Hoppa yfir valmynd

Nr. 9/2023 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 25. janúar 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 9/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU22100041

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 17. október 2022 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. október 2022, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi. Kærandi krefst þess til vara að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og mál kæranda verði sent aftur til stofnunarinnar til löglegrar málsmeðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 19. júlí 2022. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Danmörku. Hinn 9. ágúst 2022 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Danmörku, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá dönskum yfirvöldum, dags. 16. ágúst 2022, synjuðu þau beiðni um viðtöku kæranda á þeim grundvelli að ítölsk stjórnvöld hefðu samþykkt viðtöku kæranda 11. janúar 2016 á grundvelli 1. mgr. 13. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þar sem dönsk stjórnvöld hafi engar upplýsingar um ferðir kæranda eftir að hann yfirgaf Danmörku 11. janúar 2016, óskuðu þau eftir frekari upplýsingum frá íslenskum stjórnvöldum. Hinn 18. ágúst 2022 voru frekari gögn send til danskra yfirvalda og 21. ágúst 2022, samþykktu dönsk yfirvöld viðtöku kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað 3. október 2022 að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda 3. október 2022 og kærði kærandi ákvörðunina 17. október 2022 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 31. október 2022.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að dönsk stjórnvöld beri ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Danmerkur ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Danmerkur.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess að taka beri umsókn hans til efnismeðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 32. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, hafi það verið mat stjórnvalda, sem rúmist innan c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, að leggja beri megináherslu á mikilvægi samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins og skilvirkni umsóknarferilsins, sem endurspeglist m.a. í 47. gr. reglugerðar um útlendinga. Samkvæmt 47. gr. reglugerðarinnar sé Útlendingastofnun heimilt að taka umsókn til efnismeðferðar þrátt fyrir að ljóst sé að annað aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins beri ábyrgð á henni samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir á því að Útlendingastofnun beri að taka mið af framangreindu við mat á því hvort taka skuli umsókn hans til efnismeðferðar, endursending kæranda til Danmerkur sé óheimil þar sem Danmörk sé ekki réttmætt viðtökuríki samkvæmt ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar. Það myndi ganga gegn þeirri megináherslu Dyflinnarsamstarfsins um skilvirkni við framkvæmd málsmeðferðar kæranda um alþjóðlega vernd enda kynni kærandi að vera endursendur til Svíþjóðar í kjölfarið. Þá sé byggt á því, með hliðsjón af stöðu kæranda sem hafi lifað og búið við algjöra óvissu frá því hann var 15 ára gamall, að rík skilvirknis- og mannúðarsjónarmið séu til að taka umsókn hans til efnismeðferðar hér á landi.

Kærandi byggir einnig á því að taka skuli umsókn hans til efnismeðferðar á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 42. gr. sömu laga, með vísan til þess að endursending til Danmerkur kynni að leiða til þess að kærandi yrði þaðan sendur til Svíþjóðar þar sem hans bíði ákvörðun um brottvísun og endurflutning til Sómalíu. Kærandi telji það vera brot gegn meginreglu þjóðaréttar um non-refoulement að senda hann á brott án þess að beiðni hans um alþjóðlega vernd sé tekin til efnismeðferðar. Í 42. gr. sé kveðið á um að ekki megi senda útlending til svæðis þar sem hann hafi ástæðu til að óttast ofsóknir, vanvirðandi eða ómannúðlega meðferð sem geti leitt til þess að hann teljist flóttamaður eða sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki sé tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis.

Til stuðnings varakröfu sinni vísar kærandi til þess að ákvörðun Útlendingastofnunar grundvallist á c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni beri aðildarríkjum að fylgja ákveðnum málsmeðferðarreglum við beitingu þeirrar heimildar um að krefja annað ríki, þ.e. viðtökuríki, um að taka við kæranda. Kærandi telji að við ákvörðun í máli hans hafi Útlendingastofnun ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga, með þeim áskilnaði sem krafist sé og því sé ákvörðunin ógildanleg. Í greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar komi fram að kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd í Svíþjóð 9. október 2015, sem hafi endanlega verið synjað með ákvörðun Migrationverket 23. febrúar 2018 en hann hafi dvalið þar í landi allt þar til hann lagði fram umsókn sína hér á landi. Fyrir liggi í málinu að dönsk stjórnvöld hafi samþykkt viðtöku kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar en þar sem hann hafi dvalið í Svíþjóð síðastliðin ár þá beri Danmörk ekki ábyrgð á meðferð umsóknar hans samkvæmt 12., 13. og 19. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í greinargerð kæranda vegna meðferðar á fyrra stjórnsýslustigi, hafi kærandi vísað til þess að Útlendingastofnun þyrfti að skoða hvort Danmörk væri ábyrgðarríki umsóknar hans á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þá væri nauðsynlegt að kanna hvort kærandi kynni að vera sendur til Svíþjóðar þar sem liggi fyrir endanleg ákvörðun um synjun á umsókn hans um alþjóðlega vernd og brottvísun til Sómalíu. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar beri það aðildarríki ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd, þar sem umsækjandi hafi búið að minnsta kosti síðastliðna fimm mánuði. Þá segir í 1. mgr. 19. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar að gefi aðildarríki út dvalarskírteini til umsækjanda falli skyldur samkvæmt 18. gr. á það ríki. Þá segir í 2. málsl. 5. mgr. 25. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar að skylda viðtökuríkis til að taka við umsækjanda falli niður hafi viðkomandi fengið útgefið dvalarskírteini frá öðru aðildarríki. Kæranda sé heimilt að sýna fram á að skilyrði 19. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar séu uppfyllt gagnvart viðtökuríki sem beri meinta ábyrgð á umsókn hans, sbr. dómur Evrópudómstólsins í máli nr. C-155/15 frá 7. júní 2016, George Karim gegn Migrationverket. Stjórnvöldum sé því skylt að gefa kæranda færi á að sýna fram á að ákvæði 19. gr. eigi við, jafnvel þó fyrir liggi samþykki viðtökuríkis á ábyrgð samkvæmt ákvæðum III. kafla reglugerðarinnar.

Útlendingastofnun hafi borið við meðferð málsins að rannsaka hagi kæranda með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Slík rannsókn hefði leitt í ljós að Svíþjóð beri ábyrgð á viðtöku kæranda um alþjóðlega vernd. Ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar séu skýr um hvaða ríki beri ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd og verði að taka ákvörðun um endursendingu kæranda á grundvelli skýrrar lagaheimildar.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.

Líkt og áður hefur komið fram lagði kærandi fram beiðni um alþjóðlega vernd hér á landi 19. júlí 2022. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Danmörku. Hinn 9. ágúst 2022 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Danmörku. Dönsk yfirvöld synjuðu beiðni um viðtöku kæranda 16. ágúst 2022, þar sem þau höfðu engar upplýsingar um ferðir kæranda eftir að hann yfirgaf Danmörku 11. janúar 2016 og óskuðu þau því eftir frekari upplýsingum frá íslenskum stjórnvöldum. Hinn 18. ágúst 2022 var flugmiði kæranda frá Svíþjóð til Íslands sendur dönskum yfirvöldum og 21. ágúst 2022, samþykktu dönsk yfirvöld viðtöku kæranda.

Við meðferð málsins hefur kærandi greint frá því að hafa lagt á flótta frá heimaríki sínu árið 2015. Kærandi hafi verið stöðvaður og handtekinn af dönskum yfirvöldum á landamærum Danmerkur og Svíþjóðar. Daginn eftir hafi honum verið sleppt úr haldi í Danmörku og hafi hann þá haldið áfram til Svíþjóðar þar sem hann hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd. Kærandi hafi m.a. stundað nám í Svíþjóð en fengið endanlega synjun á umsókn sinni þar í landi 23. febrúar 2018. Kærandi hafi dvalið ólöglega í Svíþjóð þar til hann hafi komið hingað til lands og lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd. Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun lagði kærandi fram ljósmyndir sem hann kveður vera af ákvörðun sænskra yfirvalda í máli sínu. Við meðferð málsins bæði hjá Útlendingastofnun og kærunefnd hefur kærandi haldið því fram að Svíþjóð beri ábyrgð á umsókn hans um alþjóðlega vernd.

Í ákvörðun sænskra yfirvalda, dags. 23. febrúar 2018, sem kærandi lagði fram við meðferð málsins kemur fram að við komuna til Svíþjóðar árið 2015 hafi kærandi greint frá því að vera fæddur [...]. Í 1. mgr. 9. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 603/2013 frá 26. júní 2013 kemur fram að hvert aðildarríki skuli taka fingraför af umsækjendum um alþjóðlega vernd sem séu a.m.k. 14 ára. Við komuna til Svíþjóðar hafi kærandi greint frá því að vera aðeins [...] ára gamall og er að mati kærunefndar því líklegt að fingraför kæranda hafi ekki verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Svíþjóð þegar kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd þar í landi sökum ungs aldurs hans.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 5. september 2022, greindi kærandi frá því að hafa dvalið í Svíþjóð síðastliðin ár og hann þekkti því ekki aðstæður í Danmörku. Kærandi var ekki spurður frekar út í dvöl sína í Svíþjóð eða hvar hann hefði dvalið síðastliðin ár. Í 28. gr. laga um útlendinga er fjallað um viðtal við umsækjanda um alþjóðlega vernd. Í 2. mgr. 28. gr. kemur m.a. fram að viðtali skuli hagað þannig að sem mestar líkur séu á að aðstæður sem geti haft þýðingu fyrir umsókn umsækjanda upplýsist. Í ljósi frásagnar kæranda af dvöl hans í Svíþjóð hafi Útlendingastofnun að mati kærunefndar borið að spyrja nánar út í meinta dvöl hans þar í landi og hvar kærandi hafi dvalið síðastliðin ár frá því hann yfirgaf heimaríki sitt í því skyni að fá sem skýrasta mynd af aðstæðum kæranda undanfarin ár.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra gagna og upplýsinga. Þá mælir 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga fyrir um að Útlendingastofnun skuli afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga við meðferð mála. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.

Vegna málsástæðna kæranda og þeirra gagna sem fyrir lágu í málinu óskaði kærunefnd eftir því við Útlendingastofnun að send yrði upplýsingabeiðni til sænskra yfirvalda, sbr. 34. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í svari frá sænskum yfirvöldum, dags. 10. janúar 2023, kemur m.a. fram að kærandi hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd í Svíþjóð 9. október 2015 og verið synjað um vernd með ákvörðun sænskra yfirvalda 23. febrúar 2018. Með tilliti til frásagnar kæranda, þeirra gagna sem hann lagði fram við meðferð málsins og ungs aldurs hans við komuna til Svíþjóðar, er það mat kærunefndar að Útlendingastofnun hafi borið að óska eftir framangreindum upplýsingum frá Svíþjóð við meðferð málsins hjá stofnuninni þannig að fyrir lægju í málinu fullnægjandi upplýsingar um stöðu hans þar í landi. Er komist að þeirri niðurstöðu þrátt fyrir dönsk yfirvöld hafi samþykkt viðtöku á kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd.

Með vísan til alls framangreinds telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar í máli kæranda. Kærunefnd telur jafnframt ekki unnt að bæta úr framangreindum annmörkum á kærustigi og því rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar. Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er að mati kærunefndar ekki tilefni til umfjöllunar um aðrar málsástæður kæranda.


 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the case.

 

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                            Sandra Hlíf Ocares


 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum