Mál nr. 22/2024. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.
Úrskurður kærunefndar útboðsmála 28. janúar 2025
í máli nr. 22/2024:
Origo hf.
gegn
Fjársýslunni og
PLT ehf.
Lykilorð
Rammasamningur. Óvirkni samnings. Áliti á skaðabótaskyldu hafnað.
Útdráttur
O kærði rammasamningsútboð í þremur hlutum um kaup á prentbúnaði, prenthylkjum og leigu á prentbúnaði en tilboðum O í alla hluta útboðsins hafði verið hafnað sem ógildum þar sem O hefði ekki uppfyllt skilyrði útboðsgagna um að prenthylki bæru tiltekna umhverfisvottun og að umbúðir boðins búnaðar væru að lágmarki úr 50% endurunnum efnum, lífbrjótanlegar eða hæfar til moltugerðar. Í tilviki leigu á prentbúnaði hafði tilboð P eitt verið talið gilt, og verið tekið, en í öðrum hlutum útboðsins hafði öllum tilboðum verið hafnað sem ógildum og boðað að bjóða ætti innkaupin út að nýju. Kærunefndin hafnaði kröfu O um að samningur F við P yrði lýstur óvirkur. Einnig var hafnað þeirri kröfu O að felld yrði úr gildi ákvörðun um að hafna tilboðum hans. Vísað var til þess að bindandi samningur væri kominn á við P um leigu á prentbúnaði sem ekki yrði felldur úr gildi eða breytt, sbr. 1. mgr. 114. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Þá hefði O í engu vikið að því í kæru að vottanir á prenthylkjum uppfylltu lágmarkskröfur útboðsgagna auk þess sem ekki yrði ráðið af tilboðsgögnum O að boðinn búnaður uppfyllti kröfur til umbúða. Þar sem O var ekki talinn hafa fært viðhlítandi rök fyrir því að ákvörðun um að hafna tilboðum hans í útboðinu hefði verið ólögmæt var kröfu O um álit á bótaskyldu F gagnvart honum jafnframt hafnað.
Með kæru móttekinni hjá Kærunefnd útboðsmála 1. júlí 2024 kærir Origo hf. útboð Ríkiskaupa nr. 21340, auðkennt „FA Printers and Printing Solutions“. Hinn 1. ágúst 2024 tók gildi reglugerð nr. 895/2024, um fyrirkomulag innkaupa ríkisins, sett með heimild í 99. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup, sbr. 16. gr. laga nr. 64/2024. Með reglugerðinni var Fjársýslu ríkisins falin verkefni sem Ríkiskaup höfðu áður með höndum og síðarnefnd stofnun þar með lögð niður. Til varnaraðila máls þessa telst því Fjársýsla ríkisins. Þá er PLT ehf. hagsmunaaðili.
Kærandi krefst þess að ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði hans sem ógildu í hinu kærða útboði verði felld úr gildi og að samningur varnaraðila við PLT ehf. í hluta III í hinu kærða útboði verði lýstur óvirkur og varnaraðila verði gert að bjóða innkaupin út á ný. Þá krefst kærandi álits á skaðabótaskyldu varnaraðila og málskostnaðar.
Í greinargerð varnaraðila 12. júlí 2024 er þess krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað.
Athugasemdir PLT ehf. við kæruna bárust 17. júlí 2024 þar sem því var mótmælt að atvik gætu leitt til þess að samningur við fyrirtækið yrði lýstur óvirkur.
Andsvör kæranda bárust 9. ágúst 2024.
I
Þann 12. febrúar 2024 óskaði varnaraðili, fyrir hönd áskrifenda að rammasamningum, eftir tilboðum í prentara, fjölnotatæki og hugbúnað og þjónustu sem þeim tengist auk annars búnaðar. Þá náði útboðið einnig til kaupa á prenthylkjum og samninga á leigu á tækjum (prentlausnum). Útboðinu var skipt í þrjá hluta. Hluti I tók til kaupa á prentbúnaði, hluti II til prenthylkja og hluti III til leigu á prentbúnaði (prentlausnir). Í kafla 1.3 í útboðsgögnum var hæfiskröfum til bjóðenda lýst, í kafla 1.4 forsendum fyrir vali tilboða og í kafla 1.5 samningum og samningsskilmálum í kjölfar útboðsins við þá bjóðendur sem valdir yrðu birgjar. Í kafla 1.6. í útboðsgögnum var fjallað um kröfu- og tæknilýsingu boðins búnaðar. Í kafla 1.6.1 var meðal annars gerð eftirfarandi lágmarkskrafa til búnaðar í hluta I: „umbúðir (pappaumbúðir, plastpokar eða þynnur) skulu vera að lágmarki úr 50% endurunnum efnum eða vera lífbrjótanleg eða hæf til moltugerðar.“ Í kafla 1.6.3 var sama krafa gerð til umbúða búnaðar í hluta III. Í kafla 1.6.2 var meðal annars gerð sú lágmarkskrafa til boðins búnaðar í hluta II að prenthylki skyldu „vottuð með Norræna Svaninum eða sambærilegri vottun“.
Tilboð voru opnuð 18. mars 2024. Í hluta I og III bárust fjögur tilboð og í hluta II sex tilboð. Kærandi gerði tilboð í alla hluta útboðsins. Í tölvupósti varnaraðila til kæranda 28. maí 2024 var óskað eftir frekari upplýsingum og gögnum til staðfestingar á að boðinn búnaður uppfyllti fyrrgreindar lágmarkskröfur til umbúða og vottunar. Með tölvupósti 5. júní 2024 afhenti kærandi gögn um umbúðir búnaðar í hluta I og hluta III. Var um að ræða staðfestingu á að framleiðandi búnaðarins, Canon, uppfyllti ISO 14001 staðal, upplýsingar um umhverfisstefnu fyrirtækisins, töflu þar sem tilgreind voru efni í helstu umbúðum og hvernig bæri að flokka þær og skjal með upplýsingum um hlutfall endurvinnanlegra efna í umbúðum. Degi síðar upplýsti kærandi um vottanir á búnaði sem boðinn var í hluta II.
Þann 12. júní 2024 tilkynnti varnaraðili um val tilboðs PLT ehf. í hluta III í útboðinu og að önnur tilboð í þeim hluta hefðu verið metin ógild. Þá kom fram að öll tilboð í hluta I og hluta II hefðu reynst ógild og fyrirhugað væri að bjóða út þá hluta að nýju. Sama dag var kæranda tilkynnt um að tilboðum hans í alla hluta útboðsins hefði verið hafnað sem ógildum skv. 82. gr. laga nr. 120/2016. Í tilkynningunni kom fram að í tilviki hluta I og III hefði ekki verið skilað fullnægjandi gögnum um að umbúðir boðins búnaðar uppfylltu lágmarkskröfur í kafla 1.6.1 og 1.6.3 í útboðsgögnum. Hvað hluta II snerti hefði boðinn búnaður ekki uppfyllt kröfur í kafla 1.6.2 til umhverfisvottunar.
Í tölvupósti kæranda til varnaraðila 14. júní 2024 óskaði hann eftir því að niðurstaða útboðsins yrði endurskoðuð og tilboð hans yrði metið gilt í öllum hlutum. Þá óskaði kærandi eftir tilboðsgögnum PLT ehf. Í svari varnaraðila 27. sama mánaðar sendi hann skjáskot af framlagðri staðfestingu á að boðinn búnaðar PLT ehf. uppfyllti umhverfiskröfur til umbúða en að öðru leyti var ekki orðið við kröfum kæranda.
Þann 24. júní 2024 tilkynnti varnaraðili bjóðendum um töku tilboðs PLT ehf. í hluta III í útboðinu og komst þar með á bindandi samningur við fyrirtækið.
II
Kærandi telur þann búnaði sem að hann hafi boðið í útboðinu uppfylla kröfur útboðsgagna, þar með talið þær er lúta að umhverfisskilyrðum og því eigi hann réttmæta kröfu til þess að vera samþykktur seljandi í hinu kærða útboði.
Kærandi gerir athugasemdir við skýrleika ákvæðis um umhverfiskröfu til umbúða búnaðar í grein 1.6.1 og 1.6.3. Hann telur varnaraðila túlka ákvæðið með þeim hætti að boðinn búnaður verði að uppfylla öll skilyrði ákvæðisins. Slík túlkun sé ekki í samræmi við texta ákvæðisins sem aðeins geri kröfu um að eitt skilyrðanna sé uppfyllt. Þá vísar kærandi til þess að varnaraðili hafi í öðrum sambærilegum útboðum heimilað afar víðtæka túlkun á tilboðsgögnum til að gera samninga sem hagstæðasta fyrir kaupendur. Með hliðsjón af reglum um samræmi og jafnræði í stjórnsýsluframkvæmd sé eðlilegt að varnaraðili hagi málsmeðferð við töku tilboða með sambærilegum hætti í þessu útboð.
Kærandi byggir á því að tilboð hans uppfylli kröfur útboðsganga um að umbúðir séu að lágmarki 50% úr endurunnum efnum. Vísar hann til þess að í gögnum með tilboðinu hafi verið að finna útlistun á hlutfalli endurvinnanlegra efna í umbúðum hverrar vöru sem boðin væri. Af því megi ráða að ekkert vörunúmer sé undir „þeirri 50% kröfu sem útboðsgögn gera ráð fyrir og 85% umbúða a.m.k. úr endurvinnanlegum efnum“. Telur kærandi sig því vel uppfylla kröfu um að umbúðir séu að lágmarki 50% úr endurunnum efnum. Að auki séu umbúðirnar lífbrjótanlegar og hæfar til moltugerðar. Vísar hann til þess að umbúðirnar séu að mestu úr endurvinnanlegum bylgjupappa (e. corrugated paper). Í þessu sambandi tekur kærandi fram að í útboðsgögnum sé ekki skilgreint með nákvæmum hætti hversu hátt hlutfall umbúðanna þurfi að teljast lífbrjótanlegar eða á hve löngum tíma.
Kærandi gerir athugasemd við að gögn sem PLT ehf. hafi afhent varnaraðila til staðfestingar á að framangreind krafa væri uppfyllt hafi verið talin fullnægjandi. Um sé að ræða tölvupóst frá starfsmanni framleiðanda um að 80% umbúða boðinnar vöru sé unnið úr endurunnum pappír án frekari gagna til staðfestingar á því. Telur kærandi þannig að taka tilboðs PLT ehf. hafi ekki byggt á fullnægjandi gögnum og varnaraðila hafi því verið óheimilt að taka tilboðinu. Komist kærunefndin þannig að þeirri niðurstöðu að tilboð kæranda hafi ekki verið gilt sé á því byggt að hafna hafi átt öllum tilboðum í hluta III.
Kærandi telur að hann hafi átt raunhæfan möguleika á því að tilboði hans yrði tekið. Með ákvörðun varnaraðila um að taka tilboði PLT ehf. hafi verið gengið á rétt kæranda og því hafi samningur varnaraðila við PLT ehf. í hluta III komist á með ólögmætum hætti. Samkvæmt því beri að lýsa þann samninginn óvirkan, með vísan til 1. mgr. 115. gr. laga nr. 120/2016. Þá telur kærandi skilyrðum fullnægt til að varnaraðila verði gert að bjóða innkaupin út á ný, sbr. 1. mgr. 111. gr. sömu laga. Einnig séu uppfyllt skilyrði 1. mgr. 119. gr. um álit nefndarinnar um skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda.
III
Varnaraðili mótmælir þeirri fullyrðingu kæranda að útboðsgögn hafi verið óskýr. Einungis hafi verið áskilið að eitt þeirra skilyrða sem komi fram í skilmála um umbúðir væri uppfyllt. Tilboði kæranda hafi verið hafnað þar sem ekki hafi verið hægt að sjá af gögnum með tilboðinu að nokkurt þeirra væri uppfyllt. Þannig hafi tilboð kæranda einungis innihaldið staðfestingu á hlutfalli endurvinnanlegra efna sem notuð væru í umbúðum en engar upplýsingar hafi borist til staðfestingar á því að umbúðir væru að lágmarki úr 50% endurunnum efnum. Þá hafi engin gögn borist til staðfestingar á því að umbúðirnar væru lífbrjótanlegar eða hæfar til moltugerðar, þrátt fyrir beiðni varnaraðila þar um. Fullyrðingar kæranda um annað uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar hafi verið um að bjóðendur skiluðu inn staðfestingum með vísan til gagna.
Varnaraðili bendir á að það sé meginregla útboðsréttar að bjóðendur beri ábyrgð á tilboðum sínum og að þeim sé skilað í samræmi við kröfur útboðsgagna, sbr. m.a. a-lið 1. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup og úrskurð kærunefndar útboðsmála í máli nr. 15/2022. Samkvæmt kröfum útboðsgagnanna hafi kæranda borið að skila inn staðfestingum um að kröfur í kafla 1.6.1 og 1.6.3 væru uppfylltar. Í ljósi þess að engin slík staðfesting fylgdi tilboði kæranda hafi varnaraðili óskað eftir þeim á grundvelli 5. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016. Þar sem staðfestingin hafi ekki borist hafi varnaraðila ekki verið fært annað en að meta tilboð kæranda sem ógilt og hafna því.
Varnaraðili tekur fram að kærandi hafi ekki nýtt fjölmörg tækifæri til að koma á framfæri athugasemd um skýrleika skilmálans. Í upphafi árs, þegar vinna við gerð útboðsgagna hafi staðið yfir, hafi kærandi fengið senda kröfulýsingu þar sem ætlun hafi verið að fá endurgjöf frá fyrirtækjum á markaðnum. Þá hafi kærandi, líkt og aðrir bjóðendur, einnig haft tækifæri til að koma athugasemd á framfæri á fyrirspurnartíma. Samkvæmt úrskurðarframkvæmd kærunefndar útboðsmála hafi bjóðendur skamman frest til að kynna sér útboðsgögn eftir að þau hafa verið gerð aðgengileg og þar til kærufrestur vegna athugasemda sem varða efni þeirra byrji að líða, sbr. úrskurði kærunefndar útboðsmála í málum nr. 21/2020 og 41/2020. Skilmálinn sem kærandi gerir athugasemd við sé skýr um þá kröfu til boðins búnaðar sem kærandi telur óljósan. Útboðsgögn hafi verið auglýst 12. febrúar 2024 og því sé kærufrestur um meintan óskýrleika útboðsgagna löngu liðinn. Að mati varnaraðila geti kærunefnd útboðsmála þar með ekki tekið til greina málsástæður kæranda sem eiga rætur að rekja til meints óskýrleika útboðsgagnanna.
Varnaraðili vísar á bug fullyrðingum kæranda um að í öðrum málum hafi varnaraðili heimilað afar víðtæka túlkun á tilboðsgögnum tveggja bjóðenda til að gera samninga sem hagstæðasta fyrir kaupendur. Þá sé meginreglu opinberra innkaupa um jafnræði, sem sé m.a. að finna í 1. mgr. 15. gr. laga nr. 120/2016, ætlað að tryggja að bjóðendur í hverju og einu útboði sitji við sama borð og að tilboð allra bjóðenda í því útboði séu meðhöndluð með sama hætti, sbr. m.a. úrskurður kærunefndar útboðsmála í máli nr. 36/2004. Þannig ráðist mat á því hvort jafnræði hafi verið brotið á því hvort aðilar innan sama útboðs hafi fengið sömu meðferð. Ótækt væri að meta öll tilboð í öllum útboðum með sama hætti enda séu þau eins misjöfn og þau eru mörg og byggja á ólíkum forsendum og gerðar ólíkar kröfur.
Varnaraðili hafnar því að skilyrði séu fyrir hendi til að lýsa samning varnaraðila og PLT ehf. óvirkan á grundvelli 1. mgr. 115. gr. laga nr. 120/2016. Skilyrði ákvæðisins séu bersýnilega ekki uppfyllt auk þess sem kærandi hafi á engan hátt fært fram fullnægjandi rök fyrir kröfu sinni.
Þar sem varnaraðili hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýni fram á að tilboð hans hafi uppfyllt kröfur útboðslýsingar og ekki sýnt fram að mat varnaraðila á tilboði hans hafi verið rangt, með þeim afleiðingum að ógilda eigi ákvörðun varnaraðila, beri að vísa frá eða hafna öllum kröfum og sjónarmiðum kæranda.
IV
Hið kærða rammasamningsútboð var í þremur hlutum. Kröfugerð kæranda verður skýrð svo að hann geri þá kröfu að ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði hans í öllum hlutum útboðsins verði felld úr gildi. Hvað hluta III varðar, þar sem samið var við PLT ehf., sé það krafa kæranda að gerður samningur verði lýstur óvirkur og innkaupin boðin út að nýju. Þá sé þess krafist að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda.
Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 120/2016 getur kærunefnd útboðsmála með úrskurði fellt úr gildi ákvörðun kaupanda vegna opinberra innkaupa, að hluta eða í heild, lýst samning óvirkan samkvæmt nánari ákvæðum 115.–117. gr. eða kveðið á um önnur viðurlög skv. 118. gr. Nefndin getur lagt fyrir kaupanda að bjóða út tiltekin innkaup, auglýsa útboð á nýjan leik eða að fella niður tiltekna ólögmæta skilmála í útboðsgögnum.
Þann 12. júní 2024 tilkynnti varnaraðili bjóðendum í útboðinu um val á tilboði PLT ehf. í hluta III í útboðinu og að önnur tilboð í þeim hluta hefðu verið metin ógild. Þá hefðu öll tilboð sem bárust í hluta I og II verið metin ógild og var boðað að bjóða ætti þá hluta út að nýju. Þann sama dag tilkynnti varnaraðili kæranda um að tilboð hans í alla hluta útboðsins hefðu verið metin ógild skv. 82. gr. laga nr. 120/2016. Tilboði PLT ehf. í hluta III í útboðinu var endanlega samþykkt 24. júní 2024 og komst þar með á bindandi samningur milli varnaraðila og PLT ehf. um þann þátt þess.
Kærandi gerir kröfu um að nefndin lýsi samning varnaraðila við PLT ehf. í hluta III óvirkan samkvæmt 115. gr. laga nr. 120/2016. Í ákvæðinu er kveðið á um að samningar sem eru yfir viðmiðunarfjárhæðum skv. 4. mgr. 23. gr. laganna og gerðir eru heimildarlaust án útboðsauglýsingar, meðan á biðtíma stendur eða stöðvun samningsgerðar vegna meðferðar hjá kærunefnd, skuli lýstir óvirkir. Kærandi hefur enga grein gert fyrir því í kæru hvernig efnislegar forsendur geti staðið til þess að krafa hans um að samningur varnaraðila við PLT ehf. verði lýstur óvirkur, og varnaraðila verði gert að bjóða innkaupin aftur út, verði tekin til greina. Þá verður ekki séð af gögnum málsins að nokkur grundvöllur sé fyrir þeirri kröfu kæranda. Verður kröfunni því hafnað. Kærandi gerir einnig þá kröfu að ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði hans í hluta III verði felld úr gildi. Samkvæmt 1. mgr. 114. gr. laga nr. 120/2016 verður bindandi samningur ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Þegar af þessari ástæðu verður þeirri kröfu hafnað. Getur því aðeins komið til skoðunar krafa kæranda um að nefndin veiti álit á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart honum hvað hluta III í útboðinu varðar. Verður um það fjallað hér síðar.
Kemur þá til skoðunar krafa kæranda um að ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði hans í hlutum I og II í útboðinu verði felld úr gildi. Sem áður segir var það niðurstaða varnaraðila að hafna öllum tilboðum er bárust í þá hluta útboðsins á þeim grundvelli að þau væru öll ógild. Í framkvæmd kærunefndar útboðsmála og dómstóla hefur verið staðfest að kaupanda kunni að vera heimilt að hafna öllum tilboðum í útboði. Þá verði kaupanda ekki gert að halda áfram útboði og ganga til samninga kjósi hann að hætta við útboð. Heimild kaupanda til að hafna öllum tilboðum sé þó ekki frjáls. Innkaupaferli sé ætlað að ljúka með því að samningur komist á og geti kaupandi ekki vikið frá því að eigin geðþótta. Hefur verið talið að kaupendur í opinberum innkaupum þurfi að hafa málefnalegar ástæður fyrir því að hafna öllum tilboðum auk þess sem almennar reglur fjármunaréttar um brostnar forsendur geta þar komið til athugunar. Sjá til hliðsjónar úrskurði kærunefndar í málum nr. 41/2021 og 42/2023.
Tilboði kæranda hluta II var hafnað þar sem kærandi uppfyllti ekki skilyrði í kafla 1.6.2 í útboðsgögnun um að prenthylki væru vottuð með Norræna Svaninum eða sambærilegri vottun. Í kæru er í engu vikið að því að vottanir á prenthylkjum kæranda geti talist sambærilegar Norræna Svaninum og þannig hafi verið rangt að meta tilboð hans ógilt. Verður því fallist á með varnaraðila að honum hafi verið rétt að hafna tilboði kæranda í II. hluta útboðsins á þeirri forsendu að það hafi verið ógilt.
Tilboðum kæranda í hluta I í útboðinu var hafnað sem ógildum á þeim grundvelli að kærandi hefði ekki fært fram staðfestingu á því að boðinn búnaður uppfyllti það skilyrði í kafla 1.6.1, að umbúðir væru að lágmarki úr 50% endurunnum efnum, lífbrjótanlegar eða hæfar til moltugerðar. Kærandi hefur byggt á því að skilyrðið hafi verið óskýrt. Í því sambandi hefur kærandi bent á að í útboðsgögnum sé ekki skilgreint hversu hátt hlutfall umbúðanna þurfi að teljast lífbrjótanlegar eða á hve löngum tíma. Samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga nr. 120/2016 skal kæra borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan 20 daga frá því að kærandi vissi eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Kærunefnd útboðsmála hefur litið svo á að bjóðendur hafi skamman frest til að kynna sér útboðsgögn eftir að þau hafa verið gerð aðgengileg og þar til kærufrestur vegna athugasemda sem varða efni þeirra byrji að líða, sbr. úrskurðir kærunefndar útboðsmála í málum nr. 21/2020 og 41/2020. Telji bjóðandi í opinberum innkaupum tiltekinn skilmála útboðsgagna ólögmætan verður hann að beina kæru til nefndarinnar innan kærufrests og getur ekki borið því við eftir opnun tilboða að víkja beri skilmálanum til hliðar, sbr. úrskurður kærunefndar útboðsmála í máli nr. 7/2021. Hið kærða útboð var auglýst 12. febrúar 2024 og voru gögn þess aðgengileg frá sama degi. Fyrirspurnarfrestur var til 9. mars 2024 og tilboð opnuð 18. sama mánaðar. Kæra málsins var móttekin hjá kærunefnd útboðsmála 1. júlí 2024. Að framangreindu virtu telst frestur kæranda til að bera lögmæti umrædds skilmála undir nefndina liðinn og koma því athugasemdir um efni hans ekki til frekari skoðunar.
Kærunefndin hefur kynnt sér tilboð kæranda, þar á meðal þau gögn sem kærandi afhenti í tölvupósti 5. júní 2024 er hann var beðinn um frekari upplýsingar og gögn til staðfestingar á að boðinn búnaður uppfyllti lágmarkskröfur til umbúða. Af þeim verður ráðið að kærandi hafi lagt fram gögn um efni umbúða og sem staðfestu hversu hátt hlutfall þeirra væri hægt að endurvinna. Aftur á móti verður ekki ráðið að kærandi hafi lagt fram gögn sem staðfestu að fullnægt væri kröfum útboðsgagna um tiltekið hlutfall endurunninna efna í umbúðum, að umbúðir væru lífbrjótanlegar eða hæfar til moltugerðar. Ekki getur haft þýðingu að í öðru ótilgreindu útboði hafi samningsskilmálar verið túlkaðir „afar víðtækt“, en sú staðhæfing kæranda er auk þess með öllu órökstudd.
Að framangreindu virtu verður talið að varnaraðila hafi verið rétt að hafna tilboðum kæranda í hluta I og II sem ógildum. Verður því að hafna kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði hans í þá hluta útboðsins.
Í 1. mgr. 119. gr. laga nr. 120/2016 kemur fram að kaupandi sé skaðabótaskyldur vegna þess tjóns sem brot á lögunum og reglum settum samkvæmt þeim hefur í för með sér fyrir fyrirtæki. Með vísan til þess sem að framan greinir verður kærandi ekki talinn hafa fært viðhlítandi rök fyrir því að sú ákvörðun varnaraðila að hafna tilboðum hans í hluta I og II í útboðinu hafi verið ólögmæt og verður varnaraðili því ekki talinn bótaskyldur. Tilboði kæranda í hluta III var hafnað á þeim grundvelli að búnaðurinn uppfyllt ekki kröfu útboðsgagna um að umbúðir væru að lágmarki úr 50% endurunnum efnum, lífbrjótanlegar eða hæfar til moltugerðar, sbr. kafli 1.6.3. Líkt og áður segir lagði kærandi ekki fram gögn sem staðfestu að sú krafa væri uppfyllt. Bótaskyldu vegna þess hluta útboðsins verður því einnig hafnað.
Af framangreindri niðurstöðu leiðir að kröfu kæranda um málskostnað verður hafnað.
Úrskurðarorð
Kröfum kæranda, Origo hf., í máli þessu er hafnað.
Reykjavík, 28. janúar 2025
Reimar Pétursson
Kristín Haraldsdóttir
Auður Finnbogadóttir