Hoppa yfir valmynd

3/2020 A gegn Listaháskóla Íslands

Ár 2020, 29. september, lauk áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema, þau Einar Hugi Bjarnason lögmaður og formaður nefndarinnar, Eva Halldórsdóttir lögmaður og Dagmar Ösp Vésteinsdóttir lögfræðingur málinu 

 

nr. 3/2020

A

gegn

Listaháskóla Íslands

 

með svohljóðandi

Ú R S K U R Ð I 

I.

Málsmeðferð

Mál þetta hófst með kæru A sem barst áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema með tölvupósti þann 17. júlí 2020 þar sem kærð var sú ákvörðun Listaháskóla Íslands („L“) að kærandi skyldi skila að nýju ritgerðum í námskeiðunum „Sviðslistasaga“ og „Sviðslistir og saga ismanna“ og gerð krafa um að fyrri ákvarðanir um einkunnagjöf í námskeiðunum skyldi standa.

Nefndarmaðurinn Daníel Isebarn Ágústsson vék sæti í málinu vegna vanhæfis og varamaðurinn Dagmar Ösp Vésteinsdóttir, lögfræðingur, tók sæti í nefndinni.

Viðbrögð LHÍ við kærunni bárust 7. ágúst 2020. Í erindinu ítrekaði skólinn þá afstöðu sína að reglur skólans væri skýrar um að óheimilt væri samkvæmt þeim að veita nemanda tvívegis einingar vegna sama vinnuframlags. Sú niðurstaða leiddi af ákvæðum laga um háskóla nr. 63/2006 og reglum skólans og væri í samræmi við akademísk vinnubrögð sem skólanum bæri að hafa í heiðri.

Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við afstöðu skólans. Þær athugasemdir bárust með erindi dagsettu 19. ágúst 2020 þar sem kærandi ítrekaði fyrri kröfur. Þá mótmælti hann þeirri málsástæðu LHÍ að það hefði áhrif á réttarstöðu hans að hann hefði þegar skilað inn umræddum ritgerðum. Með bréfi, dags. 24. ágúst 2020, kom LHÍ á framfæri við nefndina frekari athugasemdum.

Með tölvupósti 16. september 2020 óskaði nefndin eftir upplýsingum frá LHÍ um fyrirkomulag einkunnagjafar fyrir umræddar ritgerðir, enda taldi nefndin að þetta atriði kæmi ekki nægilega skýrt fram í gögnum málsins. Svar barst með tölvupósti frá 17. s.m. þar sem fram kom að ekki hafi verið gefnar einkunnir fyrir ritgerðirnar, heldur teldist nemandi annað hvort hafi staðist eða ekki.

II.

Málsatvik

Ágreiningslaust er í málinu að kærandi lagði tvívegis fram til námsmats í tveimur aðskildum námskeiðum sömu ritgerð fyrst á haustönn 2018 í námskeiðunum  „Sviðslistasaga“ og „Hugtök og heiti í Sviðslistum“ og svo aftur á vorönn 2019 í námskeiðunum og „Sviðslistasaga 2“ og „Sviðslistir og saga ismanna“. Fyrir liggur að ritgerðirnar töldust fullnægja kröfum í báðum áföngum í bæði skiptin. Að sögn kæranda var honum þann 19. september 2019 veitt áminning vegna óviðeigandi notkunar á eigin hugverki.

Þann 29. október sama ár fékk kærandi svo tölvupóst frá skólanum um að hann hefði fram í ágúst 2020 eða þar til kennsla á þriðja ári hæfist á sviðshöfundabraut til að skila nýjum ritgerðum í námskeiðunum „Sviðslistasaga“ og „Sviðslistir og saga ismanna“. Kærandi svaraði tölvupóstinum samdægurs þar sem hann benti á að einkunn hafi þegar verið gefin og með því hafi verið tekin stjórnvaldsákvörðun sem kveði með bindandi hætti um rétt kæranda og skyldur. Með tölvupósti frá 3. desember 2019 tilkynnti kærandi að hann teldi sig hafa uppfyllt allar kröfur í umræddum námskeiðum í samræmi við reglur skólans. Þá ítrekaði kærandi fyrri sjónarmið um að stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin í málinu sem væri bindandi fyrir skólann. Með tölvupósti frá 18. desember sl. var kæranda tilkynnt að ekki væri fallist á hans sjónarmið og farið fram á að hann skilaði ritgerðum í námskeiðunum. Meðfylgjandi tölvupóstinum var bréf skólans dagsett sama dag en í því bréfi er vísað til þess að LHÍ hafi leitað lögfræðiálits. Væri niðurstaða skólans sú að óhjákvæmilegt væri að kærandi skilaði tveimur ritgerðum aftur. Sú beiðni var að sögn kæranda ítrekuð með tölvupósti frá 9. júní sl. og tekið fram að skila þyrfti ritgerðunum fyrir júní lok.

Með bréfi kæranda til úrskurðarnefndar um réttindamál nemenda við LHÍ, dags. 15. júní 2020, var þess farið á leit við nefndina að hún tæki afstöðu til einkunna sem kæranda voru gefnar í áðurnefndum námskeiðum sem og áminningar sem honum var gefin. Með bréfi deildarforseta myndlistardeildar LHÍ, dags. 22. júní 2020, var kæranda tilkynnt sú niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta ákvörðun rektors og lögfræðings skólans til kæranda, sbr. bréf dagsett 18. desember 2019. Í bréfinu er ákvörðunin rökstudd á þann veg að í þessu tiltekna máli hafi skólinn ekki brotið á rétti kæranda. Kæranda hefði mátt vera það ljóst við upphaf málsins að það samræmdist ekki akademískum vinnubrögðum að skila sömu ritgerð í tveimur mismunandi námskeiðum, tvívegis. Nefndin teldi að aðilar innan skólans, kennarar og deildarforseti sviðslistadeildar hafi gefið nemandanum fullnægjandi skýringar í málinu og einnig tækifæri til þess að skila nýjum ritgerðum.

III.

Málsástæður kæranda

Í kæru vísar kærandi til þess að í áminningunni sem honum var veitt hafi hvergi verið vísað í formlegar reglur skólans. Sama eigi við um munnleg samskipti við deildarstjóra. Það eina sem vísað hafi verið til séu óskráðar siðavenjur og að kærandi hafi farið á svig við það sem teldist sanngjarnt og heiðarlegt. Rétt er að taka fram að engin gögn liggja fyrir áfrýjunarnefndinni um téða áminningu, önnur en frásögn kæranda í kæru til úrskurðarnefndar um réttindamál nemenda hjá LHÍ.

Kærandi bendir á að í siðareglum LHÍ sé vísað til reglna RANNÍS um vandaða starfshætti og siðferði í vísindum og rannsóknum, en þar komi hvergi fram að óheimilt sé að endurnýta eigin hugverk. Þar sem ekki hafi verið vísað í skráðar reglur af hálfu LHÍ byggi áminningin einungis á huglægu sanngirnismati deildarstjóra.

Þá vísar kærandi til þess að samkvæmt 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 séu stjórnvaldsákvarðanir endanlegar og bindandi. Kærandi byggir á því að reglur stjórnsýsluréttar eigi við um LHÍ. Kærandi bendir á að sá þáttur háskólastarfsemi er varðar einkunnagjöf og réttindi nemenda sé ekki einkaréttarlegur þvert á móti fari hann fram á sömu forsendum, á grundvelli sömu laga og lúti sama eftirliti og opinberir háskólar.

Þá vísar kærandi til þess að samkvæmt e-lið 2. gr. reglna nr. 1067/2006 um viðurkenningu háskóla, sem settar hafa verið á grundvelli 3 gr. laga nr. 63/2006 um háskóla, skuli reglur um inntökuskilyrði nemenda vera í samræmi við 19. gr. laganna. Reglur um réttindi og skyldur nemenda skuli taka mið af málsmeðferðarreglu 20. gr. laga um háskóla og að því er tekur til ríkisrekinna háskóla skuli þær vera í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993. Reglur annarra háskóla skuli vera í samræmi við málefnalega stjórnsýslu og meginreglur stjórnsýsluréttar, eftir því sem við getur átt. Þá kemur fram í kæru að af þessu megi ráða að það sé skylda LHÍ að setja sér reglur sem samræmast málefnalegri stjórnsýslu og meginreglum stjórnsýsluréttar. Í því sambandi vísar kærandi til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1852/1996 þar sem fram kemur að breyting einkunna vegna atriða sem síðar komi til sé óheimil. Í því samhengi vísar kærandi til þess að enginn fyrirvari var gerður þegar honum var gefin einkunn í umræddum námskeiðum, né sé heimild til endurákvörðunar einkunna í reglum skólans.

Ennfremur vísar kærandi til þess að hann telji að viðmið ECTS einingakerfisins um vinnuframlag og vinnustundir séu aðeins viðmið sem LHÍ eigi að hafa að leiðarljósi við gerð námsmats en ekki sem skilyrði fyrir vinnuframlagi nemenda. Þar sem kærandi hafi skilað einni ritgerð sem var fullnægjandi í tveimur áföngum innan skólans, telur kærandi það fremur til marks um óvandaða námskrá sem styðjist ekki við einingakerfið. LHÍ eigi að bera hallann af þeim annmörkum en ekki kærandi.

Kærandi vísar einnig til þess að hann telji að LHÍ hafi uppfært skólareglur sínar á milli ára, þ.e. þann 23. júní sl. hafi 19. gr. skólareglnanna 2020/2021 verið uppfærð þannig að hún innihaldi nú nýtt ákvæði um „Verkefni og ritgerðir“ sem hvergi hafi verið að finna í eldri útgáfum skólareglnanna 2018/2019 og 2019/2020. Með þessu telur kærandi að LHÍ viðurkenni bresti sína í málinu og að slíkar reglur hafi ekki átt við þegar hann skilaði sínum ritgerðum.

Samkvæmt framansögðu byggir kærandi á því að reglur stjórnsýsluréttarins, um ákvarðanir um réttindi hans og skyldur, sé endanleg og bindandi líkt og fram komi í 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Þessu til frekari stuðnings vísar kærandi til reglna um nr. 1067/2006 þar sem fram kemur að reglur LHÍ skuli vera í samræmi við málefnalega stjórnsýslu. Að mati kæranda vega þær reglur þyngra en óskráðar siðavenjur og sanngirnisrök.

Í athugasemdum kæranda við umsögn LHÍ, dags. 19. ágúst 2020, vísar kærandi til þess að hann sé óánægður með að LHÍ dragi réttarstöðu hans í efa vegna þess að hann hafi þegar skilað umræddum ritgerðum. Skólinn hafi alltaf lagt mikið upp úr því að málið sé fordæmisgefandi og því sé mikilvægt að rétt niðurstaða fáist í málið. Kæranda hafi verið gefnir afarkostir að skila ritgerðunum eða taka sér hlé frá námi.

Þá ítrekar kærandi að hvergi í reglum skólans sé heimild til endurskoðun einkunna og ekki sé í umsögn LHÍ vísað til neinna reglna sem heimila slíkt, annað en sjónarmiða um málefnalega stjórnsýslu. Kærandi telur að meginregla stjórnsýsluréttarins um að ákvarðanir séu endanlegar og bindandi vegi þyngra en óskilgreind viðmið um málefnalega stjórnsýslu. Þá ítrekar kærandi að meðan að mál hans var til meðferðar hafi LHÍ bætt inn nýrri reglu í skólareglur skólans í 19. gr. þeirra þar sem fram komi að skila þurfi sérstöku verkefni fyrir hvern áfanga. Þetta telur kærandi undarlegt í ljósi þess að skólinn hafi lagt mikið upp úr því að málið væri fordæmisgefandi en breyti reglunum á meðan mál hans er til úrlausnar. Með þessu viðurkenni LHÍ bresti sína í málinu, enda hafi skólinn ekki bent á neitt nema óskráðar reglur, sem nú sé búið að setja.

Í tilefni af fullyrðingu LHÍ um að skólinn sé ekki stjórnvald þá bendir kærandi á að starfsemi skólans fari eftir lögum og reglugerðum um háskóla og hann sé að hluta til rekinn fyrir opinbert fé. Þá taki LHÍ ákvarðanir sem hafi bindandi áhrif á réttindi og skyldur nemenda sinna. Í þessu sambandi vísar kærandi til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4417/2005 þar sem talið var að Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma, sem séu sjálfseignarstofnun, þyrftu að lúta meginreglum sem gilda um stjórnsýsluna.

Þá ítrekar kærandi að viðmið ECTS einingakerfisins um vinnuframlag hvers og eins nemanda sé leiðbeinandi fyrir LHÍ til þess að gera námskrár og þurfi skólinn að bera hallan af námskrám sem bjóða upp á það að ritgerðir séu fullnægjandi í tveimur aðskildum áföngum.

Að lokum tekur kærandi fram að hann telji málið einfalt. Hann hafi skilað fullnægjandi ritgerðum í hvorum áfanga og fengið staðið fyrir. Mörgum mánuðum síðar, þegar kærandi hafi verið búinn að skrá sig úr námi, og síðar verið endurritaður aftur inn í skólann, hafi verið gerðar athugasemdir við ritgerðaskilin án þess að nokkurn tímann hafi verið vísað til skráðra reglna.

IV.

Málsástæður Listaháskóla Íslands

LHÍ krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.

LHÍ vísar til þess að skólinn sé rekinn sem sjálfseignarstofnun sem hlotið hefur viðurkenningu ráðherra sem háskóli samkvæmt 3. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla. Sem slíkum beri skólanum, auk ákvæða laga nr. 63/2006, að virða þær reglur og þau alþjóðlegu viðmið um háskólastarfsemi sem slík viðurkenning er byggð á, þar á meðal alþjóðleg viðmið um námseiningar og prófgráður, sbr. enn fremur reglur nr. 1067/2006 um um viðurkenningu háskóla á grundvelli 3. gr. laga nr. 63/2006 og reglur nr. 1368/2018 um eftirlit með gæðum og kennslu rannsókna í háskólum.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 63/2006 skuli kennsla fara fram í námskeiðum sem metin séu í stöðluðum námseiningum. Að jafnaði svari 60 námseiningar til fulls náms á ársgrundvelli og endurspegli alla námsvinnu nemenda. Námi á háskólastigi skuli ljúka með prófgráðu eða öðru lokaprófi sem veitt sé þegar nemandi hafi staðist próf í öllum námskeiðum og skilað með fullnægjandi árangri þeim verkefnum sem áskilin eru. Við útskrift skuli nemendur fá viðauka með prófskírteinum. Í samræmi við 19. gr. laganna hafi LHÍ sett sér skólareglur þar sem fram komi m.a. skýr viðmið um fjölda vinnustunda að baki hverri námseiningu. Samkvæmt 21. gr. reglnanna skuli hver stöðluð námseining jafngilda 25-30 klukkustundum í vinnu fyrir nemanda. Sé það í samræmi við alþjóðleg viðmið þar um.

LHÍ tekur fram að ágreiningslaust sé að kærandi hafi tvívegis lagt fram til námsmats í tveimur aðskildum námskeiðum sömu ritgerð, fyrst á haustönn 2018 og svo aftur á vorönn 2019. Eðli máls samkvæmt hafi kærandi því ekki lagt af mörkum þá vinnu í þessum námskeiðum sem einingafjöldi þeirra sé miðaður við samkvæmt framangreindum reglum skólans. Í samræmi við það hafi LHÍ tekið þá ákvörðun að gera kæranda að skila nýjum ritgerðum í hlutaðeigandi námskeiðum til að standast námsmat í þeim. Við þessum tilmælum hafi kærandi ekki orðið. Hann hafi því enn sem komið er ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar séu til námsmats hlutaðeigandi námskeiða í samræmi við einingafjölda þeirra samkvæmt fyrrgreindum reglum.

Þá er tekið fram í athugasemdum LHÍ að kæran sé reist á því sjónarmiði að reglur stjórnsýsluréttarins um bindandi réttaráhrif stjórnvaldsákvarðana hafi staðið því í vegi að skólinn hafi getað endurskoðað ákvarðanir sínar um námsmat kæranda eftir að þær voru tilkynntar honum, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af þessu tilefni er tekið fram að LHÍ sé ekki stjórnvald og ákvarðanir skólans um námsmat falli því ekki undir gildissvið stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt er bent á að reglur stjórnsýslulaga girði ekki fyrir endurskoðun stjórnvaldsákvarðana eftir að þær hafa verið tilkynntar aðila máls heldur hafi lögin að geyma sérstök fyrirmæli um málsmeðferð við slíka endurskoðun sem sé að finna í 24. og 25. gr. þeirra. Álit umboðsmanns Alþingis sem kærandi vísi til lúti að því að þessum reglum hafi ekki verið fylgt við endurskoðun þeirra ákvarðana sem þar voru til umfjöllunar. Umræddar reglur gildi þó sem fyrr segir ekki um námsmat við LHÍ.

Þá er tekið fram að endurskoðun skólans á ákvörðunum um námsmat kæranda hafi verið í fullu samræmi við lög og reglur LHÍ og þau sjónarmið um málefnalega stjórnsýslu sem skólanum beri að virða við úrlausn um réttindi og skyldur nemenda sinna. Þannig hafi kæranda á öllum stigum gefist kostur á að tjá sig um efni þess og tekin rökstudd afstaða af hálfu skólans til sjónarmiða hans auk þess sem honum hafi gefist kostur á að skjóta máli sínu til endurskoðunar hjá úrskurðarnefnd í réttindamálum nemenda sem hafi fjallað um málið í samræmi við reglur skólans. Engar efnislegar athugasemdir séu gerðar við málsmeðferð nefndarinnar í kæru kæranda.

Þá er áréttað að ekki sé um að ræða breytingu á námsmati kæranda á grundvelli sömu upplýsinga og fyrir lágu við fyrra námsmat, líkt og í þeim úrlausnum umboðsmanns Alþingis sem kærandi vísi til, heldur endurupptöku fyrra námsmats með vísan til nýrra upplýsinga sem leitt hafi í ljós að fyrra mat var reist á efnislega röngum forsendum. Kærandi hafi fengið tækifæri til að tjá sig um þessar nýju upplýsingar og staðfest að þær séu réttar.

Þá vísar LHÍ til þess að af kærunni verði ráðið að hún sé einnig reist á því sjónarmiði að þær efnisreglur sem hin kærða ákvörðun byggist á séu ekki nægilega skýrar um að ekki sé heimilt samkvæmt þeim að leggja tvívegis fram sömu ritgerð til námsmats í tveimur aðskildum námskeiðum. Af þessu tilefni tekur LHÍ í fyrsta lagi fram að reglur um vinnuframlag nemenda að baki hverri staðlaðri námseiningu séu að mati skólans fyllilega skýrar í reglum skólans sem séu í samræmi við og eigi sér stoð í ákvæðum laga nr. 63/2006. Í öðru lagi leiki enginn vafi á að þessar reglur beri að túlka svo að um sjálfstætt vinnuframlag skuli vera að ræða í hvert sinn og að ekki sé því unnt að nýta vinnu sem metin hefur verið til eininga í einu námskeiði aftur til mats á einingum í öðru námskeiði vegna sömu prófgráðu. Að mati skólans séu þær reglur sem hin kærða ákvörðun er reist á því fyllilega skýrar um að óheimilt sé samkvæmt þeim að veita nemanda tvívegis einingar vegna sama vinnuframlags.

Þá vísar LHÍ til viðmiða um akademísk vinnubrögð sem ætlast megi til að nemendur á háskólastigi þekki og virði. Þótt hin kærða ákvörðun hafi samkvæmt framansögðu verið reist á og leiði af ákvæðum laga nr. 63/2006 og reglum skólans sem settar séu á grundvelli þeirra sé hún jafnframt í samræmi við viðurkennd viðmið um akademísk vinnubrögð sem skólanum ber að hafa í heiðri. Það sé mat LHÍ að það samrýmist ekki þessum viðmiðum að ritgerð sem unnin hefur verið og lögð fram til mats í einu námskeiði sé síðar lögð fram til mats í öðru námskeiði án samráðs við hlutaðeigandi kennara. Að mati skólans megi nemanda á háskólastigi vera það ljóst hvað sem öðru líði að ætlast sé til sjálfstæðs vinnuframlags í hverju námskeiði í samræmi við einingafjölda þess.

Þá er í andmælum LHÍ bent á að kærandi hafi þegar skilað þeim ritgerðum sem málið snýr að og geti því hafið nám á þriðja ári nú í haust. Það sé lagt í hendur nefndarinnar að meta hvaða áhrif sú staða hafi á lögvarða hagsmuni kæranda í máli þessu. Að lokum er áréttað að það sé ekki hlutverk áfrýjunarnefndarinnar að endurmeta faglega niðurstöðu kennara, dómnefnda eða prófdómara, sbr. 3. mgr. 20. gr. laga nr. 63/2006.

Varðandi þá staðreynd að kærandi hafi þegar skilað nýjum ritgerðum í þeim námskeiðum sem kæran lýtur að og hlotið nýtt námsmat á þeim grundvelli minnir LHÍ á að eins og kærandi hafi afmarkað kæruefnið lúti það að því að ákvörðun skólans þess efnis að kærandi skuli skila nýjum ritgerðum í hlutaðeigandi námskeiðum verði hnekkt og fyrra námsmat skuli standa. Í ljósi þess að nýtt námsmat hefur nú farið fram á grundvelli nýrra ritgerða sem þegar hefur verið skilað í samræmi við þá ákvörðun sem kærandi krefst ógildingar á verður ekki séð að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn þessarar kröfu.

Að gefnu tilefni tekur LHÍ fram að kæranda hafi verið veittur kostur á að skila nýjum ritgerðum án þess að sitja hlutaðeigandi námskeið að nýju og án þess að málið hefði aðrar afleiðingar fyrir nám kæranda. LHÍ geti því ekki tekið undir þá afstöðu kæranda að honum hafi verið settir afarkostir í námi sínu. Þvert á móti hafi kæranda verið sýndur sveigjanleiki og að leiða hafi verið leitað til að leysa mál kæranda með sem minnst íþyngjandi hætti fyrir hann. Slíkur sveigjanleiki nái eðli máls samkvæmt ekki til þess að heimila kæranda að ljúka námi sínu og hljóta prófgráðu frá skólanum án þess að inna af hendi það vinnuframlag og ná þeim lærdómsviðmiðum sem liggja hlutaðeigandi gráðu til grundvallar.

Að síðustu telur LHÍ það hafið yfir allan vafa að skólum sem veita prófgráður á háskólastigi sé bæði rétt og skylt að endurskoða námsmat nemanda ef í ljós komi að nemandi hafi ekki fylgt þeim reglum sem um námið gilda við úrlausn verkefna. Augljóst sé að einkunn nemanda sem ekki hafi fylgt reglum sem gilda um próf, t.d. með því að leita sér óheimillar aðstoðar við úrlausn þess, verður ekki látin standa ef upp kemst um slíkt misferli síðar. Sömu sjónarmið gildi um úrlausn annarra verkefna sem séu grundvöllur námsmats, þ.m.t. um ritgerðir. Fjöldi dæma sé um að prófgráður hafi verið afturkallaðar jafnvel mörgum árum eftir að þær voru veittar ef í ljós komi að nemandi hafi ekki fylgt reglum um námið. Slík viðbrögð við akademískum frávikum séu ekki aðeins heimil heldur nauðsynleg ef prófgráður sem veittar eru á háskólastigi eiga að vera marktækar.

LHÍ bendir á að kærandi hafi ekki borið annað fyrir sig en að hann eigi kröfu um að halda fyrra námsmati þar sem ekki hafi komist upp um brot hans áður en námsmatið fór fram. Ljóst er að vægi prófgráða frá LHÍ yrði ekkert ef staðan væri sú að nemendur skólans þyrftu ekki að fylgja þeim reglum sem gilda um veitingu prófgráða ef þeim tækist að sniðganga þær. Með engu móti sé hægt að fallast á þessa afstöðu kæranda. Það sé grundvallarforsenda fyrir öllum háskólagráðum að til grundvallar veitingu þeirra liggi vinnuframlag nemenda í samræmi við þær reglur sem gilda um hlutaðeigandi gráðu. Þetta grundvallarsjónarmið eigi við um nám í LHÍ jafnt sem aðra háskóla, þar á meðal þann erlenda háskóla sem kærandi hyggi á nám í á komandi haustmisseri.

V.

Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa snýr að þeirri ákvörðun LHÍ að gera kæranda að skila að nýju ritgerðum í tveimur námskeiðum. Kærandi telur að honum sé óskylt að skila nýjum ritgerðum og krefst þess að fyrri ákvarðanir um einkunnagjöf í námskeiðunum skuli standa. Fyrir liggur að kærandi hefur þegar skilað umræddum ritgerðum að nýju og hlotið nýtt námsmat á þeim grundvelli.

Með hliðsjón af framangreindu kemur fyrst til skoðunar hvort kærandi hafi lögvarða hagsmuni af niðurstöðu máls þessa eða hvort þeir hafi liðið undir lok þegar hann skilaði nýjum ritgerðum og stóðst þar með námsmat í umræddum námskeiðum.

Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema starfar samkvæmt 20. gr. laga um háskóla nr. 63/2006 og reglum nr. 550/2020 um störf áfrýjunarnefndarinnar. Samkvæmt framangreindri 20. gr. laga um háskóla gilda ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um stjórnsýslukærur um málskot til nefndarinnar.

Í VII. kafla laganna, nánar tiltekið í 1. mgr. 26. gr., er að finna almenna kæruheimild þar sem segir að aðila sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Í umfjöllun um VII. kafla stjórnsýslulaga í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laganna segir m.a:

Til þess að stuðla að því að ákvarðanir stjórnvalda séu réttar er oft reynt að haga uppbyggingu stjórnkerfisins með þeim hætti að hægt sé að fá stjórnvaldsákvarðanir endurskoðaðar hjá öðrum aðilum en stjórnvaldi því er ákvörðunina tók. Eitt af úrræðunum er nefnt stjórnsýslukæra. Með stjórnsýslukæru er átt við það réttarúrræði að aðili máls eða annar sá sem á kærurétt skjóti stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds sem þá sé skylt að endurskoða ákvörðunina.

Stjórnsýslukæra hefur að sumu leyti kosti umfram þá leið að bera mál undir dómstóla. Má þar nefna að kæra er ódýr, skilvirk og fremur einföld leið til þess að fá ákvörðun endurskoðaða. Þá hafa æðri stjórnvöld yfirleitt tiltölulega rúma heimild til þess að taka afstöðu til mats lægri stjórnvalda, auk þess sem þau hafa ekki einasta heimild til þess að fella ákvörðun niður, heldur oftast að auki vald til þess að taka nýja ákvörðun í staðinn.

Almennt hefur verið viðurkennt hér á Íslandi að sú óskráða réttarregla gildi að heimilt sé að kæra ákvörðun til æðra stjórnvalds sé æðra stjórnvald á annað borð til staðar. Þessi regla er þó ekki án undantekninga.

Í samræmi við framangreindar athugasemdir hefur verið talið að ganga verði út frá því að þeir aðilar sem eigi beinna, sérstakra og verulegra lögvarinna hagsmuna að gæta við úrlausn máls eigi kæruaðild.

Þótt sú grundvallarregla hafi ekki verið lögfest hefur það verið álitið eitt meginskilyrði fyrir því að stjórnvöld leysi úr stjórnsýslumáli að aðili máls hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn þess. Þannig þarf úrlausnin að hafa þýðingu fyrir stöðu aðilans að lögum, en við mat á því verður þó almennt að gæta töluverðar varfærni og m.a. hefur almennt verið talið að fyrir þurfi að liggja með nokkuð skýrum hætti að úrlausn ágreinings hafi ekkert raunhæft gildi fyrir aðila svo unnt sé með réttu að fullyrða að hann hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausninni. Sjá m.a. álit umboðsmanns Alþingis 31. október 2013 í máli nr. 7075/2012.

Í málinu liggur fyrir að kærandi hefur þegar skilað umræddum ritgerðum og hlotið námsmatið staðist. Áfrýjunarnefndin fær ekki séð að úrlausn málsins hafi, eða kunni að hafa, raunhæft gildi fyrir kæranda enda mun niðurstaða um kröfu kæranda ekki breyta réttarstöðu hans. Með hliðsjón af því er það niðurstaða áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema að vísa frá kröfu kæranda um að fyrri ákvarðanir um einkunnagjöf ritgerða í námskeiðunum „Sviðslistasaga“ og „Sviðslistir og saga ismanna“ skuli standa.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu kæranda, um að fyrri ákvarðanir um einkunnagjöf vegna ritgerða í námskeiðunum „Sviðslistasaga“ „Sviðslistir og saga ismanna“ skuli standa, er vísað frá nefndinni.

Einar Hugi Bjarnason

Dagmar Ösp Vésteinsdóttir                                                          Eva Halldórsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira