Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 1/2022 - Úrskurður

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Rangárþingi eystra

 

Ráðning í starf. Mismunun á grundvelli fötlunar. Stjórnvald. Hæfnismat.

A, sem er með fötlun, kærði ákvörðun R um að falla frá ráðningu í starf deildarstjóra VISS og í framhaldinu ráða einn umsækjandann tímabundið í starfið. Taldi A að með þessum ákvörðunum hefði R brotið gegn lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði. Að mati nefndarinnar hafði ekki verið sýnt fram á að kæranda hefði verið mismunað á grundvelli fötlunar við umræddar ákvarðanir. Var því ekki fallist á að R hefði gerst brotlegur við lög nr. 86/2018.

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 24. október 2022 er tekið fyrir mál nr. 1/2022 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
 2. Með kæru, dags. 15. febrúar 2022, kærði A ákvörðun Rangárþings eystra um að falla frá ráðningu í starf deildarstjóra VISS á Hvolsvelli og ráða einn umsækjandann í tímabundið starf. Kærandi telur að með þessu hafi Rangár­þing eystra brotið gegn lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði.
 3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 21. mars 2022. Greinar­gerð kærða barst með bréfi, dags. 12. apríl 2022, án tilgreindra fylgiskjala. Kæru­nefndin vakti athygli kærða á því með bréfi daginn eftir en gögnin bárust 28. s.m. Greinargerð kærða ásamt fylgiskjölum var kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 2. maí 2022. Með bréfi, dags. 22. september 2022, óskaði kærunefndin eftir frekari upplýsingum frá kærða. Svar kærða barst nefndinni með bréfi, dags. 29. september sl. Bréfið var sent kæranda til upplýsinga 20. október 2022. Svör kæranda bárust sama dag og daginn eftir.

   

  MÁLAVEXTIR

   

 4. Kærði auglýsti starf deildarstjóra hjá VISS, vinnu- og hæfingarstöð, á Hvolsvelli. Umsóknarfrestur var til 20. desember 2021 en var framlengdur til 10. janúar 2022. Í auglýsingu kom fram að starfshlutfall væri 55% en gæti aukist með vorinu. Þá kom fram að VISS væri vinnustaður fyrir fólk með skerta starfsgetu þar sem unnið væri eftir hugmyndafræði um þjónandi leiðsögn og sjálfstætt líf. Tekið var fram að deildar­stjóri starfaði samkvæmt lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með lang­var­andi stuðningsþarfir, og lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, og viðeig­andi reglugerðum. Helstu verkefni starfsins voru tilgreind sem daglegt utanumhald og rekstur starfseminnar, starfsmannahald, mótun stefnu og markmið þjónustunnar í samráði við forstöðumann og verkefnaöflun, þar sem verkefni væru við hæfi hvers og eins. Þá voru helstu markmið starfsins sögð faglegt starf með fötluðu fólki, að leiðbeina, styðja og hvetja, skapa öryggi og vellíðan á vinnustað og efla sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs fólks. Varðandi hæfniskröfur var gerð krafa um menntun í þroskaþjálfun eða háskólapróf (BA/BS) á sviði uppeldis- eða félagsvísinda, reynslu af stjórnun og starfs­mannahaldi, leiðtoga- og skipulagshæfileika, frumkvæði og sjálfstæði í starfi, hæfni í mannlegum samskiptum og jákvæðni og góða þjónustulund. Jafnframt var tekið fram að almenn tölvukunnátta væri æskileg.
 5. Fjórar umsóknir bárust um starfið og var öllum umsækjendum boðið í viðtal, þ.m.t. kæranda. Með bréfi kærða, dags. 2. febrúar 2022, var tilkynnt að ákveðið hefði verið að falla frá fastráðningu í starf deildarstjóra VISS á Hvolsvelli að svo stöddu þar sem enginn umsækjenda uppfyllti fyllilega skilyrði auglýsingar og bjóða starfandi leið­beinanda hjá VISS á sama stað, sem hefði m.a. leyst deildarstjóra af í hans fjarveru, tíma­bundið starf til eins árs en starfið yrði auglýst að nýju að þeim tíma liðnum. Jafn­framt var beðist velvirðingar á ótímabærum tölvupósti frá forstöðuþroskaþjálfa VISS á Selfossi þar sem ráða mátti að um fastráðningu leiðbeinandans í umrædda stöðu deildar­stjóra hefði verið að ræða. Var tekið fram að ábyrgð á ráðningunni væri hjá kærða.

   

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA

   

 6. Af kæru má ráða að kærandi telji að ákvörðun kærða um að falla frá ráðningu í starf deildarstjóra VISS á Hvolsvelli, sem var auglýst laust til umsóknar, og að ráða einn umsækjanda tímabundið í starfið feli í sér ólögmæta mismunun á grundvelli fötlunar, sbr. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði. Bendir kærandi á að hún hafi upplifað fötlunarfordóma í umsóknarferlinu og við töku ákvörðunarinnar. Þannig hafi ekki verið farið eftir kröfum þeim sem fram koma í auglýsingu. Hafi kröfunum verið breytt eftir á og sé því um geðþóttaákvörðun að ræða.
 7. Bendir kærandi á að hún hafi beðið um fund áður en hún sótti um starfið til að tryggja áheyrn um eigin getu og vangetu vegna fötlunar sinnar. Í framhaldinu hafi hún fengið símtal við forstöðuþroskaþjálfa VISS sem hafi mætt kæranda með hroka og ráðið henni frá því að sækja um. Kærandi hafi fengið á tilfinninguna að kærði teldi starfið ekki fyrir hana þar sem forstöðuþroskaþjálfinn sagði starfið fela í sér „mikið líkamlegt erfiði“. Aftur á móti taldi kærandi ekki ráðið af auglýsingunni að starfið fæli í sér líkamlega vinnu eða gerði kröfu um líkamlegan styrk. Kærandi tekur fram að í viðtalinu hafi forstöðuþroskaþjálfinn svarað fyrir hennar hönd, til að mynda um það hvernig kærandi hygðist sinna aðilum sem kæmu í hjólastól, aðstoða fatlaða starfsmenn VISS og starfa ein með þeim.
 8. Kærandi heldur því fram að hún sé hæfari en sá umsækjandi sem var ráðin í tíma­bundna stöðu deildarstjórans og að ráðningin sé ekki í samræmi við útlistaðar hæfnis­kröfur auglýsingarinnar. Kærandi sé með nokkrar háskólagráður, þ.e. viðbótardiplómu B.Ed. á sviði almennrar fötlunarfræði og B.Ed. á sviði opinberrar stjórnsýslu frá Há­skóla Íslands og BA-gráðu í ferðamálafræði frá Háskólanum á Hólum, með áherslu á ferðalög fatlaðs fólks á Íslandi auk þess að hafa lokið námi í nýsköpun og frumkvöðlafræði við Háskólann í Reykjavík. Þá sé kærandi menntaður bóndi frá Landbúnaðarskóla Íslands og með iðnskólapróf. Sú sem var ráðin hafi aftur á móti enga háskólamenntun. Þá starfræki kærandi búrekstur og ferðaþjónustu með þrjá starfs­menn og sá rekstur gangi vel.
 9. Að lokum bendir kærandi á ákvæði 3. mgr. 22. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sem kveður á um að fatlað fólk skuli eiga forgang að störfum hjá ríki og sveitarfélögum ef hæfni þess til starfsins er meiri eða jöfn hæfni annarra sem um starfið sækja.

   

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA

   

 10. Kærði vísar því á bug að hafa brotið gegn lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, við ákvörðun um að falla frá ráðningu í starf deildarstjóra og um tímabundna ráðningu og krefst þess að kærunefnd jafnréttismála hafni kærunni.
 11. Kærði tekur fram að enginn umsækjenda hafi uppfyllt allar þær hæfniskröfur sem komu fram í auglýsingu og eigi það einnig við um kæranda. Þrátt fyrir það hafi öllum umsækjendum verið boðið í viðtal. Framkvæmd viðtala hafi verið í höndum forstöðuþroskaþjálfa VISS á starfssvæði Bergrisans bs., oddvita Rangárþings eystra, í fjarveru sveitarstjóra, og fráfarandi deildarstjóra VISS á Hvolsvelli sem var viðstaddur viðtölin í gegnum fjarfundabúnað. Eftir gagngera skoðun umsóknargagna og viðtöl við umsækjendur hafi verið ákveðið að falla frá fastráðningu í starfið.
 12. Á hinn bóginn taldi kærði sig ekki hafa haft aðra kosti í stöðunni en að bjóða einum umsækjendanna, starfandi leiðbeinanda hjá VISS á Hvolsvelli sem hafði að auki leyst fyrri deildarstjóra af í fjarveru hans, tímabundið starf deildarstjóra til eins árs. Hafi verið afar brýnt að halda starfseminni gangandi svo tryggja mætti áframhaldandi þjónustu og stuðning við skjólstæðinga VISS á Hvolsvelli, enda hafi fyrri deildarstjóri verið hættur störfum. Kæranda, sem og öðrum umsækjendum, hafi verið tilkynnt um þessa ákvörðun með bréfi, dags. 2. febrúar 2022, þar sem jafnframt var beðist velvirðingar á því að tölvupóstur hefði verið sendur til umsækjenda og ranglega greint frá því að umræddur umsækjandi hefði verið fastráðinn í starfið. Þá var upplýst með bréfinu að starf deildarstjóra yrði auglýst á ný að ári liðnu.
 13. Kærði bendir á að sú sem hafi verið ráðin í tímabundið starf deildarstjóra hafi starfað sem leiðbeinandi hjá VISS á Hvolsvelli frá ágúst 2021. Hún hafi víðtæka reynslu af starfi með börnum og fólki með fötlun auk reynslu af stjórnun. Hún hafi ekki lokið háskólaprófi og uppfylli því ekki menntunarskilyrði samkvæmt auglýsingu en hún hafi hins vegar lokið námi við Hússtjórnarskólann í Reykjavík, námi fyrir stuðningsfulltrúa við Borgarholtsskóla og viðbótarnámi fyrir leikskólaliða frá sama skóla. Hafi hún starfað í sex ár sem stuðningsfulltrúi og leiðbeinandi við tiltekinn grunnskóla, þar sem hún hafi sinnt umsjón með 1. og 2. bekk í eina önn og heimilisfræðikennslu fyrir elstu bekkina í tvo vetur. Þá hafi hún starfað við annan grunnskóla í rúm 19 ár sem stuðningsfulltrúi á öllum skólastigum og umsjónarmaður frístundaheimilis. Þar hafi hún m.a. öðlast reynslu við að sinna börnum með fötlun. Þá hafi hún verið skólabílstjóri í þrjú ár og unnið fyrir félagsþjónustuna í Rangárþingi eystra sem stuðningsfulltrúi fyrir fjölfatlaðan einstakling.
 14. Kærði telur kæruefnið verða skilið á þá leið að kærandi telji að gengið hafi verið fram hjá henni í ráðningarferlinu vegna fötlunar eða líkamlegs atgervis hennar. Þessu hafn­ar kærði og harmar um leið að kærandi telji sig hafa orðið fyrir óréttmætri mismunun í ráðningarferlinu.
 15. Kærði hafnar því að hafa breytt hæfniskröfum eftir að starfið var auglýst. Eina breyt­ingin sem hafi verið gerð á auglýsingunni hafi verið lengd umsóknarfrests og tilvísun til tiltekins kjarasamnings. Þá hafnar kærði því að kæranda hafi verið sýndur hroki af hálfu starfsmanna kærða. Brugðist hafi verið við beiðni kæranda um samtal um starfið með símtali. Jafnframt hafnar kærði því að fötlun kæranda hafi verið ástæða þess að hún hlaut ekki starfið. Ákvörðun um að ráða ekki kæranda hafi þvert á móti verið byggð á heildstæðu mati sem var reist á málefnalegum sjónarmiðum.
 16. Kærði tekur fram að starfsemi VISS á Hvolsvelli sé, eins og tilgreint hafi verið í auglýsingu, þáttur í þjónustu sem sveitarfélagið veitir á grundvelli laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Á sveitarfélaginu hvíli þar af leiðandi skylda til þess að hafa á að skipa þroskaþjálfum til að starfa að verkefnum samkvæmt lögunum og þar sem þörf krefur skuli ráða félagsráðgjafa, iðjuþjálfa, sálfræðinga og aðra sérfræðinga til starfa, og starfsfólk sem talar íslenskt táknmál, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 38/2018. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 38/2018 segi m.a. í athugasemdum um 26. gr.: „Til að sveitarfélög geti veitt góða þjónustu og sinnt fötluðum íbúum þess er nauðsynlegt að þau búi yfir menntuðu starfsfólki í þroskaþjálfun, sem hefur reynslu og getu til að takast á við fjöl­breytt verkefni í þjónustu við fatlað fólk […]“. Eftir yfirferð á umsóknum var það mat sveitarfélagsins að enginn umsækjenda hefði uppfyllt þær kröfur sem gerðar voru í auglýsingu. Bendir kærði á að kærandi hafi til að mynda ekki virst hafa reynslu af stjórnun og starfsmannahaldi eins og gerð var krafa um. Þá hafi hún ekki heldur virst hafa reynslu af því að vinna með fólki með fötlun sem ótvírætt skiptir máli í ljósi eðlis starfsins sem felst að verulegu leyti í faglegu starfi með fötluðu fólki eins og fram komi í auglýsingu.
 17. Bendir kærði jafnframt á að líta verði til þess að einungis starfi tveir starfsmenn hjá VISS á Hvolsvelli að deildarstjóra meðtöldum og verði deildarstjóri því að ganga í fjölmörg verk til viðbótar við verkefni sem lúti að rekstri, skipulagi og stjórnun. Sem dæmi nefnir kærði að deildarstjóri verði að vera í stakk búinn að veita skjólstæðingum margháttaða aðstoð við athafnir daglegs lífs sem taki mið af einstaklingsbundnum þörfum fólks með hliðsjón af óskum þess. Þar af leiðandi sé eðlilegt, málefnalegt og í raun skylt að líta til fyrri reynslu umsækjenda af því að sinna fólki með fötlun.
 18. Tekur kærði fram að þrátt fyrir að kærandi hafi virst af umsóknargögnum ekki hafa uppfyllt áðurnefnd skilyrði um reynslu af stjórnun og starfsmannahaldi annars vegar og hins vegar vinnu með fólki með fötlun hafi henni verið boðið í viðtal eins og öðrum umsækjendum. Allir umsækjendurnir fengu sömu spurningarnar í viðtölunum sem vörðuðu þær hæfniskröfur sem gerðar voru í auglýsingu og önnur atriði sem talin voru skipta máli við ráðningu í starfið. Gafst umsækjendunum tækifæri til að greina betur frá því hvernig þeir töldu sig uppfylla þær kröfur sem gerðar voru til starfans, s.s. varðandi menntun og starfsreynslu.
 19. Kærði tekur fram að enginn vafi hafi leikið á því að kærandi sé vel menntuð og mörgum kostum búin. Hún hafi komið vel fyrir í viðtalinu, svarað skýrt og skilmerkilega og sýnt starfinu áhuga. Á hinn bóginn hafi hún ekki getað tilgreint frekari reynslu af stjórnun og starfsmannahaldi né heldur reynslu af því að vinna með fötluðu fólki þótt hún hafi vissulega búið yfir reynslu og hafi lokið prófi í fötlunarfræði. Bendir kærði á að kærandi hafi greint frá því í viðtali að hún hefði starfrækt ferðaþjónustu sem þjónustaði m.a. fatlað fólk. Hefði hún ekki lagt mikla áherslu á þá reynslu í umsókninni en sagt frá því í viðtalinu að hún hefði litla reynslu af því að vinna með fötluðu fólki. Þá var talið að reynsla hennar sem bóndi og rekstraraðili ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk jafnaðist ekki á við reynslu af stjórnun og starfsmannahaldi sem sveitarfélagið horfði til en kærandi hefði sjálf sagt að reynslan hefði aðallega snúið að bústörfum heima fyrir. Áréttar kærði að ekki hafi verið tilgreint með berum orðum í auglýsingu að reynsla af starfi með fötluðu fólki væri á meðal helstu verkefna og hæfniskrafna í starf deildarstjóra. Hins vegar hafi komið fram í auglýsingu að helstu markmið starfsins væru m.a. „faglegt starf með fötluðu fólki“ og að „efla sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs fólks“.
 20. Fötlun kæranda hafi borið á góma við ráðninguna en hún hafi ekki ráðið úrslitum. Skráð sé í viðtalsgögnum að líkamlegt atgervi kæranda væri henni til trafala en þau orð verði að setja í samhengi við staðreyndir málsins og það sem kærandi sagði sjálf í umsókn og viðtali. Áréttar kærði að um sé að ræða lítinn vinnustað sem býr að auki við takmarkað fjárhagslegt bolmagn og að þar þurfi stjórnendur einnig að ganga í almenn störf, eftir því sem þörf krefur hverju sinni. Í slíkum verkum reyni óhjá­kvæmi­lega á líkamlegt atgervi starfsmanna, t.d. þegar aðstoða þarf fatlaðan einstakling við að komast á salerni eða við aðrar athafnir daglegs lífs. Með þetta í huga var það mat kærða að ekki væri unnt að ráða kæranda að óbreyttu nema tryggt væri að á öllum stundum væri til staðar annað starfsfólk sem gæti sinnt þeim verkum sem við blasti að líkamlegt atgervi kæranda réði ekki við. Kærði hefði því þurft að ráða tvo starfsmenn í stað eins en slík ráðstöfun hefði hvorki samræmst fjárhagslegu bolmagni né stærð vinnustaðarins. Af þeim sökum var það mat kærða að honum hafi ekki verið skylt sam­kvæmt 10. gr. laga nr. 86/2018 að grípa til ráðstafana svo hægt yrði að ráða kæranda í starfið.
 21. Tekur kærði fram að gert hafi verið ráð fyrir fastráðningu þegar starfið hafi verið aug­lýst enda leitað eftir einstaklingi sem gæti leitt starf VISS til framtíðar. Ákvörðun um að ráða engan úr hópi umsækjenda í starfið hafi byggst á þeirri málefnalegu ástæðu að enginn umsækjenda hafi fyllilega uppfyllt hæfniskröfur starfsins. Þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt allar hæfniskröfur í auglýsingu hafi ekki verið þörf á að framkvæma sér­stakt hæfnismat til að meta getu hennar til að sinna starfinu.
 22. Kærði tekur fram að starf deildarstjóra VISS teljist ekki til æðstu stjórnunarstaða sveitarfélagsins, þó það sé stjórnunarstaða á vinnu- og hæfingarstöðinni á Hvolsvelli. Það sé því í höndum sveitarstjóra að taka ákvörðun um ráðningu í starfið, sbr. 2. málsl. 56. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 1. mgr. 54. gr. samþykktar um stjórn sveitar­félagsins Rangárþings eystra, og velja hvaða sjónarmið tengd menntun, starfsreynslu og þekkingu á viðkomandi sviði teljist málefnaleg. Það hafi því verið veitingarvaldshafa að ákveða hvort umsækjandi kæmi ekki til greina í starfið vegna þess að hann uppfyllti ekki almenn hæfisskilyrði og lágmarkskröfur til að gegna því. Að loknu heildstæðu mati á öllum umsækjendum hafi það verið niðurstaðan að ráða engan í fast starf deildar­stjóra. Í því sambandi áréttar kærði að stjórnvöldum er heimilt að ákveða að ráða engan úr hópi umsækjenda um auglýst starf, enda byggist sú ákvörðun á málefnalegum ástæðum og þar með réttmætum sjónarmiðum, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 10689/2020, í máli nr. 9519/2017 og í máli nr. 7923/2014.

   

  NIÐURSTAÐA

   

 23. Mál þetta beinist að því hvort kærði hafi brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði við ráðningu í starf deildarstjóra VISS á Hvolsvelli. Telur kærandi að henni hafi verið mismunað á grund­velli fötlunar þegar kærði ákvað að falla frá ráðningu í starfið og ráða í framhaldinu einn umsækjandann tímabundið.
 24. Í 2. gr. laga nr. 86/2018 kemur fram að markmið laganna sé að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna, þ.e. kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, m.a. hvað varðar aðgengi að störfum, þ.m.t. við ráðningar. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna er hvers kyns mismunun á vinnumarkaði, hvort heldur bein eða óbein, vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. óheimil. Í niðurlagi ákvæðisins er tekið fram að neitun um viðeigandi aðlögun samkvæmt 10. gr. laganna teljist jafnframt mismunun. Í 8. gr. laganna er sérstaklega vikið að banni við mismunun í starfi og við ráðningu. Samkvæmt 1. mgr. er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr., sbr. þó 2. mgr. 1. gr., 10., 11. og 12. gr. Sama gildir um stöðuhækkun, stöðu­breytingu, endurmenntun, símenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnu­aðstæður og önnur starfskjör starfsmanna. Samkvæmt 10. gr. laganna skal atvinnu­rekandi gera viðeigandi ráðstafanir, sé þeirra þörf í sérstöku tilviki, til að gera fötluðum einstaklingi eða einstaklingi með skerta starfsgetu kleift að eiga aðgengi að og taka þátt í starfi, njóta framgangs í starfi eða fá þjálfun, enda séu þær ráðstafanir ekki of íþyngjandi fyrir atvinnurekandann.
 25. Í 15. gr. laga nr. 86/2018 kemur fram að ef leiddar eru líkur að því að mismunun hafi átt sér stað skuli sá sem talinn er hafa mismunað sýna fram á að ástæður þær sem legið hafi til grundvallar meðferðinni tengist ekki einhverjum af þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að fötlun hafi haft áhrif á niðurstöðu kærða um að falla frá ráðningu í starf deildarstjóra og ráða einn umsækjandann, þáverandi staðgengil deildarstjórans, tímabundið í starfið.
 26. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála gilda lögin um stjórn­sýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, þ.e. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði. Tekið er fram að lögin gildi m.a. um störf kæru­nefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttis­mála til meðferðar kærur sem til hennar er beint eftir því sem mælt er fyrir um í lögum um jafnréttismál, sbr. 1. gr., og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði þeirra laga hafi verið brotin. Jafnframt er tekið fram að komist kærunefndin að þeirri niður­stöðu að brotið hafi verið gegn lögunum sé henni heimilt í úrskurði sínum að beina fyrirmælum um tilteknar úrbætur til hlutaðeigandi aðila.
 27. Í auglýsingu um starf deildarstjóra sem liggur til grundvallar í málinu kom fram að VISS væri vinnustaður fyrir fólk með skerta starfsgetu þar sem unnið væri eftir hug­myndafræði um þjónandi leiðsögn og sjálfstætt líf. Sérstaklega var þess getið að deildar­stjóri starfaði samkvæmt lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvar­andi stuðningsþarfir, og lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, og viðeig­andi reglugerðum. Helstu verkefni voru daglegt utanumhald og rekstur starfseminnar, starfsmannahald, mótun stefnu og markmið þjónustunnar í samráði við forstöðumann og verkefnaöflun, þar sem verkefni væru við hæfi hvers og eins. Þá voru helstu markmið starfsins sögð faglegt starf með fötluðu fólki, að leiðbeina, styðja og hvetja, skapa öryggi og vellíðan á vinnustað og efla sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs fólks. Varðandi hæfnis­kröf­ur var gerð krafa um menntun í þroskaþjálfun eða háskólapróf (BA/BS) á sviði uppeldis- eða félagsvísinda, reynslu af stjórnun og starfsmannahaldi, leiðtoga- og skipulags­hæfileika, frumkvæði og sjálfstæði í starfi, hæfni í mannlegum samskiptum og jákvæðni og góða þjónustulund. Jafnframt var tekið fram að almenn tölvukunnátta væri æskileg.
 28. Í málinu liggur fyrir að öllum umsækjendum, þ.m.t. kæranda, var boðið í viðtal. Var það gert þrátt fyrir að það væri mat kærða að enginn umsækjenda hefði uppfyllt fyllilega hæfniskröfur í auglýsingu. Þá liggur fyrir að kærði framkvæmdi ekki sérstakt hæfnismat á umsækjendum, þ.m.t. kæranda, til að sinna starfinu. Vísar kærði til þess að engin þörf hafi verið á því þar sem þeir hafi ekki uppfyllt hæfniskröfurnar.
 29. Kærði hefur gert grein fyrir því að við ákvörðun um að falla frá ráðningu í starfið hafi bæði verið litið til menntunar umsækjenda og reynslu þeirra af stjórnun og starfs­mannahaldi og reynslu af því að vinna með fólki með fötlun. Hafi heildarmat á þessum þáttum ráðið niðurstöðunni. Þá hafi sá starfsmaður sem þegar starfaði hjá VISS verið best til þess fallin að viðhalda tímabundið þeirri þjónustu sem sveitarfélagið veitir. Hafi sú ákvörðun að ráða þann starfsmann því verið málefnaleg og eðlileg. Kærunefndin bendir á að þar sem ekki er mælt fyrir um þessa þætti í lögum sé það kærða að ákveða kröfur þessar í ljósi þeirra þarfa sem hann telur nauðsynlegt að uppfylla til starfrækslu þeirra verkefna sem um ræðir með hagsmuni sveitarfélagsins að leiðarljósi. Fyrir liggur að kröfur til menntunar umsækjenda og reynslu þeirra af stjórnun og starfsmannahaldi komu fram í auglýsingu um starfið. Að mati kærunefndar verður ekki betur séð en að þær hafi verið málefnalegar og í samræmi við þær kröfur til aðlögunar sem leiða af 10. gr. laga nr. 86/2018. Þá verður ekki betur séð en að sú afstaða kærða að líta til reynslu umsækjenda af því að vinna með fötluðu fólki hafi verið málefnaleg í heildarmatinu þótt ekki hafi beinlínis verið gerð krafa um slíka reynslu í auglýsingu.
 30. Af kæru má ráða að kærandi telji að hún hafi uppfyllt þær kröfur sem gerðar voru í auglýsingunni og að samanburður á menntun hennar og reynslu og þeirrar sem var ráðin í tímabundið starf deildarstjóra leiði líkur að því að henni hafi verið mismunað bæði við ákvörðunina um að falla frá ráðningu og við tímabundnu ráðninguna. Fyrir liggur að enginn umsækjendanna uppfyllti að mati kærða þær kröfur sem gerðar voru í auglýsingu um starfið. Þá taldi kærði, einkum til að tryggja áframhaldandi þjónustu­stig hjá VISS og viðhalda þeirri þjónustu sem sveitarfélagið veitir, nauðsynlegt að ráða tímabundið í starfið starfsmann sem þegar hafði starfað hjá VISS og m.a. leyst fyrri deildarstjóra af í forföllum. Þrátt fyrir að málatilbúnaður kærða fyrir nefndinni hafi ekki verið svo skýr sem skyldi verður ekki annað séð af gögnum málsins en að þetta mat kærða hafi verið málefnalegt og innan þess svigrúms sem kærði hafði við báðar þessar ákvarðanir.
 31. Með vísan til alls framangreinds verður að mati kærunefndar ekki betur séð en að mat kærða á þeim sjónarmiðum sem hann lagði til grundvallar við þá ákvörðun að falla frá ráðningu í hið auglýsta starf hafi verið málefnalegt og forsvaranlegt og innan þess svigrúms sem hann hafði. Það sama verður að telja að eigi við um ákvörðun kærða um ráðningu í tímabundið starf deildarstjóra. Telur kærunefnd því að gögn þau sem liggja fyrir í málinu leiði ekki líkur að því að við fyrrnefndar ákvarðanir hafi kæranda verið mismunað á grundvelli fötlunar, sbr. 15. gr. laga nr. 86/2018, eða að gögn málsins að öðru leyti, þar á meðal frásögn kæranda af samskiptum sínum við starfsmenn kærða og viðbrögð þeirra, auk mistaka varðandi tilkynningu um starfið, bendi til þess að meðferð málsins hafi farið gegn lögum nr. 86/2018.
 32. Samkvæmt því verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli fötlunar við ákvörðun um að falla frá ráðningu í starf deildarstjóra VISS og ráðningu tímabundið í sama starf, sbr. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr. og 10. gr., laga nr. 86/2018. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 86/2018.

 

 


 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Rangárþing eystra, braut ekki gegn lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, með ákvörðun um að falla frá ráðningu í starf deildarstjóra VISS og ráðningu tímabundið í sama starf.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Anna Tryggvadóttir

 

Ari Karlsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira