Hoppa yfir valmynd

Nr. 270/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 22. júní 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 270/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21040044

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 20. apríl 2021 kærði […], kt. […], ríkisborgari Póllands (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. apríl 2021, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í 20 ár.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að endurkomubann verði ákvarðað eins stutt og lög leyfa, þ.e. tvö ár, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Með dómi Héraðsdóms Suðurlands hinn […] í máli nr. […] var kærandi dæmdur til fangelsisrefsingar í þrjú ár fyrir kynferðisbrot, sbr. 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærandi áfrýjaði dómnum til Landsréttar. Með dómi Landsréttar, dags. […], í máli nr. […] var niðurstaðan sú að hinn áfrýjaði dómur skyldi vera óraskaður. Kærandi óskaði í kjölfarið eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar Íslands og var beiðninni synjað með ákvörðun réttarins hinn […]. Þann 4. mars 2021 var kæranda birt tilkynning um hugsanlega brottvísun og þann 29. mars 2021 lagði kærandi fram andmæli í tilefni tilkynningarinnar auk fylgigagna. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. apríl 2021, var kæranda brottvísað og honum ákveðið endurkomubann til Íslands í 20 ár. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 20. apríl 2021.

III.           Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til áðurnefndra dóma Héraðsdóms Suðurlands og Landsréttar. Vísaði stofnunin til og fjallaði um ákvæði 95., 96. og 97. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi verið dæmdur til þriggja ára fangelsisrefsingar fyrir brot gegn 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Kynferðisbrot væru alvarleg afbrot sem væru aðför að líkamlegri og andlegri heilsu brotaþola og hefðu oft á tíðum óafturkræfar líkamlegar og andlegar afleiðingar. Væru brot af þessu tagi ógn við líf og heilsu einstaklinga og myndi þar með raunverulega yfirvofandi og alvarlega ógn gagnvart þeim grundvallarhagsmunum samfélagsins að verja þegna sína frá árásum sem ógni lífi þeirra og heilsu. Þá hefði kærandi jafnframt gerst sekur um brot gegn þágildandi umferðarlögum nr. 50/1987. Komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að skilyrði 1. og 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga væru uppfyllt í máli kæranda og að takmarkanir 97. gr. sömu laga gætu ekki hróflað við þeirri niðurstöðu. Var kæranda því vísað brott frá Íslandi og með hliðsjón af alvarleika brots og lengdar fangelsisrefsingar var honum ákveðið endurkomubann til Íslands í 20 ár, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð umboðsmanns kæranda er hvað varðar málsástæður og lagarök vísað til greinargerðar þáverandi umboðsmanns kæranda frá 26. mars 2021 ásamt fylgigögnum sem fylgdu þeirri greinargerð. Þar er vísað til þess að kærandi, sem sé pólskur ríkisborgari, hafi flutt til Íslands í janúar 2017 og falli því undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu. Þá hafi kærandi samkvæmt 87. og 88. gr. laga um útlendinga rétt til ótímabundinnar dvalar hérlendis og frjálsar farar. Hafi kærandi átt flekklausan feril fram að máli Landsréttar nr. […] en meint brot hafi átt sér stað á öldurhúsi í […] þar sem aðilar voru bæði drukkin og höfðu hvorugt minni um meint atvik. Telji þáverandi umboðsmaður, sem hafi flutt málið fyrir dómi, dóminn um sakfellinguna vera ranga. Sé niðurstaðan af lestri dómsins sú að kærandi sé ekki hættulegur og engin ástæða sé til að ætla að hann geti aftur lent í svipaðri aðstöðu því hann sé reynslunni ríkari um að fara varlega í öll samskipti við hitt kynið undir áhrifum áfengis. Kærandi sé ekki alkóhólisti en hafi ákveðið að hætta neyslu áfengis þar sem hann missi minnið við drykkjuna og sætti sig ekki við að hafa ekki fullkomna stjórn aðstæðum.

Samkvæmt 97. gr. laga um útlendinga þurfi kærandi ekki að sæta brottvísun nema yfirvöld geti tilgreint með málefnalegum rökum að það varði hættu á rofi á allsherjarreglu eða stofni öryggi almennings í hættu að kærandi verði áfram á landinu. Kærandi sé ekki hættulegur maður og sé engin ástæða til að ætla að hann fremji nein frekari afbrot, hann hafi alltaf stundað atvinnu og reynt að sjá fyrir sér með eigin vinnu. Lífstíll kæranda gefi ekki tilefni til að ætla að frá honum stafi framvegis raunveruleg, yfirvofandi og alvarleg ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins. Er vísað til þess að kærandi eigi kærustu sem bíði hans og ætli þau að stofna saman fjölskyldu og eiga saman börn. Þau kunni vel við sig á Íslandi og vilji hvergi annars staðar búa, þau séu með víðtækt vinanet um íslenskt samfélag og tengist mörgum fjölskyldum órjúfanlegum vinaböndum. Með því að reka kæranda úr landi sé brotið á rétti hans til friðhelgi einkalífs sem verndað sé í 71. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1994 og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Hafi hegðun kæranda frá atvikinu verið til fyrirmyndar og staðfesti fagaðilar í fangelsinu á Litla-Hrauni mannskosti hans. Þá vísar kærandi til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 27/2020, sbr. einnig niðurstöðu Landsréttar sem hrundið hefði niðurstöðum Útlendingastofnunar, kærunefndar og héraðsdóms en þar hafi verið til úrlausnar aðili sem dæmdur hafi verið fyrir manndráp og dæmdur til 16 ára fangelsis. Hafi þar ekki verið fallist á brottvísun eða endurkomubann og aðilinn ekki talinn hættulegur framvegis þrátt fyrir alvarlegt sakfellt brot. Vísar kærandi í þessu samhengi m.a. til meðalhófs, jafnræðis og fordæmis þessa dóms til stuðnings kröfum sínum.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í samræmi við 7. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, hefur tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna verið tekin upp í íslenskan rétt, sbr. m.a. XI. kafla laga um útlendinga sem felur í sér sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Í 95. gr. laga um útlendinga er fjallað um brottvísun EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar er heimilt að vísa EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans úr landi ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis. Í 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga segir að brottvísun samkvæmt 1. mgr. 95. gr. sé heimil ef framferði viðkomandi feli í sér raunverulega, yfirvofandi og nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins. Ákvörðun um brottvísun skuli ekki eingöngu byggjast á almennum forvarnaforsendum. Ef viðkomandi hafi verið dæmdur til refsingar eða sérstakar ráðstafanir ákvarðaðar sé brottvísun af þessari ástæðu því aðeins heimil að um sé að ræða háttsemi sem geti gefið til kynna að viðkomandi muni fremja refsivert brot á ný. Fyrri refsilagabrot nægi ekki ein og sér til þess að brottvísun sé beitt.

Með dómi Héraðsdóms Suðurlands hinn […] í máli nr. […] var kærandi dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir nauðgun, sbr. 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga en brotið var framið þann […]. Með dómi Landsréttar í máli nr. […], dags. […], var niðurstaða héraðsdóms staðfest og hóf kærandi afplánun fangelsisrefsingar hinn 24. september 2020. Samkvæmt sakavottorði kæranda, dags. 16. júlí 2019, hefur kærandi gengist undir tvær lögreglustjórasáttir, báðar dagsettar 28. febrúar 2019, fyrir brot gegn 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 48. gr. þágildandi umferðarlaga nr. 50/1987 og fyrir brot gegn 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a sömu laga.

Við mat á því hvort framferði kæranda sé þess eðlis að skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga um útlendinga sé uppfyllt, sbr. 27. gr. tilskipunar nr. 2004/38 verður að mati kærunefndar að líta til þess að kærandi var sakfelldur fyrir alvarlegt kynferðisbrot þar sem hann braut á ósvífinn hátt gegn sjálfsákvörðunarrétti og friðhelgi annarrar manneskju. Brot kæranda beindist að grundvallarhagsmunum íslensks samfélags í skilningi 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga en á grundvelli 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um vernd friðhelgi einkalífs hvílir skylda á stjórnvöldum að vernda einstaklinga gegn kynferðisofbeldi. Þá lítur kærunefnd til endurtekinna og alvarlegra brota kæranda gegn umferðarlögum með akstri undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna. Þrátt fyrir að tjón hafi ekki hlotist af síðastnefndum brotum kæranda hlýst af háttseminni mikil hætta gegn lífi og heilsu fólks í umferðinni.

Með vísan til alvarleika brots kæranda gegn 194. gr. almennra hegningarlaga og ítrekaðra brota gegn þágildandi umferðarlögum, verður talið að framferði kæranda feli í sér raunverulega og yfirvofandi ógn í skilningi 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga og að háttsemi hans hafi verið slík að hún geti gefið til kynna að hann muni fremja refsivert brot á ný.

Í 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga koma fram takmarkanir á heimild til brottvísunar samkvæmt 95. gr. laganna. Í ákvæðinu segir að brottvísun skuli ekki ákveða ef það með hliðsjón af málsatvikum og tengslum EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans við landið mundi fela í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart viðkomandi eða nánustu aðstandendum hans. Við matið skuli m.a. taka mið af lengd dvalar á landinu, aldri, heilsufari, félagslegri og menningarlegri aðlögun, fjölskyldu- og fjárhagsaðstæðum og tengslum viðkomandi við heimaland sitt, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga. Kærandi, sem er þrítugur, hefur verið með skráð lögheimili á Íslandi frá 12. janúar 2017 og hefur samkvæmt gögnum málsins dvalið hér á landi samfellt frá þeim tíma. Er óumdeilt að aðstæður kæranda falla ekki undir þau atriði sem 1. mgr. 97. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um, m.a. um rétt til ótímabundinnar dvalar en slíkur réttur er bundinn við það að EES- eða EFTA-borgari hafi dvalist löglega í landinu samfellt í minnst fimm ár.

Í greinargerð er m.a. vísað til þess að kærandi eigi unnustu og vinafólk hér á landi og er byggt á því að ákvörðun um brottvísun brjóti á rétti hans til friðhelgi einkalífs sem verndað sé í 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt gögnum málsins er unnusta kæranda, […], ríkisborgari Póllands. Í framlögðu bréfi hennar til Útlendingastofnunar, dags. 14. mars 2021, kemur fram að hún og kærandi hafi kynnst í nóvember 2019 þegar hún kom til landsins. Hafi hún verið þunguð en hún misst fóstrið þar sem hún hafi verið kvíðin vegna fangelsisdvalar kæranda. Sé markmið þeirra að hefja sambúð þegar kærandi ljúki fangelsisrefsingu sinni og standi vilji þeirra til þess að dvelja saman hér á landi áfram.

Þótt fjölskyldutengsl kæranda hér á landi hafi þýðingu við mat á því hvort brottvísun sé heimil í ljósi 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga lítur kærunefnd svo á, með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem lögð eru til grundvallar í ákvæðinu, að alvarlegt brot kæranda gegn 194. gr. almennra hegningarlaga og ítrekuð brot gegn þágildandi umferðarlögum, vegi þyngra en hagsmunir hans og unnustu hans af því að dvelja áfram hér á landi. Lítur kærunefnd til þess að kærandi framdi umrædd brot tiltölulega skömmu eftir að hann kom til landsins. Þá lítur kærunefnd til þess að samband kæranda og unnustu hans hófst eftir að hann framdi umrætt kynferðisbrot, samband þeirra hefur staðið í afar skamman tíma auk þess sem þau máttu gera sér grein fyrir því að brot kæranda kynni að hafa aðrar lögfylgjur en fangelsisrefsingu í för með sér, þ.e. mögulega brottvísun kæranda frá landinu. Þá er enn fremur ljóst að kærandi og maki geta sameinast í öðru ríki innan EES- EFTA-svæðisins, en endurkomubann kæranda gildir einungis til Íslands.

Í greinargerð vísar kærandi jafnframt til dóms Landsréttar í máli nr. 632/2019 þar sem felldur var úr gildi úrskurður kærunefndar útlendingamála um brottvísun útlendings á grundvelli 99. gr. með hliðsjón af 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi til þess að með dóminum hafi verið felldur úr gildi úrskurður kærunefndar um brottvísun útlendings sem framið hafði alvarleg brot gegn almennum hegningarlögum.

Kærunefnd telur að umræddur dómur hafi ekki fordæmisgildi fyrir mál kæranda. Með dómi Landsréttar voru ákvarðanir stjórnvalda um brottvísun útlendings og að ákveða honum endurkomubann til landsins felldar úr gildi með vísan til þess að kærunefndin og Útlendingastofnun hefðu byggt á röngum upplýsingum um tengsl kæranda við börn sín hér á landi, en sérstaklega brýnt hefði verið að fullnægjandi upplýsingar lægju fyrir um tengsl við börnin áður en hin íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun hefði verið tekin. Þá vísaði dómurinn til þess að það leiddi af 10. gr. stjórnsýslulaga að þegar niðurstaða stjórnvalds ylti á mati á atriði sem krefðist sérþekkingar bæri stjórnvaldi að kalla eftir sérfræðilegri aðstoð, hefði það sjálft ekki yfir að ráða nauðsynlegri þekkingu á viðkomandi sviði. Í dóminum var að engu vikið að því hvort brot þess útlendings er málið varðaði hefðu verið þess eðlis að réttlætanlegt hefði verið að brottvísa honum frá landinu. Samkvæmt gögnum málsins á kærandi ekki börn hér á landi og hefur framangreindur dómur því ekki þýðingu fyrir mál kæranda.

Að framangreindu virtu telur kærunefnd að 2. mgr. 97. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir brottvísun kæranda frá landinu. Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga um útlendinga felur brottvísun samkvæmt 1. mgr. 95. gr. í sér bann við komu til landsins síðar. Er kveðið á um að endurkomubann geti verið varanlegt eða tímabundið en þó ekki styttra en tvö ár. Við mat á því skuli sérstaklega líta til atriða sem talin eru upp í 1. og 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga.

Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda bönnuð endurkoma til Íslands í 20 ár. Að málsatvikum virtum og með vísan til alvarleika brots kæranda, verður lengd endurkomubanns staðfest. Athygli er vakin á því að samkvæmt 2. mgr. 96. gr. laga um útlendinga er heimilt að fella endurkomubann úr gildi ef nýjar ástæður mæla með því og rökstutt er að orðið hafi verulegar breytingar á þeim aðstæðum sem réttlættu ákvörðun um endurkomubann.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest

The decision of the Directorate of Immigration is confirmed

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira