Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 8/2015

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

biskupi Íslands

 

Kærandi, sem er kona, taldi að kærði hefði brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við skipun karls í embætti prests. Kærunefndin taldi að kærandi hafi staðið þeim er skipaður var framar hvað hlutlægar staðreyndir um menntun og starfsreynslu varðar. Það mat kærða að sá er skipun hlaut væri hæfari til embættisins en kærandi byggði einkum á meiri reynslu hans af B auk C en þessir þættir og menntun kæranda höfðu að mati kærunefndar ekki fengið viðhlítandi mat hjá valnefnd. Taldi kærunefndin að kærði hefði ekki bent á forsendur sem stutt gætu ólíkt mat á hæfni kæranda og þess sem skipaður var og að skriflegir minnispunktar úr viðtali styddu ekki þá niðurstöðu að frammistaða kæranda í viðtalinu hafi verið slakari en frammistaða þess er skipaður var. Taldi nefndin að við skipun í embættið hefðu verið brotin ákvæði 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008.

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 20. október 2015 er tekið fyrir mál nr. 8/2015 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 2. Með kæru, dagsettri 13. maí 2015, kærði A ákvörðun biskups Íslands um að skipa karl í embætti prests D í Eprófastsdæmi. Kærandi telur að með skipun þessari hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 21. maí 2015. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 12. júní 2015, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 15. júní 2015. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 7. júlí 2015, og voru þær kynntar kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 8. júlí 2015. Frekari athugasemdir kærða bárust kærunefndinni 14. ágúst 2015 og voru þær kynntar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 18. ágúst 2015. Þá bárust kærunefndinni frekari athugasemdir kæranda 31. ágúst 2015 og voru þær kynntar kærða með bréfi sama dag.

 4. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

  MÁLAVEXTIR

 5. Kærði auglýsti laust embætti prests í D, Eprófastsdæmi, þann X 2014. Í auglýsingunni kom fram að við val á presti yrði meðal annars lögð til grundvallar hæfni í mannlegum samskiptum svo og reynsla af B.

 6. Tíu umsóknir bárust um embættið. Á grundvelli starfsreglna nr. 1109/2011, um val og veitingu prestsembætta, voru umsækjendur boðaðir á fund valnefndar í D þann 6. janúar 2015. Að fundi loknum taldi valnefndin að sá er skipaður var væri best til þess fallinn að gegna embættinu. Biskup boðaði kæranda, þann er skipaður var og tvo aðra umsækjendur til viðtals 16. janúar. Þann X. janúar 2015 skipaði biskup í embættið. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi kærða fyrir skipuninni og barst hann með bréfi, dagsettu 12. febrúar 2015.

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA

 7. Kærandi telur að með ákvörðun kærða hafi verið brotið gegn ákvæðum og meginreglum laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Kærandi telur að hún sé að minnsta kosti jafnhæf og sá er skipaður var til þess að gegna embættinu og því hafi einnig verið brotið gegn dómafordæmi Hæstaréttar um túlkun jafnréttislaga á þann veg að þegar umsækjendur um embætti/stöðu séu að minnsta kosti jafnhæfir skuli velja umsækjanda af því kyni sem færri eru af í viðkomandi starfsstétt. Við D hafi starfað á skipunartímanum karl sem sóknarprestur og jafnframt séu konur færri í embættum presta á landsvísu. Því hefði átt að skipa kæranda í embættið með vísan til dómafordæma Hæstaréttar og jafnréttislaga, sérstaklega 1. mgr. 18. gr. laganna.

 8. Kærandi telur að við val á embætti prests í D hafi verið valinn karlmaður með minni menntun og minni starfsreynslu en hún. Kærandi hljóti því að vera að minnsta kosti jafnhæf og sá er valinn var. Í Eprófastsdæmi starfi samtals 11 prestar, þar af níu karlar og tvær konur. Ljóst sé að bæði við D í Eprófastdæmi og á landvísu halli verulega á konur í prestastétt. Kærandi tekur fram að hún sé ósammála mati valnefndar og biskupsembættisins um mat á hæfni umsækjenda og telur að í matinu hafi lítið verið gert úr menntun hennar og starfsreynslu en mikið hafi verið gert úr minni menntun og reynslu þess er embættið hlaut. Því verði ekki annað séð en kynferði hafi ráðið því hver hafi hlotið embættið og kæranda hafi verið mismunað vegna kyns síns.

 9. Kærandi tekur fram að hún og sá er embættið hlaut séu bæði með guðfræðimenntun frá Háskóla Íslands. Þau hafi því fengið jafnmörg stig fyrir þann þátt enda ekki um neitt mat að ræða. Hvað starfsreynslu varði hafi kærandi fengið átta stig en sá er embættið hlaut hafi fengið sex stig. Kærandi telur að meiri munur hefði átt að koma fram í stigagjöf vegna starfsreynslu, enda sé hún með nánast tvöfalda reynslu í árum talið auk þess að hafa mestan hluta þess tíma verið sóknarprestur við íslenskar aðstæður, hefðir, venjur og veruleika. Þá hafi hún starfað í níu mánuði í 50% starfi fyrir D og kynnst öllu því sem þar fari fram. Kærandi hafi þar öðlast ómetanlega reynslu, unnið við hlið sóknarprests við góðan orðstír og án nokkurra athugasemda af neinu tagi, hvorki frá sóknarpresti, sóknarnefnd né sóknarbörnum.  

 10. Kærandi greinir frá því að hún hafi mun lengri starfsreynslu, bæði sem prestur og á almennum vinnumarkaði, en sá er embættið hlaut. Hún hafi þó aðeins fengið fjögur stig fyrir þann lið en sá er embættið hlaut hafi fengið tíu stig. Kærandi gerir verulegar athugasemdir við það mat og telur að valnefndin og kærði hafi gert mjög lítið úr hennar starfsferli en talað upp stuttan starfsferill þess er embættið hlaut. Við mat á því hvernig umsækjandi hafi rækt fyrri störf hljóti að vera leitað umsagna þeirra sem viðkomandi hafi starfað með. Kærandi sé með mjög góð meðmæli frá vígslubiskupi, prófasti, fyrrverandi prófasti, meðhjálpara og sóknarnefndarformanni þar sem hún hafi starfað áður. Kærandi hafi enga vitneskju um hvaðan valnefndin hafi upplýsingar um annað en að henni hafi tekist að rækja störf sín vel hvarvetna sem hún hafi starfað.

 11. Kærandi telur að hún hafi átt að fá fleiri stig fyrir liðinn hæfni til boðunar heldur en sá er embættið hlaut en þau hafi bæði fengið átta stig. Samkvæmt meðmælum hennar þyki hún góður ræðumaður og flytji góðar predikanir, auk þess að hafa margoft á liðnu ári fengið hrós frá valnefndarmönnum fyrir predikanir í Fkirkju. Sá er embættið hlaut hafi aldrei unnið við kirkjulega boðun á Íslandi og ekki liggi fyrir hvernig þessi þáttur í matinu hafi verið unninn hvað hann varðar. Kærandi telur því að um vanmat á hennar hæfni hafi verið að ræða og/eða ofmat á hæfni þess er embættið hlaut. Hvað varðar hæfni til sálgæslu tekur kærandi fram að hún og sá er embættið hlaut hafi fengið jafn mörg stig, eða átta stig hvort, en ekki sé ljóst hvernig stigagjöf hafi farið fram varðandi þennan lið. Kærandi telur að reynsla hennar og sérmenntun á sviði sálgæslu hefði átt að leiða til fleiri stiga. Kærandi bendir á að valnefndin hafi gefið kæranda sex stig fyrir samskiptahæfni en sá er embættið hlaut hafi fengið átta stig. Ekki sé ljóst hvernig það hafi verið metið en hún telur að hún standi honum síst að baki hvað samskiptahæfni varði. Starfsferill kæranda beri þess vitni en hún hafi ítrekað verið valin í stjórnunarstörf, stýrt vinnuhópum og fengið gott orð fyrir að hafa góða og þægilega nærveru. Þá rekur kærandi stjórnunarreynslu sína og telur að hún sé vanmetin en reynsla þess er embættið hlaut sé ofmetin.   

 12. Kærandi rekur menntun þeirra beggja og bendir á að sá er embættið hlaut hafi fengið tíu stig fyrir liðinn önnur menntun en kærandi hafi ekki fengið nein stig. Kærandi telur það óskiljanlegt með öllu að algerlega hafi verið horft fram hjá menntun hennar. Kærandi telur að hún hefði fremur átt að fá tíu stig þar sem sá er embættið hlaut hafi enga aðra menntun á háskólastigi en embættispróf frá guðfræðideild Háskóla Íslands. Kærandi rekur einnig aðra starfsreynslu sína og þess er embættið hlaut, hún hafi fengið sjö stig fyrir þann lið en hann átta stig. Kærandi telur að hún hefði átt að fá fleiri stig, enda sé starfsreynsla hennar umtalsvert meiri.

 13. Kærandi bendir á að erfitt sé að endurmeta stigagjöf vegna frammistöðu í viðtölum þar sem ekki séu miklar upplýsingar skráðar í fundargerð valnefndar og sannarlega um huglægt mat að ræða. Valnefndinni beri samkvæmt starfsreglum að meta framkomu, viðmót og málfar en ekkert komi fram í fundargerð valnefndar varðandi þá þætti. Í viðtalinu hafi kærandi óvænt fengið óundirbúnar spurningar frá valnefndarmanni en samkvæmt starfsreglum skuli aðeins fundarstjóri bera upp spurningarnar og þær eigi að vera samræmdar fyrir alla umsækjendur. Kærandi telur að hún hafi sýnt góða og yfirvegaða framkomu, vinsamlegt viðmót og óaðfinnanlegt málfar, þrátt fyrir þetta óvænta atvik. Kærandi hafi fengið sjö stig fyrir þennan lið en sá er embættið hlaut hafi fengið níu stig.

 14. Kærandi tekur fram að litlar upplýsingar hafi komið fram um hvernig leiðtogahæfileikar umsækjenda hafi verið metnir og af fundargerð valnefndar sé ekki hægt að greina mun á umsækjendum hvað þann þátt varðar. Kærandi telur að hún sé að minnsta kosti jafnhæf og sá er embættið hlaut hvað þennan lið varðar, enda búi hún yfir mikilli starfsreynslu þar sem reynt hafi á leiðtogahæfileika. Kærandi hafi fengið sjö stig fyrir þennan þátt en sá er embættið hlaut hafi fengið níu stig. Hvað varðar framtíðarsýn umsækjenda með hliðsjón af sérkennum D telur kærandi sig hafa sérstöðu umfram aðra umsækjendur. Hún sé fædd þar og uppalin, hafi búið þar nánast alla tíð og starfað þar í tæpt ár við góðan orðstír. Sem sóknarbarn  og reynslumikill starfsmaður þjóðkirkjunnar geri hún sér mjög vel grein fyrir möguleikum, styrkleikum og veikleikum svo og þjónustuþörf safnaðarins á F. Kærandi hafi í örstuttu máli gert grein fyrir hugðarefnum sínum og framtíðarsýn sinni sem sé mjög skýr og metnaðarfull. Auk þess hafi kærandi staðið upp á aðalsafnaðarfundum Fsóknar og tjáð sig um áhuga sinn á auknu starfi, meðal annars hvað varðar B. Sá er embættið hlaut hafi fengið tíu stig fyrir liðinn framtíðarsýn en mjög lítið komi fram, bæði í fundargerð og umsókn hans, um framtíðarsýn hans eða þekkingu á aðstæðum. Kærandi hafi fengið sjö stig fyrir þennan lið og telur að um vanmat sé að ræða varðandi hennar framtíðarsýn og/eða ofmat á framtíðarsýn þess er embættið hlaut. 

 15. Kærandi bendir á að í rökstuðningi kærða sé töluvert fjallað um hin sérstöku skilyrði sem tekin hafi verið fram í auglýsingu. Það verði ekki séð að kærandi sé síðri varðandi þá þætti nema síður sé. Kærandi hafi fimm ára samfellda reynslu í B sem sóknarprestur, hún hafi kennt grunnskólabörnum, setið nám til kennsluréttinda og tekið þátt í B í frjálsum félagasamtökum sem leiðtogi. Varðandi hæfni í mannlegum samskiptum hafi kærandi starfað við þjónustustörf nánast alla sína starfsævi og oftast sem stjórnandi með mannaforráð og fjármálaábyrgð við góðan orðstír. Slík reynsla segi margt um hæfni í mannlegum samskiptum. Sem sóknarprestur hafi kærandi þurft að takast á við margvíslega áskorun varðandi mannleg samskipti og farnast vel í því. Kærandi hafi fengið átta stig fyrir þennan þátt en sá er embættið hlaut níu stig. Kærandi telur að hennar reynsla sé hér vanmetin og að hún sé að minnsta kosti jafnhæf þeim er embættið hlaut hvað þennan þátt varðar. Þá bendir kærandi á að valnefndin hafi enga áherslu lagt á búsetu umsækjenda. Rétt sé að taka fram að kærandi búi í Fsókn og eigi þar íbúðarhúsnæði en sá er starfið hlaut hafi verið búsettur í G þegar ákvörðun hafi verið tekin um skipun í embættið. Hjá þjóðkirkjunni virðist stundum mikil áhersla vera lögð á þetta atriði, sbr. úrskurður kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 5/2014, en mjög misjafnar áherslur séu hjá þjóðkirkjunni hvað þetta atriði varði og erfitt fyrir umsækjendur að átta sig á hvað lagt sé til grundvallar í hverju tilviki fyrir sig.

 16. Kærandi bendir á að prestsstarfið hafi mikið breyst á síðustu árum og áratug. Í dag sé áætlað að um 80% starfsins sé sálgæsla við fullorðið fólk, meðal annars vegna kynferðisofbeldis en einnig sálgæsla við aldraða og sálgæsla vegna áfalla af ýmsu tagi. Þess vegna sé mjög mikilvægt að bæði kynin starfi saman, sé þess nokkur kostur. Sálgæsla vegna ofbeldis gegn börnum og konum sé oftast í höndum kvenpresta. Kærandi hafi bæði meiri menntun og reynslu af sálgæslu en sá er embættið hlaut. Kærandi vísar til úrskurðar kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 5/2014 þar sem fram komi að eðli starfsins kunni að leiða til þess að æskilegt sé að söfnuður njóti þjónustu presta af báðum kynjum, sé þess kostur. Kærandi telur sömu sjónarmið eigi við í hennar máli enda hafi verið fyrir í Dprestakalli karl í embætti sóknarprests. Það hefði því verið í samræmi við ákvæði jafnréttislaga að skipa kæranda í embættið, bæði vegna skyldu atvinnurekenda til að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og innan sinnar stofnunar og til að auka hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum. Þá væri það einnig í samræmi við gildandi jafnréttisáætlum þjóðkirkjunnar.

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA

 17. Í greinargerð kærða er greint frá því hvernig staðið sé að vali á umsækjendum um störf sóknarpresta og aðkomu kærða að því ferli. Kærði rekur menntun umsækjenda og tekur fram að það hafi verið niðurstaða hans að ekki bæri að gera greinarmun á hæfni þeirra hvað menntun varðar. Kærði rekur einnig starfsreynslu og starfsferil kæranda og þess er embættið hlaut og tekur fram að hann hafi talið þau sambærilega hæf hvað starfsreynslu varðar.

 18. Kærði bendir á að í auglýsingu um embættið hafi ekki verið gerð krafa um stjórnunarreynslu þar sem ekki hafi verið um að ræða embætti sóknarprests en það sé í samræmi við 10. gr. starfsreglna nr. 1109/2011. Kærði hafi því ekki talið ástæðu til að leggja sérstakt mat á reynslu á þessu sviði.  Hvað varðar hæfni til boðunar og sálgæslu hafi valnefndin metið kæranda og þann er embættið hlaut jafnhæf en kærði hafi fallist á niðurstöðu valnefndar þar sem þau hefðu bæði góða reynslu á því sviði.

 19. Kærði tekur fram að valnefndin hafi metið þann er embættið hlaut hæfari en kæranda hvað varðar frammistöðu í viðtölum, leiðtogahæfileika og framtíðarsýn. Sú hefð hafi skapast hjá kærða að kalla umsækjendur um starf prests/sóknarprests í viðtal til sín einungis ef einhver vafi væri talinn leika á hæfni umsækjenda að því er þessi huglægu atriði varðar, að ekki væri málefnalega staðið að valinu hjá valnefnd eða valið ekki reist á lögmætum sjónarmiðum. Í því tilviki sem hér sé til skoðunar hafi kærði talið rétt að kalla fjóra umsækjendur í viðtal eða þá sem hlotið hefðu prestsvígslu. Þeir hafi verið beðnir um að lýsa framtíðarsýn sinni fyrir Fsókn og fyrir safnaðarstarfið, reynslu og þekkingu af B, samskiptahæfni og nefna dæmi úr eigin lífi um stjórnunar- og leiðtogahæfni. Sú ákvörðun kærða að kalla nokkra umsækjendur til viðtals hafi einkum verið byggð á tveimur atriðum. Í fyrsta lagi hafi verið nauðsynlegt að ganga úr skugga um að niðurstaða valnefndar um að sá er embættið hlaut væri hæfastur umsækjenda, hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum en hann hafi hvorki mestu menntunina né lengsta starfsferilinn sem sóknarprestur/prestur. Í öðru lagi hafi kærði talið nauðsynlegt að ganga úr skugga um að með því að ganga fram hjá kæranda, sem að því er varðar menntun og starfsreynslu sé sambærilega hæf og sá er embættið hlaut, hafi ekki verið farið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008. Það hafi verið niðurstaða kærða að viðtölum loknum að sá er embættið hlaut stæði kæranda framar að því er varðar frammistöðu í viðtölum. Þar hafi komið fram skýr framtíðarsýn hans hvað starf safnaðarins í Dprestakalli, F, varðar og hann hafi góð meðmæli hvað varðar leiðtogahæfileika og samskiptahæfni.

 20. Kærði rekur reynslu kæranda og þess er embættið hlaut af B. Það hafi verið mat kærða að sá er embættið hlaut væri hæfari en kærandi hvað þann þátt varðar, en hann hafi allan sinn starfsferil fyrir og eftir embættispróf í guðfræði einbeitt sér að starfi með B og hafi lagt fram meðmæli um yfirgripsmikla reynslu og hæfni á því sviði.

 21. Kærði tekur fram að kærandi hafi réttilega bent á að verulega halli á hlut kvenna meðal presta í Dprestakalli, F og í E. Í samræmi við þá starfsreglu sem mótuð hafi verið í tíð núverandi biskups, að jafna beri hlut kynja meðal sóknarpresta/presta í sérhverju prestakalli og eftir atvikum í prófastdæmum, hefði að öllum skilyrðum uppfylltum verið rétt að skipa konu í umdeilt starf. Það hafi hins vegar verið niðurstaða kærða að sá er embættið hlaut hafi verið hæfastur umsækjenda og því kæmu ákvæði laga nr. 10/2008 ekki til álita.

  ATHUGASEMDIR KÆRANDA

 22. Kærandi bendir á að á undanförnum misserum hafi prestaköll með svipaðan fjölda sóknarbarna og D og sambærilega þjónustuþörf, auglýst eftir presti við hlið sóknarprests og meirihluti þeirra prestakalla hafi ekki séð ástæðu til að óska sérstaklega eftir öðrum hæfileikum en almennt sé talið að prestur þurfi að hafa til að bera. Tvö prestaköll hafi þó, auk D, séð einhverja ástæðu til að auglýsa sérstaklega eftir presti með áherslu á B. Kærandi vill koma á framfæri þeim möguleika að valnefndir, sem hafi ákveðinn umsækjanda í huga, geti hugsanlega komist hjá því að fara eftir jafnréttislögum nr. 10/2008 með því að setja þessi skilyrði inn í auglýsingar sínar. Þannig skapi þau sér meira rými til að velja prest eftir geðþótta með tilvísun í hæfileika í B. Kærandi telur afar ólíklegt að nokkur þjóðkirkjuprestur sinni dagskrárbundnu B í stærri prestaköllum landsins. Prestar í fjölmennari prestaköllunum verji mestum hluta tíma síns í viðtöl, sálgæslu, undirbúning athafna og til predikunar- og greinaskrifa. Kærandi telur að reikna megi með að B í D verði aðeins lítill hluti af starfi nýs prests, eins og raunin sé í sambærilegum prestaköllum þar sem ekki hafi þótt ástæða til að óska eftir sérstakri hæfni í B. Kærandi ítrekar að hún telur að þessum þætti í heildarmati á reynslu og hæfni umsækjenda hafi verið gefið óeðlilega mikið vægi. Einnig hafi verið gert lítið úr reynslu hennar af B og fermingarfræðslu sem sóknarprestur án aðkomu aðstoðarfólks.

 23. Kærandi mótmælir því að lagt sé að jöfnu C og diplomanám í sálgæslu á meistarastigi við EHÍ í samstarfi við guðfræðideild Háskóla Íslands. C krefjist hæfileika en engrar undirbúningsmenntunar líkt og nám á meistarastigi við EHÍ. Kærandi telur að hún hafi mikla yfirburði hvað menntun varðar og að menntun hennar hafi verið stórlega vanmetin. Kærandi telur jafnframt að starfsreynsla hennar hafi verið vanmetin þegar hún hafi verið borin saman við töluvert minni reynslu þess er embættið hlaut. Þá segi í 10. gr. starfsreglna ekkert um að það skuli ekki líta til reynslu af stjórnunarstörfum þótt ekki sé um sóknarprestsembætti að ræða, heldur skuli sérstaklega líta til þeirrar reynslu sé um sóknarprestsembætti að ræða. Í daglegum störfum prests og sóknarprests starfi þeir oftast einir til að mynda í messum, guðþjónustum, bænastundum, skírnum, hjónavígslum og útförum. Þá þurfi þeir oft einir að taka ákvarðanir á ögurstundu, fara einir í útköll þar sem erfiðar aðstæður geta mætt þeim og koma óundirbúnir inn í aðstæður þar sem upplausn og ótti ríkir. Í öllum þessum aðstæðum þurfi prestur að búa yfir stjórnunar- og leiðtogahæfileikum og sé sú reynsla gríðarlega mikilvæg í öllu starfi prestsins. Kærandi lýsir yfir óánægju með að þessi þáttur sé ekki metinn í starfi prests í D á F. Prestur í D þurfi sérstaklega að búa yfir stjórnunar- og leiðtogahæfileikum, t.d. vegna samfélagslegra aðstæðna. Kærandi mótmælir því að hún og sá er embættið hlaut séu metin jafnhæf til boðunar og sálgæslu á Íslandi og vísar þar enn og aftur til reynslu sinnar og viðbótarmenntunar í sálgæslu.

 24. Kærandi rekur að hún hafi ekki fengið neinar upplýsingar þegar hún hafi mætt til viðtals hjá kærða um hvert raunverulegt tilefni fundarins hafi verið. Hún hafi ekki verið upplýst um að fundurinn hafi verið haldinn til að kærði gæti lagt sjálfstætt mat á val valnefndar, en það hefði átt að liggja ljóst fyrir. Kærandi hafi ekki verið upplýst um að ritaðir væru niður minnispunktar af samtalinu. Kærandi óskar því eftir að þeir verði metnir marklausir, enda gefi þeir ekki raunsanna mynd af þeim atriðum sem hefðu átt að vera til umræðu á fundinum en hafi ekki verið það nema að mjög takmörkuðu leyti. Kærandi hafi formlega kvartað til kærða vegna valnefndarfundarins og áður kvartað símleiðis við vígslubiskup. Minnsti hluti fundarins með kærða hafi farið í að ræða framtíðarsýn kæranda fyrir D en mestur tíminn hafi farið í að ræða valnefndarfundinn. Kærandi telur sig hafa fengið ósanngjarna og allt aðra meðferð hjá valnefndinni en sá er embættið hlaut. Kærandi telur því ekki eðlilegt að fundurinn fái eins mikið vægi og raun sé á.

 25. Kærandi ítrekar að áðurnefnd viðtöl séu ekki samanburðarhæf. Viðmælendur hafi ekki verið settir í sömu aðstæður á fundunum og ekki um sambærileg viðtöl að ræða. Kærandi hafi á valnefndarfundinum verið þvinguð í umræður um málefni sem kærði viðurkenni bréflega að hafi ekki komið hennar umsókn við. Kærandi gerir alvarlegar athugasemdir við það að 30 mínútna viðtal skuli vera látið vega þyngst af öllum matsþáttum.

  ATHUGASEMDIR KÆRÐA

 26. Kærði tekur fram að samkvæmt 3. gr. starfsreglna um val og veitingu prestsembætta nr. 1109/2011 skuli biskup hafa samráð við viðkomandi sóknarnefndir, prófast og ráðgjafa þeirra um efni auglýsingar þegar prestakall eða prestsembætti losni. Þá komi fram í 4. gr. reglnanna að taka skuli fram í auglýsingu ef sérstök áhersla sé lögð á tiltekinn hæfnisþátt umsækjanda til að sinna þjónustu við æskulýð, aldraða eða annað. Það hafi verið ósk sóknarnefndar og sóknarprests að í auglýsingu um embætti prests í D væri tilgreint að við val á presti yrði hæfni í mannlegum samskiptum og reynsla af B lögð til grundvallar, ásamt öðrum þeim hæfnisþáttum sem lög og reglur þjóðkirkjunnar geri ráð fyrir. Kærði hafnar staðhæfingu kæranda um að þessum þætti hafi verið gefið óeðlilega mikið vægi. Þá verði ekki séð af gögnum málsins að beiðni sóknarnefndar og sóknarprests um þessi tilgreindu hæfisskilyrði hafi verið byggð á því að tiltekinn einstaklingur yrði þar hafður í huga. Kærði bendir á að sóknarnefnd og sóknarprestur hafi unnið að því að undanförnu að efla B, sem kærandi hafi meðal annars tekið þátt í, og að sá er embættið hlaut hafi nýverið hafið framhaldsnám í G þegar embættið hafi verið auglýst. Kærði hafi því ekki séð neina annmarka á því að fallast á ósk sóknarnefndarinnar um að þessi sérstöku hæfisskilyrði yrðu tilgreind í auglýsingunni um embættið.

 27. Kærði áréttar að hvorki kærandi né sá er embættið hlaut hafi lokið framhaldsgráðu á háskólastigi. Bæði hafi hins vegar aflað sér viðbótarmenntunar sem nýtist í starfi og þegar litið hafi verið heildstætt á hæfnisþætti þeirra hafi ekki verið ástæða til að gera greinarmun þar á. Þá áréttar kærði að starfsreynsla og starfsferill þeirra hafi verið metinn áþekkur. Kærði bendir á að í auglýsingu um embættið hafi ekki verið gerð sérstök krafa um stjórnunarreynslu, enda geri lög og reglur þjóðkirkjunnar ekki ráð fyrir því þegar prestsembætti er auglýst. Slík hæfniskrafa sé einungis gerð þegar auglýst er embætti sóknarprests. Sá hæfnisþáttur hafi því ekki komið til skoðunar. Hins vegar hafi verið horft til leiðtogahæfni í samræmi við 10. gr. starfsreglnanna. Leiðtogahæfni hafi í reynd verið talin sérstaklega mikilvægur hæfnisþáttur vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar B í prestakallinu. Sá er embættið hlaut hafi bæði langa og farsæla reynslu af uppbyggingu og innra starfi á sviði B, meðal annars í fjölmennum söfnuði. Starfsreynsla hans og starfsferill hafi því borið góðri leiðtogahæfni vitni.

 28. Kærði tekur fram að það komi sér verulega á óvart að kærandi hafi misskilið tilgang viðtalsins. Hún ásamt þremur öðrum hafi verið kölluð í viðtal þann sama dag og þeim hafi öllum verið gerð grein fyrir tilgangi viðtalanna og að minnispunktar yrðu ritaðir. Skrifleg gögn séu enda forsenda þess að hægt sé að leggja það sem fram komi í viðtölum við umsækjendur til grundvallar mati á hæfni þeirra. Allir umsækjendur hafi fengið sömu spurningar og jafnlangan viðtalstíma. Vissulega hafi kærandi komið inn á upplifun sína af valnefndarfundinum en án þess þó að það yrði meginumræðuefnið. 

  NIÐURSTAÐA

 29. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

 30. Embætti prests í D var auglýst laust til umsóknar með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu X 2014. Í auglýsingu kom fram að í D væri ein sókn, F, með tæplega X íbúa og eina kirkju, Fkirkju. Embættið skyldi veitt frá X 2015. Um skipunina giltu ákvæði í lögum nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, starfsreglur um val og veitingu prestsembætta, sbr. auglýsingu nr. 1109/2011, sem sett er með heimild í 2. mgr. 59. gr. laga nr. 78/1997, og leiðbeinandi reglur biskups um málsmeðferð fyrir valnefnd við val á sóknarpresti eða presti í prestakalli.

 31. Í 1. gr. starfsreglnanna er mælt fyrir um að valnefnd prestakalls velji prest nema óskað hafi verið kosningar í prestakalli. Samkvæmt 2. gr. reglnanna skal ráðgjafi starfa með þeim sem um málið fjalla af hálfu kirkjunnar. Sjónarmið sem valnefnd ber að leggja til grundvallar mati eru tilgreind í 10. gr. starfsreglnanna en þau eru guðfræðimenntun, starfsreynsla, starfsferill, hæfni til boðunar og sálgæslu og loks samskiptahæfni en auk þessa ber valnefnd að meta hvernig umsækjendur uppfylli sérstök skilyrði eða aðra sérstaka hæfni sem áskilin er í auglýsingu. Í ákvæðinu er einnig tekið fram að við mat á hæfni skuli nefndin einnig hafa til hliðsjónar aðra menntun og starfsreynslu sem ætla megi að hafi áhrif á niðurstöðu nefndarinnar. Auk þess skuli meta frammistöðu í viðtölum, leiðtogahæfileika og framtíðarsýn. Þá gerir ákvæðið ráð fyrir að við val samkvæmt ofanskráðu skuli gæta ákvæða laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 32. Niðurstöðu valnefndar skal fylgja rökstuðningur með vísan til þeirra sjónarmiða er nefndin leggur til grundvallar, sbr. 12. gr. starfsreglna nr. 1109/2011. Samkvæmt 13. gr. reglnanna skipar biskup þann umsækjanda í embætti sem valnefnd hefur náð samstöðu um, enda telji hann og ráðgjafi niðurstöðu valnefndar reista á lögmætum sjónarmiðum.

 33. Í auglýsingu um embætti prests í D var óskað eftir því að umsækjendur gerðu skriflega grein fyrir persónulegum upplýsingum, menntun, starfsferli, samskiptahæfileikum og öðru því sem þeir óskuðu að taka fram. Fram kom að við val á presti yrði meðal annars lögð til grundvallar hæfni í mannlegum samskiptum svo og reynsla af B. Tíu umsækjendur voru um embættið og komu þeir allir á fund valnefndar 6. og 7. janúar 2015.

 34. Kærandi lauk embættisprófi í guðfræði árið X og vígðist til prestsþjónustu í desember X. Sá er skipaður var lauk embættisprófi árið X og vígðist til prestsþjónustu í G á árinu X. Kærandi hafði lokið diploma prófi í sálgæslu og ýmsum námskeiðum, meðal annars á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands en eitt námskeiðanna í diplomanáminu fjallaði um sálgæslu B. Sá er skipaður var hafði lokið C. Kærandi tilgreinir í umsókn að hún hafi [...] um langt árabil. Á niðurstöðublaði fyrir stigagjöf er kærði lætur valnefndum í té, og er meðal gagna málsins, kom fram af hálfu valnefndar að kærandi hefði ekki hlotið neitt stig fyrir liðinn „aðra menntun“ en sá er skipaður var hefði hlotið tíu stig fyrir þann lið. Það er mat kærunefndar að kærði hafi ekki sýnt fram á að þetta mismunandi mat á annarri menntun kæranda og þess sem skipaður var hafi byggst á málefnalegum forsendum.  

 35. Kærandi hafði, er hún sótti um embætti sóknarprests í D, gegnt embætti sóknarprests á landsbyggðinni í tæp fimm ár. Hún hafði einnig í afleysingum gegnt starfi prests og sóknarprests í D og á höfuðborgarsvæðinu í rúmlega eitt ár. Þá hafði kærandi gegnt sjálfboðaliðastarfi við barna-, æskulýðs- og foreldrastarf í D haustið áður en embætti prests var auglýst. Kærandi hafði verið á vinnumarkaði frá árinu 1978. Hún hafði stundað ýmis störf áður en hún hóf nám í guðfræði og með því námi, meðal annars verið forstöðumaður vinnuskóla eitt sumar, verið bekkjarkennari í grunnskóla einn vetur og forfallakennari annan vetur, auk þess sem hún hafði rekið eigið verslunarfyrirtæki, unnið við umönnun aldraðra og verið ritari á skrifstofu safnaðar í Reykjavík með námi. Sá er skipaður var hafði starfað sem prestur í G í rúmlega þrjú ár. Hann hafði starfað við fermingarnámskeið og í sumarbúðum. Samkvæmt ferilskrá hófst þátttaka hans í slíkri vinnu þegar um X ára aldur en síðari hluta þess tímabils sem um ræðir mun hann hafa gegnt starfi forstöðumanns sumarbúðanna. Þá hafði sá er skipaður var tekið þátt í ýmsum félagsstörfum tengdum æskulýðsstarfi. Á fyrrgreindu niðurstöðublaði er tilgreint að kæranda hafi verið reiknuð átta stig fyrir starfsreynslu og þeim er skipaður var sex stig. Fyrir liðinn „starfsferill“ eru kæranda reiknuð fjögur stig og þeim er skipaður var tíu stig en í leiðbeinandi reglum nr. 1109/2011 er tilgreint að undir þessum lið beri að meta hvernig umsækjanda hafi tekist að rækja störf sín. Hefur kærði í engu skýrt þennan mun á einkunnagjöf þessara umsækjanda en eins og áður segir hafði kærandi til að bera bæði lengri og fjölbreyttari starfsreynslu. Meðmæli er þessir umsækjendur lögðu fram gáfu ekki tilefni til að draga niður einkunnagjöf fyrir starfsferil kæranda.

 36. Valnefnd komst að þeirri niðurstöðu á fundi sínum að sá er skipaður var væri best til þess fallinn af umsækjendum að gegna embætti prests í D. Í kjölfar þessa boðaði kærði til viðtals kæranda, þann er skipaður var og þá tvo aðra umsækjendur sem hlotið höfðu prestvígslu. Hefur kærði skýrt þá tilhögun með því að hann fylgi þeirri reglu að sé einhver vafi talinn leika á hæfni umsækjenda að því er huglæg atriði varði, að málefnalega sé staðið að valinu hjá valnefnd eða að valið sé reist á lögmætum sjónarmiðum séu umsækjendur boðaðir til viðtals, sbr. hér einnig 13. gr. starfsreglna þjóðkirkjunnar nr. 1109/2011 um val og veitingu prestsembætta.

 37. Áður en kærði boðaði til framangreinds viðtals lá fyrir af hálfu embættisins að sá er valnefnd taldi hæfastan til að hljóta skipun í embættið hefði hvorki mesta menntun né lengstan starfsferil sem sóknarprestur eða prestur. Jafnframt lá fyrir af þess hálfu að kærandi væri, hvað varðaði menntun og starfsreynslu, jafnhæf og framangreindur umsækjandi. Þær spurningar sem lagðar voru fyrir umsækjendur í viðtali hjá kærða lutu að framtíðarsýn fyrir sóknina og starfi safnaðarins, reynslu og þekkingu af B, samskiptahæfni og loks stjórnunar- og leiðtogahæfni. Um þessa þætti lágu þá þegar fyrir nokkrar upplýsingar úr umsóknum umsækjenda en eins og áður segir höfðu bæði kærandi og sá er ráðinn var talsverða reynslu af B og bæði lögðu þau fram mjög jákvæðar umsagnir frá umsagnaraðilum.

 38. Þegar virtar eru hlutlægar staðreyndir um menntun og lengd starfsreynslu kæranda og þess er skipaður var, telur kærunefnd að kærandi hafi staðið þeim er skipaður var framar hvað þessa þætti varðar en sú niðurstaða fær einnig að nokkru stoð í framangreindum rökstuðningi kærða. Kærði mat þó þann sem skipaður var hæfari en kæranda og byggðist matið  einkum á meiri reynslu hans af B auk C. Eins og að framan er rakið virðast slíkir sérstakir þættir og menntun kæranda ekki hafa fengið viðhlítandi mat og hefur kærði ekki bent á forsendur sem stutt geta ólíkt mat á hæfni kæranda og þess sem skipaður var. Við þessar aðstæður var afar brýnt að vandað væri til viðtals þess er kærði boðaði til og skriflegrar úrvinnslu þess. Að mati kærunefndar styðja skriflegir minnispunktar úr viðtali ekki þá niðurstöðu að frammistaða kæranda í viðtalinu hafi verið slakari en frammistaða þess er skipaður var.

 39. Með vísan til framangreinds hafa verið leiddar líkur að því að kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun kærða um skipun í embætti prests í D. Er það mat kærunefndar jafnréttismála að kærði hafi ekki fært fram málefnalegar ástæður fyrir skipuninni. Braut því kærði við skipun í embætti prests við D í janúarmánuði 2015 gegn ákvæði 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði braut gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við skipun í embætti prests í D í janúarmánuði 2015.

 Erla S. Árnadóttir

 Björn L. Bergsson

 Þórey S. Þórðardóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum