Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um sjávarútveg og fiskeldi

Ákvörðun Fiskistofu um að svipta norsk skip leyfi til veiða í íslenskri landhelgi kærð

Leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands, tilkynning á afla, afladagbækur, vigtun, erlend skip

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur kveðið upp svohljóðandi:

 

Úrskurð

I.          Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru, dags. 7. febrúar 2019, frá Fiskeboat, f.h. [A], [B], [C], [D] og [E], þar sem kærðar eru fimm ákvarðanir Fiskistofu um að svipta norsk skip leyfi til veiða í íslenskri landhelgi með vísan til 8. gr. laga nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands (lög nr. 22/1998), vegna brota á 4. gr. laganna. Í stjórnsýslukærunni eru eftirfarandi ákvarðanir Fiskistofu kærðar;

ákvörðun Fiskistofu, dags. 11. janúar 2019, um að svipta skipið [Bx] leyfi til veiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands,

ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. janúar 2019, um að svipta skipið [Ax] leyfi til veiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands,

ákvörðun Fiskistofu, dags. 15. janúar 2019, um að svipta skipið [Cx] leyfi til veiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands,

ákvörðun Fiskistofu, dags. 18. janúar 2019, um að svipta skipið [Dx] leyfi til veiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands,

ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. febrúar 2019, um að svipta skipið [Ex] leyfi til veiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands.

Kæruheimild er í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 (ssl.) og er kærufrestur þrír mánuðir, sbr. 1. mgr. 27. gr. laganna.

II.        Kröfur kæranda

Kærendur krefjast þess að framangreindar ákvarðanir Fiskistofu verði felldar úr gildi.

III.       Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins eru málavextir eftirfarandi:

Þann 7. febrúar 2017, kom norska skipið [Dx] til hafnar í Eskifirði. Í tilkynningu skipstjóra til Fiskistofu kom fram að áætlaður afli skipsins væri um 132.000 kíló af loðnu. Eftirlitsmenn Fiskistofu voru við löndun skipsins og við vigtun á aflanum kom í ljós að aflinn var 109.214 kg., eða um 22.786 kg. minni en áætlun skipstjórans (-17%). Með ákvörðun, dags. 18. janúar 2019, svipti Fiskistofa skipið leyfi til veiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands, með vísan til 8. gr. laga nr. 22/1998, vegna brots á 4. gr. laganna.

Þann 10. febrúar 2017, kom norska skipið [Ex] til hafnar í Neskaupsstað. Í tilkynningu skipstjóra til Fiskistofu kom fram að áætlaður afli skipsins væri um 385.000 kíló af loðnu. Eftirlitsmenn Fiskistofu voru við löndun skipsins og við vigtun á aflanum kom í ljós að aflinn var 334.180 kg., eða um 50.820 minni en áætlun skipstjórans (-13,2%). Með ákvörðun, dags. 6. febrúar 2019, svipti Fiskistofa skipið leyfi til veiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands, með vísan til 8. gr. laga nr. 22/1998, vegna brots á 4. gr. laganna.

Þann 11. febrúar 2017, kom norska skipið [Ax] til hafnar í Eskifirði. Í tilkynningu skipstjóra til Fiskistofu kom fram að áætlaður afli skipsins væri um 410.000 kg. af loðnu. Eftirlitsmenn Fiskistofu voru við löndun skipsins og við vigtun á aflanum kom í ljós að aflinn var 464.329 kg., eða 54.329 kg. umfram áætlun skipstjórans (13%). Með ákvörðun, dags. 17. janúar 2019, svipti Fiskistofa skipið leyfi til veiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands, með vísan til 8. gr. laga nr. 22/1998, vegna brots á 4. gr. laganna.

Þann 12. febrúar 2017, kom norska skipið [Cx] til hafnar í Eskifirði. Í tilkynningu skipstjóra til Fiskistofu kom fram að áætlaður afli skipsins væri um 500.000 kg. af loðnu. Eftirlitsmenn Fiskistofu voru við löndun skipsins og við vigtun á aflanum kom í ljós að aflinn var 573.137 kg., eða 73.137 kg. umfram áætlun skipstjórans (14,6%). Með ákvörðun, dags. 15. janúar 2019, svipti Fiskistofa skipið leyfi til veiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands, með vísan til 8. gr. laga nr. 22/1998, vegna brots á 4. gr. laganna

Þann 13. febrúar 2017, kom norska skipið [Bx] til hafnar í Eskifirði. í tilkynningu skipstjóra til Fiskistofu kom fram að áætlaður afli skipsins væri um 410.000 kg. af loðnu. Eftirlitsmenn Fiskistofu voru við löndun skipsins og við vigtun á aflanum kom í ljós að aflinn var 484.329 kg., eða um 74.329 kg. umfram áætlun skipstjórans (18,3%). Með ákvörðun, dags. 11. janúar 2019, svipti Fiskistofa skipið leyfi til veiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands, með vísan til 8. gr. laga nr. 22/1998, vegna brots á 4. gr. laganna

Stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu vegna framangreindra ákvarðana og var send Fiskistofu, dags. 11. mars 2019, þar sem óskað var umsagnar Fiskistofu um kæruna, ásamt staðfestu afriti af hinum kærðu ákvörðunum sem og öðrum gögnum er stofnunin teldi varða málið. Með bréfum, dags. 1., 2., og 4. apríl 2019, bárust umsagnir Fiskistofu. Þar sem umsagnir Fiskistofu voru á íslensku óskaði ráðuneytið eftir að Fiskistofa sendi inn þýðingu á umsögnunum og bárust þær, dags. 30. apríl 2019. Umsagnir Fiskistofu voru sendar kæranda með tölvupósti, dags. 13 maí 2019, og kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Með tölvupósti, dags. 21. maí 2019, tilkynntu kærendur að fyrri röksemdir væru ítrekaðar og ekki yrði sendar inn athugasemdir við umsagnir Fiskistofu. Stjórnsýslukæran er því tekin til meðferðar á framangreindum gögnum.

IV.       Sjónarmið kæranda

Í stjórnsýslukæru kemur fram að kærendur hefðu óskað eftir upplýsingum frá Fiskistofu um hvort hinar kærðu ákvarðanir hefðu þau réttaráhrif að skipin gætu ekki fengið leyfi til veiða innan íslenskri fiskveiðilandhelgi í framtíðinni. Leyfin séu gefin út árlega og það hafi verið skilningur kæranda að ákvarðanir Fiskistofu tækju til útgefinna leyfa fyrra árs, án þess að hafa áhrif á möguleika skipanna til að fá leyfi til loðnuveiða í íslenskri fiskveiðilandhelgi í framtíðinni. Í svari Fiskistofu hafi komið fram að svipting leyfanna hefði orðið virk þegar hver og ein ákvörðun var tekin. Fiskistofa hafi einnig vísað til þess að óheimilt sé að gefa út leyfi til erlendra skipa sem notuð hafa verið til brota gegn lögum nr. 22/1998. Það sé því skilningur kæranda að réttaráhrif þeirra ákvarðana sem kærðar eru, séu að skipunum verði hafnað um leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands í framtíðinni.

Í stjórnsýslukæru er vísað til þess að kærendur hafi uppfyllt skyldu um að tilkynna afla fyrir löndun. Aflaskýrslur hafi verið sendar tímalega og innihéldu allar upplýsingar sem krafa sé gerð um. Bent er á að erfitt geti verið að áætla afla um borð í skipi og geti ýmis atriði haft áhrif á áætlunina, svo sem veður, lífmassi aflans, hversu lengi þarf að sigla til hafnar o.fl. Fram kemur að skipstjórar allra skipanna hafi endurskoðað þá aðferð sem notuð hafi verið til að áætla afla.

Fram kemur að leitað hafi verið til íslensks lögmanns sem hafi bent á að samkvæmt íslenskum refsirétti sé ekki hægt að refsa mönnum nema sannað sé verulegt gáleysi eða ásetningur. Þar sem ekki sé kveðið á um annað í 8. gr. laga nr. 22/1998, verði að sanna að skipstjórarnir hafi sýnt af sér verulegt gáleysi eða ásetning þegar aflinn hafi verið áætlaður. Þá sé áætlun afla þess eðlis að erfitt sé að áætla nákvæmt magn afla. Það sé álit lögmannsins að það geti ekki talist brot gegn lögum nr. 22/1998, ef ekki sé hægt að sýna fram á gáleysi eða ásetning þrátt fyrir að um minniháttar misræmi hafi verið að ræða. Þá hafi lögmaðurinn einnig sagt að ekki sé hægt að svipta skip tímabundnu leyfi sem sé runnið út þegar ákvörðun sé tekin, né sé hægt að svipta skip leyfi sem ekki hafa verið gefin út. Vísað er til ákvörðunar ráðuneytisins, dags. 15. mars 2013, þar sem ráðuneytið felldi úr gild ákvörðun Fiskistofu um að fella úr gildi veiðileyfi sem ekki hafði verið gefið út. Það sé því mat kæranda að fella beri hinar kærðu ákvarðanir úr gildi þar sem óheimilt sé að svipta leyfi til veiða í framtíðinni.

Kærandi telur að ef ráðuneytið fellst á að skipstjórarnir hafi sýnt af sér gáleysi eða ásetning við áætlun aflans og lagagrundvöllur sé fyrir því að svipta skipin leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Ísland, leiði meðalhófsregla stjórnsýsluréttar til þess að ákvarðanir Fiskistofu skuli felldar úr gildi. Í þeim málum sem farið hafa fyrir íslenska dómstóla um brot á lögum nr. 22/1998, hafi verið lögð á sekt en ekki ótímabundin svipting á leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands. Og í þeim málum sem skip hafa verið svipt leyfi til veiða í atvinnuskyni sé sú svipting einungis tímabundin. Hinar kærðu ákvarðanir hafi gífurlega íþyngjandi áhrif á útgerðir og áhafnir skipa kærenda.

V.        Sjónarmið Fiskistofu

Í umsögnum Fiskistofu kemur fram að veiðieftirlitsmenn hafi orðið varir við brot kærenda við framkvæmd strandríkiseftirlits við löndun skipanna samkvæmt reglum Norðaustur Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar (NEAFC). Það hafi verið afstaða Fiskistofu að um alvarleg brot væri að ræða í samræmi við skilgreiningar eftirlitsreglna NEAFC. Samkvæmt þeim reglum beri fánaríki að grípa til ráðstafana vegna slíkra brota og litið hafi verið svo á að meðferð málanna heyrði undir norsk stjórnvöld. Fiskistofu hafi borist afrit af tölvupósti fulltrúa Noregs í NEAFC, þar sem þeirri skoðun hafi verið lýst að meðferð hinna ætluðu brota heyrði undir íslensk stjórnvöld. Af þeirri ástæðu hafi Fiskistofa tekið mál kæranda til meðferðar.

Fiskistofa bendir á að óumdeilt sé að afli skipanna hafi verið bæði yfir og undir tilkynntum afla. Fiskistofa telur slíkt varða við 4. gr. laga nr. 22/1998. Við mat á því hvort kærendur hafi verið brotlegir hafi sömu aðferðarfræði verið beitt og beitt var af Héraðsdómi Austurlands í máli nr. S-22/2013 frá 2. júlí 2013. Í dómnum hafi komið fram að reikna verði með að einhverju geti skeikað þegar aflatölur séu áætlaðar. Samkvæmt framburði ákærða í því máli hafði ekki borið á svo mikilli skekkju í áætlunum hansá afla áður, sem studdi, að mati dómsins, að eitthvað hefði farið úrskeiðis við áætlun aflans í þetta sinn og taldi dómurinn því að saknæmisskilyrði hafi verið uppfyllt. Við mat á því hvort skipstjórar norsku skipanna fimm hafi sýnt af sér gáleysi við áætlun á afla í þeim málum sem hér eru til skoðunar hafi Fiskistofa lagt sömu sjónarmið til grundvallar. Við ákvörðun um beitingu viðurlaga hafi Fiskistofa gengið út frá því að um gáleysis brot hafi verið að ræða.

Fiskistofa vísar til þess að loðnuveiðileyfi norskra skipa séu að jafnaði gefin út í janúar ár hvert. Útgáfan fari þannig fram að norsk stjórnvöld sendi Fiskistofu lista yfir þau skip sem óskað sé veiðileyfis fyrir. Fiskistofa svari erindinu fyrir hönd íslenskra stjórnvalda, en það séu norsk stjórnvöld sem gefi út leyfisbréf fyrir hvert skip fyrir sig. Leyfisbréfin gildi í um sex vikur á hverri loðnuvertíð. Því sé ógerningur að ljúka málum vegna meintra brota á sömu loðnuvertíð og leyfi séu gefin út. Kærendur hafi haft leyfi til veiða í íslenskri lögsögu sem hafi gilt til 22. febrúar 2017. Þá hafi kærendur einnig fengið útgefið leyfi að nýju í byrjun árs 2018 sem hafi gilti til 22. febrúar 2018, á meðan málið hafi verið í athugun hjá NEAFC og norskum stjórnvöldum. Þegar hinar kærðu ákvarðanir hafi verið teknar, hafi kærendur ekki haft leyfi til veiða innan fiskveiðilögsögu Íslands og ekki sé heimild í lögum nr. 22/1998, til að svipta erlend skip leyfi frá og með útgáfu næsta leyfis. Fiskistofa hafi svipt kærendur leyfi til veiða, skv. 8. gr. laga nr. 22/1998, þrátt fyrir að ljóst væri að þau viðurlög hefðu ekki réttaráhrif gagnvart kærendum. Sé slík framkvæmd í samræmi við stjórnsýsluframkvæmd Fiskistofu þegar svo háttar að veiðileyfi skips sem í hlut á hafi fallið niður, t.d. vegna þess að það hafi verið tekið af skipaskrá.

Fiskistofa hafnar því sem röngu að hinar kærðu ákvarðanir hafi falið í sér varanlegar sviptingar veiðileyfis. Fiskistofa hafi ekki lagaheimild til að taka slíkar ákvarðanir. Fiskistofa bendir á að málatilbúnaður kæranda virðist byggja á þeim skilningi að kærendur geti fengið úrskurð ráðuneytisins um gildi 3. málsl. 6. gr. laga nr. 22/1998, þrátt fyrir að hinar kærðu ákvarðanir séu ekki byggðar á þeim lagagrundvelli. Kærandi geti ekki krafist ógildingar á hinum kærðu ákvörðunum á þeim grundvelli að sá vilji löggjafans sem komi fram í 3. málsl. 6. gr. sé umfram meðalhóf. Það sé brot kærenda en ekki þau viðurlög sem kærendur voru beittir sem gætu haft á áhrif á möguleika kærenda til að stunda veiðar í íslenskri lögsögu í framtíðinni.

Fiskistofa tekur fram að þrátt fyrir að Fiskistofa hafi í einhverjum tilvikum veitt erlendum skipum sem hefðu verið notuð til brota gegn ákvæðum laga nr. 22/1998, eða öðrum ákvæðum sem gilda um fiskveiðar þá geti það ekki valdið því að stofnunin gangi gegn banni 3. máls. 6. gr. laga nr. 22/1998 og veiti skipunum veiðileyfi. Fiskistofa vísar í þessu tilliti til álits Umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9730/2018, þar sem segir að jafnræðisregla stjórnsýsluréttar leiði ekki til þess að stjórnvöld verði að viðhafa sömu framkvæmd við aðra borgara ef framkvæmd hafi ekki verið í samræmi við lög.

Fiskistofa vísar þeirri málsástæðu kæranda á bug að ekki séu dæmi í norskri löggjöf um viðurlög af því tagi sem Fiskstofa hafi beitt, enda hafi hinar kærðu ákvarðanir Fiskistofu byggt á íslenskum lögum.

Fiskistofa bendir á að málsmeðferð hafi tafist vegna þess að málið hafi verið í skoðun hjá norskum stjórnvöldum uns þau hafi tekið þau afstöðu að málið heyrði undir íslensk stjórnvöld. Á meðan málsmeðferð stóð hafi þau leyfi runnið út sem hin kærða ákvörðun hefði getað haft íþyngjandi áhrif á. Tímasetning hinna kærðu ákvarðana hafi því verið þannig að þær höfðu minnstu mögulegu áhrif á veiðar skipa kærenda í íslenskri lögsögu.

Fiskistofa telur að staðfesta beri hinar kærðu ákvarðanir, þær hafi verið byggðar á sömu sjónarmiðum og íslenskir dómstólar hafi byggt á. Þá telur stofnunin einnig að 8. gr. laga nr. 22/1998, hafi verið beitt með þeim hætti að kærandi var fyrir eins litlum íþyngjandi áhrifum og mögulegt var þar sem skip kærenda haf ekki haft leyfi til veiða í íslenskri lögsögu á þeim tíma sem ákvarðanirnar voru teknar og með því hafi verið gengið eins skammt og kostur var við beitingu viðurlaga. Fiskistofa áréttar að möguleg áhrif 3. málsl. 6. gr. laga nr. 22/1998, á stöðu kærenda í framtíðinni sé ekki til úrlausnar í úrskurði ráðuneytisins þar sem hinar kærðu ákvarðanir séu ekki byggðar á því ákvæði.

VI.       Niðurstaða

1. Kærufrestur.

Í málinu eru eftirtaldar ákvarðanir Fiskistofu kærðar;

ákvörðun, dags. 11. janúar 2019, um að svipta skipið [Ax] leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands með vísan til 8. gr. laga nr. 22/1998, vegna brots á 4. gr. laganna,

ákvörðun, dags. 14. janúar 2019, um að svipta skipið [Bx] leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands með vísan til 8. gr. laga nr. 22/1998, vegna brots á 4. gr. laganna,

ákvörðun, dags. 15. janúar 2019, um að svipta skipið [Cx] leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands með vísan til 8. gr. laga nr. 22/1998, vegna brots á 4. gr. laganna,

ákvörðun, dags. 18. janúar 2019, um að svipta skipið [Dx] leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands með vísan til 8. gr. laga nr. 22/1998, vegna brots á 4. gr. laganna,

ákvörðun, dags. 6. febrúar 2019, um að svipta skipið [Ex] leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands með vísan til 8. gr. laga nr. 22/1998, vegna brots á 4. gr. laganna,

Kæruheimild er í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 og er kærufrestur þrír mánuðir, sbr. 1. mgr. 27. gr. laganna. Stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu, dags. 7. febrúar 2019, og var innan tilskilins frests. Kæran verður því tekin til efnismeðferðar.

2. Reglur um löndun og skráning afla erlendra skipa.

Málsatvik eru að kærendur, sem eru fimm norskar útgerðir, voru á loðnuveiðum í fiskveiðilandhelgi Íslands í byrjun árs 2017. Um veiðar skipanna giltu lög nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands og reglugerð nr. 80/2017, loðnuveiðar norskra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands á loðnuvertíðinni 2016/2017 (reglugerð nr. 80/2017). Skipstjórar norsku skipanna sendu aflatilkynningar til Fiskistofu áður skipin komu til löndunar í íslenskum höfnum. Eftirlitsmenn Fiskistofu voru viðstaddir löndunina og í ljós kom misræmi á milli tilkynnts afla og landaðs afla. Voru tilkynningar í tveimur tilvikum minni en tilkynntur afli (-13,2% og -17%) og í þremur tilvikum meiri en tilkynntur afli (13%, 146% og 18,6%). Kærendur hafa ekki mótmælt því að misræmi hafi verið á milli tilkynnts aflamagns og landaðs aflamagns. Kærendur telja hins vegar að ákvarðanir Fiskistofu séu of íþyngjandi þar sem réttaráhrif þeirra, samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu, geti orðið að skipunum verði ekki veitt leyfi til að veiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands í framtíðinni.

Í ákvörðunum Fiskistofu er byggt á því að kærendur hafi gerst brotlegir við 4. gr laga nr. 22/1998, vegna ónákvæmra aflatilkynninga. Í ákvæðinu segir að erlend veiðiskip og vinnsluskip skuli tilkynna Landhelgisgæslu Íslands með sex klukkustunda fyrirvara um komu sína í siglingu út úr fiskveiðilandhelgi Íslands og gefa upp staðsetningu. Meðan á siglingu þeirra í landhelginni standi skuli þau a.m.k. á tólf klukkustunda fresti gefa upp staðsetningu, stefnu og hraða. Erlend veiðiskip skulu haf uppi fána síns ríkis til auðkenningar. Auk þess skuli þau erlendu skip sem hyggjast leita hafnar hér á landi tilkynna Landhelgisgæslunni um magn afla og tegundir um borð í skipinu, hvað veiðar skipið hafi stundað á hvaða svæði og hvaða þjónustu skipið sækir til viðkomandi hafnar.

Ráðuneytið telur að 4. gr. laga nr. 22/1998, eigi eingöngu við um þau skip sem sigla í gegnum íslenska fiskveiðilandhelgi með afla, hvort sem það er óslitin för eða þau sækja þjónustu í íslenska höfn. Ákvæðið á ekki við um skip sem hefur verið á veiðum í íslenskri fiskveiðilandhelgi, á grunni leyfis sem gefið hefur verið út af íslenskum stjórnvöldum, vegna samningskyldna íslenska ríkisins í alþjóðlegum fiskveiðisamning eða á grundvelli annarrar lagaheimilda. Þessi skilningur á sér stoð í skýringu við ákvæðið en þar segir m.a. Í þessari grein er lagt til að tilkynningaskylda erlendra skipa sem um fiskveiðilandhelgina sigla verði mun ríkari. Er lagt til að öll skip, sem sigli inn í fiskveiðilandhelgina, tilkynni um komu sína með sex klukkustunda fyrirvara og enn fremur að þau tilkynni jafnframt um siglingu sína út úr fiskveiðilandhelginni. Með hliðsjón af öðrum ákvæðum þessa frumvarps og þeim tilgangi að herða eftirlit með veiðum umhverfis landið þykir þörf á að auka tilkynningaskylduna á þennan hátt“.

Um veiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands fer eftir 5. gr. laga 22/1998. Þar kemur fram að um veiðarnar skal, ef ekki sé annað ákveðið í milliríkjasamningum, gilda ákvæði laga og reglugerða sem gilda um veiðar íslenskra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, þar með talið færslu afladagbóka og vigtun, landi erlend skip afla sínum í íslenskum höfnum.

Heimild kærenda til að veiðanna byggði á samning milli Íslands og Noregs sem m.a. heimilar norskum skipum að veiða hluta loðnu aflans í fiskveiðilandhelgi Íslands. Sá afli sem veiðist innan íslenskrar landhelgi dregst af þeim hluta heildarafla loðnu sem fellur í hlut Noregs. Um veiðar kærenda gilti 5. gr. laga nr. 22/1998 og reglugerð nr. 80/2017, um loðnuveiðar norskra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands á loðnuvertíðinni 2016/2017. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr., eins og henni var breytt með 1. gr. reglugerðar nr. 127/2017, var norskum skipum heimilt að veiða 59.747 lestir af loðnu innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi á loðnuvertíðinni 2016/2017. Í 4. gr., kemur fram að norskum skipum sé heimilt að landa í íslenskum höfnum og um vigtun á aflanum fari eftir sömu reglum og gilda um íslensk skip. Í 6. gr. segir að um siglingu skips, á leið til veiðisvæðis áður en veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands hefjast og á leið út úr fiskveiðilandhelgi Íslands, gildi ákvæði reglugerðar um eftirlitsstaði erlendra skipa vegna veiða og siglinga í íslenskri fiskveiðilögsögu nr. 1133/2013, þar sem fram kemur staðsetning athugunarstaðanna. Tímafrestir tilkynninga komi fram í reglugerð nr. 1170/2013, um rafrænar skeytasendingar, upplýsingagjöf og rafræn afladagbókaskil erlendra fiskiskipa í efnahagslögsögu Íslands.

Túlka verður 4. og 6. gr reglugerðar nr. 80/2017, með þeim hætti að gerður sé greinarmunur á því hvort skip landi öllum afla sínum í íslenskri höfn eða hvort þau landi hluta eða öllum afla utan Íslands. Ef aflanum er öllum landað í íslenskri höfn þá fer um skráningu í afladagbækur og löndun aflans eftir sömu reglum og gilda um íslensk skip, sbr. 5. gr. laga nr. 22/1998 og 4. gr. reglugerðarinnar. Landi skip hluta eða öllum afla utan Íslands gildir ákvæði 6. gr. reglugerðarinnar og 1170/2013 um aflaskráningu og tilkynningar. Þessi skilningur fær stoð í viðauka 2.4. um hafnkomu. Þar er gerð krafa um að skip gefi upp aflamagn um borð eftir tegundum lífþyngd (óslægt) sem og áætlað lestað magn að borði eða frá borði eftir tegundum lífþyngd (óslægt). Tilkynningin á því að gefa raunsæja mynd af þeim afla sem skipið veiddi í íslenskri lögsögu og siglir með óvigtaðan úr fiskveiðilögsögu Íslands og landar utan Íslands. Í þessu samhengi vísast til dóma S- 22/2013 og S-23/2013 þar sem segir að ákvæði um tilkynningu á afla sé hluti reglukerfis sem virðist vera sett á fót í þágu eftirlits stjórnvalda með veiðum erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands og má ætla að skylda til að veita upplýsingar um í heildarafla í tilkynningum þessum þjóni m.a. þeim tilgangi að staðreyna í lögsögu hvers ríkis afli sé veiddur.

Í þeim málum sem hér eru til skoðunar var aflanum landað í íslenskum höfnum og fór um vigtun og skráningu afla kærenda eftir sömu reglum og gilda um vigtun og skráningu afla íslenskra skipa, sbr. 5. gr. laga nr. 22/1998 og 4. gr. reglugerðar um nr. 80/2017. Þannig voru það löndunartölur kærenda sem voru grundvöllur aflaskráningar um hversu mikið skipin veiddu í íslenskri fiskveiðilandhelgi, en ekki tilkynningar skipstjóra skv. 6. gr. reglugerðar nr. 1170/2013 um aflaskráningu og tilkynningar. Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 746/2016, um afladagbækur er gerð krafa um að upplýsingar um magn afla eftir tegundum skuli áætlaðar og skráðar eins nákvæmlega og unnt er. Rangar skráningar í afladagbækur hafa hins vegar ekki leitt til viðurlaga. Í 1. mgr. 11. gr. ssl., kemur fram að við úrlausn mála skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Í 2. mgr. kemur fram að óheimilt sé að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða, byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum. Ráðuneytið fær ekki séð að rök standi til þess að láta þá umfram skyldu sem lögð er á erlend skip umfram íslensk, að tilkynna aflamagn áður en komið er til hafnar, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 1170/2013, leiða til viðurlaga þar sem þær tilkynningar voru ekki grundvöllur skráningar á þeim afla sem skipin veiddu í íslenskri landhelgi, heldur fór um vigtun og skráningu afla kærenda eftir sömu reglum og gilda um vigtun og skráningu afla íslenskra skipa, þ.e. reglugerð nr. 746/2016, um afladagbækur og reglugerð nr. 745/2016, um vigtun og skráningu sjávarafla. Með vísan til alls framanritaðs fellir ráðuneytið eftirfarandi ákvarðanir Fiskistofu úr gildi;

ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. janúar 2019, um að svipta skipið [Ax] leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands,

ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. febrúar 2019, um að svipta skipið [Bx] leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands,

ákvörðun Fiskistofu, dags. 18. janúar 2019, um að svipta skipið [Cx] leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Ísland,

ákvörðun Fiskistofu, dags. 11. janúar 2019, um að svipta skipið [Dx] leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands,

ákvörðun Fiskistofu, dags. 15. janúar 2019, um að svipta skipið [Ex] leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands.

VI.       Úrskurðaorð.

Ráðuneytið fellur úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. janúar 2019, um að svipta skipið [Ax] leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands, ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. febrúar 2019, um að svipta skipið [Bx] leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands, ákvörðun Fiskistofu, dags. 18. janúar 2019, um að svipta skipið [Cx] leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands, ákvörðun Fiskistofu, dags. 11. janúar 2019, um að svipta skipið [Dx] leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands, ákvörðun Fiskistofu 15. janúar 2019, um að svipta skipið [Ex] leyfi til að veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands.

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira