Hoppa yfir valmynd

Endurupptekið mál nr. 351/2021- Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Endurupptekið mál nr. 351/2021

Fimmtudaginn 7. júlí 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 8. júlí 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. júní 2021, um að fella niður bótarétt hans í þrjá mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 17. ágúst 2020 og var umsókn hans samþykkt 5. október 2020. Með vísan til starfsloka hans hjá fyrrum vinnuveitanda var réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði. Þann 6. júní 2021 bárust Greiðslustofu Vinnumálastofnunar upplýsingar um að kærandi hefði hafnað starfi hjá B sem hann hafði sótt um sjálfur í gegnum vef Vinnumálastofnunar. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 10. júní 2021, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna höfnunar á starfi. Skýringar bárust frá kæranda samdægurs. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. júní 2021, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í þrjá mánuði á grundvelli 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar velferðarmála 8. júlí 2021. Úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð í máli kæranda 7. október 2021 þar sem hin kærða ákvörðun var staðfest. Í kjölfarið kvartaði kærandi til umboðsmanns Alþingis vegna úrskurðarins og í áliti umboðsmanns, dags. 26. apríl 2022, var komist að þeirri niðurstöðu að úrskurðarnefndin hefði ekki upplýst mál kæranda með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 3. maí 2022 barst nefndinni beiðni kæranda um endurupptöku málsins með vísan til fyrrnefnds álits umboðsmanns. Úrskurðarnefndin féllst á beiðni kæranda um endurupptöku og var kæranda tilkynnt um það með erindi nefndarinnar, dags. 20. maí 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. maí 2022, var óskað eftir tilteknum upplýsingum frá  B. vegna málsins. Svar barst frá fyrirtækinu 30. maí 2022 og var það kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 31. maí 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði haldi áfram samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Kæran snúist ekki um sanngirni vegna óhóflegrar refsingar Vinnumálastofnunar heldur vegna rangrar og ólöglegrar beitingar 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi greinir frá því að hann hafi ekki fallist á að halda áfram í umsóknarferli eftir að hafa verið boðið að vinna frítt sem hluti af ferli sem atvinnurekandinn hafi kallað „prófanir“. Það sé ekkert í fyrrnefndri lagagrein sem skilyrði að atvinnuleitanda beri að mæta í slíkar prófanir áður en atvinnuleitanda sé boðið starf. Engu að síður beiti Vinnumálastofnun viðurlögunum eins og hann hafi hafnað starfi.

Kærandi vill benda á orðið „ítrekunaráhrif“ en það sé annað orð yfir meint síbrot af hans hálfu. Hann hafi kulnað í starfi og fengið að segja upp strax eftir samkomulag við fyrri atvinnurekanda. Fyrir vikið hafi Vinnumálastofnun neitað honum um greiðslur atvinnuleysistrygginga í tvo mánuði þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur eftir að hafa sagt upp starfi. Það hafi víst verið hans fyrsta afbrot og hann hafi sætt sig við þá niðurstöðu. Ef hin kærða ákvörðun standi og hann finni sér ekki vinnu á því tímabili þá hafi Vinnumálastofnun haft af honum greiðslur í fimm mánuði af tólf mánuðum sem hann hafi verið atvinnulaus. Það sé gríðarlega þung refsing og fyrir hann liggi 126 daga bið á milli greiðslna bóta. Samanlagt myndi kærandi því tapa greiðslum að fjárhæð um einnar milljón króna að frádreginni staðgreiðslu.

Kærandi hafi ekki gerst sekur um að hafa hafnað starfi þann 6. júní 2021. Hann hafi hafnað því að vinna frítt þann 7. júní 2021 á meðan mat atvinnurekanda á gæðum kæranda færi fram, svokallaðar prófanir. Dagsetning meints brots sé röng en 6. júní 2021 hafi verið sunnudagur og enginn starfsmaður eða yfirmaður frá B hafi haft samband. Síðustu samskipti kæranda við B hafi farið fram klukkan 11:13 þann 4. júní 2021. Það sé skráð en samskipti kæranda við yfirmann B hafi farið fram í síma. Í grunninn vilji kærandi ekki gangast við sekt sem hann hafi ekki gerst brotlegur um og vilji hann koma fram mótmælum yfir óvandvirkum vinnubrögðum Vinnumálastofnunar í þessu máli.

Í svari kæranda vegna beiðni úrskurðarnefndarinnar um frekari gögn ítrekar kærandi að hann hafi hvorki hafnað atvinnutilboði frá B né hafi fyrirtækið haft samband við hann sunnudaginn 6. júní 2021. Hin kærða ákvörðun hafi því verið byggð á þeim rangfærslum. Kærandi hafi kært niðurstöðu Vinnumálastofnunar með vísan til 69. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Kærandi tekur fram að hann hafi fengið símtal frá B föstudaginn 4. júní og honum boðið að mæta í prófanir 7. júní. Kæranda beri ekki að sanna framburð sinn með vísan til 70. gr. stjórnarskrárinnar. Þrátt fyrir að kærandi sé atvinnulaus þá njóti hann réttinda sem séu varin af 65. gr. stjórnarskrárinnar. Kæranda hafi nú þegar verið refsað fyrir að hafa kulnað í starfi og hafi því verið synjað um bætur í tvo mánuði samkvæmt niðurstöðu Vinnumálastofnunar frá 5. október 2020. Það meinta brot hafi verið notað gegn honum til þyngingar á refsingu í hinni kærðu ákvörðun. Refsingar Vinnumálastofnunar gegn kæranda séu einfaldlega brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Málið varði ekki sanngirni eða meðalhófsreglu heldur stjórnarskrárbundin réttindi allra, jafnvel þeirra sem séu atvinnulausir, að vera ekki dæmd sek og refsað fyrir brot sem þeir hafi ekki framið.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að þann 6. júní 2021 hafi Greiðslustofu Vinnumálastofnunar borist þær upplýsingar að kærandi hefði hafnað starfi hjá B. Um hafi verið að ræða starf á lager sem kærandi hafi sjálfur sótt um í gegnum vef Vinnumálastofnunar. Með erindi, dags. 10. júní 2021, hafi verið óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda á ástæðum höfnunar á starfi hjá B. Sama dag, þ.e. þann 10. júní 2021, hafi Vinnumálastofnun borist skýringar kæranda. Þar komi fram að í kjölfar atvinnuviðtalsins hafi kærandi fengið símtal frá B þann 4. júní þar sem honum hafi verið boðið að mæta í svokallaðar prófanir þann 7. júní. Í skýringum sínum hafi kærandi lagt áherslu á það að hann hefði hvorki hafnað starfi né atvinnuviðtali heldur hafi hann aðeins hafnað því að mæta í umræddar prófanir.

Þann 29. júní 2021 hafi kæranda verið tilkynnt að skýringar hans hefðu ekki verið metnar gildar og að bótaréttur hans hefði verið felldur niður í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Í ljósi þess að kærandi hafi áður sætt biðtíma á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laganna hafi bótaréttur hans verið felldur niður í 3 mánuði, með vísan til 1. mgr. 61. gr. sömu laga.

 

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í tímabundnu atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða.

 

Í a-lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að eitt af skilyrðum þess að teljast tryggður samkvæmt lögunum sé að vera í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laganna komi fram að í virkri atvinnuleit felist meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit. Ríkar kröfur beri því að gera til þeirra sem hafni starfi á innlendum vinnumarkaði að þeir hafi til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.

Í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög vegna höfnunar á starfi eða atvinnuviðtali. Ákvæðið sé svohljóðandi: 

,,Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Í athugasemdum með 57. gr. í greinargerð við frumvarp það er hafi orðið að lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega tekið fram að það að hafna því að fara í atvinnuviðtal eða sinna ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar hafi sömu áhrif og sú ákvörðun að taka ekki starfi sem býðst. Ástæðan sé einkum sú að atvinnuviðtal sé venjulega meginforsenda þess að hinum tryggða verði boðið starf. Fyrir liggi að kærandi hafi hafnað því að mæta í svokallaðar prófanir hjá B, en tilgangur þeirra hafi verið að leggja mat á hæfni kæranda. Að mati Vinnumálastofnunar beri að jafna höfnun kæranda á að mæta í umræddar prófanir við að hafna starfi.

Samkvæmt 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé Vinnumálastofnun gert að meta skýringar atvinnuleitanda vegna höfnunar á atvinnutilboði eða atvinnuviðtali með hliðsjón af þeirri ríku skyldu sem hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til að vera reiðubúnir að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu. Í 4. mgr. 57. gr. segi orðrétt:

,,Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Vinnumálastofnun sé þannig meðal annars heimilt að líta til aldurs hins tryggða, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laganna. Þá sé Vinnumálastofnun jafnframt heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfu um að hlutaðeigandi flytji búferlum.

Þær skýringar sem kærandi hafi veitt Vinnumálastofnun snúi að því að kæranda hafi ekki litist á vinnutilhögun og að hann hafi aðeins hafnað því að mæta í prófanir. Framangreindar skýringar kæranda séu með vísan til ákvæðis 4. mgr. 57. gr. og athugasemda sem því hafi fylgt, ekki þess eðlis að þær réttlæti höfnun á því að mæta í atvinnuviðtal. Í kæru greini kærandi einnig frá því að vinnuveitandi hafi ekki ætlað að greiða laun fyrir þann tíma sem hann væri í prófunum hjá fyrirtækinu. Málsástæða þessi komi nú fyrst fram við meðferð kærumáls hjá úrskurðarnefnd velferðarmála. Með fullyrðingum í kæru haldi kærandi því fram að umræddur atvinnurekandi hafi ekki ætlað að greiða laun fyrir störf sem sannanlega væru innt af hendi og um leið virða grundvallarskyldur sínar samkvæmt vinnurétti og gildandi kjarasamningum að vettugi.  Yfirlýsingar kæranda séu hvorki studdar viðhlítandi gögnum né skýringum á því hvers vegna kærandi skyldi ekki hafa orð á þessari málsástæðu þegar Vinnumálastofnun hafi fyrst óskað eftir athugasemdum frá honum. Kærandi hafi því að mati Vinnumálastofnunar ekki veitt skýringar fyrir höfnun sinni á starfi hjá B sem geti talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Beri kæranda því að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laganna.

 

Í 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvarðana. Þar segi orðrétt:

 

,,Sá sem hefur sætt viðurlögum skv. 57.-59. gr. eða biðtíma skv. 54 og 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greinir á sér stað að nýju á sama tímabili skv. 29. gr. skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggur fyrir enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 24 mánuði á sama tímabili skv. 29. gr. Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. málsl. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.“

 

Eins og rakið hafi verið í málsatvikum hafi kæranda verið tilkynnt þann 5. október 2020 að réttur hans til atvinnuleysisbóta hefði verið felldur niður í 2 mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar með vísan til starfsloka hans hjá fyrrum vinnuveitanda. Kærandi hafi nú jafnframt verið beittur viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 57. gr. á sama tímabili samkvæmt 29. gr. laganna. Því komi til ítrekunaráhrifa fyrri viðurlaga hans og skuli hann því ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að þremur mánuðum liðnum, sbr. 1. mgr. 61. gr. laganna.

 

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda vegna höfnunar á því að mæta til starfa hjá B geti ekki talist gildar í skilningi laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Beri kæranda því að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laganna ásamt ítrekunaráhrifum fyrri viðurlaga hans, sbr. 1. mgr. 61. gr. sömu laga.

 

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:

„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Í athugasemdum við 57. gr. í frumvarpi því er varð að lögunum kemur fram:

„Enn fremur þykir mikilvægt að það að hafna því að fara í atvinnuviðtal eða sinna ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar hafi sömu áhrif og sú ákvörðun að taka ekki starfi sem býðst. Ástæðan er einkum sú að atvinnuviðtal er venjulega meginforsenda þess að hinum tryggða verði boðið starf og þykir það mega leggja þá ákvörðun að jöfnu við því að hafna starfi. Verður að teljast óeðlilegt að hinn tryggði geti neitað því að fara í atvinnuviðtal án viðbragða frá kerfinu en þeir sem fóru í viðtalið og var boðið starfið þurfi að þola biðtíma eftir atvinnuleysisbótum taki þeir ekki starfinu.“

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um starf hjá B í maí 2021. Þann 6. júní 2021 tilkynnti fyrirtækið Vinnumálastofnun að kærandi hefði hafnað starfinu og var í kjölfarið óskað eftir afstöðu hans til höfnunar á atvinnutilboði. Í skýringum kæranda til Vinnumálastofnunar vegna þessa kemur fram að hann hafi verið spurður út í líkamlegt ásigkomulag og hvort hann ynni vel undir miklu álagi. Einnig hafi kæranda verið tjáð að það yrði unnið aðra hvora helgi en hann fengi frí einn virkan dag eftir þá helgi. Kærandi vísaði til þess að hann hefði ekki lagt inn umsókn hefði hann vitað það. Ekki hafi átt að umbuna fyrir mikið vinnuálag umfram það sem kjarasamningar byðu upp á. Þá kemur fram að kærandi hafi dregið sig úr umsóknarferlinu þegar honum hafi verið boðið að mæta í prófanir. Í skýringum fyrir úrskurðarnefndinni hefur kærandi vísað til þess að hann hafi átt að vinna launalaust í þessum prófunum.

Samkvæmt upplýsingum frá B kom kærandi í atvinnuviðtal vegna starfs sem lagerstarfsmaður hjá verslunarstjóra og lagerstjóra sumarið 2021. Þar hafi verið farið yfir starfið og launakjör kynnt. Tveimur dögum síðar hafi verslunarstjóri fyrirtækisins haft samband við kæranda og boðið honum að koma í prufu. Þá hafi kærandi talað um að hann gæti komið en hann myndi ekki taka starfið ef það byðist þar sem honum þóttu launin ekki henta. Þar með hafi verið ákveðið að hann myndi ekki koma þar sem það hafi þótt tilgangslaust að taka á móti honum og sýna vinnustaðinn þar sem áhugi fyrir starfinu hafi ekki verið til staðar. Þá hefur B veitt þær upplýsingar að alltaf séu greidd laun fyrir prufudaga. 

Að mati úrskurðarnefndarinnar voru viðbrögð kæranda í framangreindu símtali þess eðlis að þau jafngiltu höfnun á atvinnuviðtali, enda urðu þau til þess að hann kom þá ekki lengur til greina í starfið. Úrskurðarnefndin bendir á að eitt af skilyrðum þess að vera tryggður samkvæmt lögum nr. 54/2006 er að vera í virkri atvinnuleit samkvæmt 14. gr. Í því felst meðal annars að hafa frumkvæði að starfsleit og vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga, sbr. c. lið 1. mgr. ákvæðisins. Einnig að hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, sbr. d. lið 1. mgr. ákvæðisins. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að þær skýringar sem kærandi hefur gefið séu ekki þess eðlis að þær falli undir ákvæði 4. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006.

Í 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvarðana. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Sá sem hefur sætt viðurlögum skv. 57.–59. gr. eða biðtíma skv. 54. eða 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greinir á sér stað að nýju á sama tímabili skv. 29. gr. skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggur fyrir enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 24 mánuði á sama tímabili skv. 29. gr. Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. málsl. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.“

Samkvæmt gögnum málsins var  bótaréttur kæranda felldur niður í tvo mánuði þann 5. október 2020 á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006. Þar sem um sama bótatímabil er að ræða, sbr. 29. gr. laganna, bar Vinnumálastofnun að láta kæranda sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 61. gr. laganna. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr., sbr. 1. mgr. 61. laga nr. 54/2006, staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. júní 2021, um að fella niður bótarétt A, í þrjá mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum