Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 351/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 351/2020

Fimmtudaginn 22. október 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. júlí 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. júní 2020, um að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 6. apríl 2020. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. júní 2020, var umsókn kæranda hafnað á þeirri forsendu að kærandi væri ekki með skráð lögheimili á Íslandi, sbr. c-lið 13. gr. og c-lið 18. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. júlí 2020. Með bréfi, dags. 22. júlí 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 9. september 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. september 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir því að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði endurskoðuð. Kærandi vonist eftir því að hann geti fengið atvinnuleysisbæturnar greiddar aftur í tímann eða frá þeim tíma sem hann sendi inn umsókn til Vinnumálastofnunar og þangað til hann hafi farið til B.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi átt í erjum við Vinnumálastofnun vegna umsóknar sinnar um atvinnuleysisbætur. Kærandi geti ekki fengið bætur vegna þess að hann sé með lögheimili í B og að það sé ófrávíkjanleg regla með engum möguleikum á undanþágu. Kærandi sé búsettur í B vegna sérnáms sambýliskonu sinnar en vinni vertíðarvinnu á Íslandi í ferðaþjónustu. Kærandi hafi komið með alla fjölskylduna til Íslands en eftir skamman tíma hafi hann hins vegar misst vinnuna vegna kórónuveirufaraldursins. Kærandi hafi sent inn umsókn um atvinnuleysisbætur vegna þess að hann borgi í velferðarkerfið á Íslandi en ekki í B. Hins vegar geti kærandi ekki flutt lögheimilið til Íslands vegna þess að landamærum B hafi verið lokað öðrum en þeim sem eigi lögheimili þar. Kærandi hefði því ekki komist aftur heim til sambýliskonu sinnar og barna þegar hún hafi byrjað aftur að vinna í lok maí. Hún sé í fullu starfi sem C og þurfi á honum að halda til að sjá um börnin þegar hún sé í vinnu utan leikskólatíma. Þau hafi því ákveðið að best væri að hún byrjaði fyrr að vinna vegna breyttra aðstæðna hjá kæranda.

Kærandi sýni því skilning að umsækjandi fái ekki bætur frá einu landi á meðan umsækjandi sé staddur í öðru landi. Hér sé ekki verið að biðja um það heldur hafi kærandi verið á Íslandi, í vinnu og misst hana vegna kórónuveirunnar og sent inn beiðni um bætur á meðan hann hafi verið í atvinnuleit á Íslandi. Kæranda hafi verið hafnað vegna skráningar lögheimilis og vegna vanmáttar Vinnumálastofnunar til að taka tillit til óviðráðanlegra og fordæmalausra aðstæðna.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Með lögunum sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að hinir tryggðu séu í virkri atvinnuleit þann tíma. Atvinnuleysistryggingar veiti hinum tryggðu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu. Í 13. gr. laganna séu talin upp almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Í c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysistrygginga þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Samkvæmt framangreindu sé það frumskilyrði fyrir því að eiga rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga að atvinnuleitandi sé búsettur hér á landi.

Í kæru til nefndarinnar komi fram að kærandi búi í B ásamt sambýliskonu. Hann kveðist vinna vertíðarvinnu á Íslandi í ferðaþjónustu og hann hafi verið kominn hingað til lands með alla fjölskylduna til að gera einmitt það. Jafnframt taki kærandi fram að eftir skamman tíma á Íslandi hafi hann misst vinnuna sem hafi verið búið að ráða hann í vegna kórónuveirufaraldursins og þeim ferðatakmörkunum sem faraldrinum hafi fylgt.

Vinnumálastofnun fallist ekki á röksemdafærslu kæranda í kæru til nefndarinnar, enda leiði hún til þess að Vinnumálastofnun beri að greiða atvinnuleitanda, sem hafi skráð lögheimili erlendis, atvinnuleysisbætur þrátt fyrir skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar um að atvinnuleitandi sé búsettur á Íslandi. Það sé afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum á meðan hann sé búsettur og staddur erlendis. Kærandi uppfylli ekki búsetuskilyrði c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og af þeim sökum beri Vinnumálastofnun að hafna umsókn hans um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til ofangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða stofnunarinnar að réttilega hafi verið staðið að ákvörðun um synjun umsóknar kæranda um atvinnuleysisbætur og að staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á þeirri forsendu að hann væri ekki með skráð lögheimili á Íslandi, sbr. c-lið 13. gr. og c-lið 18. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Þegar kærandi lagði inn umsókn um atvinnuleysisbætur var eitt af þeim skilyrðum að vera búsettur og staddur hér á landi, sbr. c-lið ákvæðisins.

Óumdeilt er að kærandi var staddur hér á landi þegar hann sótti um atvinnuleysisbætur en lögheimili hans skráð erlendis. Þar sem ákvæði c-liðar 13. gr. laga nr. 54/2006 áskildi ekki skráningu lögheimilis hér á landi á þeim tíma sem kærandi lagði inn umsókn hjá Vinnumálastofnun er það mat úrskurðarnefndarinnar að stofnuninni hafi borið að leggja mat á hvort kærandi væri búsettur og staddur hér á landi. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. júní 2020, um að hafna umsókn A, um atvinnuleysisbætur, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira