Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál

1165/2023. Úrskurður frá 8. desember 2023

Hinn 8. desember 2023 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1165/2023 í máli ÚNU 23110005.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Hinn 2. nóvember 2023 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra frá A lögfræðingi, f.h. B, í tilefni af því að barnaverndarþjónusta Mið-Norðurlands afhenti kæranda ekki gögn.

Með erindi, dags. 25. október 2023, var f.h. kæranda óskað eftir öllum gögnum máls hennar hjá barna­vernd­­arþjónustunni. Erindið var ítrekað tveimur dögum síðar. Í svari barnaverndarþjónustunnar, dags. 27. október 2023, kom fram að beiðnin væri afgreidd sam­kvæmt verklagsreglum samstarfssveitar­félaga í barna­verndarþjónustu Mið-Norðurlands, um af­hendingu gagna um persónuupplýsingar. Erindi kær­anda var ítrekað hinn 30. október 2023 með vísan til 45. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Þar kom fram að ef gögnin yrðu ekki afhent í síðasta lagi daginn eftir yrði málinu vísað til úrskurðarnefndar vel­­ferðarmála. Þá var óskað afhendingar á samningi um umgengni sem kæranda hefði verið sagt að gerð­ur hefði verið við hana.

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar er þess krafist með vísan til 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, að kæranda verði afhent þau gögn sem óskað var eftir. Kærandi sé aðili að málinu og eigi ótvíræðan rétt á að fá afhent öll þau gögn sem varða mál hennar, sbr. 15. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Kæran var kynnt barnaverndarþjónustu Mið-Norðurlands með erindi, dags. 10. nóvember 2023, og barnaverndarþjónustunni veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að barnaverndarþjónustan léti úr­skurð­ar­nefnd um upp­lýs­inga­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Umsögn barnaverndarþjónustu Mið-Norðurlands barst úrskurðarnefndinni hinn 24. nóvember 2023. Þar kemur fram að kæranda hafi ekki verið synjað um aðgang að gögnum. Unnið sé nú að því að taka saman gögnin, í samræmi við verklagsreglur um afhendingu gagna um persónuupplýsingar samstarfs­sveitarfélaga í barnavernd Mið-Norðurlands, til að tryggja örugga úrvinnslu persónuupplýsinga.

Óþarft er að rekja nánar það sem fram kemur í gögnum málsins, sbr. 31. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurð­arnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum sam­kvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Hið sama gildir um synjun beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Af því leiðir að úrskurð­ar­vald nefndarinnar er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögn­um samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi.

Barnaverndarþjónusta Mið-Norðurlands hefur staðhæft að beiðni kæranda hafi ekki verið synjað og að unnið sé að því að taka saman gögnin. Úrskurðarnefndin telur í samræmi við það að kæranda hafi ekki verið synjað um aðgang að gögnum. Þar af leiðandi hefur í málinu ekki verið tekin ákvörðun sem er kæranleg til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 20. gr. upplýsingalaga. Verður því þegar af þeirri ástæðu að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Í fyrirliggjandi kæru kemur fram að kærandi sé aðili að því máli/málum sem hún hafi óskað aðgangs að hjá barnaverndarþjónustu Mið-Norðurlands og eigi ótvíræðan rétt á að fá afhent öll þau gögn sem varða mál hennar, sbr. 15. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort kæran lúti að gögnum í stjórnsýslumáli sem kærandi hafi aðild að, en bendir af þessu til­efni á að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda lögin ekki um aðgang að upplýs­ing­­um sam­kvæmt stjórnsýslulögum. Ákvarðanir um að synja aðila máls um aðgang að gögnum í slíkum til­­vikum verða ekki bornar undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Þá bendir nefndin einnig á að um rétt aðila að barnaverndar­mál­um til aðgangs að gögnum slíks máls er fjallað í 45. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, líkt og kær­andi hefur sjálfur bent á í samskiptum við barnaverndarþjónustu Mið-Norður­lands. Samkvæmt 6. gr. þeirra laga er heimilt er að skjóta úrskurðum og öðrum stjórn­valds­ákvörð­un­um barna­vernd­ar­þjón­ustu, þ.m.t. um aðgang að gögnum, til úrskurðarnefndar velferðarmála eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum. Slík sérákvæði um kærurétt ganga framar hinni almennu kæruheimild til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Úrskurðarorð

Kæru A f.h. B, dags. 2. nóvember 2023, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum