Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 63/1996

Á L I T

K Æ R U N E F N D A R  F J ÖL E I G N A R H Ú S A M Á L A

 

Mál nr. 63/1996

 

Skipting kostnaðar: Rafmagnstafla.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar.

Með bréfi, dags. 21. júlí 1996, beindi A, til heimilis að X nr. 19, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við aðra eigendur að X nr. 19, hér eftir nefnd gagnaðilar, um skiptingu kostnaðar vegna endurnýjunar rafmagnstöflu.

Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 6. ágúst sl. Samþykkt var að gefa gagnaðilum kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum, í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Greinargerð gagnaðila, dags. 22. ágúst sl., var lögð fram á fundi kærunefndar 4. september og málið tekið til úrlausnar.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni.

Fjölbýlishúsið X nr. 19 er 2 hæðir, kjallari og ris. Fjórir eignarhlutar eru í húsinu sem er byggt á árunum 1951-1953.

Álitsbeiðandi er eigandi risíbúðarinnar sem merk er 03.01, auk þess sem hann á aðra íbúð í húsinu. Ágreiningur aðila varðar kostnað vegna endurnýjunar aðalrafmagnstöflu hússins sem álitsbeiðandi neitar að taka þátt í, þar sem sér rafmagnstafla sé fyrir íbúð hans.

 

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að álitsbeiðanda beri ekki að taka þátt í kostnaði við endurnýjun aðalrafmagnstöflu hússins.

 

Í bréfi álitsbeiðanda kemur fram að þar sem að sérrafmagnstafla sé fyrir risíbúðina, íbúðinni fylgi ekki geymsla í sameign og ekki hlutdeild í þvottahúsi, þá sé eðlilegt að risíbúðin sé undanskilin greiðslu kostnaðar vegna endurnýjunar aðalrafmagnstöflu hússins.

Álitsbeiðandi afsalaði sér aðgangi að þvottahúsi í sameign hússins þegar íbúðin fékkst samþykkt. Kveðst hann reiðubúinn til þess að taka þátt í kostnaði við endurnýjun rafmagnstöflunnar ef sameigendur hans samþykkja hlutdeild risíbúðarinnar í þvottahúsinu.

Í bréfi gagnaðila kemur fram að álitsbeiðandi hafi sett upp sér rafmagnstöflu fyrir risíbúðina án samráðs við aðra eigendur hússins. Sú tafla sæki stofninn í aðaltöfluna. Krafa hafi komið fram frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur um endurnýjun aðalrafmagnstöflu. Þar sem nýja taflan sé plássfrekari en hin fyrri þurfi að færa rafmagnstöflu álitsbeiðanda með tilheyrandi kostnaði. Benda gagnaðilar á að meginreglan sé sú að ein tafla eigi að vera fyrir allar íbúðir sérhvers fjöleignarhúss. Telja þeir óeðlilegt að álitsbeiðandi geti aukið kostnað annarra eigenda hússins með því að vera með sérrafmagnstöflu, án samráðs við þá. Kostnaðurinn við aðaltöfluna sé sá sami eftir sem áður og skiptist því á færri eignarhluta.

Varðandi það sjónarmið að álitsbeiðandi greiði hlutdeild í kostnaði við aðaltöflu hússins telja gagnaðilar óeðlilegt að mál þetta geti orðið verslunarvara með réttindi til handa risíbúðinni.

 

III. Forsendur.

Aðalrafmagnstafla hússins þjónar sameiginlegum þörfum og hagsmunum heildarinnar. Þar af leiðandi er um sameiginlegan kostnað að ræða við lagfæringu hennar. Í því sambandi skiptir engu þótt álitsbeiðandi hafi sett upp rafmagnstöflu er þjóni einungis séreign hans.

 

IV. Niðurstaða.

Það er álit kærunefndar að álitsbeiðanda beri að taka þátt í kostnaði við endurnýjun rafmagnstöflu hússins.

 

 

Reykjavík, 12. september 1996.

 

 

Valtýr Sigurðsson

Guðmundur G. Þórarinsson

Benedikt Bogason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum