Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 108/2013

Mál nr. 108/2013

Fimmtudaginn 4. júní 2015

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 14. júlí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 28. júní 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 19. júlí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 23. ágúst 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 29. ágúst 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Athugasemdir bárust ekki.

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1964 og 1971. Þau eru gift og búa ásamt tveimur börnum sínum á unglingsaldri í eigin X fermetra fasteign að C.

Kærandi A er lögreglumaður. Kærandi B vinnur skrifstofustörf en fær einnig hlutfallslegar atvinnuleysisbætur. Mánaðarlegar meðaltekjur kærenda eru 639.962 krónur.

Kærendur kveðast hafa átt við langvarandi fjárhagserfiðleika að etja en þau rekja þá meðal annars til veikinda og tekjulækkunar.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 29.259.530 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 17. maí 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 20. janúar 2012 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var greiðsluáætlun þar sem fram kom framfærslukostnaður og greiðslugeta kærenda.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 8. maí 2013 vakti umsjónarmaður athygli embættisins á því að kærendur hefðu ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. um að leggja til hliðar fjármuni á því tímabili er greiðslufrestun hafi staðið eða allt frá 17. maí 2011. Á því 24 mánaða tímabili sem frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafi staðið yfir hefðu útborguð laun kærenda að meðaltali verið 630.000 krónur. Að auki hefðu þau fengið greiddar barnabætur. Reiknuð greiðslugeta nemi 198.964 krónum að teknu tilliti til framfærslu. Kærendur hafi bent á nokkur atriði sem þau telji að skýri mál sitt en þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir hafi þau ekki framvísað gögnum því til staðfestingar. Því væri það mat umsjónarmanns að fella ætti niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 14. júní 2013 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærendur hafi svarað með bréfi 25. júní 2013. Hafi þau mótmælt sjónarmiði umsjónarmanns. Í fyrsta lagi hafi þau ekki óskað eftir því að vera í greiðsluaðlögunarferli í 24 mánuði. Vissulega hafi þau óskað greiðsluaðlögunar en hafi ekki reiknað með að vera í ferlinu í fleiri ár. Kærendur hafi einnig gert athugasemdir við það að umboðsmaður skuldara telji mánaðartekjur þeirra hafi verið 665.723 krónur og framfærslukostnað 336.193 krónur. Samkvæmt því telji embættið að þau hefðu getað lagt fyrir 329.530 krónur á mánuði allan þann tíma sem þau hafi verið í greiðsluskjóli eða alls 7.908.719 krónur. Kærendur hafi á hinn bóginn ekki haft þær tekjur sem umboðsmaður geri ráð fyrir þar sem þau hafi þurft að greiða tekjuskatt af launum sínum. Kærendur hafi ekki lagt fram gögn máli sínu til staðfestingar.

Með bréfi til kærenda 28. júní 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur fara fram á að hinni kærðu ákvörðun verði snúið við og að umboðsmaður skuldara endurskoði ákvörðunina sem byggi alfarið á framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara sem standist enga skoðun. Þá fara kærendur fram á það að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, sem hýst sé í velferðarráðuneytinu, kanni í hverju hinn mikli munur á framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara og neysluviðmiðum ráðuneytisins sé fólginn. Þá er farið fram á að umboðsmaður skuldara sinni lögbundnu hlutverki sínu og skyldum og hlutist til um að ná samkomulagi við kröfuhafa kærenda. Loks er farið fram á að kærendur fái greiddan málskostnað samkvæmt mati nefndarinnar.

Kærendur kveðast gera alvarlegar og verulegar athugasemdir við ákvörðun umboðsmanns skuldara í málinu. Ákvörðunin byggist á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar nægilegt fé í þá 24 mánuði sem þau hafi verið í svokölluðu greiðsluskjóli. Kærendur telji óásættanlegt að þau hafi verið svo langan tíma í greiðsluskjólinu. Með lge. hafi átt að tryggja að mál skuldara yrðu afgreidd með skilvirkum og raunhæfum hætti en raunin sé sú að ferlið taki nú mun lengri tíma en fyrr.

Kærendur gera athugasemdir við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara enda sé mjög erfitt að lifa eftir þeim. Ekki sé gert ráð fyrir því að bílar eða heimilistæki bili eða fasteignum haldið við eins og þörf sé á. Sé gerður samanburður á neysluviðmiði velferðarráðuneytisins annars vegnar og framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara hins vegar komi í ljós að viðmið ráðuneytisins hafi verið umtalsvert hærri á tímabili greiðsluskjóls kærenda. Fyrir X manna fjölskyldu kærenda séu viðmið velferðarráðuneytisins tæpum 5.000.000 króna hærri á umræddu tímabili. Af þessum ástæðum hljóti það að skipta miklu máli að vita hvernig framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara sé unnið.

Á þeim stað sem kærendur búi sé ekki lágvöruverðsverslun og sé vöruverð þar því umtalsvert hærra. Þetta þýði að liðurinn matur og hreinlætisvörur í framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara sé of lágt reiknaður en framfærsluviðmiðið miði samkvæmt þessu við að fólk versli í lágvöruverðsverslunum. Kærendur hafi fermt eitt barn á greiðsluaðlögunartímanum og það hafi kostað 250.000 krónur. Þau hafi keypt gleraugu fyrir 157.200 krónur, orðið fyrir 200.000 króna lögfræðikostnaði og greitt 500.000 krónur vegna framhaldsskólavistar dóttur þeirra. Þá hafi kærendur keypt lyf og greitt lækniskostnað fyrir 561.930 krónur og tannréttingakostnað fyrir 525.939 krónur. Þá hafi kærendur orðið fyrir kostnaði vegna viðgerða á bíl og þvottavél. Þau hafi einnig málað glugga og hurðir í fasteign sinni þar sem það hafi verið nauðsynlegt til að koma í veg fyrir skemmdir. Leggi kærendur áherslu á að þau telji óeðlilegt að synja þeim um greiðsluaðlögun á grundvelli viðmiðs en engar verklagsreglur liggi fyrir um notkun eða áhrif viðmiðsins.

Kærendur gera athugasemdir við að séreignarsparnaður sem þau hafi tekið út á tímabili greiðsluskjóls að fjárhæð 1.059.528 krónur sé talinn þeim til tekna. Kærendur hafi nýtt séreignarsparnaðinn til að komast í gegn um þetta tímabil og telji ósanngjarnt og óeðlilegt að þessi sparnaður sé nýttur gegn þeim nú.

Embætti umboðsmanns skuldara vinni ekki eftir reglugerð sem þó hafi verið gert ráð fyrir að ráðherra setti, sbr. 34. gr. lge. Umboðsmaður skuldara vinni heldur ekki eftir verklagsreglum sem ráðherra hafi sett heldur sínum eigin verklagsreglum sem embættið vilji ekki sýna.

Á tímabili greiðsluskjóls hafi kærendur unnið, borðað og sofið eins og annað fólk. Þau hafi bæði glímt við veikindi en veikindin hafi orðið verri vegna þess álags og tíma sem leitt hafi af meintu „skjóli“ umboðsmanns skuldara.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Enn fremur hafi upplýsingar um það verið á heimasíðu embættisins. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki til greiðsluaðlögunar 20. janúar 2012 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Hafi kærendum því mátt vera ljóst frá upphafi að þeim bæri skylda til að leggja til hliðar þá fjármuni sem þau hefðu aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar kæmi að því að semja við kröfuhafa.

Kærendur hafi óskað greiðsluaðlögunar 17. maí 2011 og hafi frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, þá hafist. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Launatekjur júní 2011 til og með maí 2013 að frádregnum skatti 15.799.709
Barnabætur, vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 177.642
Samtals 15.977.351
Mánaðarlegar meðaltekjur 665.723
Framfærslukostnaður á mánuði 336.193
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 329.530
Samtals greiðslugeta í 24 mánuði 7.908.719

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki breytingum samkvæmt vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé jafnað játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 665.723 krónur í meðaltekjur á mánuði á tímabili greiðsluskjóls.

Samkvæmt framansögðu skuli miða við að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi verið um 336.193 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Samkvæmt þessu sé miðað við framfærslukostnað júnímánaðar 2013 fyrir tvo fullorðna og tvö börn auk annars framfærslukostnaðar samkvæmt upplýsingum kærenda sjálfra. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 7.908.719 krónur á fyrrnefndu tímabili.

Kærendur hafi ekki veitt upplýsingar um hvort þau hafi lagt umrædda fjárhæð til hliðar þrátt fyrir að þeim hafi verið gefið færi á því. Þá hafi heldur ekki verið gefnar skýringar á vöntun sparnaðar eða lagðar fram kvittanir er sýnt gætu fram á aukin útgjöld vegna framfærslukostnaðar á tímabili greiðsluskjóls.

Kærendur hafi mótmælt þeim tekjum sem umboðsmaður miði við í málinu. Hafi þau talið tekjurnar miðaðar við brúttólaun en svo hafi ekki verið. Embættið hafi byggt útreikninga sína á upplýsingum úr skattframtölum, álagningarseðlum og staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra að teknu tilliti til frádráttar vegna skatta og lífeyrissjóðsiðgjalda.

Kærendur telji að embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki tekið tillit til aukins kostnaðar sem til hafi fallið hjá þeim í greiðsluskjóli. Kærendur kveðist hafa orðið fyrir óvæntum útgjöldum vegna veikinda, framhaldsskólavistar, fermingar, gleraugnakaupa, tannréttinga og lögfræðiþjónustu samtals að fjárhæð 2.195.069 krónur. Engar kvittanir eða önnur gögn hafi verið lögð fram til staðfestingar á þessum útgjöldum. Þá nemi umrædd fjárhæð aðeins hluta þeirrar fjárhæðar sem kærendur hafi átt að geta lagt til hliðar á tímabilinu.

Þá telji kærendur ekki rétt að útgreiddur séreignarsparnaður annars kærenda sé talinn til tekna á tímabili greiðsluaðlögunar. Af þessu tilefni vísi embættið til 4. mgr. 4. gr. lge. þar sem segi að skuldari skuli tilgreina allar tekjur sínar, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum. Þar af leiðandi hafi embættið talið úttekt á séreignarlífeyrissparnaði að fjárhæð 569.602 krónur eftir frádrátt skatta til tekna kærenda við mat á greiðslugetu þeirra. Bent sé á að jafnvel þótt ekki væri tekið tillit til þessa ættu kærendur eftir að sýna fram á hvernig þau hafi ráðstafað 7.339.117 krónum í greiðsluskjóli.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á sameiginlegri umsókn kærenda úr gildi og að af því leiði að umboðsmanni skuldara beri að taka ákvörðun að nýju. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kærenda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málatilbúnað kærenda verður að skilja svo að þau mótmæli því að framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara sé notað þegar framfærslukostnaður þeirra sé reiknaður út. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. ber að notast við það framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Frá þessu eru ekki undanþágur en það leiðir til þess að lagaheimild er ekki fyrir hendi til þess að nota önnur framfærsluviðmið. Samkvæmt því getur ekki komið til þess að kannað verði í málinu, eins og kærendur fara fram á, í hverju hinn mikli munur á framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara og neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins sé fólginn. Það álitaefni er fyrir utan úrlausnarefni málsins og kemur því ekki til frekari umfjöllunar eða skoðunar af hálfu kærunefndarinnar.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 8. maí 2013 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli. Því væri það mat hans að fella ætti niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi síðan greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 28. júní 2013.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 7.908.719 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 17. maí 2011. Af ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunar­umleitunum má ráða að greiðslugeta kærenda hafi að meðaltali verið 329.530 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Kærendur hafi gefið ýmsar skýringar en ekki lagt fram gögn máli sínu til stuðnings. Sé því ekki unnt að taka tillit til skýringanna.

Kærendur kveðast ekki hafa haft tök á því að leggja fyrir í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. vegna þess að framfærslukostnaður þeirra hafi af ýmsum ástæðum verið hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir. Þá mótmæla þau að séreignarsparnaður í lífeyrissjóði sem þau hafi tekið út á tímabilinu sé talinn þeim til tekna.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. júní 2011 til 31. desember 2011: Sjö mánuðir
Nettótekjur A 3.519.185
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 502.741
Nettótekjur B 1.006.608
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 143.801
Nettótekjur alls 4.525.793
Mánaðartekjur alls að meðaltali 646.542
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A* 6.425.650
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 535.471
Nettótekjur B 1.446.498
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 120.542
Nettótekjur alls 7.872.148
Mánaðartekjur alls að meðaltali 656.012
* Þar með talinn séreignarsparnaður.
   
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. maí 2013: Fimm mánuðir
Nettótekjur A 2.690.380
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 538.076
Nettótekjur B 690.330
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 138.066
Nettótekjur alls 3.380.710
Mánaðartekjur alls að meðaltali 676.142
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 15.778.651
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 657.444

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda, úttekt séreignarlífeyrissparnaðar og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. júní 2011 til 31. maí 2013: 24 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli* 15.778.651
Bótagreiðslur 236.760
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 16.015.411
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 667.309
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 336.193
Greiðslugeta kærenda á mánuði 331.116
Alls sparnaður í 24 mánuði í greiðsluskjóli x 331.116 7.946.779

* Þar með talinn séreignasparnaður.

Kærendur kveðast hafa orðið fyrir neðangreindum óvæntum útgjöldum á tímabilinu í krónum:

   
Ferming 250.000
Gleraugu 157.200
Lögfræðikostnaður 200.000
Framhaldsskóli 500.000
Lyfja- og lækniskostnaður 561.930
Tannréttingar 525.939
Alls 2.195.069

Kærendur hafa ekki lagt fram nein gögn til stuðnings þessum útgjöldum. Af ofangreindum útgjaldaliðum er lyfja- og lækniskostnaður að fjárhæð 406.968 krónur innifalinn í framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara en kostnaður kærenda vegna þessara liða er sagður 561.930 krónur á tímabilinu eða 154.962 krónum hærri en framfærsluviðmiðin gera ráð fyrir. Hefðu kærendur lagt fram gögn er sýndu fram á þessi útgjöld hefði verið unnt að taka tillit til þeirra en þar sem það hefur ekki verið gert er ekki unnt að taka tillit til þessa þegar reiknað er út hver sparnaður kærenda hefði átt að vera í greiðsluskjóli. Sama gildir um kostnað vegna tannréttinga.

Kærendur hafa gert athugasemd við að úttekt þeirra á séreignarlífeyrissparnaði að fjárhæð 1.059.528 krónur á tímabilinu teljist til launa og annarra tekna við útreikning á því hver sparnaður þeirra í greiðsluskjóli hefði átt að vera. Hið rétta er að við útreikning á sparnaði eru lífeyrissjóðsgreiðslur vegna séreignasparnaðar að fjárhæð 569.602 krónur eftir frádrátt skatta taldar með tekjum. Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. er ekki heimilt að undanþiggja tilteknar tekjur og/eða laun frá þeirri fjárhæð sem skuldari hefur í höndum á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Er því ekki unnt að taka tillit til þessarar athugasemdar kærenda. 

Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til þeirrar greiðsluáætlunar sem kærendur fengu í hendur og leiðbeininga umboðsmanns skuldara, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber eins og áður segir að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur, sbr. 4. mgr. 16. gr. lge. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Þó er ljóst að jafnvel þótt fallist væri á að taka tillit til alls þess kostnaðar sem kærendur tiltaka að fjárhæð 2.195.069 krónur skortir enn töluvert upp á að kærendur hafi lagt til hliðar svo sem þeim bar í greiðsluskjólinu.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Kröfu kærenda um greiðslu málskostnaðar verður að mati kærunefndarinnar að skilja svo að verið sé að fara fram á greiðslu þóknunar til lögfræðings kærenda sem hefur komið fram fyrir þau gagnvart kærunefndinni.

Í 30. gr. lge. kemur fram hvernig háttað skuli greiðslu kostnaðar við málsmeðferð samkvæmt lögunum. Segir þar að umboðsmaður skuldara beri kostnað við meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og störf umsjónarmanna. Lánardrottnar beri þann kostnað sem á þá falli af meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar. Kostnaður af sölu eignar greiðist af söluandvirði hennar. Í lge. er ekki að finna ákvæði er lúta að kostnaði við málsmeðferð fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála. Þannig greina lge. ekki frá því hver beri sérfræðikostnað kæranda, kjósi hann að leita sér aðstoðar utanaðkomandi aðila við málarekstur sinn fyrir kærunefndinni. Þá eru engin ákvæði í lge. er heimila kærunefndinni að ákvarða kæranda kostnað úr hendi þriðja aðila vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni. Samkvæmt þessu standa lög ekki til annars en að kærendur verði sjálfir að bera þann kostnað sem þeir kunna að hafa stofnað til við málsmeðferð fyrir kærunefndinni. Kröfu kærenda um greiðslu málskostnaðar er því hafnað.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest. Kröfu kærenda um greiðslu málskostnaðar er hafnað.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum