Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 665/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 15. nóvember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 665/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23080056

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 21. ágúst 2023 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...], og vera ríkisborgari Íraks ( hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. ágúst 2023, um að hafna umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli lögmæts og sérstaks tilgangs, sbr. 79. gr. laga um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli lögmæts og sérstaks tilgangs. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun verði felld úr gildi og lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn hans til meðferðar á ný á grundvelli alvarlegra annmarka á málsmeðferð.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur aldrei verið með dvalarleyfi hér á landi. Kærandi kom fyrst til landsins árið 2017 og sótti um alþjóðlega vernd 13. júní 2017. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. nóvember 2017, var umsókn hans ekki tekin til efnismeðferðar og ákveðið að hann skyldi endursendur til Búlgaríu, á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 687/2017, dags. 12. desember 2017, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka málið til nýrrar meðferðar. Með úrskurði kærunefndar nr. 542/2018, dags. 6. desember 2018, var staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. ágúst 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi, ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Með úrskurðinum var lagt fyrir kæranda að hverfa af landi brott og var honum veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur. Yfirgæfi hann ekki landið innan fyrrgreinds frests kynni að vera heimilt að brottvísa honum og ákvarða honum endurkomubann í samræmi við viðeigandi lagaákvæði XII. kafla laga um útlendinga. Með úrskurði kærunefndar nr. 13/2019, dags. 10. janúar 2019, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa fyrri úrskurðar hafnað. Hinn 6. júlí 2021 lagði kærandi fram beiðni um endurupptöku með vísan til þess að aðstæður í máli hans hefðu breyst verulega frá því úrskurður kærunefndar nr. 542/2018 hefði verið kveðinn upp. Með úrskurði kærunefndar nr. 446/2021, dags. 16. september 2021, var beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans hafnað.

Hinn 29. september 2022 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli lögmæts og sérstaks tilgangs, sbr. 79. gr. laga um útlendinga. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. ágúst 2023, var umsókn kæranda hafnað á grundvelli 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 51. gr. laga um útlendinga og undanþága 3. mgr. ákvæðisins ætti ekki við í máli kæranda. Þar að auki var kæranda gert að sæta brottvísun á grundvelli 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og honum bönnuð endurkoma til Íslands í tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Hinn 21. ágúst 2023 kærði kærandi ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 1. september 2023.

Í greinargerð óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefnd, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hinn 1. nóvember 2023 féllst kærunefnd á þá beiðni.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er greint frá málavöxtum en fram kemur að kærandi hafi dvalið á Íslandi frá 6. desember 2018 enda ómögulegt fyrir hann að snúa aftur til heimaríkis. Þannig hefur kærandi dvalið á Íslandi í fjögur og hálft ár í óvissu um framtíð sína og við skert réttindi að flestu leyti. Telur kærandi að skilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis á grundvelli lögmæts og sérstaks tilgangs, sbr. 79. gr. laga um útlendinga, uppfyllt. Til stuðnings aðalkröfu sinni telur kærandi jákvæðar skyldur hvíla á íslenskum stjórnvöldum til þess að meta mál hans og hvort rétt sé að veita honum dvalarleyfi með tilliti til mannlegrar reisnar sem hverjum manni sé eðlisborin og allir einstaklingar hafi rétt á. Telur kærandi stöðu sína ómögulega sem hann geti ekki borið ábyrgð á. Telur kærandi íslenska ríkið hafa gerst brotlegt við 3. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu enda lifi hann við ómannúðlegar eða vanvirðandi aðstæður auk þess sem friðhelgi einkalífs hans hafi verið verulega skert. Kærandi sé því sem næst fangi íslenskra stjórnvalda og hafi verið það til nokkurra ára, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á heilsufar hans. Telur kærandi því nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld tryggi honum ákveðin grundvallarréttindi með útgáfu dvalarleyfis á grundvelli lögmæts og sérstaks tilgangs. Hinn lögmæti og sérstaki tilgangur kæranda sé einkum sú ómögulega staða að vera réttindalaus á Íslandi og telur kærandi aðstöðu sína falla vel að dæmum sem fram koma í 22. gr. reglugerðar um útlendinga. Þá bendir kærandi á að grunnskilyrði dvalarleyfis, sbr. 1. og 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga, séu uppfyllt í hans tilviki og beri Útlendingastofnun að líta til 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga um ríkar sanngirnisástæður, enda sé hann fastur á landinu. Þá lítur kærandi einkum til þess að dæmin sem ráðherra tiltekur í 22. gr. reglugerðar um útlendinga grundvallist einkum á dvöl á landinu þegar sótt sé um dvalarleyfi.

Til stuðnings varakröfu sinni vísar kærandi til þess að alvarlegir annmarkar séu á málsmeðferð Útlendingastofnunar en kærandi hafi ríka hagsmuni af því að fá vandaða úrlausn um umsókn sína. Því til stuðnings vísar kærandi einkum til 10. gr. stjórnsýslulaga um rannsókn á stöðu hans hér á landi, svo og 3. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu í ljósi jákvæðra skyldna sem hvíli á íslenska ríkinu. Þar að auki vísar kærandi til 22. gr. stjórnsýslulaga um rökstuðning og telur rökstuðning Útlendingastofnunar af skornum skammti, einkum af hverju sanngirnis- og mannúðarsjónarmið nái ekki þröskuldi 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Þá vísar kærandi enn fremur til rangrar lögskýringar á hugtakinu ríkar sanngirnisástæður í skilningi síðastnefnds ákvæðis. Til stuðnings röksemdafærslu sinni um sanngirnis- og mannúðarsjónarmið vísar kærandi til nefndarálits með breytingalögum nr. 149/2018 þar sem fram kemur að undir 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga gætu fallið mál þar sem umsækjandi hefur fengið synjun um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd og telur kærandi því ljóst að mál sitt gæti fallið undir undantekningarheimild 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Að öðrum kosti væru stjórnvöld að framlengja hans ólögmætu dvöl á landinu. Sé því nauðsynlegt að meta sanngirnis- og mannúðarsjónarmið í máli hans sem að mati kæranda ættu að vera ráðandi sjónarmið.

Kærandi vísar til þess að niðurstaða í máli kæranda brjóti gegn jákvæðum skyldum íslenska ríkisins samkvæmt 3. og 8. mgr. mannréttindasáttmála Evrópu. Til stuðnings þess vísar kærandi til nefndarálits með breytingalögum nr. 149/2018 þar sem vísað er til þess að taka þurfti tillit til mannúðarsjónarmiða og friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu vegna heimildar ráðherra. Telur kærandi að núverandi ástand brjóti gegn einkahögum og heilsufari sínu. Hann ráði engu um daglegt líf og sé því sem næst fangi íslenskra stjórnvalda. Hann hafi búið á Íslandi í meira en fjögur ár og beri stjórnvöldum skylda til þess að virða einkalíf hans. Til stuðnings þess vísar kærandi til nýlegs dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Ghadamnian gegn Sviss nr. 21768/19, dags. 9. maí 2023, vegna umborinnar dvalar útlendings með hliðsjón af 8. gr. mannréttindasáttmálans. Þar að auki telji kærandi það ómannúðlegt í skilningi 3. gr. sáttmálans að þvinga hann til að lifa áfram réttindalausan á Íslandi. 

Til viðbótar við framangreint gerir kærandi athugasemdir við hina kærðu ákvörðun á bls. 3, 4 og 6. Telur kærandi í fyrsta lagi túlkun Útlendingastofnunar á ákvæði 3. mgr. 51. gr. ekki standast skoðun og vísar í því samhengi til úrskurðar kærunefndar nr. 127/2022, dags. 23. mars 2022. Í öðru lagi telur kærandi rökstuðning Útlendingastofnunar af skornum skammti þar sem ekki hafi verið litið til sanngirnis- eða mannúðarsjónarmiða, sbr. einkum nefndarálit með breytingalögum nr. 149/2018 svo og 22. gr. stjórnsýslulaga. Í þriðja lagi telur kærandi dvalartíma kæranda á Íslandi og rík tengsl hans við landið valda því að ákvörðun um brottvísun og endurkomubann teljist ósanngjörn ráðstöfun gagnvart honum og nánustu aðstandendum, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Umsókn um dvalarleyfi

Í 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga kemur fram sú meginregla að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og er honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Frá því skilyrði er heimilt að víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi er undanþeginn áritunarskyldu eða hann er staddur hér á landi og aðstæður hans falla undir a-c-lið 1. mgr. 51. gr. Varða stafliðirnir þær aðstæður þar sem umsækjandi er maki eða sambúðarmaki íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst löglega í landinu samkvæmt ótímabundnu dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, sbr. a-lið, barn íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt ótímabundnu dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, þegar barnið er yngra en 18 ára, sbr. b-lið, eða þegar sótt er um dvalarleyfi á grundvelli 61., eða 63.-65. gr. laga um útlendinga. Í 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga segir að heimild til dvalar þegar umsækjandi sé undanþeginn áritunarskyldu gildi þar til umsækjandi hafi dvalið í 90 daga á Schengen-svæðinu. Undantekningar a-c-liðar 1. mgr. gildi meðan umsækjandi hafi heimild til dvalar á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar eða á grundvelli dvalar án áritunar. Útlendingastofnun geti veitt umsækjendum á grundvelli a- og b-liðar 1. mgr. heimild til lengri dvalar meðan umsókn sé í vinnslu.

Kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi. Samkvæmt gögnum málsins uppfyllir kærandi ekki skilyrði 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga og þá liggur fyrir að þegar kærandi lagði fram dvalarleyfisumsókn sína hér á landi var dvöl hans hvorki á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar né á grundvelli dvalar án áritunar, sbr. 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

Í 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt sé að víkja frá 1. mgr. í öðrum tilvikum en þar séu upp talin ef ríkar sanngirnisástæður mæli með því. Ákvæði 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga er matskennt lagaákvæði en hugtakið „ríkar sanngirnisástæður“ er ekki útfært nánar í lögunum eða í reglugerð um útlendinga, líkt og ráðherra hefur heimild til. Eru einu leiðbeiningarnar sem stjórnvöld hafa við beitingu ákvæðisins þau sjónarmið sem fram koma í greinargerð í frumvarpi því sem varð að lögum um útlendinga, en þar segir m.a. um 3. mgr. að ætlunin sé að ákvæðinu sé beitt þegar tryggja þarf samvistir fjölskyldna eða þegar miklir hagsmunir séu í húfi. Þá bendir kærandi á það sjónarmið sem fram kemur í nefndaráliti með breytingalögum nr. 149/2018 að ríkt tillit skuli tekið til sanngirnis- og mannúðarsjónarmiða vegna fyrri dvalar og að gæta þurfi að því við setningu reglugerðar.

Í áðurnefndum úrskurði kærunefndar nr. 542/2018, dags. 6. desember 2018, var umsókn kæranda um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi vegna mannúðarsjónarmiða synjað. Kemur þar fram að kærandi hafi ekki tilskilin leyfi til dvalar hér á landi og var honum veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur. Þá var kæranda leiðbeint um að yfirgæfi hann ekki landið innan frests væri heimilt að brottvísa honum og ákvarða endurkomubann, sbr. þágildandi a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og 2. mgr. 101. gr. laganna. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var hafnað með úrskurði kærunefndar nr. 13/2019, dags. 10. janúar 2019, og beiðni hans um endurupptöku var einnig hafnað, með úrskurði kærunefndar nr. 446/2021, dags. 16. september 2021. Kæranda mátti vera ljóst af skýru orðalagi úrskurðar kærunefndar nr. 542/2018 að hann hefði ekki heimild til dvalar hér á landi og bæri að yfirgefa landið. Þá hefur kæranda verið boðin aðstoð íslenskra stjórnvalda við sjálfviljuga heimför, svo rjúfa megi ólögmætu dvöl hans, nú síðast 6. júlí 2023, en kærandi hefur ekki nýtt sér þau úrræði.

Vegna málsástæðu kæranda um ómögulega stöðu og að hann sé réttindalaus með öllu á Íslandi vísar kærunefnd til þess að þegar hefur verið tekin afstaða til lögmætis dvalar hans á landinu og komist að því að kærandi hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki sínu. Þá hefur kæranda verið boðin aðstoð vegna sjálfviljugrar heimfarar og aðlögunarstyrkur, sbr. reglugerð um fjárhagsaðstoð við sjálfviljuga heimför á grundvelli laga um útlendinga nr. 607/2023. Kærandi hefur ekki viljað þiggja aðstoð stjórnvalda við að fara aftur til heimaríkis síns og dvelur enn hér á landi að eigin vilja. Verður ekki fallist á að staða hans hér á landi sé af völdum aðgerða íslenskra stjórnvalda og að vegna þess eigi að veita honum dvalarleyfi hér á landi.

Vegna málsástæðu kæranda um sanngirnis- og mannúðarsjónarmið lítur kærunefnd til nefndarálits með breytingalögum nr. 149/2018 þar sem áréttað er að við beitingu undanþáguheimilda sem varðar áhrif fyrri dvalar verði ríkt tillit tekið til sanngirnis- og mannúðarsjónarmiða og því beint til dómsmálaráðuneytisins að gæta að þeim sjónarmiðum við setningu reglugerðar. Þó er ljóst að ráðherra hefur ekki beitt þeirri reglugerðarheimild sem tilgreind er í 5. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Vegna tilvísunar kæranda í úrskurð kærunefndar nr. 127/2022, dags. 23. mars 2022, er ljóst að kærunefnd lagði rúman skilning í hugtakið ríkar sanngirnisástæður en í málinu reyndi á hvort fjölskyldusameining á grundvelli hjúskapur kæranda við íslenskan ríkisborgara sem var barnshafandi teljist til ríkra sanngirnisástæðna, sbr. orðalag lögskýringargagna með 3. mgr. 51. gr. um að ákvæðinu sé ætlað að „tryggja samvistir fjölskyldna“. Telur kærunefnd óumdeilt að málsatvik og aðstæður eru aðrar í umræddu máli samanborið við aðstæður kæranda. Ekki megi leggja að jöfnu hvort að hugtakið ríkjandi sanngirnisástæður skuli túlkaðar rúmt við það að allar ástæður teljist ríkar sanngirnisástæður. Þá bendir kærunefnd á að þegar hefur verið tekin afstaða til dvalar kæranda hér á landi á tveimur stjórnsýslustigum, ólögmæt dvöl hans sé talsvert umfangsmeiri en í úrskurði nr. 127/2022, auk þess sem ekki eru í húfi fjölskylduhagsmunir, sbr. einkum 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar.

Kærandi vísar til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Ghadamnian gegn Sviss nr. 21768/19, dags. 9. maí 2023, vegna umborinnar dvalar útlendings með hliðsjón af 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Málsatvik í hinu svissneska máli voru með þeim hætti að kærandi málsins var orðinn 83 ára gamall og hafði dvalist í Sviss frá árinu 1969. Þar af hafði hann dvalist með lögmætum hætti í 33 ár en með ólögmætum hætti í rúm 20 ár. Brottför til heimaríkis hefði haft þær afleiðingar að hann hefði verið skilinn frá börnum sínum og barnabörnum. Meginálitaefnið sem Mannréttindadómstóllinn stóð frammi fyrir, sbr. 60. mgr. dómsins, var hvort svissneska ríkið hefði gætt að sanngjörnu jafnvægi milli réttar málsaðila gagnvart hagsmunum ríkisins (f. si un juste équilibre a éte atteint) með tilliti til svigrúms aðildarríkja til mats (f. la marge d‘appréciation). Í niðurstöðu dómstólsins fólst ekki að 8. gr. mannréttindasáttmálans legði skilyrðislausa skyldu á aðildarríki til útgáfu dvalarleyfa til allra einstaklinga sem dveljast á yfirráðasvæðum þeirra, óháð lögmæti dvalar. Enn fremur er það mat kærunefndar að ekki sé brotið gegn rétti kæranda til einkalífs, sbr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, með því að veita honum ekki dvalarleyfi. Loks er ljóst að afstaða var tekin til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu við meðferð umsóknar hans um alþjóðlega vernd, sbr. úrskurð kærunefndar nr. 542/2018.

Samkvæmt framansögðu er ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga um að sækja um dvalarleyfi áður en komið er til landsins og er það mat kærunefndar að ríkar sanngirnisástæður, sbr. undantekningarheimild 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga, séu ekki til staðar í máli kæranda. Ber því að hafna umsókn kæranda á þeim grundvelli, sbr. 4. mgr. 51. gr. laganna.

Kærunefnd bendir enn fremur á að réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar var frestað, sbr. bréf kærunefndar dags. 1. nóvember 2023. Er því ljóst að endurkomubann kæranda verði fellt niður yfirgefi hann landið af sjálfsdáðum innan veitts frests, sbr. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Getur kærandi því lagt fram aðra dvalarleyfisumsókn á sama eða öðrum grundvelli eftir að hann yfirgefur Ísland. Með þessum leiðbeiningum hefur kærunefnd þó ekki tekið afstöðu til þess hvort kærandi uppfylli önnur skilyrði laga um útlendinga til útgáfu dvalarleyfis.

Að öllu framangreindu virtu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á umsókn kæranda um dvalarleyfi sbr. 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

Brottvísun og endurkomubann

Í 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga segir að svo framarlega sem 102. gr. eigi ekki við skuli vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu. Með úrskurði kærunefndar, dags. 6. febrúar 2018, var umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi synjað og samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið í ólögmætri dvöl hér á landi síðan. Hinn 29. september 2022 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli lögmæts og sérstaks tilgangs, sbr. 79. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda ákvarðað brottvísun og endurkomubann til tveggja ára. Þegar Útlendingastofnun tók ákvörðun sína 11. ágúst 2023 dvaldi kærandi enn hér á landi. Var skilyrðum 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga því fullnægt þegar hin kærða ákvörðun var tekin og birt kæranda. Kæra frestaði ekki framkvæmd ákvörðunar. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa og samþykkti kærunefnd þá beiðni.

Í 102. gr. laga um útlendinga er kveðið á um vernd gegn frávísun og brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skal ekki ákveða brottvísun ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Með bréfi, dags. 18. júlí 2023, var kæranda leiðbeint um að honum kynni að verða ákvörðuð brottvísun og endurkomubann hingað til lands og gefið færi á að koma að andmælum hvað það varðar. Kærandi sendi Útlendingastofnun andmælabréf, dags. 2. ágúst 2023. Í andmælum kæranda er einkum vísað til grundvallar dvalarleyfisumsóknar hans varðandi lögmætan og sérstakan tilgang. Þá vísar kærandi til þess að ríkið beri jákvæðar skyldur að veita honum dvalarleyfi en endursending til Íraks teljist til ómannúðlegrar meðferðar að mati kæranda. Hefur kærunefnd yfirfarið málsástæður kæranda og benda gögn málsins ekki til þess að brottvísun kæranda feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Er það niðurstaða kærunefndar að ákvörðun um brottvísun og endurkomubann kæranda sé í samræmi við lög og er tilgangur hennar að framfylgja lögmætum markmiðum laga um útlendinga. Þá horfir kærunefnd jafnframt til þess að kærandi getur komist hjá endurkomubanni og afleiðingum þess yfirgefi hann Ísland innan þess frests sem honum er gefinn.

Samkvæmt framansögðu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda með vísan til 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, enda dvelur hann ólöglega í landinu. Þá verður ákvörðun Útlendingastofnunar um tveggja ára endurkomubann, sbr. 2. mgr. 101. gr. laganna, jafnframt staðfest.

Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur í tilviki kæranda til að yfirgefa landið. Endurkomubann kæranda fellur niður yfirgefi kærandi landið sjálfviljugur innan framangreinds frests.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir því að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Endurkomubann kæranda verður fellt úr gildi fari hann sjálfviljugur frá Íslandi innan 30 daga.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. If the appellant leaves Iceland voluntarily within 30 days, the re-entry ban will be revoked.

 

Valgerður María Sigurðardóttir

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum