Hoppa yfir valmynd

15/1997 - Úrskurður frá 3. júlí 1997 í málinu nr. A-15/1997

Hinn 3. júlí 1997 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-15/1997:

Kæruefni

Hinn 16. júní sl. barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál bréf [...], f.h. [...], dagsett 14. s.m., þar sem kærð er synjun Listasafns Reykjavíkur, dagsett 22. maí 1997, á beiðni hennar um "upplýsingar um öll keypt verk Listasafns Reykjavíkur frá ársbyrjun 1987 til svardags, kaupverð verkanna og af hverjum keypt var."

Með bréfi, dagsettu 18. júní sl., var kæran send Listasafni Reykjavíkur og því gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu synjun til kl. 12.00 á hádegi 23. júní sl. Jafnframt var þess óskað að upplýst yrði hvort safnið hefði tekið saman umbeðnar upplýsingar, að hluta eða í heild, og ef svo væri, að nefndinni yrðu látnar þær upplýsingar í té innan sama frests.

Umsögn listasafnsins, dagsett 20. júní sl., barst nefndinni sama dag. Henni fylgdu engin gögn.

Málsatvik

Atvik máls þessa eru í stuttu máli þau að með bréfi, dagsettu 7. mars sl., óskaði kærandi eftir "lista yfir öll listaverk sem Listasafn Reykjavíkur hefur fest kaup á frá 1. janúar 1996 til dagsins í dag. Ennfremur upplýsingar um af hverjum hvert listaverk var keypt og á hvaða verði". Með bréfi, dagsettu 20. apríl sl., ítrekaði kærandi fyrra erindi sitt og fór jafnframt fram á að fá "sömu upplýsingar um öll keypt verk frá 1. janúar 1987". Var það erindi enn ítrekað með bréfi, dagsettu 26. maí sl.

Listasafn Reykjavíkur svaraði erindi kæranda með bréfi, dagsettu 22. maí sl., þar sem talin eru upp nöfn þeirra listamanna sem menningarmálanefnd Reykjavíkurborgar keypti listaverk eftir á árinu 1996 og það sem af er árinu 1997. Jafnframt er þar tekið fram að kaupverð verkanna sé trúnaðarmál milli seljenda og kaupanda, en erindi kæranda ekki svarað að öðru leyti.

Með bréfi, dagsettu 27. maí sl., tilkynnti kærandi listasafninu að hún teldi svar þess "með öllu ófullnægjandi" og að hún myndi leita þeirra ráða sem lög leyfa til að fá úr því bætt.

Í umsögn Listasafnsins til úrskurðarnefndar, dagsettri 20. júní sl., segir að upphaflegu erindi kæranda, dagsettu 7. mars sl., hafi ekki verið hafnað, heldur hafi farið fram athugun á því með hvaða hætti því yrði best sinnt. Því hafi síðan verið svarað með þeim hætti, sem greinir hér að framan, en upplýsingar um seljendur og kaupverð hafi verið taldar undanþegnar aðgangi á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Við síðari kröfum kæranda í erindum dagsettum 20. apríl og 26. maí sl. hafi ekki verið orðið þar eð þær hafi ekki verið settar fram með þeim hætti sem 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga geri kröfu til. Af þeim sökum hafi safnið "ekki tekið saman umbeðnar upplýsingar, umfram það sem fram kemur í svarbréfinu frá 22. maí sl.". Aðspurður hefur forstöðumaður Listasafnsins sagt að hinar umbeðnu upplýsingar sé að finna í sérstakri spjaldskrá yfir listaverk í eigu safnsins.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

Í 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga er tekið fram að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögum nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Í 1. gr. þeirra laga segir m.a. svo: "Lögin eiga við hvort heldur sem skráning er vélræn eða handunnin." Samkvæmt því er það álit úrskurðarnefndar að lög nr. 121/1989 taki til aðgangs að þeim upplýsingum, sem kærandi hefur óskað eftir, en þær er sem fyrr segir að finna í sérstakri spjaldskrá Listasafns Reykjavíkur. Þar eð yfirlitið, sem tekið var saman í tilefni af beiðni kæranda, yfir nöfn þeirra listamanna, sem menningarmálanefnd Reykjavíkurborgar keypti listaverk eftir á tímabilinu 1. janúar 1996 til 22. maí 1997, hefur verið afhent henni verður samkvæmt framansögðu að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd skv. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.

Með þessu er ekki tekin afstaða til þess hvort kærandi eigi rétt á að fá upplýsingar um kaupverð einstakra listaverka, sem Listasafnið hefur keypt á fyrrgreindu tímabili, eða seljendur þeirra, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarorð:

Kæru kæranda, [...], á hendur Listasafni Reykjavíkur er vísað frá.

Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum