkvæmt ákvæði 18. gr. laga nr. 63/2006 að dómnefnd skuli staðfesta hvort sú þekking sé til staðar sem gerð er krafa um. Hæfisnefndin í þessu máli fari með endanlegt mat á akademísku hæfi og hafi talið menntun þess er ráðinn var vera sambærilega háskólagráðu og meistarapróf og þar af leiðandi verði að telja að lágmarkskröfur um háskólamenntun séu uppfylltar.

 13. Kærði bendir á að við ráðningu í störf sem þessi við listaháskóla sé áhersla á menntun ekki jafn rík og við almenna háskóla. Það megi rekja til þess að margir virtir listamenn sem séu sérstaklega eftirsóttir til slíkra starfa séu ekki með mikla framhaldsmenntun. Almennt sé viðurkennt að við slíkar ráðningar listaháskóla sé listrænum og menningarlegum þáttum gefið meira vægi en hreinum menntunarþáttum.

 14. Kærði rekur stjórnunarreynslu kæranda sem hafi langa reynslu af tónlistarkennslu í píanóleik og kammertónlist á öllum námsstigum en hafi hins vegar ekki reynslu af yfirstjórn og forystu fyrir deild í háskóla. Aftur á móti hafi sá sem starfið hlaut áralanga reynslu sem hljómsveitarstjóri auk þess sem hann hafi starfað sem D við Tónlistarskólann í Reykjavík og haft þar umsjón með skipulagi náms sem og að sinna almennum stjórnunarstörfum. Þá hafi hann stjórnunarreynslu frá kærða þar sem hann hafi séð um stundatöflugerð í lengri tíma og mótað námskeið fyrir deildina. Samkvæmt þessu hafi hann mun meiri stjórnunarreynslu en kærandi. Kærði bendir á að af framangreindu megi sjá að sá er ráðinn var sé hæfari en kærandi að teknu tilliti til þeirra forsendna sem lagðar hafi verið til grundvallar við ráðninguna. Það hafi því verið eðlilegt og rétt að ráða hann í starfið.

 15. Kærði tekur fram að við ákvörðun um ráðninguna hafi verið litið til laga nr. 63/2006, einkum 18. gr. laganna, og reglna nr. 1067/2006, um viðurkenningu háskóla. Einnig hafi verið litið til reglna kærða um veitingu akademískra starfa og reglna stjórnar skólans. Ráðningin hafi ekkert með kyn kæranda að gera en að minnsta kosti tvær aðrar konur hafi verið taldar hæfari en kærandi. Ráðningin hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði laga nr. 10/2008 og byggð á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum, þar með talið mati á menntun, reynslu og öðrum kostum sem gera verði kröfu um að C tónlistardeildar búi yfir og talið hafi verið rétt að leggja til grundvallar við endanlegt mat. Þegar litið sé til þess heildarmats sem hafi farið fram á öllum umsækjendum og þeim sjónarmiðum sem hafi verið lögð til grundvallar við matið sé það niðurstaða kærða og allra þeirra sem hafi komið að viðtölum við umsækjendur að sá hæfasti hafi verið ráðinn í starfið. Kærði hafnar því alfarið að kærandi hafi verið hæfari en sá er ráðinn var þar sem hún hafi meiri menntun. Þegar hæfni þeirra sé borin saman verði á engan hátt fallist á að doktorspróf hefði átt að vega þyngra en stjórnunarreynsla og frammistaða í viðtölum. Þar sem sá er ráðinn var hafi verið metinn hæfari en kærandi til að gegna starfinu hafi kæranda ekki verið mismunað á grundvelli kyns og því ekki um að ræða brot á ákvæðum laga nr. 10/2008.

 16. Kærði bendir á að það sé ekki á valdsviði kærunefndar jafnréttismála að endurskoða mat kærða, og þá sérstaklega það sjónarmið að leggja meiri áherslu á stjórnunarreynslu og frammistöðu í viðtölum heldur en menntun, enda verði að líta svo á að hlutverk kærunefndarinnar sé bundið við að gæta að því að mat veitingarvaldshafa hafi verið málefnalegt og uppfyllt lögmæt skilyrði. Játa verði kærða svigrúm við mat á þeim málefnalegu sjónarmiðum sem skólinn hafi lagt til grundvallar og hvernig umsækjendur hafi fallið að þeim. Leggja verði til grundvallar þann matsgrundvöll sem hafi verið lagður að viðkomandi starfi og út frá því mati verði að taka afstöðu til þess hvort kærði hafi brotið ákvæði laga nr. 10/2008. Matsgrundvöllurinn sé því ekki hvort kærunefndin sé sammála mati kærða heldur hvort kærði hafi við ráðningu í starfið mismunað, beint eða óbeint, á grundvelli kyns.

  ATHUGASEMDIR KÆRANDA

 17. Kærandi krefst þess að kærði greiði sér fullar skaðabætur vegna brotsins ásamt kostnaði vegna málarekstursins og hafnar öllum fjárkröfum kærða. Þá krefst kærandi þess að ráðningin verði dæmd ógild í ljósi þeirra ótvíræðu galla sem kærandi hafi sýnt fram á að hafi verið til staðar á öllum stigum ráðningarferlisins. Kærandi telur að rektor og stjórn kærða hafi ákveðið fyrirfram hver skyldi hljóta stöðuna og því hafi allt ráðningarferlið verið blekkingarleikur.

 18. Kærandi hafnar kröfu kærða um að kærunefnd jafnréttismála hafni öllum kröfum kæranda enda hafi kærandi sýnt fram á að kærði hafi brotið lög nr. 10/2008 og ákvæði 3 í jafnréttisstefnu kærða frá 2014 um stöðuveitingar með því að ganga framhjá henni við ráðningu C tónlistardeildar. Kærði hafi tekið mun minna hæfan karlmann, sem hafi verið fyrirfram ákveðið að skyldi hljóta stöðuna, fram fyrir hana í lokaviðtal og þannig komið í veg fyrir að hún ætti möguleika á að hljóta stöðuna. Sá er ráðinn var hafi verið að öllu leyti mun minna hæfur en kærandi til að gegna stöðunni. Hann uppfylli hvorki menntunarkröfu um meistarapróf né sambærilega háskólagráðu sem hafi verið sett fram sem skilyrði fyrir ráðningunni. Hæfisnefndin hafi sett fram ranga fullyrðingu um að sá sem ráðinn var hafi lokið meistaraprófi á sínu fagsviði og því krefst kærandi þess að hæfismatið verði ógilt. Þá fer kærandi fram á að fylgiskjal nr. 15 með greinargerð kærða verði ógilt en þar komi fram upplýsingar sem staðfesti vanhæfi hæfisnefndarinnar. 

 19. Kærandi bendir á að það sé röng fullyrðing hjá kærða að hún og sá sem ráðinn var hafi hlotið orðrétt sömu niðurstöðu hæfisnefndarinnar. Sá sem ráðinn var hafi verið með tvo veikleika gagnvart stöðunni, annars vegar að hann hafði litla stjórnunarreynslu á sviði háskólamenntunar og hins vegar að hann hafði ekki birt rannsóknir á ritrýndum fræðilegum vettvangi. Kærandi hafi hins vegar einungis verið með einn veikleika gagnvart stöðunni, litla stjórnunarreynslu á sviði háskólamenntunar. Fullyrðing kærða eigi því ekki við nein rök að styðjast og undirstriki ótrúverðugleika greinargerðar kærða. Það liggi enn fremur fyrir þegar hæfisdómar um alla umsækjendur séu bornir saman að kærandi hafi að mati hæfisnefndarinnar verið hæfasti kvenumsækjandinn. Samkvæmt hæfismati hafi kærandi einungis verið með einn veikleika á meðan allir aðrir kvenumsækjendur hafi verið með tvo til fjóra veikleika. Þar sem ótvíræðir gallar hafi verið á ráðningarferlinu krefst kærandi þess að ráðningarferlið og ráðningin verði dæmd ógild með öllu.

 20. Kærandi greinir frá því að sá sem ráðinn var hafi útskrifast með diplómapróf árið 1992 en ekki háskólapróf sem geti í mesta lagi talist að einhverju leyti sambærilegt bakkalársprófi. Álit hæfisnefndar, að formleg menntun þess sem ráðinn var og listrænt framlag hans sem tónskáld jafngildi meistaragráðu, sé einfaldlega rangt. Hann standist því ekki þau skilyrði sem hafi verið sett í auglýsingu um starfið og hafi því ekki átt að komast áfram í ráðningar- og viðtalsferlinu, hvorki í fyrri né seinni lotu ráðningarviðtalanna. Kærandi bendir á að sá sem hafi skrifað rökstuðning um mat á menntun þess sem ráðinn var hafi í kjölfar ráðningarinnar sjálfur verið ráðinn inn við tónlistardeild kærða sem gestaprófessor. Rektor kærða og sá sem ráðinn var hafi þannig launað honum fyrir fullgildingu hæfismatsins.

 21. Kærandi bendir á að orðalag auglýsingarinnar, að umsækjandi skyldi vera tónlistarmaður eða tónskáld, sé óeðlilegt og standist ekki skoðun. Tónskáld, tónlistarflytjendur og aðrir sem starfi við tónlist falli ætíð undir skilgreininguna tónlistarmaður í almennri orðræðu. Að mati kæranda hafi auglýsingin verið orðuð þannig til að tryggja þeim er ráðinn var stöðuna. Þá bendir kærandi á að ráðningarfyrirtækið hafi ekki tryggt jafnræði umsækjenda eins og því hafi borið að gera.

 22. Kærandi hafnar því er hún telur rangfærslur kærða að hinn erlendi sérfræðingur, er sat síðara viðtalið, hafi ekki tekið þátt í úttekt á tónlistardeild kærða og því verði hæfi sérfræðingsins ekki dregið í efa. Hið rétta sé að hinn erlendi sérfræðingur hafi starfað við gæðaúttektir á tónlistardeild kærða frá árinu 2007 sem fulltrúi erlendrar sérfræðinefndar á vegum Rannís og mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Það megi draga í efa hlutleysi sérfræðingins gagnvart tónlistardeildinni þar sem hann hafi að öllum líkindum myndað persónuleg tengsl við starfsfólk deildarinnar á þessum árum. Kærandi telur óeðlilegt að sérfræðingurinn hafi átt beina aðkomu og íhlutun í starfsemi kærða með því að taka þátt í ráðningarviðtölum fyrir C-stöðuveitinguna í júní 2014. Að mati kæranda hafi verið um að ræða óeðlilega og hlutdræga aðkomu erlenda aðilans.

 23. Kærandi bendir á að hún hafi gert athugasemd við skipan formanns hæfisnefndarinnar á þeirri forsendu að sérfræðiþekking hennar væri ekki á fagsviði umræddrar stöðu. Ljóst sé að hæfisnefndin hafi haft rangt fyrir sér í mati á menntun þess sem ráðinn var og leiða megi líkum að því að slíkt hefði ekki gerst ef formaðurinn hefði verið sérfræðingur á sviði tónlistar. Kærandi hafi einnig gert athugasemd við skipan eins karlmanns í hæfisnefndinni þar sem hann hafi setið í hæfisnefnd árið 2011 um stöðuveitingu sem kærandi hafi sótt um en ekki fengið.

 24. Kærandi telur þá fullyrðingu tilhæfulausa að hugmyndir hennar um framtíðaruppbyggingu tónlistardeildar hafi ekki verið nægilega mótaðar eða áhugaverðar, en af þeim sökum hafi hún ekki verið boðuð í seinni viðtalslotu. Engin skrifleg gögn hafi verið lögð fram um að nefndin hafi, á þeim tíma sem ráðningarferlið stóð yfir, metið að kærandi hafi ekki haft nægilega mótaðar eða áhugaverðar hugmyndir um framtíðaruppbyggingu deildarinnar, þrátt fyrir að matsblöð um umsækjendur hafi verið notuð samkvæmt upplýsingum í greinargerð. Fullyrðingin sé því tilhæfulaus og ótæk sem rökstuðningur við ráðninguna. Kærandi bendir á að í hæfismati hennar sé bent á að einn af helstu styrkleikum hennar sé einmitt sá að hún hafi sett fram heildstæða sýn á þróun náms á fræðasviðinu með umsóknargögnum. Þegar framtíðarsýn þess sem ráðinn var sé borin saman við tillögur kæranda komi í ljós að þrjár af fjórum tillögum hans séu efnislega samhljóma fjórum tillögum hennar.

 25. Kærandi krefst þess að greinargerð kærða verði metin ógild í heild sökum þess ótrúverðugleika sem þar komi ítrekað fram auk skorts á framlögðum gögnum. Í greinargerð kærða sé rangt farið með kennsluferil kæranda við skólann og þar sé að finna vítaverðar rangfærslur um skort hennar á stjórnunarreynslu við skólann. Hið rétta sé að kærandi hafi starfað sem yfirmaður píanódeildar kærða frá 1. janúar 2014 til 1. júlí 2014. Fullyrðingar um skort kæranda á stjórnunarreynslu við skólann séu því rangar og settar vísvitandi fram til þess eins að rýra ferilskrá kæranda og trúverðugleika. Þá hafnar kærandi því að sá er ráðinn var hafi mun meiri stjórnunarreynslu enda hafi engin haldbær gögn verið lögð fram þess efnis. Þá rekur kærandi aðra stjórnunarreynslu sína og telur ljóst að hún sé með mun meiri stjórnunarreynslu en sá er ráðinn var.

 26. Kærandi hafnar því að við ráðningu í störf sem þessi við listaháskóla sé áhersla á menntun ekki jafn rík og við almenna háskóla. Kærandi bendir á að fyrrverandi og núverandi rektorar skólans hafi stundað áróður gegn doktorsgráðum í listum hérlendis sem eigi sér enga hliðstæðu en þau séu einu háskólarektorarnir á landinu sem hafi ekki doktorsgráðu í sínu fagi.

 27. Kærandi vekur athygli á að í tónlistarumhverfinu á Íslandi séu fáar yfirmannastöður og að staða C tónlistardeildar kærða sé valdamesta staðan þegar litið sé til yfirmannastaða í tónlistarskólum landsins og sú eina á háskólastigi. Það heyri til undantekninga ef kona sé ráðin skólastjóri tónlistarskóla hérlendis þannig að umrædd C-staða sé sú mikilvægasta í tónlistarþætti menningar- og menntaumhverfisins hvað varðar áhrif og völd. Það sé alvarlegt að kærði stöðvi með öllum tiltækum ráðum eðlilegan framgang hæfasta kvenumsækjandans í slíka áhrifa- og valdastöðu í tónlistarlífinu til að koma minna hæfum karlmanni í starfið í stað þess að tryggja jafnræði hæfra kvenna til áhrifa og valda í íslensku þjóðlífi.

  ATHUGASEMDIR KÆRÐA

 28. Kærði ítrekar að hæfasti einstaklingurinn hafi verið ráðinn í starfið og að skipan hæfisnefndarinnar hafi verið fagleg og í samræmi við þær reglur sem um hana gilda. Hæfisnefndin hafi ekki tekið til starfa fyrr en eftir að stjórn skólans hafi fjallað um athugasemdir kæranda og rekur kærði nánar ástæður þess að þær hafi ekki verið teknar til greina. Kærði bendir á að fullyrðing kæranda um rangt mat hæfisnefndarinnar sé órökstudd, röng og ósönnuð. Það sé ljóst að engin ástæða sé til að draga í efa skipan hæfisnefndarinnar og þar af leiðandi verði ekki með réttu haldið fram að galli sé á ráðningarferlinu. Hlutverk hæfisnefndarinnar hafi verið að dæma um hæfi umsækjenda en ekki að taka afstöðu til innbyrðis röðunar þeirra. Hlutverk hæfisnefndarinnar sé því ekki að leggja mat á hvaða umsækjandi sé hæfari en annar og ljóst að ekki verði lagt mat á það hver sé hæfastur til að gegna umræddri stöðu á grundvelli niðurstöðu hæfisnefndarinnar. Við slíkt mat þurfi fleiri atriði að koma til skoðunar en það komi í hlut annarra en hæfisnefndarinnar að leggja dóm á. Kærði tekur fram að ekki sé hægt að fallast á að mat hæfisnefndarinnar á menntun þess er ráðinn var hafi verið rangt. Kærði rekur nánar menntun hans og hvaða reglur giltu um D háskólagráður á þeim tíma er hann stundaði þar nám. Þá bendir kærði á að dómnefnd um hæfi sé sérstaklega falið það hlutverk, lögum samkvæmt, að meta hvort prófgráða og reynsla sé sambærileg því viðmiði sem krafa er gerð um fyrir sérhvert starf. Telja verði að veigamikil rök þurfi að koma fram til að mati hæfisnefndar hvað þetta varðar sé hnekkt en slík rök hafi ekki komið fram. 

 29. Kærði tekur fram að ásakanir kæranda um óeðlilega og gagnkvæma fyrirgreiðslu milli þess sem ráðinn var og eins nefndarmanns hæfisnefndarinnar eigi ekki við nein rök að styðjast og þeim sé alfarið hafnað. Hvað varðar orðalag auglýsingar um starfið tekur kærandi fram að hún hafi verið vandlega undirbúin og yfirfarin af ráðningarfyrirtæki. Þá hafi hún einnig verið borin undir framkvæmdaráð og stjórn skólans. Orðinu tónskáld hafi verið bætt inn í auglýsinguna til að tryggja að hún hefði sem allra víðasta skírskotun innan fagsviðs tónlistar. Einnig hafi það verið markmið skólans að hún gæti höfðað til sem flestra enda hafi skólinn talið meiri líkur á að finna hæfasta einstaklinginn í starfið ef hópur umsækjenda væri sem stærstur og fjölbreyttastur. Kærði hafnar fullyrðingum kæranda um að ráðningarfyrirtækið hafi ekki starfað af heilindum við ráðningarferlið enda engin haldbær rök færð fyrir þeim. Kærði greinir nánar frá aðkomu erlenda sérfræðingsins og bendir á að hún hafi verið til þess fallin að styrkja enn frekar faglega ráðningu í starfið. Ekki sé með nokkru móti hægt að véfengja réttmæti þeirrar ráðstöfunar, þvert á móti hafi verið faglega að verki staðið, og því verði ekki fallist á að aðkoma sérfræðingsins hafi verið óeðlileg eða hlutdræg þannig að galli væri á ráðningarferlinu.

 30. Kærði bendir á að það hafi verið sameiginlegt álit þeirra aðila sem hafi verið falið að leggja mat á fyrri viðtalslotu að kærandi hafi ekki haft nægilega mótaðar eða áhugaverðar hugmyndir um framtíðaruppbyggingu deildarinnar, þrátt fyrir að samhljómur kunni að vera í einhverjum atriðum milli hennar og þess sem ráðinn var. Matsblöðin sýni fram á og séu því til staðfestingar að í viðtölum hafi verið gætt að jafnræði umsækjenda, til þeirra hafi verið beint sömu spurningum og þeir metnir út frá sömu forsendum. Samkvæmt vinnureglu ráðningarfyrirtækisins beri viðmælendum að skila matsblöðum að viðtölum loknum en þá sé þeim fargað enda komi þar fram upplýsingar sem almennt séu taldar varða einkahagsmuni einstaklinga. Kærði ítrekar að hlutverk hæfisnefndar í ráðningarferlinu sé að leggja hlutlægan dóm á hæfi umsækjenda. Í umfjöllun hæfisnefndar um styrkleika kæranda felist hvorki efnisdómur eða álit nefndarinnar á framtíðarsýn kæranda né hvort sú framtíðarsýn falli að markmiði skólans. Þá bendir kærði á að þrír umsækjendur hafi verið taldir hæfastir að fyrri viðtalslotu lokinni, þar af tvær konur og einn karl, en kærandi hafi ekki verið í þeim hópi. Þar sem tvær konur hafi verið metnar hæfari en kærandi sé vandséð hvernig kyn hafi ráðið för við matið þannig að gengið hefði verið framhjá kæranda með óréttmætum hætti.

 31. Kærði tekur fram að kærandi virðist misskilja umfjöllun um kennsluferil hennar hjá skólanum. Því sé ekki haldið fram að kærandi hafi ekki starfað við tónlistardeild skólans frá árinu 2006 til 2015 heldur sé sérstaklega gerð grein fyrir því tímabili sem hún hafi verið ráðin tímabundið sem aðjúnkt. Kærði greinir nánar frá stjórnunarreynslu kæranda og bendir á að það sé rangt að hún hafi starfað sem yfirmaður píanódeildar skólans á tímabilinu 1. janúar 2014 til 1. júlí 2014. Ekki sé til sérstök píanódeild innan tónlistardeildar skólans og á umræddu tímabili hafi kærandi sinnt afleysingarstörfum sem ekki hafi falið í sér eiginlega stjórnun. Afleysingin hafi einungis náð til kennsluþáttarins en annar einstaklingur hafi tekið að sér sjálfa fagstjórnina sem sé hin eiginlega stjórnun. Í greinargerð kærða hafi einungis verið leitast við að draga fram það sem máli skipti til að sýna fram á að skólinn hefði ráðið hæfasta umsækjandann. 

  ATHUGASEMDIR KÆRANDA

 32. Kærandi bendir á að formaður hæfisnefndarinnar hafi verið vanhæfur til að fjalla hlutlaust og faglega um umsókn þess sem ráðinn var vegna persónulegra tengsla og hagsmunatengsla formannsins og fjölskyldu hans við föður þess sem ráðinn var frá árinu 1960 til 2014. Þá bendir kærandi á að rökstuðningur kærða um mat hæfisnefndarinnar á menntun þess sem ráðinn var einkennist af ófaglegri vinnu og framsetningu sem ekki sé boðleg í lögformlegu skjali á vegum háskóla. Það sé ljóst að kærða skorti öll rök til að afsanna fullyrðingu kæranda um að sá sem ráðinn var hafi hvorki lokið meistaragráðu né ígildi hennar eins og skilyrt hafi verið í auglýsingu um umrædda stöðu. Kærandi rekur hagsmunatengsl allra þriggja nefndarmanna í hæfisnefndinni og bendir á að þau hafi komið í veg fyrir að nefndarmenn stæðu gegn áliti hvers annars. Ásakanir kæranda um fyrirgreiðslu séu því fyllilega réttmætar og enn frekari ástæða til að benda á slíkt í ljósi upplýsinga um óeðlileg hagsmunatengsl annarra meðlima hæfisnefndarinnar, bæði innbyrðis og við föður þess sem ráðinn var. Þá ítrekar kærandi að aðkoma erlenda sérfræðingsins hafi verið óeðlileg og hlutdræg og teljist galli á ráðningarferlinu.

 33. Kærandi hafnar því að tvær konur hafi verið metnar hæfari en hún að fyrri viðtalslotu lokinni og ítrekar að hún hafi verið metin hæfasti kvenumsækjandinn með einungis einn veikleika gagnvart stöðunni. Kærandi telur það fullkomlega óboðleg vinnubrögð að matsblöðum hafi verið fargað. Fullyrðing kærða um að niðurstaða fyrri viðtalslotu hafi verið kæranda í óhag sé markleysa þar sem hún eigi ekki við nein skrifleg gögn að styðjast. Þá bendir kærandi á að sá kennari sem stýri deild í hljóðfæraleik í háskóla með öllum þeim stjórnunarstörfum sem því fylgi sé í raun deildarstjóri óháð því hvernig viðkomandi háskóli kjósi að skíra þann hluta skólastarfsins. Að halda öðru fram sé útúrsnúningur.

  NIÐURSTAÐA

 34. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

 35. Staða C tónlistardeildar kærða var auglýst laus til umsóknar í mars 2014. Umsækjandi skyldi vera tónlistarmaður eða tónskáld með mikilsverða reynslu í list- og atvinnuumhverfi tónlistar. Það skilyrði var sett að umsækjandi hefði meistaragráðu eða sambærilega háskólagráðu í greininni. Tekið var fram að C þyrfti að hafa ríka skipulags- og stjórnunarhæfileika, vera góður leiðtogi, lipur í samskiptum og eiga auðvelt með að starfa með öðrum. Þá var tekið fram að auk gagna um menntun, námsferil og starfsreynslu skyldi fylgja umsókn greinargerð þar sem umsækjandi lýsti viðhorfum sínum til háskólamenntunar í listum, framtíðarsýn sinni fyrir tónlistardeildina og þeim stefnumótandi áherslum sem hann myndi vilja hrinda í framkvæmd, yrði hann ráðinn til starfsins. Loks var þess getið í auglýsingunni að rektor réði í starfið að undangengnu mati dómnefndar sem dæmdi um hæfi umsækjenda í samræmi við reglur skólans um veitingu akademískra starfa við Listaháskóla Íslands.

 36. Í reglum um veitingu akademískra starfa við Listaháskóla Íslands segir að stjórn skólans tilnefni í þriggja manna dómnefnd. Í dómnefnd megi skipa þá eina sem hafi þekkingu og reynslu í samræmi við alþjóðleg viðmið fyrir viðkomandi starfsheiti. Miðað sé við að minnst tveir nefndarmanna séu sérfræðingar á fræðasviði skólans og að í nefndinni skuli sitja að minnsta kosti einn fulltrúi sem ekki gegni föstu starfi við skólann. Í samræmi við framangreint skipaði stjórn kærða dómnefnd í maí 2014 en í henni sátu forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, sem var formaður nefndarinnar, auk tónlistarfræðings og tónskálds. Kærandi gerði athugasemd við skipan nefndarinnar. Stjórn kærða fjallaði um athugasemdirnar og taldi að ekki væru fyrir hendi aðstæður sem gæfu tilefni til að draga óhlutdrægni þess nefndarmanns, sem athugasemd hafði verið gerð við, í efa.

 37. Dómnefndin fjallaði um hæfi hinna 11 umsækjenda um starfið og skilaði áliti sínu 3. júní 2014. Í álitinu er vísað til reglna um veitingu akademískra starfa við Listaháskóla Íslands og tekið fram að nefndin byggi mat sitt á hæfi umsækjenda á framlögðum skýrslum um listræn störf þeirra, rannsóknir og ritsmíðar, afritum af verkum, upplýsingum um önnur störf og öðrum upplýsingum er tengist listsköpun þeirra og starfi, enn fremur á yfirlitum um námsferil og afritum af prófskírteinum ásamt umsóknum um fyrri störf umsækjenda. Þá er í álitinu gerð grein fyrir því að samkvæmt ákvæði 4.1 í reglunum skuli matið byggt á menntun, listrænum ferli og/eða rannsóknum og fræðistörfum, kennslustörfum, stjórnunarreynslu og reynslu af öðrum þáttum sem telja megi að tengist starfinu sérstaklega.

 38. Í niðurstöðu dómnefndar segir um kæranda að hún hafi lokið doktorsprófi á fagsviðinu, hún hafi viðamikla reynslu sem hljóðfæraleikari í list- og atvinnuumhverfi tónlistar og hafi hlotið viðurkenningu fyrir list sína. Þess er getið að kærandi hafi verið kennari á háskólastigi og einnig við tónlistarskóla, hún hafi tekið þátt í opinberri umræðu um list og listmenntun. Loks er tekið fram að hún hafi sett fram heildstæða sýn á þróun náms á fræðasviðinu með umsóknargögnum. Að mati nefndarinnar hafði kærandi litla stjórnunarreynslu á sviði háskólamenntunar. Niðurstaða dómnefndar var að kærandi uppfyllti öll formleg skilyrði fyrir starfinu og að hún sé ótvírætt hæf til að gegna því.

 39. Í niðurstöðu dómnefndar um þann er ráðinn var í starfið segir að hann hafi lokið lokaprófi í tónsmíðum og tónfræði við tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík árið 1987 og hafi lokið diplómaprófi í tónsmíðum og tónfræði við erlenda menntastofnun árið 1992. Þess er getið að hann hafi lokið meistaraprófi á fagsviði sínu, hann hafi viðamikla reynslu sem tónskáld og hljómsveitarstjóri í list- og atvinnuumhverfi tónlistar. Þá er þess getið að hann hafi hlotið viðurkenningu fyrir listrænt starf og að hann hafi mikla reynslu sem stjórnandi við tónlistarskóla og kennslureynslu á háskólastigi. Loks er þess getið að hann hafi sett fram heildstæða sýn á þróun náms á fræðasviðinu með umsóknargögnum. Að mati nefndarinnar hafði sá er ráðinn var litla stjórnunarreynslu á sviði háskólamenntunar og hafði ekki birt rannsóknir á ritrýndum fræðilegum vettvangi. Niðurstaða matsnefndar var að sá er ráðinn var uppfyllti öll formleg skilyrði fyrir starfinu og að hann væri ótvírætt hæfur til að gegna því.

 40. Samkvæmt því er að framan greinir hafði kærandi meiri menntun en sá er ráðinn var. Jafnframt er ljóst að með heimild í grein 4.2 í reglum um veitingu akademískra starfa lagði dómnefndin fimm ára diplómanám þess er ráðinn var að jöfnu við meistarapróf. Gerir kærunefndin ekki athugasemd við þá niðurstöðu nefndarinnar sem skipuð var sérfræðingum á fræðasviðinu í samræmi við fyrirmæli 3. gr. reglna um veitingu akademískra starfa við Listaháskóla Íslands.

 41. Kærði hefur fært fram þau rök fyrir ráðningunni að niðurstaða úr tveimur viðtölum hafi ráðið því að sá er ráðinn var hafi verið talinn hæfastur umsækjenda en kærandi var meðal þeirra er boðið var í fyrra viðtalið. Starfið mun fela meðal annars í sér stefnumótun og stjórnun af margvíslegu tagi. Samkvæmt niðurstöðum dómnefndar hafði hvorki kærandi né sá er ráðinn var mikla reynslu af stjórnun innan háskóla en bæði höfðu þau að baki langan listrænan feril. Við þær aðstæður fellst kærunefndin á að það mat stjórnar kærða að veita niðurstöðum úr viðtölum þar sem spurt var um framtíðarsýn og áherslur við mótun hlutverks tónlistardeildar í íslensku tónlistarlífi og skólaumhverfi, meira vægi en menntun umsækjenda, hafi verið lögmætt og málefnalegt. Þótt kærandi hafi að baki lengra háskólanám en sá sem starfið hlaut hefur ekki verið gert líklegt að það nám eða önnur reynsla nýtist henni þannig að hún verði talin jafnhæf eða hæfari þeim er ráðinn var til að stjórna tónlistardeild kærða. Nefndin tekur fram að æskilegt hefði verið að niðurstöður matsblaða hefðu verið aðgengilegar við úrlausn málsins. Þrátt fyrir það telur kærunefndin, eftir athugun á gögnum málsins sem meðal annars hafa að geyma spurningar til umsækjenda í viðtölum, auk umsóknargagna, sem innihéldu meðal annars skriflega greinargerð þar sem umsækjendur gerðu grein fyrir viðhorfum sínum til háskólamenntunar í listum, framtíðarsýnar og stefnumótandi áherslna, að ekki hafi verið leiddar neinar líkur að því að kærði hafi við ráðninguna mismunað á grundvelli kynferðis.

 42. Samkvæmt framansögðu braut kærði ekki gegn lögum nr. 10/2008 við ráðningu C tónlistardeildar kærða í júní 2014. Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu og málsatvikum öllum eru ekki efni til að verða við kröfum málsaðila um málskostnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Listaháskóli Íslands braut ekki gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í starf C tónlistardeildar kærða í júní 2014.

Erla S. Árnadóttir

 Björn L. Bergsson

 Þórey S. Þórðardóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum