Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 189/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 189/2021

Föstudaginn 27. ágúst 2021

A og B

gegn

Barnavernd C

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur

Með kæru, dags. 9. apríl 2021, kærðu A, og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndar C 23. október 2020 vegna synjunar umsóknar kærenda um leyfi til að gerast stuðningsfjölskylda.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur sóttu um leyfi til að gerast stuðningsfjölskylda og var um umsókn þeirra tekin fyrir á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar C þann 23. október 2020. Í hinni kærðu ákvörðun var vísað til þess að vegna þeirra tilkynninga sem borist hafi vegna dætra kærenda telji Barnavernd C vafa leika á því að kærendur geti tryggt öryggi barns í sinni umsjón. Umsókn kærenda um leyfi til að gerast stuðningsforeldrar hafi því verið synjað.

Kærendur lögðu fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 9. apríl 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 19. apríl 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndar C ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndar C barst nefndinni með bréfi, dags. 14. maí 2021, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. maí 2021, var hún send kærendum til kynningar. Engar athugasemdir bárust.

II.  Sjónarmið kærenda

Fram kemur í kæru að umsókn kærenda hafi verið synjað á grundvelli þess að tilkynningar  hafi borist Barnavernd C vegna dætra kærenda, D og E. Ákvörðunin hafi ekki verið rökstudd frekar. Þegar litið sé til umræddra tilkynninga verði ekki séð að þær tilkynningar hafi borið með sér alvarleika. Þrátt fyrir að einstaklingar séu tilkynntir til barnaverndar þýði ekki að það hafi borið með sér sök.

Tilkynningin sem barst vegna E hafi verið vegna þess að hún hafði oft leitað til bráðamóttöku vegna handleggsbrota sem hún varð fyrir í tómstundum. E hafi æft ýmsar íþróttir eins og til dæmis T, en þar hafi verið nokkur tilfelli sem hún handleggsbrotnaði við æfingar. Einnig hafi hún tekið þátt […] þar sem hún handleggsbrotnaði eftir fall […]. Ekkert af þessum atvikum hafi gerst á heimili stúlkunnar. Það sé hverjum manni ljóst að hver sem er geti slasast við iðkun á slíkum íþróttum og ætti það ekki að vera barnaverndarmál. Málinu lauk svo vegna þess að ekki var talin þörf á að fylgja því eftir.

Tilkynning sem barst vegna D var vegna þess að hún tók inn of margar svefntöflur. Stúlkan hafi glímt við svefnörðugleika frá fæðingu og hafi hún því verið sett á svefnaukandi lyf samkvæmt ráðleggingum barnalæknis. Svefnörðugleikar höfðu haft mikil áhrif á stúlkuna sem hafði þróað með sér kvíða vegna þeirra. Til að geta sofið betur ákvað stúlkan að taka fleiri töflur en hún mátti. Viðbrögð kærenda voru þau að fara með hana strax upp á barnaspítala sem hvert áhyggjufullt foreldri myndi gera. Þetta hafi orðið til þess að þau voru tilkynnt til Barnaverndar C sem kærendur skildu. Fulltrúi barnaverndar hafi síðan komið á heimili þeirra og rætt við þau og stúlkuna. Ekki var talin ástæða til þess að halda málinu áfram.

Við heimsókn starfsmanns F kom kærandi A hreint fram og sagði frá þessum atvikum, enda hafði hún ekkert að fela. Starfsmaður F taldi ekki þörf á að taka þetta fram í greinargerð sinni, enda taldi hún að þetta hefði ekki áhrif á niðurstöðu varðandi það hvort kærendur gætu orðið stuðningsforeldrar.

Í 1. mgr. 2. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) segir að markmið laganna sé að tryggja að börn sem búa við óviðunnandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Leitast skuli við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þar sem það á við. Samkvæmt þessu ákvæði sé það nokkuð ljóst að verið sé að gæta hagsmuna barna sem búa við aðstæður sem þarf að grípa inn í. Það ætti því ekki að vera íþyngjandi fyrir fjölskyldur að vera tilkynntar til barnaverndar, án þess að það hafi borið með sér sök.

Í niðurstöðu Barnaverndar C sé bent á 26. gr. reglugerðar um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga nr. 652/2004, en þar sé meðal annars tekið fram að með stuðningsfjölskyldu sé átt við að taka barn inn á einkaheimili og tryggja því öryggi. Þrátt fyrir að kærendur hafi verið tilkynntir til barnaverndar sé enginn grundvöllur fyrir því að barn sé ekki öruggt á heimili þeirra, á þeim forsendum að fulltrúar barnaverndar töldu að dætur kærenda hafi ekki verið öruggar á heimili þeirra. Því megi telja að niðurstaða barnaverndar sé íþyngjandi fyrir kærendur og aðra einstaklinga sem hafi verið tilkynntir til barnaverndar, án þess að það hafi borið með sér sök þegar fyrir þeim vaki mikill vilji til að aðstoða börn sem búa við óviðunandi aðstæður og vilji til að veita þeim öruggt og gott heimili sem þau geta leitað til.

Kærendur telja að við ákvörðun hefði verið átt að líta til aðstæðna dætra þeirra í dag. Til að mynda sé E framúrskarandi námsmaður, hún stundi nú nám í […] ásamt því að starfa á […]. D sé einnig góður námsmaður en hún sé í grunnskóla. Hún sé sérstaklega barngóð og hafi unun af því að vera í kringum börn og hafi lokið […].

III.  Sjónarmið Barnaverndar C

Barnavernd C krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Samkvæmt 27. gr. reglugerðar nr. 652/2004 um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga, skulu þeir sem óska eftir að taka að sér hlutverk stuðningsfjölskyldu sækja um leyfi til barnaverndarnefndar í sínu heimilisumdæmi. Samkvæmt 30. gr. málsmeðferðareglna Barnaverndar C sjá starfsmenn Barnaverndar um móttöku, vinnslu og meðferð slíkra umsókna. Deildarstjóri afgreiðir umsóknirnar að gagnaöflun lokinni.

Í greinargerð F, dags. 21. október 2020, hafi verið mælt með því að kærendur fengju leyfi sem fósturforeldrar. Í greinargerð Keðjunnar koma ekki fram upplýsingar um þær tilkynningar sem Barnavernd C hafa borist vegna mála dætra kærenda.

Alls hafa Barnavernd C borist fjórar tilkynningar í málum stúlknanna sem báðar búa á heimili kærenda. Tilkynningarnar bárust árin 2014, 2015 og 2020.

Í tilkynningu frá bráðamóttöku Landspítala þann 14. apríl 2014 hafi verið tilkynnt um tíðar komur E á Landspítala. Fram kemur að stúlkan hafi farið í 17 röntgenmyndatökur, þar af 12 á tveggja ára tímabili. Þá segir að við komu stúlkunnar á bráðamóttöku í apríl 2014 hafi áverkar stúlkunnar verið meiri en við mætti búast með hliðsjón af skýringum á áverkunum. Þá hafi stúlkan einnig verið með sýkingu á ytri kynfærum og verið mjög hvekkt við skoðun.

Mál stúlkunnar hafi verið tekið til könnunar hjá Barnavernd C vegna tilkynningarinnar. Foreldrar stúlkunnar og stúlkan hafi komið til viðtals á skrifstofu barnaverndar við könnun málsins og gefið skýringar á tíðum meiðslum stúlkunnar sem þau sögðu að rekja mætti til íþróttaiðkunar stúlkunnar og klaufaskapar. Í viðtalinu hafi komið fram að móðir væri á lyfjum og í sálfræðimeðferð vegna ofsakvíða og að stúlkan væri kvíðin. Málinu hafi verið lokað í kjölfar könnunar.

Tilkynning barst frá Barnaspítalanum þann 12. febrúar 2015, en þá hafði D tekið inn of mikið magn lyfseðilsskyldra lyfja sem ávísað hafði verið á hana vegna svefnvanda og kvíða.

Mál stúlkunnar hafi verið tekið til könnunar hjá Barnavernd C vegna tilkynningarinnar. Foreldrar stúlkunnar og stúlkan komu til viðtals á skrifstofu Barnaverndar við könnun málsins og gáfu skýringar á því hvers vegna stúlkan hafði haft aðgang að lyfjunum. Málinu hafi verið lokað í kjölfar könnunar.

Tilkynning barst árið 2015 um áhættuhegðun systranna sem voru saman á vespu. Málinu var lokað með bréfi. Árið 2020 barst tilkynning frá Þjóðskrá þess efnis að fjölskyldan væri með ótilgreint lögheimili. Ekkert hafi verið aðhafst vegna málsins hjá Barnavernd C.

Fjallað hafi verið um umsókn kærenda á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar C þann 23. október 2020. Í bókun meðferðarfundar sé vísað til 26. gr. reglugerðar nr. 652/2002 þar sem fram komi að með stuðningsfjölskyldu sé átt við aðila sem fenginn sé á vegum barnaverndarnefndar fyrst og fremst til að taka á móti barni, eða í sumum tilvikum barni og foreldrum, á einkaheimili í því skyni meðal annars að tryggja öryggi barnsins, létta álagi af barni og fjölskyldu þess og leiðbeina foreldrum og styðja í uppeldishlutverkinu samkvæmt d-lið 24. gr. og 85. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Það sé mat starfsmanna Barnaverndar C að með hliðsjón af þeim tilkynningum sem Barnavernd C hafi borist í málefnum dætra kærenda leiki vafi á því að þau geti tryggt öryggi barns í sinni umsjá. Umsókn þeirra um að gerast stuðningsforeldrar hafi því verið synjað.

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að tilkynningarnar hafi ekki borið með sér alvarleika og ekkert af þeim tilkynningum sem borist hafi í máli E hafi átt sér stað á heimili fjölskyldunnar. Þá hafi foreldrar brugðist strax við þegar D tók meira magn lyfja en læknir hafði ávísað á hana. Auk þessa segja kærendur í kærunni að stafsmaður F, sem framkvæmdi úttekt vegna umsóknar þeirra um að gerast fósturforeldrar, hafi ekki séð ástæðu til að fjalla um afskipti Barnaverndar C af málefnum fjölskyldunnar, þrátt fyrir að kærendur hafi greint frá þeim tilkynningum sem borist hafi vegna dætra þeirra.

Að mati Barnaverndar C sé nauðsynlegt að horfa til þess að þrátt fyrir að ekki hafi verið talin ástæða til inngripa í málefni barna kærenda vegna tilkynninganna er varða afskipti Landspítala af málefnum sé ekki unnt að horfa fram hjá alvarleika þeirra. Þegar horft sé til þess að hlutverk stuðningsforeldra sé samkvæmt reglugerð nr. 652/2004 um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga, að tryggja öryggi barns og leiðbeina foreldrum og styðja þau í uppeldishlutverkinu megi ætla að gerðar séu ríkar kröfur til stuðningsforeldra og aðstæðna á heimilum þeirra. Börn, sem þurfa á stuðningsfjölskyldu að halda, hafa sum hver búið við ótryggar aðstæður og eiga aðstæður stuðningsfjölskyldna að vera hafðar yfir allan vafa. Með hliðsjón af því sem fram kom í tilkynningum frá Landspítala varðandi málefni dætra kærenda, sé það mat Barnaverndar C að ekki sé óumdeilt að hægt sé að tryggja öryggi barna í umsjá kærenda og að túlka beri þann vafa börnum í hag.

IV.  Niðurstaða

Með hinni kærðu ákvörðun frá 23. október 2020 var kærendum synjað um leyfi til að gerast stuðningsforeldrar.

Í 85. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 kemur fram að barnaverndarnefndir skuli hafa tiltækar stuðningsfjölskyldur. Þeir sem óska eftir að taka að sér hlutverk stuðningsfjölskyldu skulu sækja um leyfi barnaverndarnefndar í sínu heimilisumdæmi. Ráðherra setur reglugerð þar sem meðal annars er kveðið á um skilyrði fyrir leyfisveitingu.

Í reglugerð nr. 652/2004 um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga, er í 26. gr. kveðið á um hlutverk stuðningsfjölskyldu. Fram kemur í 1. mgr. 26. gr. að með stuðningsfjölskyldu sé átt við aðila sem fenginn sé á vegum barnaverndarnefndar fyrst og fremst til að taka á móti barni, eða í sumum tilvikum barni og foreldrum, á einkaheimili í því skyni meðal annars að tryggja öryggi barnsins, létta álagi af barni og fjölskyldu þess og leiðbeina foreldrum og styðja þá í uppeldishlutverkinu samkvæmt d-lið 24. gr. og 85. gr. barnaverndarlaga.

Í 30. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um afgreiðslu umsóknar. Þar segir í 1. mgr. að barnaverndarnefnd sé heimilt að leita eftir upplýsingum um umsækjanda og aðbúnað á heimilinu frá öðrum aðilum, svo sem vinnuveitendum, öðrum barnaverndarnefndum, heilbrigðisfulltrúa og eldvarnareftirliti, enda sé umsækjanda gert kunnugt um það. Í 2. mgr. kemur fram að áður en barnaverndarnefnd afgreiðir umsókn skal fulltrúi nefndarinnar fara að minnsta kosti einu sinni á heimili umsækjanda og skrifa greinargerð um málið að lokinni gagnaöflun. Barnaverndarnefnd skal kynna umsækjanda greinargerðina og gefa honum kost á að koma að athugasemdum. Að því loknu skal nefndin afgreiða umsóknina með bókun.

Samkvæmt gögnum málsins framkvæmdi F, sem er samstarfsnet Velferðarsviðs B, fyrir Barnavernd B mat á aðstæðum kærenda þann 12. október 2020 í kjölfar umsóknar þeirra um að gerast stuðningsforeldrar. Með umsókn skiluðu kærendur læknisvottorðum, sem staðfestu að ekkert í andlegu né líkamlegu heilsufari þeirra mælti gegn því að þau tækju að sér starf sem stuðningsforeldrar. Auk þess undirrituðu þau heimild samkvæmt 2. mgr. 36. gr. bvl. um að aflað væri upplýsinga úr sakaskrá og staðfesti Ríkissaksóknari hreina sakaskrá þeirra 22. september 2020. Þá undirrituðu kærendur trúnaðaryfirlýsingu B. Með greinargerð F, dags. 21. október 2020, var lagt til að umsókn kærenda um leyfi til að gerast stuðningsforeldrar væri samþykkt. Mál kærenda var tekið fyrir á meðferðarfundi Barnaverndar B 23. október 2020 þar sem umsókn kærenda var synjað á grundvelli þess að vafi léki á því að kærendur gætu tryggt öryggi barns í sinni umsjá.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður að fallast á það sjónarmið Barnaverndar C að hæfi þeirra einstaklinga, sem veitt er leyfi til að styðja við börn, verði að vera hafið yfir allan vafa. Úrskurðarnefndin telur að ekki sé tilefni til að hrófla við mati Barnaverndar C í því máli sem hér um ræðir, þ.e. að það sé hafið yfir allan vafa að kærendur geti tryggt öryggi barns með óyggjandi hætti.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta ákvörðun Barnaverndar C um að synja kærendum um leyfi til að gerast stuðningsforeldrar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndar C frá 23. október 2021 um að synja A og B, um leyfi til að gerast stuðningsforeldrar er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira