Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 3/2018. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 26. mars 2018 kærir Sveinbjörn Freyr Arnaldsson f.h. óstofnaðs einkahlutafélags Sportisca útboð Garðabæjar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) auðkennt „Íþróttasvæði í Ásgarði – Aðalvöllur. Endurnýjun á knattspyrnugrasi á núverandi fjaðurlag“. Kærandi krefst þess efnislega að hið kærða innkaupaferli verði stöðvað, ákvörðun varnaraðila um val á tilboði í hinu kærða útboði verði felld úr gildi og útboðið verði auglýst að nýju. Jafnframt er krafist skaðabóta, málskostnaðar og endurgreiðslu kærugjalds. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu kæranda um að stöðva samningsgerðina um stundarsakir, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 18. apríl 2018

í máli nr. 3/2018:

Sveinbjörn Freyr Arnaldsson f.h.

óstofnaðs einkahlutafélags Sportisca ehf.

gegn

Garðabæ og

Metatron ehf.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 26. mars 2018 kærir Sveinbjörn Freyr Arnaldsson f.h. óstofnaðs einkahlutafélags Sportisca útboð Garðabæjar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) auðkennt „Íþróttasvæði í Ásgarði – Aðalvöllur. Endurnýjun á knattspyrnugrasi á núverandi fjaðurlag“. Kærandi krefst þess efnislega að hið kærða innkaupaferli verði stöðvað, ákvörðun varnaraðila um val á tilboði í hinu kærða útboði verði felld úr gildi og útboðið verði auglýst að nýju. Jafnframt er krafist skaðabóta, málskostnaðar og endurgreiðslu kærugjalds. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu kæranda um að stöðva samningsgerðina um stundarsakir, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Í febrúar 2018 stóð varnaraðili fyrir hinu kærða útboði þar sem óskað var eftir tilboðum í förgun á núverandi knattspyrnugrasi á aðalvelli Stjörnunnar í Ásgarði í Garðabæ, útvegun og fullnaðarfrágangi á nýju knattspyrnugrasi þess í stað ofan á núverandi fjaðurlag, ásamt mörkum, hornfánum og festingum. Í grein 0.1.1 í útboðsgögnum kom fram að heildarkerfi knattspyrnugrassins, þ.e. bæði knattspyrnugrasið sjálft, núverandi fjaðurlag og fjaðrandi efni (innfylling), skyldi uppfylla FIFA Quality PRO, sameiginlegar kröfur FIFA og UEFA um knattspyrnugrasvelli samkvæmt staðlinum „FIFA Quality Programme for Football turf, October 2015“. Þá skyldi grasið vera með grænni EPDM Virgin innfyllingu. Innifalið í tilboði skyldi vera prófun á heildarkerfi til staðfestingar á að það uppfyllti fyrirliggjandi kröfur staðalsins og útboðsgagna þegar það væri komið á endanlegan stað. Í grein 0.1.3 kom fram að um útboðið giltu ákvæði laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Þá kom fram í grein 0.1.6 að tilboð skyldu sett fram samkvæmt tilboðsblöðum útboðsgagna og skyldu bjóðendur fylla út alla liði tilboðsskrár. Kom fram að bæjaryfirvöld myndu hafna þeim tilboðum sem ekki væru sett fram samkvæmt tilboðsblöðum. Í grein 0.1.9 var ítarleg upptalning á þeim gögnum sem fylgja skyldu tilboðum, en þar kom meðal annars fram að tilboðum skyldi fylgja vottun um að efni sem boðið væri uppfyllti gerðar kröfur til FIFA Quality PRO, og skyldi vottunin vera frá NBI (Norges byggeforskningsinstitut) eða annarri sambærilegri viðurkenndri stofnun. Skyldu þær vottanir sem skilað væri inn með tilboði eiga nákvæmlega við um það efni og þá uppbyggingu kerfis sem boðið væri. Þá skyldi fylgja tilboðum skrifleg yfirlýsing framleiðanda um að gras og innfylling yrði komin á verkstað og tilbúin til útlagningar 30. mars 2018. Jafnframt skyldu tilboðum fylgja ýmis önnur gögn, s.s. yfirlýsing um ábyrgðartíma, upplýsingar um fjölda, menntun og reynslu starfsmanna, yfirlýsing frá viðskiptabanka um umfang veltu á undanförnum þremur árum, yfirlýsing um skilvísi í viðskiptum, endurskoðaðir ársreikningar, gæðahandbók, öryggishandbók, verkáætlun, yfirlit yfir helstu verkefni bjóðenda unnin á sl. fimm árum og ýmis fleiri gögn. Einnig kom fram að áhersla væri lögð á að bjóðendur skiluðu inn með tilboðum sínum öllum umbeðnum gögnum en væri það ekki gert ættu bjóðendur á hættu að tilboð þeirra yrðu dæmd ófullnægjandi og/eða ógild. Í grein 0.2.1 voru gerðar ýmsar kröfur til tæknilegrar og fjárhagslegrar getu bjóðenda. Skyldu bjóðendur meðal annars geta sýnt fram á að hafa lokið við a.m.k. eitt sambærilegt verk á sl. fimm árum, að þeir ynnu samkvæmt skilgreindu gæðastjórnunarkerfi, að meðalársvelta þeirra sl. þrjú ár væri að lágmarki 80% af tilboði þeirra í útboðinu án virðisaukaskatts auk þess sem eigið fé þeirra skyldi vera jákvætt samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi. Þá skyldu bjóðendur vera í skilum með opinber gjöld og lífeyrissjóðsiðgjöld vegna starfsmanna þegar þeir skiluðu inn tilboði. Í grein 0.2.2 kom fram til hvaða þátta skyldi litið við mat á tilboðum en í grein 0.2.3 kom fram að við mat á tilboðum skyldi verð gilda 100%. Frávikstilboð voru ekki heimiluð.

Tilboð voru opnuð 28. febrúar 2018 og bárust tilboð frá tveimur bjóðendum. Annars vegar tilboð frá kæranda að fjárhæð 88.888.888 kr. og hins vegar frá Metatron ehf., sem skilaði fimm tilboðum sem voru að fjárhæð frá 49.409.394 kr. til 56.513.980 kr. Hinn 6. mars 2018 sendi varnaraðili kæranda og Metatron ehf. tölvupóst þar sem tilkynnt var að varnaraðli hefði samþykkt að taka tilboði Metatron ehf. af tiltekinni gerð, en af gögnum málsins verður ráðið að fjárhæð þess tilboðs hafi numið 56.513.980 kr. Af gögnum málsins verður sömuleiðis ráðið að tilboð kæranda hafi ekki verið „skoðað frekar“ þar sem tilboðinu hefði ekki verið skilað inn á því formi sem útboðsgögn gerðu ráð fyrir, tilboðinu hefði ekki fylgt umbeðnar prófunarupplýsingar um boðið efni eða staðfesting á afhendingu þess auk þess sem tilboðið hefði verið hæst að fjárhæð. Þá kemur fram í greinargerð varnaraðila til kærunefndar útboðsmála að skrifað hafi verið undir verksamning milli varnaraðila og Metatron ehf. að loknum biðtíma hinn 14. mars sl.

Málatilbúnaður kæranda byggir að meginstefnu á því að óheimilt hafi verið að velja tilboð Metatron ehf. þar sem lausnin hafi verið með sandi auk græns innfylliefnis af gerðinni EPDM Virgin, en útboðsgögn hafi ekki gert ráð fyrir því að boðin lausn gæti innihaldið sand. Þá er gerð athugasemd við það að varnaraðili óski eftir úreltri gerð af gervigrasi með gúmmíkurli og sandi þegar betri lausnir séu til á markaðnum án innfylliefna. Þá séu ýmsar kröfur útboðsgagna, s.s. kröfur um fyrri reynslu bjóðenda af lagningu gervigrass, um meðalársveltu bjóðenda og um að öll samskeyti á boðnu gervigrasi skyldu vera saumuð saman en ekki límd, of íþyngjandi og gerðar til að útiloka nýja aðila frá markaðnum. Að lokum hafi kærandi ekki fengið rökstuðning fyrir vali tilboðs þrátt fyrir beiðni þar um.

 Niðurstaða

Í 114. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup kemur fram að eftir að bindandi samningur samkvæmt lögunum hefur komist á verður hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Í máli þessu hefur varnaraðili upplýst að komist hafi á bindandi samningur á milli hans og Metatron ehf. hinn 14. mars 2018. Þegar af þeirri ástæðu verður að hafna þeirri kröfu kæranda að hið kærða innkaupaferli verði stöðvað um stundarsakir samkvæmt  110. gr. laga um opinber innkaup.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Sveinbjörns Freys Arnaldssonar f.h. óstofnaðs einkahlutafélags Sportisca um að útboð varnaraðila, Garðabæjar, auðkennt „Íþróttasvæði í Ásgarði – Aðalvöllur. Endurnýjun á knattspyrnugrasi á núverandi fjaðurlag“ verði stöðvað um stundarsakir, er hafnað.

                Reykjavík, 18.  apríl 2018

                                                                                    Skúli Magnússon         

                                                                                    Stanley Pálsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira