Hoppa yfir valmynd

Nr. 24/2018 - Úrskurður

Uppbót/styrkur til bifreiðakaupa

Endurkrafa

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 24/2018

Miðvikudaginn 6. júní 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. janúar 2018, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. september 2017 um að krefja kæranda um endurgreiðslu að hluta á uppbót til bifreiðakaupa.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greidda uppbót vegna kaupa á bifreið í ágúst 2016 frá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 14. september 2017, var kærandi krafin um endurgreiðslu uppbótarinnar að hluta á þeim forsendum að hún hafi selt bifreiðina í X 2017. Kærandi fór fram á frekari rökstuðning með bréfi, dags. 24. september 2017, og var hann veittur með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. október 2017.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. janúar 2018. Með bréfi, dags. 14. febrúar 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 16. mars 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. mars 2018. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. apríl 2018, var kæranda tilkynnt um að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í máli hennar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 16. apríl 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að krefja kæranda um endurgreiðslu uppbótar verði felld úr gildi.

Í kæru segir að 16. febrúar 2016 hafi kærandi sótt um uppbót/styrk til bifreiðakaupa. Þann 7. mars sama ár hafi Tryggingastofnun ríkisins samþykkt að veita henni uppbót að fjárhæð 360.000 kr. vegna kaupa á bifreið, en beiðni hennar um styrk hafi verið hafnað. Í ágúst 2016 hafi stofnunin greitt uppbótina til kæranda til kaupa á bifreiðinni X árgerð 2005.

Í yfirlýsingu, sem samin sé af Tryggingastofnun og kærandi hafi þurft að skrifa undir til að fá þá uppbót sem hún átti rétt á samkvæmt mati stofnunarinnar, segi að óheimilt sé að selja bifreiðina innan fimm ára frá veitingu uppbótar.

Fljótlega eftir að kærandi hafi keypt bifreiðina hafi farið að bera á ýmsum bilunum sem á endanum hafi leitt til þess að bifreiðin stöðvaðist. Að mati bifvélavirkja hafi það ekki svarað kostnaði að gera við bifreiðina. Það hafi verið hans mat að kostnaður við viðgerð yrði hærri en kaupverð bifreiðarinnar. Á þeirri stundu hafi því aðeins verið tveir kostir í stöðunni fyrir kæranda. Að skila bifreiðinni til endurvinnslu og fá fyrir það 20.000 kr. eða að auglýsa bílinn til sölu og freista þess að fá örlítið meira fyrir hann. Úr hafi orðið að bifreiðin hafi verið auglýst og hafi selst X 2017 á 25.000 kr.

Þann 14. september 2017 hafi Tryggingastofnun gert kröfu um að kærandi endurgreiddi 5/6 hluta uppbótarinnar eða 300.000 krónur. C félagsráðgjafi hafi 24. september 2017 ritað bréf fyrir hönd kæranda og óskað eftir skriflegum rökstuðningi stofnunarinnar fyrir ákvörðun um endurkröfu á hendur kæranda. Sá rökstuðningur hafi borist kæranda mánudaginn 23. október 2017.

Tryggingarstofnun hafi enga tilraun gert til að afla upplýsinga um það hvers vegna bifreiðin hafi verið seld. Þá hafi stofnunin ekki leiðbeint kæranda um rétt hennar til að leggja fram gögn um ástand bifreiðarinnar þegar hún hafi verið seld. Þá virðist stofnunin ekki hafa athugað hvort númer bifreiðarinnar hefði verið lagt inn hjá Samgöngustofu, en slík athugun hefði gefið Tryggingastofnun ástæðu til að rannsaka betur hvers vegna bifreiðin hefði verið seld. Kærandi telji því að stofnunin hafi hvorki fylgt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né sinnt leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart kæranda í samræmi við 7. gr. laganna. Enn fremur hafi kæranda hvorki verið gefin kostur á því að tjá sig um efni málsins áður en ákvörðun var tekin né heldur hafi henni verið tilkynnt um að stofnunin væri með mál þetta til meðferðar fyrr en eftir að ákvörðun hafði verið tekin. Fari þessi málsmeðferð stofnunarinnar augljóslega gegn 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga.

Helsti rökstuðningur Tryggingastofnunar sé sá að samkvæmt 7. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða segi að óheimilt sé að selja bifreið fyrr en fimm árum eftir veitingu uppbótar nema með sérstöku leyfi Tryggingastofnunar. Síðan segi þó einnig í ákvæðinu: „Heimilt er að víkja frá áðurgreindum tímamörkum eyðileggist bifreið á tímabilinu eða vegna andláts bótaþega.“

Reglugerð nr. 170/2009 sé sett með stoð í lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6505/2011 fjalli umboðsmaður um atvik sem að mörgu leyti séu sambærileg því máli sem [hér] sé til umfjöllunar. Í áliti sínu fari umboðsmaður yfir það að umrædd lagaákvæði feli í sér útfærslu á þeirri aðstoð sem tryggð skuli fötluðum samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og yrði því við túlkun á ákvæðum hennar að líta til þeirra markmiða sem styrkjum og uppbótum væri ætlað að ná. Umboðsmaður hafi því ekki talið forsendur til að túlka undanþáguheimildina í 5. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar, sem sé nánast samhljóða undanþáguákvæði í 7. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar, þröngt, enda yrði slík þrengjandi skýring talin ganga gegn markmiðum reglugerðarinnar.

Kærandi telji að í ljósi niðurstöðu bifvélavirkja, sem hafi skoðað bifreiðina, hafi hún talist ónýt í skilningi reglugerðarinnar. Hvergi í reglugerðinni sé að finna skilgreiningu á því hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að bifreið teljist hafa eyðilagst. Þannig sé hvergi að finna það skilyrði að bifreið hafi lent í umferðaróhappi, verið afskráð eða að henni hafi verið fargað.  Verði því að líta svo á að þegar bifreið geti ekki þjónað þeim tilgangi sem hún hafi verið keypt til, án þess að lagt sé út í viðgerðir sem ætla megi að kosti meira en nemur andvirði bifreiðarinnar, teljist bifreiðin ónýt.

Af framangreindu álíti kærandi að ákvörðun Tryggingastofnunar um endurkröfu á hendur henni sé ólögmæt. Stofnunin hafi ekki farið að stjórnsýslulögum við ákvörðun sína auk þess sem efni ákvörðunarinnar sé ekki í samræmi við lög. Því sé ljóst að fella beri ákvörðun stofnunarinnar í málinu úr gildi.

Í athugasemdum kæranda segir að í erindi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 3. apríl 2018, segi að kærufrestur í málinu hafi verið liðinn þegar nefndin hafi móttekið kæruna. Rökstuðningur Tryggingastofnunar hafi verið dagsettur 19. október 2017 og samkvæmt úrskurðarnefnd hafi kæran borist 26. janúar 2018, en hún hafi verið póstlögð 23. janúar sama ár.

Kærandi mótmæli þeim skilningi sem úrskurðarnefndin virðist leggja í ákvæði stjórnsýslulaga um kærufresti, en samkvæmt stjórnsýslulögum miðast kærufresturinn við þann dag er ákvörðun sé komin til aðila en ekki dagsetningu ákvörðunarbréfs. Rökstuðningur stofnunarinnar hafi verið dagsettur 19. október 2017 en hafi ekki borist til kæranda fyrr en þriðjudaginn 24. október. Væntanlega hafi langur afhendingartími stafað af því að erindi stofnunarinnar hafi ekki verið póstlagt 19. október. Af því leiði að kærufrestur hafi ekki verið úti og beri því úrskurðarnefnd velferðarmála að taka málið fyrir eins og hún hafi nú þegar gert.

Telji nefndin engu að síður að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra var send nefndinni telji kærandi ljóst að taka beri kæruna til meðferðar þar sem veigamiklar ástæður mæli með því. Bendi kærandi í því efni á að málefnið varði mikla hagsmuni sína auk þess sem framkvæmd Tryggingastofnunar á endurkröfum vegna bifreiðauppbótar og bifreiðastyrks hafi sætt gagnrýni umboðsmanns Alþingis og verði ekki betur séð en að meðferð Tryggingastofnunar á máli kæranda og röksemdir í greinargerð til nefndarinnar séu í beinni andstöðu við álit umboðsmanns í máli nr. 6505/2011.

Sé því að mati kæranda ljóst að Tryggingastofnun hafi að engu álit umboðsmanns Alþingis með framkvæmd sinni, en slíkt feli augljóslega í sér slæma stjórnsýsluhætti af hálfu Tryggingastofnunar og sé í beinni andstöðu við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Þegar af þeirri ástæðu sé ljóst að veigamiklar ástæður séu fyrir nefndina að taka málið fyrir þótt nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Sama gildi um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkustyrkþegar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.

Með breytingalögum nr. 120/2009, sem hafi tekið gildi 1. janúar 2010, hafi eftirfarandi málslið verið bætt við þessa málsgrein: „Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.“

Reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða sé sett með heimild í lögum um félagslega aðstoð. Í 3. gr. hennar sé fjallað um uppbætur vegna kaupa á bifreiðum. Þar komi fram skilyrði fyrir greiðslu þessara uppbóta og eins upphæðir uppbótanna. Þar komi meðal annars fram að uppbót sé einungis heimilt að veita á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. 

Í 7. mgr. 3.gr. reglugerðarinnar segi síðan:

„Óheimilt er að selja bifreið fyrr en fimm árum eftir veitingu uppbótar nema að fengnu sérstöku leyfi Tryggingastofnunar ríkisins. Heimilt er að víkja frá áðurgreindum tímamörkum eyðileggist bifreið á tímabilinu eða vegna andláts bótaþega.”

Kærandi hafi sótt um uppbót/styrk til bifreiðakaupa með umsókn, dags. 16. febrúar 2016. Með bréfi, dags. 7. mars sama ár, hafi umsókn kæranda um uppbót til bifreiðakaupa verið samþykkt. Í bréfinu hafi meðal annars komið fram að kæranda væri ekki heimilt að selja bifreiðina innan fimm ára án sérstaks leyfis Tryggingastofnunar og að kærandi þyrfti að skila  sérstakri yfirlýsingu þess efnis áður en greiðsla færi fram. Kærandi hafi skilað  slíkri yfirlýsingu 15. ágúst 2016.

Samkvæmt upplýsingum frá ökutækjaskrá Samgöngustofu hafi bifreiðin verið seld X 2017 og hafi það verið staðfest af kæranda, meðal annars í kæru. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 14. september 2017, hafi kærandi verið endurkrafinn um uppbótina sem kærandi hafði fengið greidda í hlutfalli við þann tíma í mánuðum sem bifreiðin hafi verið í eigu hennar, þ.e. um 50 mánuði af 60.

Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi og hafi sá rökstuðningur verið sendur með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 19. október 2017.

Eins og áður hafi verið rakið  séu uppbót og styrkir til bifreiðakaupa veittir til fimm ára í senn. Samkvæmt skýru ákvæði reglugerðarinnar sé þeim sem þiggi uppbótina óheimilt að selja bifreið innan fimm ára nema að fengnu leyfi Tryggingastofnunar. Tryggingastofnun sé svo heimilt að víkja frá þeim tímamörkum í nánar tilgreindum tilfellum. 

Kæranda líkt og öðrum hafi verið gerð grein fyrir þessari kvöð á uppbótinni þegar uppbótin hafi verið samþykkt. Einnig hafi kæranda, líkt og öðrum, verið gert að skila  undirritaðri yfirlýsingu um að henni væri kunnugt um þessa kvöð.

Rétt sé að vekja athygli á því að í framkvæmd hafi Tryggingastofnun ekki endurkrafið einstaklinga um uppbætur/styrki vegna bifreiðakaupa þó að þeir selji bifreið innan fimm ára ef önnur sambærilega bifreið sé keypt í hennar stað í eðlilegu framhaldi. Ef einhver sem fengið hafi uppbót/styrk til bifreiðakaupa selji bifreið án þess að kaupa sér nýja bifreið sé hann aftur á móti endurkrafinn í hlutfalli við þann tíma sem bifreiðin hafi verið í eigu viðkomandi.

Kærandi hafi keypt bifreiðina X þann X 2016. Kærandi hafi selt bifreiðina aftur X 2017, þ.e. innan við ári síðar. Fram komi að bifreiðin sé seld einstaklingi sem enn þann dag í dag sé eigandi bifreiðarinnar líkt og sjá megi í gögnum málsins. Bifreiðin sé ekki á númerum en henni hafi ekki verið fargað. Með kæru hafi fylgt nýtt gagn frá bifvélavirkja sem hafi verið í samræmi við það sem fram hafi komið áður frá kæranda.

Tryggingastofnun vilji vekja athygli á því að þegar að kærandi hafi keypt bifreiðina þá hafi hún verið 11 ára gömul. Þegar kærandi hafi lent í vandamálum með bifreiðina hafi hún verið orðin 12 ára gömul. Þegar uppbót vegna bifreiðakaupa sé greidd út sé gætt að því að verðgildi bifreiðarinnar sé í samræmi við fjárhæð uppbótarinnar. Tryggingastofnun leggi ekki sérstakar aldurskvaðir á bifreiðar þegar að greidd sé uppbót vegna kaupa á bifreið. Stofnunin hafi talið það á ábyrgð kaupanda að tryggja að bifreið sem viðkomandi kaupi sé líkleg til þess að duga í að minnsta kosti fimm ár frá kaupum. Í því samhengi þurfi sérstaklega að horfa til þess að eldri bifreiðar séu líklegri til þess að bila en yngri bifreiðar.

Til þess að unnt sé að veita undanþágu frá kröfunni um fimm ára eign bifreiðar þá sé gerð krafa um það í reglugerðinni að bifreiðin hafi eyðilagst. Tryggingastofnun telji að það orðalag geri að minnsta kosti ráð fyrir að þau vandamál sem hrjái bifreiðina séu ófyrirséð og stafi ekki einfaldlega af því að bifreiðin hafi bilað vegna aldurs. Tryggingastofnun telji það ekki eiga við í tilfelli kæranda.

Tryggingastofnun hafi farið yfir mál kæranda og telji ekki ástæðu til að breyta fyrri ákvörðun sinni. Sú ákvörðun sem hér sé kærð sé í samræmi við lög og reglur sem gildi um uppbót vegna bifreiðakaupa.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. september 2017 um að krefja kæranda um endurgreiðslu að hluta á uppbót til bifreiðakaupa.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um það að þegar aðili fari fram á rökstuðning fyrir stjórnvaldsákvörðun, sbr. 1. mgr. 21. gr. laganna, hefjist kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hafi verið tilkynntur honum. Samkvæmt 5. mgr. 27. gr. laganna telst kæra nógu snemma fram komin ef bréf, sem hefur hana að geyma, er komið til æðra stjórnvalds eða afhent pósti áður en fresturinn er liðinn.

Hin kærða ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins í máli þessu er dagsett 14. september 2017. Með bréfi, dags. 24. september 2017, fór C félagsráðgjafi, fyrir hönd kæranda, fram á skriflegan rökstuðning fyrir ákvörðun stofnunarinnar og var hann veittur með bréfi, dags. 19. október 2017. Í athugasemdum kæranda segir að kæran hafi verið póstlögð 23. janúar 2018. Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. janúar 2018 en ekki var að finna póststimpil á umslagi því er fylgdi með kæru. Telur úrskurðarnefnd velferðarmála því að leggja verði til grundvallar að kæra hafi verið borin fyrir nefndina í skilningi 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar þann 26. janúar 2018 en ekki 23. janúar 2018 líkt og kærandi byggir á, sbr. 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Þá hefur úrskurðarnefndin mótað þá vinnureglu, með tilliti til almenns afhendingartíma bréfa, að kærufrestur skuli miðast við fimm daga umfram þrjá mánuði ef litið er til dagsetningar hinnar kærðu ákvörðunar eða eftir atvikum veitts rökstuðnings. Samkvæmt gögnum málsins liðu því þrír mánuðir og sex dagar frá dagsetningu rökstuðnings Tryggingastofnunar ríkisins þar til kæra barst úrskurðarnefndinni. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1.      afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2.      veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 14. september 2017 og í rökstuðningi Tryggingastofnunar ríkisins var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Úrskurðarnefndin telur leiðbeiningar stofnunarinnar um kæruheimild vera skýrar. Að mati nefndarinnar gefur ekkert í gögnum málsins til kynna að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í stjórnsýslulögunum er ekki að finna nánari skýringu á hvað felst í hugtakinu veigamiklar ástæður í skilningi 2. tölul. 28. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að við mat á  því hvort veigamiklar ástæður séu fyrir hendi beri að líta til hagsmuna aðila máls svo og almannahagsmuna, til að mynda hvort úrlausn málsins geti haft þýðingarmikið fordæmisgildi. Að mati úrskurðarnefndarinnar getur skilyrðið um veigamiklar ástæður einnig verið uppfyllt þegar áhöld eru uppi um hvort ákvörðunin hafi verið tekin á réttum lagagrundvelli, sbr. álit umboðsmanns Alþingis nr. 6433/2011.

Á grundvelli 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð fékk kærandi greidda uppbót að fjárhæð 360.000 kr. frá Tryggingastofnun ríkisins til kaupa á bifreið í x 2016. Í x 2017 seldi kærandi bifreiðina á 25.000 kr. Tryggingastofnun ríkisins krafði kæranda í september 2017 um endurgreiðslu hluta uppbótarinnar að fjárhæð 300.000 kr.

Að mati úrskurðanefndar velferðarmála verður við mat á því hvort um veigamiklar ástæður sé að ræða að horfa til þess að réttur kæranda til uppbótar til kaupa á bifreið mun að öllu óbreyttu ekki standa henni aftur til boða fyrr en í X 2021. Einnig horfir nefndin til þess að þar sem kærandi seldi bifreiðina fyrir einungis 25.000 kr. muni endurgreiðslukrafan gera kæranda verr setta fjárhagslega heldur en ef hún hefði ekki fengið uppbótina. Telur úrskurðarnefndin því að hagsmunir kæranda í þessu máli séu veigameiri en í öðrum sambærilegum endurkröfumálum. Þá er í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6505/2011 að finna ýmis sjónarmið umboðsmanns varðandi túlkun á reglugerð nr. 170/2009 sem úrskurðarnefndin telur að líta þurfi til þegar meðferð Tryggingastofnunar ríkisins í málinu er skoðuð. Að öllu framangreindu virtu telur úrskurðarnefndin að skilyrðið um veigamiklar ástæður í skilningi 2. tölul. 28. gr. stjórnsýslulaga sé uppfyllt í málinu. Verður málið því tekið til efnislegrar meðferðar.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrkja til kaupa á bifreið er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 10. gr. segir meðal annars svo:

„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. [...]

Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Í 7. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segir:

„Óheimilt er að selja bifreið fyrr en fimm árum eftir veitingu uppbótar nema að fengnu sérstöku leyfi Tryggingastofnunar ríkisins. Heimilt er að víkja frá áðurgreindum tímamörkum eyðileggist bifreið á tímabilinu eða vegna andláts bótaþega.“

Ágreiningur þessa máls varðar hvort bifreið kæranda hafi eyðilagst í skilningi 7. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Kærandi byggir á því að samkvæmt niðurstöðu bifvélavirkja sem hafi skoðað bílinn hafi hann talist ónýtur í skilningi reglugerðarinnar. Hvergi í reglugerðinni sé að finna skilgreiningu á því hvaða skilyrði þurfi að vera uppfyllt til að bifreið teljist hafa eyðilagst. Verði því að líta svo á að þegar bifreið geti ekki þjónað þeim tilgangi sem hún hafi verið keypt til án þess að lagt sé út í viðgerðir sem ætla megi að kosti meira en nemur andvirði bifreiðarinnar teljist bifreiðin ónýt. Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að orðalag reglugerðarinnar geri að minnsta kosti ráð fyrir að þau vandamál sem hrjái bifreiðina séu ófyrirséð og stafi ekki einfaldlega af því að bifreiðin hafi bilað vegna aldurs. Tryggingastofnun telji það ekki eiga við í tilfelli kæranda.

Í gögnum málsins liggur meðal annars fyrir ódagsett yfirlýsing bifvélavirkja sem fylgdi með kæru. Í yfirlýsingunni segir:

„Ég D bifvélavirki leit á bifreiðina X fyrir A þar sem bifreiðin dó í akstri og þurfti að draga hann þangað sem ég er með geymsluhúsnæði.

Eftir mikla leit og greiningar þá borgaði sig ekki að fara í frekari kostnað á bifreiðinni þar sem um mikla rafmagnsbilun var um að ræða og hafði umráðandi ekki efni á því þar sem það væri bílverðið og gott betur.

Í framhaldi var ákveðið að auglýsa bílinn til sölu með þessum galla og fékkst 25.000 krónur fyrir hann að lokum.“

Þá liggur einnig fyrir kaupsamningur og afsal, dags. X 2017, þar sem umsamið kaupverð er 25.000 kr. og fram kemur í athugasemdum varðandi ástand ökutækis að bifreiðin sé ógangfær og seljist í því ástandi. Samkvæmt upplýsingum frá Umferðarstofu um umferðarferil ökutækis var bifreiðin skráð úr umferð X 2017.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur áður komist að þeirri niðurstöðu að vélarbilun í bifreið geti leitt til þess að bifreiðin teljist eyðilögð í skilningi reglugerðar nr. 170/2009, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 402/2016. Úrskurðarnefndin telur að orsök þess að bifreið hafi í reynd ónýst og orðið algerlega óökufær skipti að jafnaði ekki máli við mat á því hvort hún teljist eyðilögð í skilningi 7. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6505/2011. Þá er ekki fallist á það sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins að bilun bifreiðar kæranda hafi verið fyrirsjáanleg og megi eingöngu rekja til aldurs bifreiðarinnar.

Í máli þessu liggur fyrir yfirlýsing bifvélavirkja að um svo mikla rafmagnsbilun hafi verið að ræða í bifreið kæranda að ekki hafi borgað sig að fara í „frekari kostnað á bifreiðinni“. Þá liggur fyrir að bifreiðin var keypt á 360.000 kr. í X 2016 og seld 10 mánuðum síðar á 25.000 kr., en í kaupsamningi og afsali kemur fram að bifreiðin sé ógangfær. Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu var bifreiðin tekin úr umferð X 2017 og hefur ekki farið í umferð síðan þá. Að virtu áliti fagaðila um að ekki hafi borgað sig að fara í viðgerð á bifreiðinni og söluverði bifreiðarinnar í X 2017 er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að bifreið kæranda hafi eyðilagst í skilningi 7. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. september 2017 um að krefja kæranda um endurgreiðslu að hluta á uppbót til bifreiðakaupa felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. september 2017 um að krefja A, um endurgreiðslu að hluta á uppbót til bifreiðakaupa, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum