Hoppa yfir valmynd

Synjun á akstursstyrk

Ár 2014, miðvikudagur 12. mars, var kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur

ÚRSKURÐUR:

I.

Kröfur aðila.

Með bréfi, dags. 18. desember 2013, kærði X, f.h. dóttur sinnar Y (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun námsstyrkjanefndar (hér eftir kærði), dags. 24. október 2013, um að synja umsókn hennar um greiðslu akstursstyrk fyrir skólaárið 2013-2014, skv. lögum um námsstyrki, nr. 79/2003 og reglugerð um námsstyrki, nr. 692/2003, með áorðnum breytingum.

Af kæru kæranda má ráða að hún fari fram á að ákvörðun kærða verði felld úr gildi og henni verði úrskurðaður aksturstyrkur fyrir skólaárið 2013-2014.

Af hálfu kærða er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest, enda sé hún í samræmi við lög og reglur.

II.

Málsatvik.

Kærandi, sem hefur skráð lögheimili að A á Z bær og stundar nám við framhaldsskóla C, sótti um akstursstyrk og dvalarstyrk skv. lögum um námsstyrki og reglugerð um námsstyrki fyrir skólaárið 2013-2014. Með bréfi kærða, dags. 24. október 2013, var umsókninni um akstursstyrk synjað á þeim grundvelli að kærandi uppfylli ekki skilyrði a-liðar 6. gr. reglugerðar um námsstyrki þar sem samkvæmt umsókn kæranda væri dvalarstaður kæranda í B bær. Að öðru óbreyttu og skilyrði um námsframvindu var það niðurstaða námstyrkjanefndar að kærandi ætti rétt á dvalarstyrk skólaárið 2013-2014.

Með bréfi, dags. 18. desember 2013, skaut kærandi ákvörðun kærða til mennta- og menningarmálaráðuneytis.

III.

Málsmeðferð.

Stjórnsýslukæra kæranda var móttekin 18. desember 2013. Með bréfi, dags. 2. janúar 2014, leitaði ráðuneytið umsagnar kærða um kæruna. Umsögn kærða barst ráðuneytinu 23. janúar sl. eftir að hafa verið veittur viku frestur. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 2. febrúar sl., voru athugasemdir kærða kynntar kæranda og henni gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda innan tilsetts frests.

Samkvæmt 3-lið 5. gr. forsetaúrskurðar nr. 71/2013 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem er gerður með vísan til 15. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, og laga um Stjórnarráðið, nr. 115/2011, kemur fram að mennta- og menningamálaráðuneyti fari með námsaðstoð, þar á meðal: námslán og námsstyrki. Ákvörðun nefndarinnar er því réttilega kærð til mennta- og menningamálaráðuneytis og barst hún ráðuneytinu innan kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

IV.

Málsástæður og lagarök kæranda.

Í stjórnsýslukærunni kemur fram að kærandi telur að þar sem hún búi hjá vandalausum í B-bæ, sé með lögheimili hjá foreldrum á Z og stundi nám við C þá eigi hún bæði rétt á dvalarstyrk og aksturstyrk þar sem hún uppfylli skilyrði fyrir hvoru tveggja. Synjun á aksturstyrk þýðir að kærandi þurfi sjálf að greiða fyrir akstur til og frá skóla á hverjum skóladegi á meðan skólafélagar hennar í B bæ, D, E, F o.s.frv. fá til þess aksturstyrk. Það eitt að hún leigi herbergi í B bæ en ekki í G bæ þar sem skólinn sé geti ekki sjálfkrafa leitt til þess að hún eigi ekki rétt á aksturstyrk skv. 6. gr. reglugerðar um námsstyrki.

Í stjórnsýslukærunni kemur fram að kærandi kæri ákvörðun námstyrkjanefndar að einungis sé hægt að sækja um annan styrkinn fyrir skólaárið 2013-2004 og óski eftir endurskoðun á hinni kærðu ákvörðun vegna óvenjulegra aðstæðna, sbr. framangreint.

V.

Málsástæður og lagarök kærða.

Í rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun, sbr. bréf kærða til ráðuneytisins, dags. 23. janúar sl., segir að skv. d- lið 2. gr. reglugerðar um námsstyrki samanstendur dvalarstyrkur af ferðastyrk (akstursstyrk) til og frá námsstað við upphaf og lok námsannar, fæðisstyrk og húsnæðisstyrk. Það sé því mat námsstyrkjarnefndar að akstursstyrkur sé innifalinn í dvalarstyrk sem að kærandi fékk fyrir haustönn 2013.

Kærði telur ákvörðun sína í máli þessu vera í samræmi við lög og reglur og fer fram á það að ráðuneytið staðfesti hana.

VI.

Rökstuðningur niðurstöðu.

Um skilyrði laga um námsstyrki, nr. 79/2003.

Í lögum um námsstyrki nr. 79/2003 er mælt fyrir um skilyrði styrkveitinga. Samkvæmt 2. gr. laganna njóta m.a. þeir nemendur sem stunda reglubundið framhaldsskólanám hér á landi og geta ekki stundað sambærilegt nám frá lögheimili sínu eða öðrum jafngildum dvalarstað. Í 8. gr. laganna segir að mennta- og menningarmálaráðuneyti setji reglugerð er mæli nánar fyrir um hvernig lögin skuli framkvæmd.

Reglugerð um námsstyrki nr. 692/2003.

Mennta- og menningamálaráðherra hefur mælt nánar fyrir um framkvæmd laganna. Við móttöku framangreindrar stjórnsýslukæru var í gildi reglugerð nr. 692/2003, með síðari breytingum, sem kærði hefur byggt á við úrlausn máls þessa. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar eiga nemendur á framhaldsskólastigi sem fullnægja tilgreindum skilyrðum rétt til námsstyrkja til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun vegna búsetu svo sem nánar er kveðið á um í reglugerðinni.

Í a-lið 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar er mælt fyrir um það skilyrði fyrir úthlutun akstursstyrk að nemandi verði að sækja skóla frá lögheimili og fjölskyldu. Í b-lið 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar er tekið fram skilyrðið að lögheimili nemanda megi ekki vera í nágrenni við skóla.

Niðurstaða.

Í máli  þessu er deilt um hvort kærandi hafi bæði átt rétt á dvalarstyrk og akstursstyrk fyrir skólaárið 2013-2014.

Markmið laga um námsstyrki er að finna í 1. gr. laganna en þar er tekið fram að ríkissjóður veitir námsstyrki til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum og háskólum að því leyti sem búseta veldur þeim misþungum fjárhagsbyrgðum. Nemendur þeir sem sækja um umrædda styrki þurfa svo að uppfylla skilyrði laganna og reglugerðar til að hljóta styrki. Með aðstöðumun vegna búsetu er hér átt við að nemandi þurfi að bera aukinn kostnað af því að sækja skóla fjarri fjölskyldu sinni.

Í þessu máli er kærandi með lögheimili á Z og stundar nám við C og því er það mat ráðuneytisins að kærandi hafi, eins og á stóð, uppfyllt skilyrði laga og reglugerðar um námstyrki, sbr. c-lið 4. gr. og eigi því rétt á dvalarstyrk fyrir skólaárið 2013-2014 að öðru óbreyttu og skilyrði um námsframvindu séu uppfyllt.

Dvalastyrkur er skv. 1. tölul. 3. gr. laga um námsstyrki og er samsettur af ferðastyrk, fæðisstyrk og húsnæðisstyrk. Skilyrði fyrir akstursstyrk kemur svo fram í 2. tölul. 3 gr. laga um námsstyrki þar sem kveðið er á um að nemandi verði að sækja skóla fjarri fjölskyldu sinni og eigi ekki rétt á dvalarstyrk. Það verður ekki séð af löggskýringargögnum að það hafi verið vilji löggjafans að einstakur nemandi geti í einhverjum tilvikum átt rétt á tvöföldum styrk, þ.e. bæði dvalarstyrk og aksturstyrk á sama tíma, sbr. framangreindu ákvæði laganna og a-lið 6. gr. reglugerðar um námsstyrki. Ráðuneytið telur rétt að gagnálykta verði á þann veg að þeir sem njóta dvalarstyrk eigi því ekki samhliða rétt á akstursstyrk.

Rétt er geta þess að það er meginregla íslensks stjórnsýsluréttar að stjórnvöld skuli byggja ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum. Þau sjónarmið sem um ræðir og stjórnvöldum er skylt að byggja mat sitt á er að finna í lögunum sjálfum, athugasemdum með þeim og stjórnvaldsfyrirmælum. Þegar kemur að túlkun ákvæða reglugerðar um námsstyrki verður að skoða hvert sé markmið og tilgangur laganna um námsstyrki. Ráðuneytið bendir á að rökstuðningur námsstyrkjanefndar fyrir hinni kærðu ákvörðun var haldinn slíkum annmörkun að verulega skorti á að uppfyllt væru lagaskilyrði 22. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í ljósi þess að málið telst upplýst að öðru leyti á grundvelli fyrirliggjandi gagna er þó ekki tilefni til að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er óhjákvæmilegt að staðfesta hina kærðu ákvörðun eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Hin kærða ákvörðun námsstyrkjanefndar frá 23. október 2013 um synjun um akstursstyrk til Y fyrir haustönn 2013 vegna náms við framhaldsskóla C er staðfest.

 

Fyrir hönd ráðherra 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira