Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 146/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um endurupptöku máls nr. 146/2020

Fimmtudaginn 29. október 2020

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með bréfi 26. október 2020 óskaði B lögmaður, f.h. A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 146/2020 þar sem staðfestar voru ákvarðanir Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um synjun á veitingu stofnframlags vegna kaupa á tveimur íbúðum að C.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði inn umsókn um stofnframlag til leiguíbúða á grundvelli laga nr. 52/2016 um almennar íbúðir vegna fyrirhugaðra kaupa á 45 íbúðum í Reykjavík fyrir öryrkja. Með ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 28. október 2019, var umsókn kæranda samþykkt að hluta. Í niðurstöðu úthlutunarnefndar stofnframlaga kom meðal annars fram að umsóknin væri ekki endanlega samþykkt fyrr en kærandi hefði skilað inn kaupsamningum eða kauptilboðum til Íbúðalánasjóðs sem myndi meta hvort kaupin uppfylltu skilyrði laga um almennar íbúðir og þar á meðal hagkvæmni íbúða að því er varðar kaupverð og stærðarviðmið sem sjóðurinn teldi hagkvæm með tilliti til herbergjafjölda. Með tölvupósti 31. október 2019 óskaði kærandi eftir samþykki Íbúðalánasjóðs um veitingu stofnframlags vegna kaupa á tveimur íbúðum að C í Reykjavík. Með ákvörðunum HMS, dags. 3. janúar 2020, var umsókn kæranda vegna þessara íbúða synjað með vísan til þess að kaup þeirra gætu ekki talist hagkvæm í skilningi laga um almennar íbúðir hvað verð varðar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. mars 2020. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu þann 3. september 2020. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála ákvarðanir HMS um synjun á veitingu stofnframlags vegna kaupa á tveimur íbúðum að C.

II.  Sjónarmið kæranda

Í beiðni um endurupptöku kemur fram að í úrskurði nefndarinnar hafi verið lagt til grundvallar að hinar kærðu ákvarðanir HMS hafi ekki byggst á öðrum grundvelli en mati stofnunarinnar á hagkvæmni hlutaðeigandi íbúða samkvæmt fyrirmælum 1. mgr. 13. gr. laga nr. 52/2016 og 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 183/2020, sbr. enn fremur 1. mgr. 17. gr. laganna og 2. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar. Með úrskurðinum hafi mat HMS á hagkvæmni hlutaðeigandi íbúða verið staðfest með vísan til þess að fermetraverð þeirra væri hátt og íbúðirnar því dýrar í almennum samanburði, sbr. niðurlag niðurstöðukafla úrskurðarins.

Kærandi vísar til þess að ákvæði 1. mgr. 17. gr. laga nr. 52/2016 og 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 183/2020 séu ótvíræð um að mat á hagkvæmni almennrar íbúðar skuli byggjast á heildstæðu mati þar sem tekið sé tillit til gerðar og stærðar íbúðar, útbúnaðar hennar, ástands og staðsetningar, auk kaupverðs. Þá verði jafnframt ótvírætt ráðið af þessum fyrirmælum að við mat á hagkvæmni íbúðar á grundvelli þessara sjónarmiða skuli jafnframt höfð hliðsjón af þörfum þess hóps sem íbúðirnar séu ætlaðar. Loks séu þessi fyrirmæli skýr um það að skilyrðið um hagkvæmni almennra íbúða miði að því að unnt verði að leigja þær á viðráðanlegum kjörum til einstaklinga sem séu undir tekju- og eignamörkum laganna. Sú forsenda úrskurðarnefndar velferðarmála, sem fram komi í úrskurði nefndarinnar, að fermetraverð umdeildra íbúðanna tveggja að C hafi verið hátt og þær dýrar í almennum samanburði leiði ekki til þeirrar niðurstöðu að umræddar íbúðir teljist ekki hagkvæmar í framanröktum skilningi laga nr. 52/2016. Til að meta hagkvæmni þeirra í þessum skilningi verði að fara fram heildstætt mat á grundvelli allra þeirra sjónarmiða sem tilgreind séu í og leiði af framanröktum ákvæðum.

Í fyrsta lagi sé ljóst þegar kaupverð íbúðanna tveggja sé virt með hliðsjón af gerð þeirra, stærð, útbúnaði, ástandi og staðsetningu að það sé að öllu leyti eðlilegt og í fullu samræmi við markaðsverð sambærilegra íbúða. Engin vísbending sé þannig um að verð íbúðanna hafi verið umfram markaðsverð. Því hafi raunar hvorki verið haldið fram af hálfu HMS né úrskurðarnefndarinnar að svo hafi verið. Hvorki stofnunin né nefndin hafi farið þá leið að óska eftir áliti sérfróðs aðila á þessu atriði á grundvelli 3. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 138/2020. Í öðru lagi sé ljóst að íbúðirnar henti fyllilega þörfum þess hóps sem þær séu ætlaðar. Í þriðja lagi liggi fyrir yfirlýsing endurupptökubeiðanda þess efnis að unnt verði að leigja íbúðirnar á viðráðanlegum kjörum í samræmi við ákvæði laga nr. 52/2016 og reglugerðar nr. 183/2020 þar að lútandi. Þessi yfirlýsing hafi ekki verið vefengd og ekki óskað eftir frekari upplýsingum eða gögnum um hana hafi úrskurðarnefndin talið þörf á slíku, sbr. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þegar framangreind atriði séu virt heildstætt verði ekki séð að umræddar íbúðir geti talist óhagkvæmar í skilningi laga nr. 52/2016 og reglugerðar nr. 183/2020. Um sé að ræða íbúðir sem hafi verið keyptar á markaðsverði, henti vel þörfum þess hóps sem þær séu ætlaðar og fyrir liggi að unnt verði að leigja einstaklingum úr þessum hópi á viðráðanlegum kjörum í samræmi við fyrirmæli og markmið laganna. Telji úrskurðarnefnd velferðarmála þrátt fyrir framangreint ástæðu til að efast um hagkvæmni hlutaðeigandi íbúða beri nefndinni í samræmi við fyrirmæli 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að leggja fullnægjandi grundvöll að afstöðu sinni með frekari upplýsingaöflun, eftir atvikum með því að óska eftir frekari upplýsingum frá kæranda. Þá beri nefndinni að færa rök fyrir afstöðu sinni í samræmi við þær lágmarkskröfur um rökstuðning matskenndra stjórnvaldsákvarðana sem kveðið sé á um í 22. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 4. tölul. 31. gr. laganna. Að hvorugu þessara atriða hafi verið gætt við fyrri meðferð málsins.

Samkvæmt framanröktu hafi úrskurðarnefnd velferðarmála ekki lagt heildstætt mat á hagkvæmni umræddra íbúða samkvæmt fyrirmælum 1. mgr. 13. og 1. mgr. 17. gr. laga nr. 52/2016 og 2. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 183/2020. Þá hafi nefndin hvorki gætt ákvæða 10. né 22. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Úrskurður nefndarinnar sé því haldinn verulegum annmörkum að formi og efni. Með vísan til þess sé farið á leit við nefndina að hún taki málið til nýrrar meðferðar og úrlausnar.

Kærandi ítreki að markaðsverð nýlegra íbúða á höfuðborgarsvæðinu geti ekki leitt til þess eitt og sér að slíkar íbúðir teljist sjálfkrafa óhagkvæmar í skilningi laga nr. 52/2016. Ef fyrir liggi að unnt sé að kaupa slíkar íbúðir sem henti þörfum þess hóps sem þær séu ætlaðar á verði sem geri kaupanda kleift að leigja þær út til einstaklinga í þeim hópi á þeim kjörum sem mælt sé fyrir um í lögum nr. 52/2016 og reglugerð nr. 183/2020 sé ljóst að um sé að ræða hagkvæmar íbúðir frá sjónarhóli laganna. Með synjun á veitingu stofnframlags til slíkra kaupa sé ekki aðeins gengið í berhögg við einstök ákvæði þeirra heldur beinlínis unnið gegn því markmiði laganna að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga undir tekjumörkum laganna með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum.

III.  Niðurstaða

Kærandi óskar eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 3. september 2020. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála ákvarðanir Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um synjun á veitingu stofnframlags vegna kaupa á tveimur íbúðum að C.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir hefur úrskurðarnefnd velferðarmála eftir atvikum heimild til að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir veltur skylda til slíkrar endurupptöku, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurðum hennar séu verulegir annmarkar að lögum.

Beiðni kæranda um endurupptöku er byggð á því að úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála sé haldinn verulegum annmörkum að formi og efni. Kærandi telur að úrskurðarnefndin hafi ekki lagt heildstætt mat á hagkvæmni umræddra íbúða samkvæmt fyrirmælum 1. mgr. 13. og 1. mgr. 17. gr. laga nr. 52/2016 um almennar íbúðir og 2. mgr. 13. og 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 183/2020. Þá hafi nefndin hvorki gætt ákvæða 10. né 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið úrskurð nefndarinnar með tilliti til framangreindra athugasemda. Úrskurðarnefndin fellst ekki á að annmarkar séu á mati nefndarinnar á hagkvæmni umræddra íbúða. Þrátt fyrir að íbúðirnar kunni að vera hagkvæmar að gerð og stærð og í samræmi við þarfir þess hóps sem þeim er ætlað að þjóna verður ekki litið hjá því skilyrði 1. mgr. 17. gr. laga nr. 52/2016 að almennar íbúðir skuli vera eins hagkvæmar og aðstæður leyfa í því skyni að unnt verði að leigja þær á viðráðanlegum kjörum. Óháð markaðsverði þá var líkt og fram kemur í úrskurði nefndarinnar um hátt fermetraverð að ræða og íbúðirnar því dýrar í almennum samanburði. Þá er ekki fallist á að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga eða að úrskurðurinn hafi ekki verið nægjanlega rökstuddur. Úrskurðarnefndin mat það svo að ekki væri þörf á frekari gögnum eða upplýsingum þegar úrskurðað var í málinu. Þá var í úrskurðinum vísað til þeirra réttarreglna sem niðurstaðan var byggð á og greint frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið, sbr. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga.

Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 146/2020 synjað.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um endurupptöku máls nr. 146/2020 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira