Hoppa yfir valmynd

Nr. 436/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 27. október 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 436/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22100050

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

 1. Málsatvik

  Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 128/2022, dags. 17. mars 2022, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar frá 21. janúar 2022 um að taka ekki umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgara Sómalíu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu.

  Kærandi lagði fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 21. nóvember 2020 og var umsókn hans synjað um efnismeðferð af hálfu Útlendingastofnunar og honum vísað frá landinu. Kærunefnd útlendingamála staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar með úrskurði nr. 220/2021, dags. 20. maí 2021. Hinn 31. maí 2022 lagði kærandi fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd 18. júní 2021. Í kjölfarið fór kærandi til Grikklands 4. ágúst 2021. Hinn 21. nóvember 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Var þeirri beiðni synjað af kærunefnd 16. desember 2021. Kærandi lagði í annað sinn fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 25. nóvember 2021. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. janúar 2022, var honum synjað um efnismeðferð og  vísað frá landinu. Með úrskurði kærunefndar nr. 128/2022, dags. 17. mars 2022, var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 21. mars 2022. Hinn 28. mars 2022 lagði kærandi fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd 20. apríl 2022. Hinn 18. október 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins.

  Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á  24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

   

 2. Málsástæður og rök kæranda

  Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á tvíþættum grundvelli, annars vegar á því að aðstæður hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin í máli hans og hins vegar að ákvörðun í málinu hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum. Kærandi vísar til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-351/2022 frá 13. október 2022. Dómurinn hafi slegið því föstu að ekki hafi verið réttmætt að leggja til grundvallar að umsækjandi í málinu bæri ábyrgð á þeirri töf sem varð á meðferð máls hans og leiddi til þess að ekki varð af flutningi innan 12 mánaðar frestsins sem kveðið sé á um í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

  Kærandi byggir í fyrsta lagi á því að hann hafi ekki verið upplýstur með formlegum og sannanlegum hætti á móðurmáli sínu um skyldur sínar gagnvart Útlendingastofnun og afleiðingar þess að mæta ekki í sýnatöku eða framvísa ekki bólusetningarvottorði. Kærandi vísar til þess að í máli hans liggi ekki fyrir fullnægjandi upplýsingar um hvernig staðið hafi verið að upplýsingagjöf af hálfu stoðdeildar ríkislögreglustjóra eða hvort túlkað hafi verið frá ensku eða íslensku yfir á móðurmál hans.

  Í öðru lagi byggir kærandi á því að það sé ekki í samræmi við 11. gr. laga um útlendinga að birta tilkynningu um frávísun frá Íslandi án nokkurs samráðs við lögmann viðkomandi aðila. Kærandi telur að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur feli í sér áfellisdóm hvað varði birtingu og framkvæmd ákvarðana Útlendingastofnunar af hálfu stoðdeildar. Af dómnum megi ráða að það verklag sem hafi verið viðhaft gagnvart aðilum sem hafi ílengst hér vegna heimsfaraldurs, m.t.t. framkvæmdar um brottvísun hafi verið ófullnægjandi. Kærandi telur að endurupptaka þurfi mál hans vegna ófullnægjandi verklags. Kærandi telur því óásættanlegt að skella skuldinni á umsækjendur og synja þeim um efnismeðferð vegna ófullnægjandi verklags.

  Kærandi telur skýr og haldgóð rök fyrir því að 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga verði beitt í máli hans. Með hliðsjón af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, meginreglu 11. gr. laga um útlendinga, hagsmunum þeim sem í húfi séu og hvernig nýfallinn dómur héraðsdóms Reykjavíkur breytir niðurstöðu málsins sé ljóst að fullt tilefni sé til endurupptöku málsins.

 3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum en ekki við komu til landsins. Þá hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Líkt og áður hefur komið fram sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi í annað sinn 25. nóvember 2021 og því ljóst að ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum. Af því leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga fyrir því að umsókn kæranda verði tekin til efnismeðferðar eru ekki uppfyllt. Þá liggur jafnframt fyrir að kærandi fór frá Íslandi til viðtökuríkis vegna fyrri umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd áður en 12 mánaða tímabilinu lauk auk þess sem að samkvæmt upplýsingum frá stoðdeild ríkislögreglustjóra fór kærandi af landi brott vegna síðari umsóknarinnar 14. maí 2022. Er endurupptökubeiðnin því bersýnilega tilhæfulaus.

Að teknu tilliti til framangreinds verður ekki fallist á að úrskurður kærunefndar frá 17. mars 2022 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt.

Að framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.


 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda er hafnað.

The appellant‘s request is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                  Sindri M. Stephensen


 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira