Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 530/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 530/2024

Fimmtudaginn 19. desember 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 22. október 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. maí 2024, um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. maí 2024, var kæranda tilkynnt að réttur hennar til atvinnuleysisbóta væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. október 2024. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. nóvember 2024, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Svar barst ekki. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. nóvember 2024, var óskað eftir gögnum frá Vinnumálastofnun vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Umbeðin gögn bárust 18. desember 2024.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála greinir kærandi frá því að Vinnummálastofnun hafi sektað hana vegna fáfræði hennar og tæknilegra mistaka. Kærandi sé enn að borga sektina en vegna nýuppgötvaðra aðstæðna hafi hún ítrekað beðið Vinnumálastofnun um að endurskoða málið. Kærandi hafi ekki enn fengið svar. Rannsókn kæranda sé í reynd enn í gangi og nú sé hún í endurhæfingu. Kærandi sé ekki enn með opinbert skjal um örorku eða skerta starfshæfni vegna heilsunnar. Miðað við heilsufar kæranda og læknisvottorð hafi hún talið rétt að upplýsa Vinnumálastofnun um stöðuna og eingöngu vinna 50% starfshlutfall. Vinnumálastofnun hafi í kjölfarið sektað kæranda um þessa 50% vinnu í sex mánuði sem hún sé enn að borga. Kærandi vonist til að sektin verði tekin til baka og að hún fái endurgreitt það sem hún hafi þegar greitt. Í reynd hafi kærandi verið í 40% starfi á umræddu tímabili. Kærandi óski eftir að mál hennar verði tekið til meðferðar þrátt fyrir að kærufrestur sé liðinn.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. maí 2024, um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 10. maí 2024, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, móttekinni 22. október 2024. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að kæranda var í hinni kærðu ákvörðun leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Kæranda var veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hún að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, gætu átt við í málinu. Svar barst ekki. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í því sambandi er meðal annars haft í huga að gögn málsins benda ekki til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið efnislega röng. Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta