Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 396/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 396/2021

Miðvikudaginn 15. september 2021

 

 

A

 

gegn

 

umboðsmanni skuldara

 

 

ÚRSKURÐUR

 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Erla Guðrún Ingimundardóttir lögfræðingur.

Þann 6. ágúst 2021 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 21. júlí 2021, þar sem heimild kæranda til greiðsluaðlögunar var felld niður.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fædd árið X. Kærandi fær ellilífeyri frá Tryggingastofnun og Greiðslustofu lífeyrissjóða. Heildarskuldir kæranda samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara eru 4.738.462 krónur.

 

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara þann 28. janúar 2021 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og hófst þá tímabundin frestun greiðslna, sbr. 1. mgr. 11. gr. lge., eða svokallað greiðsluskjól. Í framhaldinu var kæranda skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum sínum. Í ákvörðun umboðsmanns og sérstöku fylgiskjali með henni var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. lge.

 

Í bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 19. apríl 2021 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli lge., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. og a- og c-lið 1. mgr. 12. gr. Því væri það mat umsjónarmanns að fella ætti niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli 15. gr. lge.

 

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 4. júní 2021 var henni gefinn kostur á að tjá sig um mat umsjónarmanns innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunarumleitana. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna taldi umboðsmaður skuldara að upp á tilskilinn sparnað kæranda vantaði 368.223 krónur. Kærandi brást við bréfinu með símtali, dags. 9. júní 2021, þar sem hún veitti upplýsingar um tekjur og greiðslur. Þann 21. júní 2021 bárust gögn frá kæranda og þann 23. júní 2021 greindi hún frá því í símtali að hún hefði ekki lagt neitt til hliðar á þeim tíma sem hún hafði notið greiðsluskjóls. Þann 13. júlí 2021 gerði kærandi munnlega grein fyrir stöðu sinni.

 

Með ákvörðun 21. júlí 2021 felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með vísan til 15. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge. Umboðsmaður skuldara mat framkomnar skýringar kæranda á innborgunum einstaklinga á bankareikninga hennar og seðlainnlagna kæranda trúverðugar og taldi fjárhagsstöðu kæranda ekki óglögga hvað það varðaði, með tilliti til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

 

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála með bréfi 6. ágúst 2021. Með bréfi, dags. 9. ágúst 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð umboðsmanns skuldara. Með tölvubréfi, dags. 17. ágúst 2021, tilkynnti umboðsmaður skuldara að embættið hefði engu við hina kærðu ákvörðun að bæta og vísaði í forsendur ákvörðunarinnar.

 

II. Sjónarmið kæranda

 

Kærandi fer fram á að mál hennar verði skoðað og endurmetið. Skilja verður kæru hennar svo að hún krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Í kæru greinir kærandi frá því að hún sé lífeyrisþegi með mjög lág laun. Vegna félagslegra aðstæðna ráði kærandi ekki við að leggja meira til hliðar en 50.000 krónur á mánuði frá ágúst 2021. Útgjöld hafi verið meiri en gert hafi verið ráð fyrir af félagslegum ástæðum. Þá greinir kærandi frá því að hún sé ekki að bruðla með peninga. Að mati kæranda sé henni sniðinn þröngur stakkur í framfærslu. Það sé af þeim sökum sem hún sé í þessum farvegi með skuldir. Hún hafi tekið smálán og borgað af því en skuldir hafi aldrei minnkað vegna vaxtakostnaðar.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

 

Í hinni kærðu ákvörðun segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara á meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum standi. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla.

 

Samkvæmt útreikningum embættisins, sbr. bréf til kæranda, dags. 4. júní 2021, sé áætlað að kærandi hefði átt að geta lagt til hliðar 368.223 krónur á tímabilinu frá byrjun febrúar 2021 til og með maí 2021. Samkvæmt uppfærðri samantekt frá 13. júlí 2021 hafi sparnaður umsækjanda alls átt að geta numið 390.161 krónum á tímabilinu frá byrjun febrúar til og með júlí 2021, en að teknu tilliti til reikninga sem kærandi hafi lagt fram þann 19. júlí 2021 vegna óvæntra nauðsynlegra útgjalda, hafi sparnaður hennar átt að geta numið alls 350.180 krónum.

 

Kærandi hafi veitt þær skýringar að hún eigi ekki neinn sparnað, meðal annars þar sem hún hafi borið straum af auknum kostnaði á tímabilinu vegna viðhalds á heimilistækjum og þar sem raun útgjöld hennar vegna framfærslu séu umfram framfærsluviðmið embættisins. Í útreikningum hafi þegar verið tekið tillit til þeirra reikninga vegna viðgerða sem kærandi hafi sýnt fram á að hún hafi greitt og þá hafi einnig verið tekið tillit til þess að læknis- og lyfjakostnaður hennar sé að jafnaði hærri en framfærsluviðmið embættisins geri ráð fyrir. Athugun embættisins hafi leitt í ljós að í útreikningum á sparnaði hafi þegar verið tekið tillit til útgjalda kæranda vegna húsfélagsgjalda. Þá staðfesti fyrirliggjandi yfirlit yfir bankareikning kæranda að tekjur hennar vegna þrifa hafi hækkað úr 25.000 krónum í 27.500 krónur frá maímánuði 2021 og að hún hafi greitt 10.000 krónur til Ríkisskattstjóra í mars, apríl, maí og júní 2021 vegna endurákvörðunar. Á fundi með kæranda þann 19. júlí 2021 hafi jafnframt komið fram að skýra mætti skort á sparnaði með því að kærandi hafi stutt son sinn fjárhagslega, að hún hafi greitt háa reikninga hjá B og að hún hafi greitt af bílaláni á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana.

 

Kærandi hafi greitt alls 37.049 krónur til C fjármögnunarþjónustu vegna bílaláns þann 5. apríl 2021. Um hafi verið að ræða uppsafnaðar afborganir af láninu vegna febrúar, mars og apríl 2021, eða tímabilsins eftir að umsækjanda hafði verið veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Fyrirliggjandi bankayfirlit reiknings kæranda staðfesti að hún hafi einnig greitt af bílaláninu í maí, 11.993 krónur og í júní, 12.018 krónur. Alls liggi því fyrir að kærandi hafi ráðstafað 61.060 krónum vegna afborgana af bílaláni á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana.

 

Samkvæmt símtalsskráningu umsjónarmanns frá 27. janúar 2021 hafi verið útskýrt fyrir kæranda að möguleg niðurstaða í greiðsluaðlögunarsamningi gæti verið sú að hún myndi greiða af bílaláni og inn á samningskröfur á samningstíma. Í símtalinu hafi skyldur skuldara við greiðsluaðlögun jafnframt verið útskýrðar og síðan endurteknar í öðru símtali þann 28. janúar 2021. Aðspurð í símtali þann 9. júní 2021, hafi kærandi gefið þær skýringar að hafa greitt af bílaláninu þar sem hún hafi ekki viljað missa bílinn. Hún hafi tekið fram að C fjármögnunarþjónusta hafi þó ekki gert þá kröfu að hún yrði að greiða af láninu ellegar þyrfti hún að skila bílnum.

 

Samkvæmt fyrirliggjandi yfirlitum bankareikninga umsækjanda, sem nái til tímabilsins 28. janúar 2021 til 27. júní 2021, hafi kærandi lagt alls 325.294 krónur inn á bankareikning sonar síns. Á sama tímabili hafi sonur hennar lagt alls 33.500 krónur inn á reikning kæranda. Á fundi þann 19. júlí 2021 hafi kærandi upplýst að hún hafi veitt syni sínum fjárstuðning vegna bágrar fjárhagsstöðu hans. Kærandi hafi verið upplýst um að ekki yrði unnt að taka tillit til þess að hún styðji fullorðinn son sinn fjárhagslega á sama tíma og hún sjálf leiti sér aðstoðar vegna greiðsluvanda.

 

Í 6. gr. lge. séu tilgreindar þær aðstæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

 

Innborganir einstaklinga inn á bankareikninga kæranda sem og mismunur á inn- og útborgunum á milli kæranda og nokkurs fjölda einstaklinga hafi alls numið 130.500 krónum á tímabilinu 29. janúar 2021 til 8. apríl 2021. Á sama tímabili hafi kærandi lagt inn á bankareikning sinn 68.000 krónur í seðlum. Þá hafi kærandi fengið símgreiðslu að fjárhæð 15.410 krónur þann 15. mars 2021. Alls nemi óútskýrðar innborganir á tímabilinu 213.910 krónur. Kærandi hafi verið beðin um að veita skýringu á umræddum innborgunum svo að ljóst mætti vera hvort um væri að ræða fjármuni sem hún hafi haft sér til framfærslu.

 

Kærandi hafi greint frá því í símtali þann 9. júní 2021 að sonur hennar hafi ekki verið með kort, hann láti hana hafa seðla sem hún leggi inn á reikning sinn og geymi fyrir hann svo að hann eyði ekki peningnum. Einnig hafi hún nefnt að hún versli stundum fyrir systur sína og systirin leggi þá inn á reikning hennar fyrir kaupunum. Þá hafi hún stundum kveðið sig fá fjárstuðning frá ættingjum þegar hún væri blönk. Kærandi hafi verið beðin um að gera skriflega grein fyrir umræddu og styðja skýringar sínar gögnum eins og unnt væri. Engin gögn hafi borist en á fundi þann 19. júlí 2021 hafi kærandi endurtekið fyrri skýringar og einnig skýrt innborganir sínar til einstaklinga með þeim hætti að sumar þeirra væru afmælisgjafir til barnabarna.

 

Skýringar kæranda veiti aðeins upplýsingar um hluta þess fjár sem leggja hefði átt til hliðar samkvæmt fyrirmælum a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., eða því sem nemi 106.348 krónum af alls 456.528 króna sparnaði sem henni hafi borið að leggja til hliðar á tímabilinu frá byrjun febrúar til og með júlí 2021, sbr. það tímabil sem sé til umfjöllunar í bréfi embættisins frá 4. júní 2021 og það tímabil sem liðið sé frá þeim tíma og hafi verið fjallað um í samskiptum við kæranda. Þar sem kærandi hafi greint frá því að hún hafi ekki lagt neitt til hliðar á tímabilinu verði að telja að hún hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá liggi fyrir að kærandi hafi látið af hendi alls 61.060 krónur á tímabili greiðslufrestunar vegna afborgana af bílaláni, þar af hafi hún greitt alls 37.049 krónur á því tímabili sem sé til umfjöllunar í bréfi embættisins frá 4. júní 2021. Þá hafi hún stutt son sinn fjárhagslega með fjárframlögum, alls um 325.294 krónur, sem hafi verulega skert getu hennar til að leggja til hliðar sparnað. Með því að ráðstafa umræddum fjármunum þyki kærandi hafa farið í bága við skyldur sínar samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Auk þess hafi kærandi verið beðin um að veita skýringar á innborgunum einstaklinga inn á bankareikninga hennar og seðlainnlögnum kæranda sjálfrar á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana þar sem umræddar innborganir geri það að verkum að ekki sé fullljóst hvaða fjármuni hún hafi haft til ráðstöfunar á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Kærandi hafi veitt munnlegar skýringar á umræddu en ekki staðfest skýringarnar með framlagningu gagna eða með vísan í fyrirliggjandi bankayfirlit. Engu að síður þyki skýringar hennar trúverðugar og verði ekki talið að fjárhagsstaða hennar teljist óglögg hvað þetta varði.

 

Þess skuli getið að öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun séu kynntar skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. áður en umsókn sé samþykkt. Að ósk kæranda hafi samskipti við hana vegna vinnslu máls að mestu verið munnleg. Umsjónarmaður hafi farið munnlega yfir skyldur skuldara við greiðsluaðlögun í símtali þann 27. janúar 2021, áður en umsókn hafi verið samþykkt. Kærandi hafi auk þess fengið ítarlegar upplýsingar sendar með tölvupósti þann 28. janúar 2021 sem hún hafi svarað þann sama dag með símtali og hafi umsjónarmaður þá farið yfir greiðsluaðlögunarferlið og hafi aftur lagt áherslu á skyldur skuldara við greiðsluaðlögun. Þá hafi fylgt skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. með ákvörðun um samþykki umsóknar um greiðsluaðlögun þann 28. janúar 2021 sem hafi borist kæranda í formi tölvupósts. Umræddar upplýsingar hafi enn fremur verið að finna á heimasíðu umboðsmanns skuldara, www.ums.is. Hafi kæranda því mátt vera vel ljóst að hún skyldi halda til haga þeim fjármunum sem hún hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

 

Heimild kæranda til greiðsluaðlögunar hafi því verið felld niður samkvæmt 15. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og c-liða 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

 

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

 

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 19. apríl 2021 að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem bentu til þess að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. og a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. þar sem veruleg óvissa ríkti um framtíðartekjur kæranda, en kærandi hafði ekki lagt neitt til hliðar og hafði látið af hendi verðmæti sem gagnast gátu lánardrottnum sem greiðsla. Í framhaldi af þessu mat umboðsmaður framkomnar skýringar kæranda á innborgunum einstaklinga á bankareikninga hennar og seðlainnlagna kæranda trúverðugar og taldi fjárhagsstöðu kæranda ekki óglögga hvað það varðaði með tilliti til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi greiðsluaðlögunarumleitanir hennar niður með hinni kærðu ákvörðun á grundvelli a- og c- liða 1. mgr. 12. gr. lge.

 

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hennar var samþykkt hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi upplýst um skyldur sínar samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge.

 

Að mati umboðsmanns skuldara hefði kærandi átt að leggja til hliðar 350.180 krónur frá því að umsókn hennar um greiðsluaðlögun var samþykkt, eða allt frá byrjun febrúar til og með júlí 2021. Kærandi greindi frá því við umboðsmann skuldara að hún hefði ekki lagt neitt til hliðar á tímabili greiðsluaðlögunar.

 

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum sem tekið er tillit til við útreikninga á áætluðum sparnaði.

 

Samkvæmt útreikningum umboðsmanns skuldara var áætlað að kærandi hefði átt að geta lagt til hliðar 390.161 krónur á tímabilinu febrúar til og með júlí 2021. Kærandi lagði fram reikninga vegna viðgerða á heimilistækjum að fjárhæð alls 41.910 krónur. Þá var litið til þess að útgjöld kæranda vegna læknis- og lyfjakostnaðar væru að jafnaði hærri en framfærsluviðmið embættisins geri ráð fyrir. Raunútgjöld kæranda vegna lyfja- og lækniskostnaðar voru 24.934 krónum hærri en viðmið embættisins. Tekið var tillit til þess í uppfærðri samantekt kæranda, dags. 13. júlí 2021, á mögulegum sparnaði kæranda. Kærandi hefði átt að leggja fyrir 350.180 krónur í sparnað á tímabilinu febrúar til júlí 2021. Í samtali við umsjónarmann, dags. 17. mars 2021, hafi kærandi greint frá því að hjálagður sparnaður væri 109.000 krónur en í símtali, dags. 8. apríl 2021, hafi kærandi greint frá því að hún hefði ráðstafað sparnaðinum, meðal annars með því að greiða ógreidda reikninga af bílaláni. Kærandi kveðst hafa greitt ógreidda reikninga af bílaláni til að forða því að missa bifreið sína. Samkvæmt gögnum málsins stofnaði kærandi til skuldarinnar áður en umsókn hennar um  greiðsluaðlögun var samþykkt og fellur skuldin því undir greiðsluaðlögun, sbr. a-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kæranda var því óheimilt að greiða af bílaláninu á tímabili greiðslufrestunar.

 

Þá liggur fyrir að kærandi lagði 325.294 krónur inn á bankareikning sonar síns á tímabilinu 28. janúar 2021 til 27. júní 2021. Úrskurðarnefndin tekur undir það með umboðsmanni skuldara að ekki sé unnt að taka tillit til þess að kærandi styðji fullorðinn son sinn fjárhagslega á sama tíma og hún leiti sér aðstoðar vegna greiðsluvanda.

 

Enn fremur liggur fyrir að raunútgjöld kæranda vegna síma og internets hafi að jafnaði verið 42.390 krónur a mánuði á tímabilinu febrúar til og með júní 2021 en uppfærð framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir að kostnaður einstaklings sé 17.260 krónur á mánuði fyrir þessa útgjaldaliði. Kærandi kveðst vera með áskriftarleið til samræmis við notkun sína. Gera verður þá kröfu til einstaklinga, sem glíma við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi úr útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta og noti þá fjármuni sem þeir hafa til að greiða af skuldum sínum. Að mati nefndarinnar er ekki forsvaranlegur mismunur á útgjöldum kæranda vegna síma og nets og framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara.

 

Að framangreindu virtu verður að telja að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. með því að hafa stutt son sinn fjárhagslega, greitt háa reikninga vegna síma og internets og greitt af bílaláni í stað þess að leggja til hliðar þá fjármuni sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla. Skýringar kæranda í kæru að hún geti nú lagt 50.000 krónur fyrir breytir ekki því mati úrskurðarnefndarinnar.

 

Með vísan til alls þess, sem hér hefur verið rakið, bar að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er samkvæmt því staðfest.

 


 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A, til greiðsluaðlögunar, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira