Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 76/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 76/2024

Mánudaginn 29. apríl 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. febrúar 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. nóvember 2023, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans og að innheimta ofgreiddar bætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 20. mars 2023 og var umsóknin samþykkt með 100% bótarétti. Við reglubundið eftirlit kom í ljós að kærandi var skráður í 25 eininga nám við B á haustönn 2023. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 12. október 2023, var óskað eftir að kærandi legði fram skólavottorð og ástæðu þess að hann hefði ekki upplýst stofnunina um nám sitt. Skýringar bárust frá kæranda þann 16. október 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. nóvember 2023, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta hefðu verið stöðvaðar með vísan til 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og að honum bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 21. ágúst til 30. september 2023, að fjárhæð 338.437 kr., auk álags. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar 16. nóvember 2023 sem veittur var með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 1. desember 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. febrúar 2024. Með bréfi, dags. 15. febrúar 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 20. mars 2024, og var hún kynnt kæranda samdægurs með bréfi úrskurðarnefndar. Athugasemdir bárust frá kæranda 3. apríl 2024 og voru þær kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. apríl 2024. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að skýrleika skorti vegna lagagrundvölls fyrri ákvörðunar Vinnumálastofnunar í máli hans. Skortur á skýrleika hafi leitt til misræmis milli hinnar kærðu ákvörðunar og fyrri ákvörðunar Vinnumálastofnunar sem valdi óvissu og gremju hjá honum.

Kæranda finnist hann knúinn til að greina nánar frá aðstæðum sínum sem hafi leitt til fyrrgreindrar ákvörðunar. Í Covid-19 heimsfaraldrinum hafi hann lent í óvæntum atvinnumissi sem þjónn á C. Til að bregðast við því hafi hann ákveðið að skrá sig í dreifnám í húsasmíði hjá B. Þrátt fyrir að vera í fullu starf hafi hann eytt helgum sínum í þessa menntun.

Haustið 2022 hafi kærandi keypt íbúð á D og flutt þangað vorið 2023 með fjölskyldu sinni. Vegna þess hafi hann þó ekki getað starfað lengur sem húsasmiður á E. Þar af leiðandi hafi hann skráð sig atvinnulausan og byrjað að leita að starfi á D.

Þann 25. apríl 2023 hafi honum borist bréf frá Vinnumálastofnun vegna námsins sem hann hafi verið í. Honum hafi verið tilkynnt að hver sá sem stundi nám teljist ekki tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi gefið nákvæma útskýringu og útvegað öll skjöl vegna beiðni Vinnumálastofnunar. Hins vegar hafi það reynst honum erfitt að afla upplýsinga um það hvaða áhrif nám hans hefði á rétt hans til atvinnuleysisbóta. Hann hafi talið að það nám sem hann hafi stundað félli undir „nám samhliða atvinnu“. Hann hafi talið það vera í samræmi við lög um rétt hans til bóta.

Daginn eftir, þann 26. apríl 2023, hafi hann fengið svar frá Vinnumálastofnun þess efnis að stofnuninni hefði borist fullnægjandi gögn í máli hans. Í ljósi fyrirliggjandi gagna væri það niðurstaða stofnunarinnar að ekki væri ástæða til að aðhafast frekar að svo stöddu. Þá hafi einnig komið fram að Vinnumálastofnun hefði því lokið athugun á máli hans. Vegna þessarar ákvörðunar Vinnumálastofnunar hafi kærandi talið að hann gæti stundað nám samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Það hafi vantað skýringu á lagalegum forsendum ákvörðunarinnar í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 26. apríl 2023. Í ákvörðuninni hafi skýringum kæranda ekki verið mótmælt.

Þann 12. október 2023 hafi kærandi fengið bréf frá Vinnumálastofnun sem hafi verið sambærilegt fyrri bréfum stofnunarinnar. Hann hafi leitt hugann að því hvort bréfið hefði verið sent fyrir mistök og því hafi hann reynt að leiðrétta mögulegan misskilning stofnunarinnar.

Þann 1. nóvember 2023 hafi hann fengið bréf frá Vinnumálastofnun þar sem óskað hafi verið eftir frekari gögnum til að skýra málið frekar. Hann hafi tafarlaust lagt fram umbeðin viðbótargögn. Þann 13. nóvember 2023 hafi honum verið mjög brugðið þar sem ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið í ósamræmi við fyrri ákvarðanir. Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi stofnunarinnar sem hafi borist honum 1. desember 2023. Í rökstuðningi segi meðal annars:

„Þér var heimilt að stunda nám þitt á vorönn 2023 á grundvelli undanþágu sem til er að dreifa í 5. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 en þar segir:

Þrátt fyrir 1.-4. mgr. skal hinum tryggða ávallt heimilt að ljúka þeirri önn sem er yfirstandandi [við starfslok hans eða þegar hann missir starf sitt að hluta“

Lagalegar forsendur ákvörðunarinnar hafi aðeins verið kynntar honum sjö mánuðum eftir upphaflegu ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Skortur á skýrum lagalegum rökstuðningi grafi ekki aðeins undan gagnsæi og ábyrgð heldur brjóti einnig gegn meginreglum um réttláta og sanngjarna málsmeðferð. Í fyrsta lagi sé lagagrundvöllur nauðsynlegur til þess að einstaklingar skilji á hvaða grundvelli ákvarðanir sem snerti réttindi og hagsmuni séu teknar. Án skýrrar tilvísunar til gildandi laga, reglugerða og fordæma séu einstaklingar í óvissu og geti ekki metið möguleika sína á úrræðum. Í öðru lagi torveldi það aðilum að mótmæla ákvörðuninni á réttan hátt. Það sé mikilvægt að færa rök fyrir ákvörðun til þess að einstaklingar geti metið hvort hún hafi verið tekin á réttan hátt. Þar að auki geti skortur á lagalegum forsendum bent til óreglu í málsmeðferð og geðþótta í ákvarðanatöku. Stjórnvaldsákvarðanir skuli teknar í samræmi við lög og reglur til að tryggja sanngirni og koma í veg fyrir misbeitingu valds. Ef lagalegar forsendur séu ekki tilgreindar sé hætta á að ákvarðanir séu teknar af geðþótta eða byggðar á ótengdum atriðum.

Kæra á stjórnvaldsákvörðun vegna skorts á lagagrundvelli sé ekki aðeins spurning um réttarfarslegt réttlæti heldur einnig réttindi einstaklinga og réttarríkja. Með því að krefjast skýrs lagalegs rökstuðnings styrki einstaklingar meginreglur um gagnsæi, ábyrgð og sanngjarna málsmeðferð sem sé nauðsynlegt fyrir réttlátt og sanngjarnt samfélag.

Í athugasemdum kæranda, mótteknum 3. apríl 2024, kemur fram að kærandi sé ánægður með þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður 15% álagið. Kærandi telji þó nauðsynlegt að greina frá því að lagalegan rökstuðning skorti fyrir skuldinni. Hefði Vinnumálastofnun greint frá lagagrundvelli í upphaflegri ákvörðun stofnunarinnar hefði kærandi getað brugðist við á viðeigandi hátt, til að mynda með því að hætta í námi, fækka skráðum áföngum eða sækja um námslán.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 20. mars 2023. Með erindi, dags. 29. mars 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og útreiknaður bótaréttur væri 100%.

Við reglulegt eftirlit Vinnumálastofnunar í apríl 2023 hafi komið fram að kærandi hefði verið skráður í 26 eininga nám á vorönn 2023 við B. Með erindi, dags. 25. apríl 2023, hafi verið óskað eftir að kærandi afhenti Vinnumálastofnun skólavottorð og skýringu á ótilkynntu námi.

Þann 26. apríl 2023 hafi Vinnumálastofnun borist skólavottorð frá B, auk skýringa kæranda. Kærandi hafi greint frá því að fyrirkomulag námsins væri með þeim hætti að hægt væri að stunda námið með vinnu og teldi hann það því falla að skilyrðum um nám sem heimilt væri að stunda meðfram greiðslu atvinnuleysisbóta. Í skólavottorði hafi komið fram að kærandi hefði byrjað nám við skólann á haustönn 2021 og væri skráður í 26 einingar á yfirstandandi vorönn 2023. Upphaf annar væri 2. janúar 2023 og lok annar þann 31. maí 2023. Þá hafi verið tilgreint að um væri að ræða nám við húsasmíði í dreifnámi og að það væri að mestu kennt í fjarnámi og um helgar.

Með erindi þann 26. apríl 2023 hafi Vinnumálastofnun staðfest að gögnin væru fullnægjandi og að ekki væri tilefni til að aðhafast frekar í máli kæranda. Í erindinu hafi láðst að upplýsa kæranda um að námið myndi ekki skerða rétt hans til greiðslu atvinnuleysistrygginga samkvæmt undanþáguákvæði meginreglu laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hann væri að ljúka yfirstandandi námsönn þegar hann hafi misst starf sitt.

Við reglubundið eftirlit í október 2023 hafi komið í ljós að kærandi væri skráður í 25 eininga nám við B á haustönn 2023. Með erindi, dags. 12. október 2023, hafi stofnunin óskað eftir staðfestu skólavottorði, auk skýringa kæranda þar sem ekki hafði verið upplýst um skólavist á þeirri önn. Þann 16. október 2023 hafi skýringar kæranda borist þess efnis að um væri að ræða sama nám við húsasmíði í dreifnámi og hann hafi þegar skýrt frá. Með erindi þann 1. nóvember 2023 hafi kæranda verið veittar frekari skýringar og leiðbeiningar um að Vinnumálastofnun yrði að fá afhent skólavottorð svo hægt væri að taka afstöðu til málsins. Þann 13. nóvember 2023 hafi Vinnumálastofnun borist skólavottorð frá B þar sem fram hafi komið að kærandi væri skráður í 25 einingar í húsasmíði á haustönn 2023. Upphaf annar væri 14. ágúst 2023 og lok annar þann 31. desember 2023.

Með erindi, dags. 13. nóvember 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að greiðslur til hans hefðu verið stöðvaðar sökum þess að hann hefði stundað nám samhliða greiðslu atvinnuleysistrygginga án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Kæranda hafi jafnframt verið tilkynnt að ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins 21. ágúst 2023 til 30. september 2023 næmu 338.437 kr. og að þær yrðu innheimtar með 15% álagi samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laganna og væri heildarskuld við stofnunina 389.202 kr.

Framangreind ákvörðun hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 12. febrúar 2024. Í kæru greini kærandi frá því að ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. nóvember 2023, væri ekki í samræmi við fyrri ákvörðun stofnuarinnar. Kærandi hafi því staðið í þeirri trú að honum væri heimilt að stunda umrætt nám, enda hefðu engar breytingar átt sér stað á högum hans. Um væri að ræða sama nám á sömu forsendum. Í kæru til nefndarinnar fari kærandi fram á það að skuld hans við Vinnumálastofnun verði felld niður sökum óskýrleika og skorts á rökstuðningi á ákvörðun stofnunarinnar.

Ágreiningur í málinu snúi að ofgreiðslu atvinnuleysistrygginga til kæranda á tímabilinu 21. ágúst 2023 til 30. september 2023 vegna ótilkynnts náms.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Í c. lið 3. gr. laganna sé að finna eftirfarandi skilgreiningu á námi:

„Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Í 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé nánar kveðið á um nám. Í 1. mgr. 52. gr. segi orðrétt:

„Hver sá sem stundar nám, sbr. c. lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. þó 2., 3. og 4. mgr.“

Ljóst sé af ákvæði 1. mgr. 52. gr. að það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stundi nám. Í athugasemdum með 52. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé tiltekið að það sé meginregla að námsfólk eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum hvort sem um sé að ræða fjarnám, dag- eða kvöldskóla.

Í 2. til 5. mgr. 52. gr. laganna sé þó að finna undantekningar frá þeirri meginreglu. Í 2. mgr. komi fram að þrátt fyrir 1. mgr. sé hinum tryggða heimilt að stunda nám á framhaldsskólastigi sem nemi að hámarki 12 einingum eða á háskólastigi sem nemi að hámarki 12 ECTS-einingum á námsönn. Í 3. mgr. komi fram að þrátt fyrir 1. og 2. mgr. sé Vinnumálastofnun heimilt að greiða hinum tryggða skertar atvinnuleysisbætur í samræmi við umfang náms sem nemi allt að 20 einingum á námsönn.

Í 4. mgr. komi fram:

„Þrátt fyrir 1.-3. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám sem er skipulagt samhliða vinnu af viðkomandi menntastofnun og er ekki lánshæft til framfærslu hjá Menntasjóði námsmanna án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga, enda hindri námið hvorki virka atvinnuleit viðkomandi né möguleika hans til þátttöku á vinnumarkaði. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um skipulag námsins.“

Í 5. mgr. sömu greinar komi fram:

„Þrátt fyrir 1.-4. mgr. skal hinum tryggða ávallt heimilt að ljúka þeirri önn sem er yfirstandandi við starfslok hans eða þegar hann missir starf sitt að hluta, sbr. 17. gr., án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga.“

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi verið skráður í 25 eininga nám við B á vorönn 2023 og 26 eininga nám á haustönn 2023, á sama tíma og hann hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga. Þar sem ráðningarslit kæranda hafi verið þann 31. janúar 2023 hafi honum þó verið heimilt samkvæmt 5. mgr. 52. gr. laganna að ljúka yfirstandandi önn við starfslok hans. Í erindi til kæranda þann 26. apríl 2023, hafi verið tilgreint að ekki væri tilefni til að aðhafast frekar að svo stöddu án nánari tilvísunar til lagagrunns ákvörðunar. Kæranda hafi því ekki verið leiðbeint um að nám hans félli að annarri heimild en þeirri sem hann hefði fært fram skýringar vegna né leiðbeint um að sú undanþága ætti aðeins við um yfirstandandi önn. Þar sem nám kæranda á haustönninni hafi ekki fallið að heimildum 2. til 5. mgr. 52. gr. hafi hann ekki átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta á því tímabili.

Kærandi hafi í skýringum sínum vísað til þess að hann hefði tilkynnt Vinnumálastofnun um nám sitt og að hans mati félli námið undir heimild til náms sem skipulagt sé samhliða vinnu.

Í 4. mgr. 52. gr. sé að finna heimild til að stunda nám samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta, sem sé skipulagt samhliða vinnu, ef námið sé ekki lánshæft til framfærslu hjá Menntasjóði námsmanna og hindri ekki virka atvinnuleit viðkomandi né möguleika hans til þátttöku á vinnumarkaði. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og úthlutunarreglum Menntasjóðsins hafi nám kæranda verið lánshæft og hafi því ekki fallið að skilyrðum ákvæðisins.

Það hafi verið ákvörðun Vinnumálastofnunar að 26 eininga nám kæranda á haustönn 2023 hafi ekki rúmast innan ákvæða laganna og því hafi hann ekki átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta á tímabilinu 21. ágúst til 30. september 2023. Vinnumálastofnun beri því að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 338.437 kr. í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laganna. Heildarskuld kæranda, að viðbættu álagi hafi verið að fjárhæð 389.202 kr.

Með vísan til 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar liggi fyrir að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 21. ágúst til 30. september 2023. Í 39. gr. laganna sé fjallað um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum. Í 2. mgr. 39. gr. segir orðrétt:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrði laganna. Í athugasemdum með 39. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistrygginga sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslunnar hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé því fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Með vísan til framangreinds hafi kæranda borið að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem hann hafi fengið greiddar fyrir tímabilið 21. ágúst til 30. september 2023, samtals 389.202 kr., enda liggi fyrir að hann hafi ekki uppfyllt skilyrði laganna á umræddu tímabili, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Heildarskuld kæranda nemi 389.202 kr., þar af sé álag að fjárhæð 50.765 kr. Í lokamálslið 2. mgr. 39. gr. segi að fella skuli niður álagið færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka sem hafi leitt til skuldmyndunar.

Skýringar kæranda snúi að því að hann hafi staðið í þeirri trú að honum hefði verið heimilt að stunda umrætt nám. Upplýsingar sem hann hafi fengið af heimasíðu stofnunarinnar og frá ráðgjafa hennar hafi stutt þá trú hans. Auk þess sem ákvörðun stofnunarinnar, dags. 26. apríl 2023, hafi rennt frekari stoðum þar undir. Þá bendi hann á að í þeirri ákvörðun hafi ekki fylgt rökstuðningur á hvaða forsendum sú ákvörðun hafi verið tekin.

Vinnumálastofnun bendi á að á heimasíðu stofnunarinnar sé skýrt tekið fram að almennt sé óheimilt að stunda nám samhliða greiðslu atvinnuleysistrygginga og farið sé yfir undanþágur frá þeirri meginreglu. Þar komi meðal annars fram að undanþágan um nám sem sé skipulagt sem nám samhliða vinnu sé háð því skilyrði að námið megi ekki vera lánshæft samkvæmt lánareglum Menntastofnunar námsmanna.

Á heimasíðu stofnunarinnar megi jafnframt finna upplýsingar um skyldu atvinnuleitanda til að tilkynna um allar breytingar á högum, þar á meðal um þátttöku í námi. Með vísan til framangreindra upplýsinga sé það mat Vinnumálastofnunar að kæranda hafi mátt vera ljóst að ávallt þyrfti að tilkynna stofnuninni ef stundað væri nám á tiltekinni námsönn og leitast eftir heimild til náms og skráningu á námssamningi.

Í ljósi skýringa kæranda hefði stofnunin þó með ákvörðun, dags. 26. apríl 2023, mátt gæta betur að leiðbeiningarskyldu sinni og tryggja að kærandi gerði sér grein fyrir að sú ákvörðun byggði á annarri undanþágu en þeirri sem hann hafi fært fram skýringar vegna. Auk þess að betur hefði farið á að leiðbeina um skilyrði þeirrar undanþágu sem kærandi hafi vísað til.

Með vísan til framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að ekki eigi að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur með 15% álagi, þar sem athafnir kæranda eins hafi ekki valdið þeim annmarka sem hafi leitt til ákvörðunar Vinnumálastofnunar, sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna. Það sé þó ljóst að nám kæranda falli ekki að undanþágum frá 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem finna megi í 2. til 5. mgr. sömu greinar. Vinnumálastofnun hafi því borið fortakslaus skylda til að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt 39. gr. laganna að fjárhæð 338.437 kr.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði til greiðslu atvinnuleysistrygginga á tímabilinu 21. ágúst til 30. september 2023, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kæranda beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, án álags, að fjárhæð 338.437 kr., sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna. Því sé fallist á kröfur kæranda um niðurfellingu álags.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og að innheimta ofgreiddar bætur.

Í IX. kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tilvik er leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum. Í 52. gr. laganna er fjallað um nám en þar segir:

„Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. þó 2., 3. og 4. mgr.

Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á framhaldsskólastigi sem nemur að hámarki 12 einingum eða á háskólastigi sem nemur að hámarki 12 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á framhaldsskólastigi sem nemur allt að 20 einingum eða á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.

Þrátt fyrir 1.–3. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám sem er skipulagt samhliða vinnu af viðkomandi menntastofnun og er ekki lánshæft til framfærslu hjá Menntasjóði námsmanna án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga, enda hindri námið hvorki virka atvinnuleit viðkomandi né möguleika hans til þátttöku á vinnumarkaði. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um skipulag námsins.

Þrátt fyrir 1.–4. mgr. skal hinum tryggða ávallt heimilt að ljúka þeirri önn sem er yfirstandandi við starfslok hans eða þegar hann missir starf sitt að hluta, sbr. 17. gr., án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga.“

Í c-lið 3. gr. laganna er að finna skilgreiningu á námi samkvæmt lögunum en þar segir:

„Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Í athugasemdum við ákvæði 52. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Þá kemur fram að það kunni að vera að nám sé nauðsynlegur hluti af starfshæfingu atvinnuleitanda að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, en í slíkum tilvikum geti atvinnuleitandi talist tryggður samhliða námi.

Þegar sótt er um atvinnuleysisbætur er umsækjandi spurður hvort hann sé skráður í nám á umsóknardegi. Upplýst er að almennt sé ekki heimilt að vera í námi samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Þó séu undantekningar á þeirri meginreglu. Tekið er fram að það sé því mjög mikilvægt að hafa samband sem fyrst við ráðgjafa Vinnumálastofnunar til að kanna hvort viðkomandi eigi rétt á námssamningi.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi var skráður í 26 eininga nám við B þegar hann sótti um atvinnuleysisbætur 20. mars 2023 en upplýsti ekki um námið í umsókninni. Við reglulegt eftirlit Vinnumálastofnunar í apríl 2023 kom það þó í ljós og var hann í kjölfarið inntur eftir skýringum og gögnum vegna námsins. Eftir að kærandi lagði fram skólavottorð og skýringar tilkynnti Vinnumálastofnun honum að fullnægjandi gögn hefðu borist og að ekki væri tilefni til að aðhafast frekar í máli hans að svo stöddu. Fyrir liggur að Vinnumálastofnun láðist að upplýsa kæranda að sú ákvörðun hefði verið tekin á grundvelli 5. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 sem líkt og að framan greinir veitir umsækjendum um atvinnuleysisbætur heimild til að ljúka þeirri önn sem er yfirstandandi við starfslok án þess að atvinnuleysisbætur verði skertar. Að mati úrskurðarnefndar var það ekki í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti og brýnir nefndin fyrir Vinnumálastofnun að vanda framvegis vinnubrögð sín.

Við samkeyrslu Vinnumálastofnunar við nemendaskrár í október 2023 kom í ljós að kærandi var einnig skráður í nám við sama skóla á haustönn 2023 án vitneskju stofnunarinnar.

Kærandi hefur meðal annars vísað til þess að þar sem Vinnumálastofnun hefði ekkert aðhafst í máli hans í fyrra skiptið þegar upp hafi komið að hann væri í námi hefði hann talið í lagi að stunda áfram námið.

Þann 20. mars 2023 var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði móttekið umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Kæranda var greint frá því að ítarlegar upplýsingar um réttindi hans og skyldur væri að finna undir liðnum „Hvað þarftu að vita“ á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Þar er fjallað um nám og atvinnuleysisbætur og fram kemur að almennt sé ekki heimilt að stunda nám samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Á því geti þó verið undantekning að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Slíkt nám atvinnuleitanda þurfi að vera samþykkt af Vinnumálastofnun og uppfylla ákveðin skilyrði samkvæmt reglugerð. Vegna náms á framhaldsskólastigi samhliða virkri atvinnuleit þurfi að gera námssamning við Vinnumálastofnun sem geti að hámarki verið vegna 12 fein. á önn. Þá er tekið fram að mikilvægt sé að ráðfæra sig við ráðgjafa Vinnumálastofnunar vegna náms samhliða atvinnuleit.

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hefði mátt vita af tilkynningarskyldu vegna ástundun náms, eða að minnsta kosti haft tilefni til þess að afla sér frekari upplýsinga um hvort slík skylda væri fyrir hendi, þrátt fyrir framangreinda annmarka Vinnumálastofnunar í bréfi, dags. 26. apríl 2023.

Samkvæmt staðfestingu á skólavist frá B, dags. 27. október 2023, var kærandi skráður í 25 eininga nám á haustönn 2023. Fyrir liggur að nám kæranda var ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerð samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar og einnig liggur fyrir að undanþáguheimildir 2., 3. og 4 mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 eiga ekki við í máli kæranda þar sem hann var skráður í nám umfram 20 einingar og nám hans var ekki skipulagt samhliða vinnu. Að því virtu uppfyllti kærandi ekki skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum á þeim tíma sem hann var í náminu og var Vinnumálastofnun því rétt að stöðva greiðslur til hans.

Með hinni kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar voru einnig innheimtar ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins 21. ágúst 2023 til 30. september 2023. Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið, að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Aftur á móti skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Fyrir liggur að Vinnumálastofnun hefur ákveðið að fella niður álagið sem lagt var á endurgreiðslukröfuna og er því ekki ágreiningur um það atriði. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. nóvember 2023, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A, og að innheimta ofgreiddar bætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum