Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 459/2022-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 459/2022

Fimmtudaginn 17. nóvember 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. september 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. september 2022, um að staðfesta fyrri ákvörðun stofnunarinnar frá 28. október 2021.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála frá 25. ágúst 2022 var ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 28. október 2021 um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 5. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar felld úr gildi. Í framhaldi af þeim úrskurði tók Vinnumálastofnun nýja ákvörðun, dags. 5. september 2022, þar sem ákvörðun frá 28. október 2021 var staðfest en með þeirri breytingu að viðurlögð byggðu á 59. gr. laga nr. 54/2006.

Kæra vegna þeirrar ákvörðunar barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. september 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. september 2022, var óskað eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 11. október 2022. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 19. október 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. október 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að Vinnumálastofnun hafi sett hann í greiðslustöðvun vegna þess að hann hafi hafnað vinnu sem hann hafi ekki verið fær um að vinna. Sú ákvörðun hafi verið kærð og hafi endað hjá umboðsmanni Alþingis. Síðar hafi úrskurðarnefnd velferðarmála metið rök hans gild. Vinnumálastofnun hafi aftur hafnað og vitnað í 59. gr. laga nr. 54/2006 en kærandi telji að umboðsmaður Alþingis hafi þegar fjallað um mál hans og að það hafi verið afgreitt þar.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 6. júlí 2020. Með bréfi, dags. 15. október 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur hans væri 100%. Þann 14. október 2021 hafi Vinnumálastofnun borist þær upplýsingar að kærandi hefði hafnað starfi hjá B. Um hafi verið að ræða starf stuðningsfulltrúa í C, en kæranda hafi verið miðlað í umrætt starf af Vinnumálastofnun. Samkvæmt upplýsingum frá B hafi kærandi hafnað starfinu því að erfitt yrði að sameina vinnutímann við fjölskyldulífið. Þá hafi kærandi sagst vera að sækja um frumkvöðlastyrk hjá Vinnumálastofnun. Jafnframt hafi kæranda þótt launin ekki í samræmi við það sem hann væri vanur og hafi talið líklegt að hann myndi leita að annarri vinnu þó að hann tæki umræddu starfi hjá B. Af þeirri ástæðu meðal annars hafi hann ekki viljað taka starfinu þar sem hann kæmi til með að tengjast nemendum skólans en myndi svo hefja störf annars staðar.

Með erindi, dags. 19. okóber 2021, hafi verið óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda á höfnun á starfi hjá B. Athygli kæranda hafi jafnframt verið vakin á því að hafi atvinnuleitandi hafnað atvinnutilboði eða atvinnuviðtali án gildra ástæðna gæti hann þurft að sæta biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysistrygginga.

Þann 21. október 2021 hafi Vinnumálastofnun borist skýringar kæranda. Kærandi hafi kveðið ástæðu þess að hann hafi hafnað umræddu starfi vera þá að starfið fælist í því að vera stuðningsfulltrúi fyrir fimm til sex einhverfa drengi í grunnskóla. Kærandi hefði hvorki menntun né reynslu á því sviði og því hafi hann ekki treyst sér til þess að vinna svo krefjandi vinnu. Þá hafi kærandi greint frá því að hann hefði í eitt sinn unnið sem stuðningsfulltrúi fyrir tíu ára dreng en þar hefði hann notið aðstoðar annarra starfsmanna. Honum hafi samt sem áður þótt starfið krefjandi. Kærandi hafi talið að það myndi aðeins valda nemendum skólans vanlíðan ef hann tæki starfinu og byggði upp traust og tengingu við þá en þyrfti svo frá að hverfa vegna þess að hann myndi ekki valda starfinu.

Með erindi, dags. 28. október 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að skýringar hans vegna höfnunar á starfi hjá B hefðu ekki verið metnar gildar. Af þeirri ástæðu væru greiðslur atvinnuleysisbóta til hans stöðvaðar. Ákvörðun þessi hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 5. mgr. sömu greinar.

Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun stofnunarinnar samkvæmt 21. gr. stjórnsýslulaga þann 1. nóvember 2021. Kæranda hafi verið veittur rökstuðningur þann 15. nóvember 2021.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 2. desember 2021. Í kæru séu skýringar kæranda samhljóða þeim sem hann hafi veitt Vinnumálastofnun. Kærandi telji að einstaklingur eigi rétt á því að hafna starfi telji hann sig ekki valda því. Kærandi líki aðstæðum sínum við aðstæður bakveiks manns sem boðið hafi verið starf sem felist í því að lyfta þungum hlutum. Kærandi fari fram á að skýringar hans verði teknar gildar og að ákvörðun stofnunarinnar verði felld úr gildi.

Kærandi hafi óskað eftir endurupptöku á máli sínu í kjölfar þess að hann hafi skilað inn læknisvottorði þann 24. janúar 2022. Þann 27. janúar 2022 hafi stofnunin staðfest fyrri ákvörðun sína, dags. 28. október [2021]. Þá hafi mál kæranda verið til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og ljóst að stofnunin hefði þá átt að vísa frá máli kæranda, sbr. einnig athugsemdir við málsmeðferð stofnunarinnar í úrskurði nefndarinnar frá 25. ágúst 2022. Samkvæmt umræddu læknisvottorði hafi kærandi verið að glíma við undirliggjandi astma sem hafi haft áhrif á andlega líðan, valdið þreytu, einbeitingarleysi og skertu þoli fyrir áreiti. Þá hafi meðferð haft þau áhrif að kærandi hafi misst rödd sína. Einnig hafi komið að þetta hafi valdið því að kærandi hefði verið með takmarkaða vinnufærni við störf sem krefjist líkamlegrar áreynslu og beitingingar á rödd hans.

Þann 2. desember 2021 hafi kærandi kært ákvörðun stofunarinnar, dags. 28. október 2021, til úrskurðarnefndar velferðarmála. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. mars [2022], hafi nefndin staðfest ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 57. gr. laganna.

Þann 9. maí 2022 hafi úrskurðarnefndinni borist bréf frá umboðsmanni Alþingis þar sem umboðsmaður hafi óskað eftir að nefndin lýsti viðhorfi sínu til kvörtunar kæranda. Í framhaldinu hafi úrskurðarnefndin talið rétt að endurupptaka mál kæranda og úrskurða á ný. Með úrskurði, dags. 25. ágúst 2022, hafi úrskurðarnefnd velferðarmála fellt úr gildi ákvörðun stofnunarinnar. Það hafi verið mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi yrði ekki beittur viðurlögum á grundvelli ákvæðis 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar með vísan til þess að hann hafi ekki áður upplýst um skerta vinnufærni. Þá segi jafnframt í niðurstöðu úrskurðarins að unnt sé að beita viðurlögum á grundvelli ákvæðis 59. gr. laganna vegna slíkrar háttsemi, að fullnægðum skilyrðum þess ákvæðis, en Vinnumálastofnun hefði ekki tekið afstöðu til þess. Auk þess komi fram að niðurstaða málsins lúti einungis að þeirri ákvörðun sem hafi verið kærð þar sem tekið hafi verið á viðurlögum á grundvelli 57. gr. laganna.

Mál kæranda hafi verið tekið fyrir hjá stofnuninni þann 5. september 2022, þ.e. í framhaldi af úrskurði nefndarinnar frá 25. ágúst 2022. Það hafi verið mat stofnunarinnar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun í máli kæranda frá 28. október 2021, enda teldi stofnunin að sú ákvörðun hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu. Fyrri ákvörðun, dags. 28. otkóber 2021, hafi þó verið staðfest með þeirri breytingu að viðurlög byggju á 59. gr. laga nr. 54/2006 en ekki 57. gr. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi hafnað starfi og skilað inn læknisvottorði þann 24. janúar 2022. Af þeim sökum hafi kærandi látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um nauðsynlegar upplýsingar sem höfðu áhrif á rétt hans til atvinnuleysisbóta. Kærandi hafi fyrst borið fyrir sig veikindi eftir að stofnunin hafði tekið ákvörðun í máli hans á grundvelli 57. gr. laganna. Greiðslur atvinnuleysisbóta hafi verið stöðvaðar frá fyrri ákvörðun, dags. 28. október [2021]. Þar sem kærandi hafði fengið meira en 24 mánuði greidda á ákvörðunardegi hafi greiðslur til hans verið stöðvaðar. Jafnframt hafi komið fram að kærandi þyrfti að vinna í 24 mánuði frá ákvörðunardagsetningu til að ávinna sér aftur rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta, sbr. 4. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.

Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafa fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Með lögunum sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að hinir tryggðu séu í virkri atvinnuleit þann tíma. Atvinnuleysistryggingar veiti hinum tryggðu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu.

Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé lögð rík áhersla á upplýsingaskyldu atvinnuleitenda gagnvart stofnuninni. Í 3. mgr. 9. gr. laganna sé mælt fyrir um upplýsingaskylduna og þar segi:

„Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir.“

Þá sé í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar enn frekar mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu atvinnuleitenda. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum.

Í 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar segi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar [skv. 14. gr.] eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, [sbr. þó 4. mgr.] [og 59. gr. a]. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.]“

Upplýsingaskylda atvinnuleitenda sé ítrekuð á öllum stigum umsóknar þeirra um atvinnuleysisbætur. Þegar rafrænni umsókn um greiðslu atvinnuleysisbóta sé skilað sé umsækjendum kynnt margvísleg atriði er varði réttindi og skyldur, þar með talið upplýsingar er varði persónulega hagi og vinnufærni. Þá þurfi umsækjendur að staðfesta í lok umsóknarferlisins að þeir hafi kynnt sér reglur um réttindi og skyldur umsækjenda um atvinnuleysisbætur. Kæranda beri að tilkynna til stofnunarinnar um allar breytingar sem verði á högum hans, þar með talið veikindi. Upplýsingar um tilkynningarskyldu atvinnuleitenda sé einnig að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar.

Fyrir liggi að kærandi hafi hafnað starfi hjá B sem stuðningsfulltrúi. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda sé hann með skerta starfsgetu og því ófær um að vinna umrætt starf. Læknisvottorð með upplýsingum um óvinnufærni kæranda hafi borist stofnuninni eftir að kærandi hafi hafnað umræddu starfi. Af upplýsingum kæranda megi ráða að um sé að ræða viðvarandi skerta vinnufærni sem kæranda hafi borið að upplýsa stofnunina um þá þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni og óska eftir að stofnunin myndi miðla honum í störf í samræmi við umsókn sína. Eftir atvikum hafi kæranda borið að tilkynna stofnuninni þegar breytingar hafi orðið á vinnufærni hans. Þvert á skýringar kæranda hafi hann tilgreint í umsókn sinni að hann væri fær til flestra almennra starfa og hafi tilgreint óskastörfin: „Forstöðumaður frístundaheimilis, tómstundafulltrúi og sagnfræðingur“.

Eins og áður hafi komið fram hvíli á þeim sem fái greiðslur atvinnuleysistrygginga frá Vinnumálastofnun rík skylda til að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um hagi viðkomandi. Kæranda hafi borið að tilkynna Vinnumálastofnun um breytingar á vinnufærni án ástæðulausrar tafar, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þær takmarkanir á vinnufærni kæranda sem sé lýst í læknisvottorði hafi bersýnlega áhrif á getu hans til að vera í virkri atvinnuleit og honum hafi borið að tilkynna þær til Vinnumálastofnunar án tafar. Það sé mat stofnunarinnar að kærandi hafi brugðist þeirri skyldu sinni með því að hafa ekki, á því tímabili er hann hafi verið skráður í atvinnuleit hjá stofnuninni, veitt nauðsynlegar upplýsingar um hagi sína og vinnufærni. Það hafi leitt til þess að hann hafi hafnað starfi sem stofnunin hafi mátt telja, með hliðsjón af upplýsingum kæranda, hann hæfan til að gegna.

Það sé afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 59. gr. laganna, enda hafi hann látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar vegna umsóknar sinnar, sbr. ákvæði 14. gr. laganna.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að stöðva skuli greiðslur til kæranda frá og með 27. október 2021 á grundvelli 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, sbr. einnig 4. mgr. sömu greinar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. september 2022, um að staðfesta fyrri ákvörðun stofnunarinnar frá 28. október 2021 þar sem greiðslur til kæranda voru stöðvaðar á grundvelli 5. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að fyrri ákvörðun sé staðfest með þeirri breytingu að viðurlög væru nú byggð á 59. gr. laga nr. 54/2006.

Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála frá 25. ágúst 2022 var ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 28. október 2021 um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 5. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar felld úr gildi.

Þegar stjórnvaldsákvörðun er felld úr gildi er meginreglan sú að ákvörðunin telst þá ógild frá öndverðu (l. ex tunc). Ógilding stjórnvaldsákvörðunar felur það í sér að ákvörðun hefur ekki þá þýðingu að lögum sem efni hennar gefur til kynna. Í máli kæranda var því, með hliðsjón af framangreindu, ekki lengur fyrir að fara gild stjórnvaldsákvörðun sem Vinnumálastofnun gat tekið til endurskoðunar og staðfest.

Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. september 2022, í máli A, er felld úr gildi.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum