Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 440/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um endurupptöku máls nr. 440/2020

Miðvikudaginn 13. janúar 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænu erindi, mótteknu 13. nóvember 2020, óskaði A eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 11. nóvember 2020, þar sem staðfest var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. september 2020 um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en honum metinn örorkustyrkur tímabundið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn 29. maí 2020. Með örorkumati, dags. 5. september, var umsókn kæranda synjað en hann var talinn uppfylla skilyrði örorkustyrks frá 1. júní 2020 til 31. maí 2024.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. september 2020. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu þann 11. nóvember 2020. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

II.  Sjónarmið kæranda

Í beiðni um endurupptöku segir að kærandi óski eftir endurupptöku þar sem hann telji úrskurð úrskurðarnefndarinnar ekki standast nein rök. Læknir hans, B, hafi vonast til þess á sínum tíma að kærandi kæmist fljótt út á vinnumarkað sem hann hafi vonað líka en það sé langt frá raunveruleikanum. Hann hafi verið á mjög sterkum verkjalyfjum ásamt því að þurfa að fara þrisvar sinnum í viku í sjúkraþjálfun og í fleiri skipti hafi hann þurft að fá sprautur í bakið. Þá hafi hann verið mikið skaddaður eftir höfuðhögg. Hann hafi endað í meðferð í kjölfar þess að hafa dregist út í neyslu X. Kærandi hafi verið í neyslu síðan hann var X ára. Hann sé það kvíðinn að hann þori ekki að búa í bænum lengur og búi hann eins og er hjá eldri bróður sínum á C. Kærandi treysti sér ekki í margmenni og fari eins lítið út og hann komist upp með. Hann sé ekki á sterkjum verkjalyfjum núna og sé stanslaust kvalinn ásamt því að festast reglulega og þá sé hann rúmliggjandi. Honum finnist óháði læknirinn ekki hafa framkvæmt rétt mat, hvorki andlega né líkamlega. Læknirinn hafi ekkert spurt kæranda út í líkamlega heilsu og kærandi hafi nefnt það við hann nokkrum sinnum. Læknirinn hafi látið kæranda gera einhverjar hreyfingar og sagt að kærandi væri ekki skaðaður. Kærandi sé fyrir með 5% varanlega örorku á mjóbaki eftir slys fyrir mörgum árum en hann sé mun verr haldinn eftir þetta í mjóbaki, brjóstbaki og hálsi. Hann hafi verið mjög illa haldinn andlega í mörg ár og núna sé hann að berjast við bakverki og svefnleysi, kvíða og þunglyndi. Kærandi sé einnig með gáttaflökt og hafi verið að koma úr hjartarannsókn hjá D því hann þurfi sennilega „beta blokkera“.

III.  Niðurstaða

Óskað er eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 11. nóvember 2020. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en meta honum örorkustyrk tímabundið. Af beiðni um endurupptöku má ráða að þess sé óskað að ákvörðun Tryggingastofnunar verði felld úr gildi og umsókn hans um örorkulífeyri verði samþykkt.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Aðili máls getur einnig átt rétt á endurupptöku máls á grundvelli annarra ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar, til að mynda ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á röngum lagagrundvelli og/eða rangri túlkun lagaákvæða.

Í beiðni um endurupptöku kemur fram að kærandi sé að berjast við bakverki og svefnleysi, kvíða og þunglyndi. Hann sé einnig með gáttaflökt. Kærandi sendi jafnframt nýtt læknisvottorð frá B, dags. 1. desember 2020. Í vottorðinu segir meðal annars:

„A […] hefur glímt við erfið heilsufarsmál sem tengjast fíknivanda hand, miklum kvíða, verkjavanda er tengist m.a. bílslysi þann X. Hlaut þá slæman tognunaráverka á háls og bak, auk höfuðhöggs. Sjá meðf. gögn frá Lsp. og samantekt A sem fylgir vottorði mínu.

A segir mér nú að hann sé með öllu óvinnufær vegna verkja í stoðkerfi, en fyrst og fremst vegna mikils kvíða og andlegrar vandlíðanar.

Eftir lýsingu A að dæma og með vísan til fyrrgreindra fylgigagna sýnist mér hann eiga nokkuð í land með að ná fullri vinnufærni.

Full ástæða sé til að meta örorku hans í ljósi þessa, en A hefur óskað eftir endurupptöku máls síns eftir að TR synjaði honum um fulla örorku.

[…].“

Að mati úrskurðarnendar velferðarmála verður ekki ráðið af gögnum málsins að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Úrskurðarnefndin telur að ekkert í þeim læknisfræðilegu gögnum, sem kærandi lagði fram, gefi til kynna að það mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat hafi verið rangt.

Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 440/2020 synjað.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 440/2020, er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

 

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira