Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 463/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 463/2021

Fimmtudaginn 30. september 2021

A

gegn

Barnavernd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 4. september 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Barnaverndar B vegna beiðni hennar um gögn úr barnaverndarmáli.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Í kæru kemur fram að kærandi hafi í heilt ár óskað eftir öllum gögnum frá Barnavernd B um barnaverndarmál sem höfðað hafi verið á hendur henni. Þegar hún hafi óskað eftir gögnum málsins hafi henni verið sagt að hún gæti komið og valið úr gögnunum. Þegar hún hafi óskað aftur eftir gögnunum á vef C hafi hún ekki fengið svar. Kærandi kveður sig vanta þessi gögn þar sem hún ætli að höfða dómsmál og hún eigi rétt á öllum gögnum málsins. 

Með tölvupósti úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 6. september 2021, til kæranda var óskað eftir að lögð væru fram gögn varðandi beiðni hennar til Barnaverndar B.  Engin svör bárust frá kæranda.

Með tölvupósti úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 8. september 2021, til Barnaverndar B upplýsti nefndin að kæra hefði borist en áður en aðhafst yrði í málinu væri óskað eftir upplýsingum um hvort beiðni hefði borist frá kæranda um gögn og hvort tekin hafi verið ákvörðun varðandi þá beiðni. Svar Barnaverndar B barst með tölvupósti, dags. 13. september 2021. Í svari Barnaverndar B kemur fram að beiðni hafi borist frá kæranda, fyrst í tölvupóst og síðan í gegnum heimasíðu bæjarins. Kærandi hafi verið hvött til að þiggja fund til að fara yfir gögnin en um sé að ræða umfangsmikið mál. Kæranda hafi verið bent á að hún hafi nú þegar fengið umbeðin gögn ásamt lögmanni sínum og sýslumanni. Þá hafi kæranda verið bent á heimild til þess að innheimta ljósritunargjald og því gæti verið gott fyrir hana að skoða gögnin áður en hún ákveddi hvaða gögn hana vantaði. Síðan þá hafi kærandi misst forsjá barns síns sem geti takmarkað skrifleg gögn en útskýrt hafi verið fyrir henni að hún ætti rétt á öllum munnlegum upplýsingum um barnið. Þá hafi verið óskað eftir að kærandi afmarkaði beiðni sína betur með tilliti til þessa. Kærandi hafi aðeins svarað á þá leið að hún vilji ekki fund um beiðnina, auk þess sem hún vilji ekki greiða fyrir ljósritun gagnanna. Beiðni kæranda um gögn hafi því ekki verið synjað og það standi ekki til. Hins vegar hafi verið vonast til þess að kærandi myndi þiggja boð um aðstöðu til þess að fara yfir gögnin og eftir atvikum fá munnlegar upplýsingar, væri eftir því óskað.

II.  Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) skal barnaverndarnefnd með nægjanlegum fyrirvara láta aðilum í té öll gögn sem málið varða og koma til álita við úrlausn þess, enda tryggi þeir trúnað. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að barnaverndarnefnd geti með rökstuddum úrskurði takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum ef hún telur að það geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra eða aðra. Nefndin getur einnig úrskurðað að aðilar og lögmenn þeirra geti kynnt sér skjöl og önnur gögn, án þess að þau eða ljósrit af þeim séu afhent.

Í 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að aðili máls eigi rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum er mál hans varða. Ef við verður komið skal veita aðgang að gögnum á því formi eða á því tungumáli sem þau eru varðveitt, nema þau séu þegar aðgengileg með rafrænum hætti. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að þegar gögn máls eru mörg er heimilt að fela öðrum að sjá um ljósritun þeirra. Hið sama á við hafi sá sem afhendir gögn ekki aðstöðu til að ljósrita skjöl. Aðili skal þá greiða þann kostnað sem hlýst af ljósritun skjalanna. Hið sama gildir um afritun annarra gagna en skjala, eftir því sem á við.

Í málinu liggur fyrir beiðni kæranda frá 30. nóvember 2020 til Barnaverndar B þar sem hún óskar eftir öllum gögnum málsins varðandi sig og son sinn. Með tölvupósti 1. desember 2020 var kæranda bent á að óska eftir gögnunum með formlegum hætti í gegnum þjónustugátt, sem hún gerði í framhadinu. Í umsókn kæranda kom fram að hún óskaði eftir öllum gögnum málsins. Með tölupósti til kæranda, dags. 27. janúar 2021, var kæranda tilkynnt að beiðni hennar væri til meðferðar. Fram kom í tölvupóstinum að um væri að ræða umfangsmikil gögn sem áður hafi verið afhent. Bent var að á að Barnavernd B væri heimilt  að innheimta gjald vegna ljósritunar á gögnum og þá sérstaklega til þess að koma í veg fyrir ítrekaðar gagnabeiðnir í sömu málum. Í tölvupóstinum kom fram að til þess að koma í veg fyrir kostnað væri kæranda bent á að hafa samband við lögmann og kanna hvort það væru einhver sérstök gögn sem skorti. Þá væri hægt að senda nákvæmari beiðni um gögn sem kæranda vantaði. Einnig væri kæranda velkomið að fá tíma til þess að fara yfir gögn og merkja það sem hana vantaði. Með tölvupósti samdægurs tilkynnti kærandi að hún myndi kvarta til umboðsmanns Alþingis. Með tölvupósti samdægurs var kæranda tilkynnt að engin ákvörðun hefði verið tekin í málinu. Með tölvupósti samdægurs tilkynnti kærandi að hún myndi ekki greiða fyrir afrit af gögnum málsins. Með tölvupósti, dags. 28. janúar 2021, til kæranda var hún spurð hvort hún vildi þá ekki þiggja boð um að fara yfir gögn málsins eða fá þau gögn sem hana vantaði. Ef svo, væri litið svo á að hún hefði afturkallað beiðni sína um gögn, að öðrum kosti væri nauðsynlegt að fá afmarkaða beiðni um hvaða gögn það væru sem kærandi óskaði eftir. Með tölvupósti 8. júní 2021 ítrekaði kærandi að hún hefði óskað eftir öllum gögnum málsins.

Eins og málið liggur fyrir hefur Barnavernd B samþykkt að veita kæranda aðgang að gögnum málsins. Kærandi hefur krafist þess að fá öll gögn málsins afhent en jafnframt tekið fram að hún muni ekki greiða fyrir ljósritun þeirra.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur Barnavernd B fallist á að kærandi eigi rétt á gögnum málsins en hefur hafnað því að afhenda kæranda afrit af öllum gögnum málsins þar sem hún hafi ekki tilgreint nánar hvaða gögn það eru sem hún vill fá, enda sé málið umfangsmikið. Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. bvl. verður aðgangur aðila máls að gögnum ekki takmarkaður nema með rökstuddum úrskurði, en úrskurður liggur ekki fyrir í málinu. Það er því ekki fyrir hendi skilyrði um kæranlegan úrskurð til þess að krafa kæranda um aðgang að gögnum verði kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála. Eins og málið liggur fyrir á kærandi kost á því samkvæmt 2. mgr. 45. gr. bvl. að krefjast þess að barnaverndarnefnd kveði upp úrskurð um takmarkanir að aðgangi hennar að þeim gögnum sem hún hefur óskað eftir, ella afhenda henni ljósrit af umbeiðnum gögnum málsins, að teknu tilliti til þeirra takmarkana sem kveðið er á um í ákvæðinu. Barnavernd er heimilt að innheimta gjald fyrir ljósritun gagna í samræmi við 15. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til þess, sem að framan er rakið, er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira