Hoppa yfir valmynd

Nr. 94/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 16. febrúar 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 94/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23010011

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.       Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 325/2022, dags. 6. október 2022, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. maí 2022, um að taka umsókn [...], fd. [...], ríkisborgari Palestínu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 7. október 2022.

Hinn 13. október 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar og synjaði kærunefnd beiðni kæranda 8. nóvember 2022 með úrskurði nr. 460/2022. Hinn 3. janúar 2023 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins ásamt greinargerð. Upplýsingar um málsmeðferð í máli kæranda bárust kærunefnd frá Útlendingastofnun og stoðdeild ríkislögreglustjóra 5. janúar 2023.

Af greinargerð kæranda má ætla að beiðni hans byggi á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Beiðni kæranda um endurupptöku málsins byggir á því að meira en 12 mánuðir séu nú liðnir frá því að hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi, en tafir á afgreiðslu málsins séu ekki á hans ábyrgð. Með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 skuli umsókn kæranda því tekin til efnismeðferðar hér á landi. Kærandi vísar til þess að samkvæmt stjórnsýsluframkvæmd hafi afgreiðsla umsóknar í skilningi framangreinds ákvæðis miðast við umsóknardag annars vegar og hins vegar þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda sé framkvæmd með flutningi til viðtökuríkis.

III.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 30. desember 2021 og rann því umræddur 12 mánaða frestur út á miðnætti 30. desember 2022. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Hinn 5. janúar 2023 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og stoðdeild ríkislögreglustjóra um hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsóknar kæranda og ef svo væri, hvort þær væru á ábyrgð kæranda, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Svar frá Útlendingastofnun barst þann sama dag en þar kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá stoðdeild ríkislögreglustjóra hafi kærandi látið sig hverfa eftir að úrskurður féll í máli hans og því hafi ekki tekist að ná til hans varðandi framkvæmd ákvörðunar Útlendingastofnunar. Útlendingastofnun telji því að kærandi hafi tafið mál sitt, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í svari Útlendingastofnunar kemur jafnframt fram að talsmanni kæranda hafi verið tilkynnt um að hann væri skráður horfinn og eftirlýstur í kerfum lögreglu og óskað eftir að talsmaður hefði sambandi, hefði hann vitneskju um íverustað hans. Þá hafi tilkynning verð send til viðtökuríkis og frestur til flutnings verið framlengdur úr 6 í 18 mánuði, sbr. síðari málsliður 29. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari stoðdeildar ríkislögreglustjóra, dags. 5. janúar 2023, kemur m.a. fram að 14. nóvember 2022 hafi stoðdeild ríkislögreglustjóra farið í búsetuúrræði kæranda en hann hafi ekki verið þar. Hinn 29. nóvember 2022 hafi starfsmaður stoðdeildar rætt við herbergisfélaga kæranda sem hafi greint frá því að kærandi væri af og til í búsetuúrræði. Hann væri með muni í herberginu en dveldi stundum í Reykjavík. Hinn 13. desember 2022 hafi verið reynt að ná í kæranda símleiðis, án árangurs. Hinn 14. desember 2022, hafi Vinnumálastofnun lokað greiðslukorti kæranda í þeirri von að hann gæfi sig fram. Hinn 15. desember 2022 hafi verið reynt að ná í kæranda símleiðis, án árangurs. Þann sama dag hafi starfsmaður stoðdeildar farið í búsetuúrræði kæranda. Herbergisfélagi kæranda hafi greint frá því að hann væri ekki þar, en hann væri á Íslandi. Hinn 19. desember 2022, hafi verið reynt að hringja í kæranda en slökkt hafi verið á farsíma hans. Þá hafi kærandi ekki gefið sig fram hjá Vinnumálastofnun eftir að greiðslukorti hans hafi verið lokað. Kærandi hafi verið skráður horfinn og eftirlýstur. Hinn 29. desember 2022 hafi verið sent tölvubréf á Útlendingastofnun um að ekkert hafi spurst til kæranda og óskað eftir að tilkynning þess efnis yrði send á viðtökuríki.

Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 5. janúar 2023, var kærandi upplýstur um afstöðu Útlendingastofnunar og stoðdeildar ríkislögreglustjóra og gefinn frestur til að koma að andmælum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Talsmaður kæranda staðfesti móttöku tölvubréfsins en engin andmæli bárust innan veitts frests.

Eins og að framan greinir var kærandi ekki í búsetuúrræði sínu í þau skipti sem stoðdeild ríkislögreglustjóra reyndi að hafa upp á honum í þeim tilgangi að ræða við hann um fyrirhugaðan flutning til viðtökuríkis. Þá svaraði kærandi ekki símtölum stoðdeildar og gaf sig ekki fram hjá þjónustuteymi Vinnumálastofnunar. Kærandi er skráður horfinn og eftirlýstur í kerfum lögreglu frá og með 19. desember 2022 auk þess sem frestur íslenskra stjórnvalda til þess að flytja kæranda til viðtökuríkis á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar var framlengdur í 18 mánuði þann sama dag. Kærunefnd telur ljóst af gögnum málsins að kærandi hafi haft vitneskju um hvaða þýðingu það hefði fyrir umsókn hans ef hann yrði ekki fluttur til viðtökuríkis innan 12 mánaða frestsins. Þá gefa gögn málsins jafnframt til kynna að útskýrt hafi verið fyrir kæranda, á tungumáli sem hann skilur, að léti hann sig hverfa gæti verið litið á það sem töf sem hefði áhrif á umræddan frest. Með því að vera ekki í búsetuúrræði sínu þegar stoðdeild reyndi að hitta kæranda fyrir og svara ekki farsíma þegar stoðdeild gerði tilraunir til að hringja í kæranda telur kærunefnd að kærandi hafi komið í veg fyrir framkvæmd á flutningi sínum til viðtökuríkis innan tilskilins frests, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Með háttsemi sinni tafði kærandi málið og gerði framkvæmd endanlegrar ákvörðunar á stjórnsýslustigi ómögulega innan tilgreindra tímamarka.

Með hliðsjón af framangreindu telur kærunefnd að tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda hafi verið á hans ábyrgð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af framangreindu leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er ekki uppfyllt.


 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The appellant‘s request to re-examine the case is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Sindri M. Stephensen                                                Þorbjörg I. Jónsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum