Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 438/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 438/2017

Fimmtudaginn 5. apríl 2018

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 27. nóvember 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 16. ágúst 2017 um að staðfesta útreikning leiðréttingar á sérstökum húsnæðisstuðningi.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi hefur tekið við sérstökum húsaleigubótum frá Reykjavíkurborg um árabil. Með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 24. nóvember 2016, var kæranda tilkynnt að þann 1. janúar 2017 myndu ákvæði um sérstakar húsaleigubætur í reglum um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur falla úr gildi og í stað þeirra kæmu reglur Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning. Tekið var fram að samþykktar umsóknir um sérstakar húsaleigubætur myndu halda gildi sínu tímabundið en eftir 1. janúar 2017 væri fjárhæðin miðuð við nýjar reglur um sérstakan húsnæðisstuðning. Einnig var tekið fram að á árinu 2017 myndi velferðarsvið Reykjavíkurborgar boða umsækjendur, sem ættu samþykkta umsókn um sérstakar húsaleigubætur, í viðtal. Þar skyldi leggja fram umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning samkvæmt nýju reglunum og kannað yrði hvort umsóknin uppfyllti skilyrði reglna um sérstakan húsnæðisstuðning. Kærandi fékk ekki greiddan sérstakan húsnæðisstuðning frá Reykjavíkurborg eftir gildistöku framangreindra reglna um sérstakan húsnæðisstuðning.

Með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 16. júlí 2017, var kærandi upplýst um breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning, meðal annars á tekjumörkum og hámarksfjárhæð sérstaks húsnæðisstuðnings. Kæranda var tilkynnt að breytingarnar væru afturvirkar frá 1. janúar 2017 og að samkvæmt endurútreikningi á bótagreiðslum hennar ætti hún ekki afturvirkan bótarétt fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2017. Kærandi áfrýjaði þeirri ákvörðun til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 16. ágúst 2017 og staðfesti útreikning leiðréttingar á sérstökum húsnæðisstuðningi. Kæranda var tilkynnt um þá ákvörðun með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 29. ágúst 2017. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 21. september 2017.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 27. nóvember 2017. Með bréfi, dags. 30. nóvember 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 5. janúar 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. janúar 2018. Athugasemdir og viðbótargögn bárust frá kæranda 29. janúar 2018 og voru þau send Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að Reykjavíkurborg hafi fellt niður greiðslu húsnæðisbóta til hennar án þess að tilkynna um það og ekkert hafi gefið til kynna að það yrði gert við kerfisbreytingu húsnæðisbóta. Kærandi tekur fram að hún hafi hvorki fengið tækifæri til að ræða sín mál hjá þjónustumiðstöðinni né koma með gögn sem staðfesti að greiðslubyrði hennar hafi ekki minnkað. Kærandi vísar til þess að hún búi ein, sé öryrki og ellilífeyrisþegi með erfiðan lungnasjúkdóm og að auki hjartasjúkdóm sem valdi henni miklum erfiðleikum. Kærandi hafi leigt hjá Félagsbústöðum frá febrúar 2015 en húsnæðiskostnaður sé um 115.000 kr. Hún hafi sótt um húsnæðisbætur hjá Vinnumálastofnun í janúar 2017 og hafi umsókn hennar verið samþykkt án athugasemda, en það sé forsenda þess að geta sótt um húsnæðisstuðning hjá Reykjavíkurborg. Kærandi tekur fram að hún sé ekki sátt við málsmeðferð þjónustumiðstöðvarinnar vegna framangreinds.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Reykjavíkurborgar greinir hún frá mánaðarlegum útgjöldum sínum, að frátöldum útgjöldum vegna reksturs bifreiðar, heimilis og fleira. Kærandi vísar til þess að útgjöldin séu henni ofviða miðað við þær tekjur sem hún hafi til ráðstöfunar. Að mati kæranda sé óskiljanlegt að Reykjavíkurborg hafi brúttótekjur sem viðmið þegar útgjöld einstaklinga séu reiknuð út.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að kærandi hafi sótt um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur með umsókn, dags. 11. apríl 2006. Um sérstakan húsnæðisstuðning gildi reglur Reykjavíkurborgar sem samþykktar hafi verið á fundi velferðarráðs þann 3. nóvember 2016 og á fundi borgarráðs þann 10. nóvember 2016, með síðari breytingum. Reglur um sérstakan húsnæðisstuðning hafi tekið gildi 1. janúar 2017 og leyst af hólmi ákvæði um sérstakar húsaleigubætur í reglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur. Samkvæmt bráðabirgðarákvæði I í reglum um sérstakan húsnæðisstuðning hafi gildandi umsóknir um sérstakar húsaleigubætur gilt áfram við gildistöku reglnanna. Breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning hafi verið samþykktar á fundi velferðarráðs þann 18. maí 2017 og á fundi borgarráðs þann 8. júní 2017. Með þeim breytingum hafi meðal annars tekjumörkum verið breytt og þær breytingar gilt afturvirkt frá 1. janúar 2017.

Reykjavíkurborg vísar til þess að samkvæmt núgildandi 1. mgr. 4. gr. reglnanna sé sérstakur húsnæðisstuðningur reiknaður sem ákveðið hlutfall af húsnæðisbótum þannig að fyrir hverjar 1.000 kr. fái leigjandi greiddar 1.000 kr. í sérstakan húsnæðisstuðning. Við útreikninginn sé þó einnig litið til tekna miðað við fjölda heimilismanna og skerðist upphæð sérstaks húsnæðisstuðnings hlutfallslega að efri tekjumörkum og fellur niður við efri tekjumörk. Tekjur kæranda hafi verið hærri en efri tekjumörk reglna um sérstakan húsnæðisstuðning og því hafi kærandi ekki átt rétt á greiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings fyrir tímabilið 1. janúar 2017 til 31. ágúst 2017. Breytingar á reglum um sérstakan húsnæðisstuðning hafi því ekki haft áhrif á útreikning sérstaks húsnæðisstuðnings í tilviki kæranda en öllum einstaklingum sem hafi átt gilda umsókn hafi verið sent bréf í júlí 2017 til upplýsinga.

Með hliðsjón af öllu framangreindu hafi það verið mat velferðarráðs Reykjavíkurborgar að staðfesta útreikning á leiðréttingu á sérstökum húsnæðisstuðningi í samræmi við 4. og 5. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning þar sem sá útreikningur sé í samræmi við ákvæði reglnanna. Því sé ljóst að ákvörðun velferðarráðs hafi hvorki brotið gegn framangreindum reglum um sérstakan húsnæðisstuðning né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991, með síðari breytingum.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að staðfesta útreikning leiðréttingar á sérstökum húsnæðisstuðningi. Kærandi hefur tekið við sérstökum húsaleigubótum frá Reykjavíkurborg um árabil eða þar til reglur þar um féllu úr gildi 1. janúar 2017 og við tóku reglur Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning.

Í IV. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er að finna almenn ákvæði um rétt til félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga. Þar segir í 12. gr. að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Aðstoð og þjónusta skal jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf, sbr. 2. mgr. 12. gr. Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 skulu sveitarfélög veita sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við nánari reglur sem sveitarstjórn setur og samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins skal ráðherra, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, gefa út leiðbeinandi reglur til sveitarstjórna um framkvæmd stuðnings samkvæmt 2. og 3. mgr. ásamt viðmiðunarfjárhæðum.

Sérstakur húsnæðisstuðningur er fjárstuðningur til greiðslu á húsaleigu umfram húsnæðisbætur sem veittar eru á grundvelli laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur og ætlaður þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og annarra félagslegra erfiðleika, sbr. 1. og 2. mgr. 1. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning. Í 3. gr. reglnanna er að finna skilyrði fyrir samþykki umsóknar og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í 1.–6. tölul. 1. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt 5. tölul. þurfa samanlagðar tekjur umsækjanda og annarra heimilismanna, 18 ára og eldri, að vera undir efri tekjumörkum samkvæmt 5. gr. reglnanna til þess að umsókn verði samþykkt. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi yfir þeim tekjumörkum og fékk hún því ekki greiddan sérstakan húsnæðisstuðning eftir gildistöku framangreindra reglna.

Í bráðabirgðaákvæði I í reglum um sérstakan húsnæðisstuðning kemur meðal annars fram að þær umsóknir um sérstakar húsaleigubætur sem væru í gildi við gildistöku reglnanna myndu gilda áfram og fyrsta greiðsla á grundvelli þeirra umsókna myndi fara fram þann 1. febrúar 2017. Á árinu 2017 myndi velferðarsvið Reykjavíkurborgar boða umsækjendur, sem ættu samþykkta umsókn um sérstakar húsaleigubætur (á grundvelli reglna um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík), í viðtal. Þar skyldi leggja fram umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning samkvæmt nýju reglunum. Kanna skyldi hvort umsóknin uppfyllti skilyrði 3. gr. og framkvæma mat á félagslegum aðstæðum, sbr. 3. gr. og matsviðmið með reglunum. Þá kemur fram í bráðabirgðaákvæði II í reglunum að greiðslur falli niður ef umsækjandi, sem eigi samþykkta umsókn um sérstakar húsaleigubætur, sinni ekki boði um viðtal og leggi ekki fram umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning innan tveggja mánaða.

Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi ekki verið boðuð í viðtal eða verið beðin um að leggja inn nýja umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning. Ákvörðun Reykjavíkurborgar um að veita kæranda ekki sérstakan húsnæðisstuðning virðist ekki hafa verið tilkynnt með neinum hætti heldur féllu greiðslur til hennar niður við framangreinda kerfisbreytingu. Í málinu liggur fyrir að kærandi þáði sérstakar húsaleigubætur um árabil en þær greiðslur voru einnig ætlaðar þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki voru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og annarra félagslegra erfiðleika, sbr. 3. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að fullt tilefni hafi verið til þess að kanna aðstæður kæranda sérstaklega áður en ákvörðun um niðurfellingu greiðslna var tekin. Í því samhengi bendir úrskurðarnefndin á að í 18. gr. reglnanna er kveðið á um heimild til að veita undanþágu frá reglunum ef sérstakar málefnalegar ástæður liggja fyrir og notandi fer fram á það með sérstakri beiðni til velferðarráðs Reykjavíkurborgar innan fjögurra vikna frá því að notanda barst vitneskja um ákvörðun. Ljóst er að kæranda var ekki leiðbeint um þá undanþáguheimild.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að verulegur annmarki hafi verið á málsmeðferð Reykjavíkurborgar. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, frá 16. ágúst 2017, um að staðfesta útreikning leiðréttingar á sérstökum húsnæðisstuðningi til handa A, er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira