Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 122/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 122/2022

Miðvikudaginn 22. júní 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 24. febrúar 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. febrúar 2022, um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 24. janúar 2022. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 27. janúar 2022, var meðal annars óskað eftir að kærandi skilaði staðfestu afriti af eyðublaðinu RSK 5.04, tilkynningu um afskráningu af launagreiðendaskrá. Umbeðið eyðublað barst stofnuninni þann 31. janúar 2022. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. febrúar 2022, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið synjað þar sem umbeðin gögn hefðu ekki borist stofnuninni. Tekið var fram að umsóknin væri ófullnægjandi og því ekki ljóst hvort kærandi uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga eða skilyrði um virka atvinnuleit sem kveðið væri á um í 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 24. febrúar 2022. Með bréfi, dags. 1. mars 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð þann 13. apríl 2022. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 2. maí 2022, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. maí 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að hann hafi tekið eftir því þann 24. febrúar 2022 að Vinnumálastofnun hafi hafnað umsókn hans um atvinnuleysisbætur á þeirri forsendu að hann hafi ekki skilað umbeðnu gagni. Kærandi hafi skilað því þann 31. janúar 2022. Kærandi hafi ekki fengið neinar útskýringar og ekki hafi verið haft samband við hann með smáskilaboðum eða tölvupósti.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar er greint frá því að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga til Vinnumálastofnunar þann 24. janúar 2022. Kæranda hafi verið bent á það degi síðar að skila inn nauðsynlegum gögnum. Sérstaklega hafi verið tekið fram að kærandi þyrfti að tilkynna um lokun rekstrar til Skattsins. Umbeðin gögn hafi ekki borist í lok janúar og með erindi, dags. 27. janúar 2022, hafi stofnunin óskað eftir staðfestu afriti af eyðublaðinu RSK 5.04 (Tilkynning um afskráningu af launagreiðendaskrá). Þann 31. janúar 2022 hafi stofnuninni borist afrit af umbeðnu eyðublaði með móttökustimpli frá Skattinum frá 28. janúar 2022. Mál kæranda hafi verið tekið fyrir í byrjun febrúar 2022. Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum hafi ekki verið búið að loka skráningu launagreiðendaskrár á þeim tíma. Þar sem launagreiðendaskrá kæranda hafi enn verið opin hafi verið tekin ákvörðun um að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur. Ákvörðun hafi verið tilkynnt kæranda með erindi, dags. 15. febrúar 2022.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í 18. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Í f- og g-liðum ákvæðisins segi að sjálfstætt starfandi einstaklingur þurfi að hafa stöðvað rekstur og lagt fram staðfestingu þess efnis til að eiga rétt til atvinnuleysistrygginga. Í 20. gr. laganna segi að sjálfstætt starfandi einstaklingur teljist hafa stöðvað rekstur eftir að hafa tilkynnt til launagreiðendaskrár að hann hafi stöðvað rekstur. Þá segi í 21. gr. laganna að staðfesting á stöðvun rekstrar skuli fela í sér yfirlýsingu um að öll starfsemi hafi verið stöðvuð. Þá segi að staðfesting skuli fela í sér afrit af tilkynningu til launagreiðendaskrár Ríkisskattstjóra um að rekstur hafi verið stöðvaður, vottorð frá skattyfirvöldum um að skráningarnúmer hans hafi verið tekið af skrá eða önnur viðeigandi gögn frá opinberum aðilum sem staðfesta kunni stöðvun rekstrar.

Af framangreindum ákvæðum sé ljóst að aðili sem sé með opinn rekstur, það er opna launagreiðendaskrá, geti ekki átt rétt til atvinnuleysisbóta. Þegar kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur hafi rekstur hans verið opinn samkvæmt skráningu Skattsins. Eftir að kærandi hafi tilkynnt um lokun til Skattsins og afhent Vinnumálastofnun afrit af þeirri tilkynningu hafi stofnunin kannað á ný hvort opinber skráning Skattsins á stöðvun rekstrar kæranda hafi breyst. Svo hafi ekki verið og rekstur kæranda enn skráður opinn hjá Skattinum. Engar breytingar á skráningu hafi verið skráðar á tímabilinu. Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum hafi kærandi enn verið með opna launagreiðendaskrá við ritun greinargerðar Vinnumálastofnunar.

Óheimilt sé að vera með rekstur á eigin kennitölu samhliða greiðslum atvinnuleysistrygginga, sbr. a-, f- og g-liði 1. mgr. 18. gr. og 20. og 21. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem mælt sé fyrir um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Þrátt fyrir að kærandi hafi sent tilkynningu til launagreiðendaskrár Skattsins um að rekstur hafi verið stöðvaður sé ljóst að Skatturinn hafi ekki orðið við beiðni kæranda um breytingar á skráningu. Ekki liggi fyrir hvort kærandi sé í frekari viðræðum við skattyfirvöld, hvort leitað hafi verið eftir frekari gögnum frá kæranda eða hvort tilkynning um afskráningu hafi verið afturkölluð. Á meðan rekstur kæranda sé opinn samkvæmt skráningu skattyfirvalda uppfylli hann ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Í ljósi alls framangreinds sé það afstaða Vinnumálastofnunar að hafna beri umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. febrúar 2022, um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á grundvelli 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysisbætur.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. kemur fram að markmið laganna sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 9. gr. laganna er fjallað um umsókn um atvinnuleysisbætur. Í 1. mgr. segir:

„Launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum er heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verða atvinnulausir. Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og henni skal meðal annars fylgja staðfesting um stöðvun rekstrar og önnur nauðsynleg gögn að mati Vinnumálastofnunar. Í umsókn skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum.“

Í 1. mgr. 13. gr. laganna er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. Samkvæmt g. lið 14. gr. telst sá sem ekki á rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði vera í virkri atvinnuleit, nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við.

Í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Eitt af þeim skilyrðum er að hafa stöðvað rekstur og leggja fram staðfestingu um slíka stöðvun, sbr. f- og g-liði ákvæðisins. Í 20. gr. laganna kemur fram að sjálfstætt starfandi einstaklingur telst hafa stöðvað rekstur hafi hann tilkynnt til launagreiðendaskrár Ríkisskattstjóra að hann hafi stöðvað rekstur. Enn fremur telst sjálfstætt starfandi einstaklingur hafa stöðvað rekstur hafi hann tilkynnt skráningarnúmer sitt af skrá, sýnt fram á að atvinnutæki hafi verið seld eða afskráð, reksturinn framseldur öðrum eða hann hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sjálfstætt starfandi einstaklingur leggja fram staðfestingu á því að hann hafi stöðvað rekstur og skal staðfestingin fela í sér yfirlýsingu um að öll starfsemi hafi verið stöðvuð og ástæður þess og afrit af tilkynningu til launagreiðendaskrár Ríkisskattstjóra um að rekstur hafi verið stöðvaður, vottorð frá skattyfirvöldum um að skráningarnúmer hans hafi verið tekið af skrá eða önnur viðeigandi gögn frá opinberum aðilum er staðfesta kunna stöðvun rekstrar.

Samkvæmt gögnum málsins óskaði Vinnumálastofnun eftir að kærandi legði fram staðfest afrit af eyðublaðinu RSK 5.04 (Tilkynning um afskráningu af launagreiðendaskrá) til að hægt væri að taka afstöðu til réttar hans til atvinnuleysistrygginga. Kærandi tilkynnti um lokun til Skattsins þann 28. janúar 2022 og afhenti Vinnumálastofnun umbeðið gagn þann 31. janúar 2022. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er kærandi enn með opna launagreiðendaskrá og engar breytingar hafa verið gerðar á opinberri skráningu Skattsins á stöðvun rekstrar kæranda. Þar sem kærandi var með opna launagreiðendaskrá þegar hann sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga uppfyllti hann ekki skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögum nr. 54/2006. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. febrúar 2022, um að synja umsókn A, um atvinnuleysisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira