Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 294/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 294/2021

Fimmtudaginn 16. september 2021

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. júní 2021, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 19. maí 2021, á umsókn um styrk að fjárhæð 355.000 kr. til að greiða fyrir dvöl á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 12. mars 2021, sótti kærandi um styrk hjá Reykjavíkurborg að fjárhæð 355.000 kr. til að greiða fyrir dvöl á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 4. maí 2021, með þeim rökum að hún samræmdist ekki 24. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð þar sem kærandi hefði ekki fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglunum undanfarna sex mánuði eða lengur. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi þann 19. maí 2021 og staðfesti synjunina. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 28. maí 2021.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 15. júní 2021. Með bréfi, dags. 21. júní 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 28. júní 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. júní 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda 11. ágúst 2021 og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að Reykjavíkurborg hafi ekki staðið sig við umönnun fatlaðs sonar hennar og lagt ábyrgð og umönnun hans á hennar herðar. Kærandi hafi veikst og orðið óvinnufær árið 2018 og hafi verið á tímabundinni örorku síðan. Reykjavíkurborg hafi hafnað beiðni hennar um styrk til fjögurra vikna dvalar á Heilsustofnun NLFÍ. Að mati kæranda ætti borgin að aðstoða hana við að ná heilsu þar sem hún hafi unnið launalaust fyrir borgina í fimm ár.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að það sé gömul saga og ný að reglur geti verið gallaðar, jafnvel þótt þær séu samdar og samþykktar af sérfræðingum. Reglur Reykjavíkurborgar, líkt og sjálfsagt flestar reglur, geri ekki ráð fyrir aðstæðum þar sem beiting þeirra gæti verið ranglát eða ósanngjörn. Kærandi telji að hún uppfylli þær að flestu eða öllu. Í a-lið sé ekki getið um hverskonar fjárhagsaðstoð sé að ræða en kærandi hafi verið á endurhæfingarlífeyri og örorkugreiðslum frá því sumarið 2018. Það hljóti að teljast fjárhagsaðstoð, enda hafi hún ekki lagt af mörkum neina vinnu til að verðskulda þessar greiðslur. Hvað varði b-lið þá jaðri hann við ósvífni í tilfelli kæranda. Borgin hafi ítrekað svikið kæranda um búsetu fyrir son hennar, skotið sér undan ábyrgð á syni hennar og lagt umönnun hans á herðar kæranda. Eftir því sem borgin leggi meira á kæranda við umönnun fullorðins manns með alvarlega fötlun, síendurtekin svik og ólíðandi óvissu, hraki heilsu hennar jafnt og þétt og þar sé ábyrgð borgarinnar mikil. Tímabundnar reddingar breyti litlu. Nú þegar kærandi biðji um hógværan styrk til að komast á Heilsustofnun NLFÍ, í von um að ná einhverri heilsu, sé henni bent á að taka bankalán og ef bankinn vilji ekki lána henni beri að færa fram staðfestingu þess efnis. Eftir allt sem á undan sé gengið þyki kæranda eðlilegt að yfirvöld með réttlætiskennd sjái sóma sinn í að hjálpa henni með þennan litla styrk sem sé þó mjög stór fyrir hana. Kæranda detti ekki í hug að sækja um bankalán sem hún sé ekki borgunarmanneskja fyrir. Það sé undir borginni komið hvort hún muni nokkurn tímann verða borgunarmanneskja fyrir láni. Það fari eftir því hvenær borgin ákveði að taka við syni hennar hvenær hún eigi möguleika á að komast til heilsu, verða vinnufær og þar með borgunarmanneskja fyrir láni. Fjögurra vikna dvöl á heilsuhælinu myndi hjálpa kæranda umtalsvert við að ná heilsu.

Hvað varði c-lið þá hafi félagsráðgjafi tjáð kæranda að hún myndi tala hennar máli og því geri kærandi ráð fyrir að hún hafi sent umbeðið yfirlit. Félagsráðgjafinn hafi beðið kæranda að taka saman útgjöld og tekjur en hún hafi sagt að hún myndi ekki gera það. Veikindi kæranda hafi kennt henni að eyða ekki orku í þarflaus verkefni. Kærandi hafi sagt félagsráðgjafanum að reikningar væru svipaðir og flestra annara, eins og fæði, klæði, þak yfir höfuðið, hiti, rafmagn og bensín og að hún væri með 200.000 krónur á mánuði. Kærandi hafi boðið félagsráðgjafanum að sjá um útreikning og hún hafi tekið því vel. Samkvæmt d-lið þurfi kærandi að sýna fram á að styrkur bæti stöðu hennar frekar en bankalán þegar til lengri tíma sé litið. Í huga kæranda sé það augljóst að styrkur bæti stöðu hennar frekar en bankalán. Hvað varðar setninguna: „þegar til lengri tíma er litið” þá sé framtíð kæranda í algerri óvissu og enn og aftur undir borginni komin. Líf kæranda, heilsa hennar og vinnufærni sé á huldu á meðan borgin neyði hana í umönnunarstarf sem taki sífellt meiri toll af heilsu hennar. Sonur kæranda hafi átt að komast í húsnæði haustið 2020 og í janúar 2019 hafi hann fengið aukna skammtímavistun til bráðabirgða. Það hafi ekki gengið eftir en eftir úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála hafi tiltekinn starfsmaður hjá skrifstofu um málefni fatlaðra lofað því að hann fengi húsnæði árið 2021. Vonir hafi staðið til þess að húsnæðið yrði tilbúið á haustmánuðum 2021. Samkvæmt nýjustu upplýsingum verði það ekki tilbúið fyrr en í mars 2022. Í ljósi reynslunnar væri það einfeldningsháttur að binda vonir við að það standist.

Kærandi ítreki að hún telji að það standi engum nær en borginni að hlaupa undir bagga með henni og styrkja hana um 355.000 krónur til að komast á hælið í Hveragerði í fjórar vikur. Veikindi kæranda megi beinlínis rekja til álags sem borgin hafi lagt á hana með vanrækslu sinni, vanefndum og svikum. Svik borgarinnar nái aftur til ársins 2011 en samtöl, fundahöld, hugmyndavinna og barátta fyrir búsetu fyrir son hennar hafi hafist við 15 ára aldur hans. Hann verður X ára í haust 2021. Það sé ólíðandi að þurfa að standa í stríði við borgina vegna þessa og sé sannarlega ekki heilsubætandi. Að lokum tekur kæranda fram að á sama tíma og hún hafi sótt um umræddan fjárstyrk hafi hún sótti um fjárstyrk til að standa straum af kostnaði við sálfræðimeðferð. Kærandi hafi umyrðalaust fengið styrk upp á 90.000 krónur fyrir sálfræðimeðferð, en umsókn um styrk í meðferð á heilsustofnun sé hafnað með tilvísun í reglugerð í fimm liðum. Kærandi óski eftir skýringum á þessum ólíku viðbrögðum við umsóknum um styrki sem báðir lúti að meðferð til að bæta heilsu hennar.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að kærandi sé 75% öryrki og búi með X ára fötluðum syni sínum sem hafi beðið eftir búsetuúrræði í nokkurn tíma. Kærandi hafi sótt um styrk til að greiða fyrir dvöl í einn mánuð á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði, að fjárhæð 355.000 kr., samkvæmt 24. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð sem fjalli um aðstoð vegna sérstakra erfiðleika.

Núgildandi reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hafi tekið gildi 1. apríl 2021 og verið samþykktar á fundi velferðarráðs þann 24. febrúar 2021 og á fundi borgarráðs þann 4. mars 2021. Þágildandi reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hafi verið samþykktar á fundi velferðarráðs þann 17. nóvember 2010 og á fundi borgarráðs þann 25. nóvember 2010. Reglurnar séu settar á grundvelli laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. þágildandi reglna um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar þurfi öll skilyrði ákvæðisins að vera uppfyllt til þess að umsækjandi eigi rétt á aðstoð vegna sérstakra erfiðleika. Skilyrði a-liðar 1. mgr. 24. gr. sé ekki uppfyllt þar sem kærandi hafi ekki þegið fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjavíkurborg undanfarna sex mánuði eða lengur. Þá liggi ekki fyrir staðfesting um að kærandi hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu, sbr. b-lið 1. mgr. 24. gr. reglnanna.

Með hliðsjón af framansögðu hafi það verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs að skilyrði 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg væru ekki uppfyllt og því hafi verið staðfest synjun þjónustumiðstöðvar um styrk til að greiða fyrir dvöl í einn mánuð á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði, að fjárhæð 355.000 kr. Ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991, með síðari breytingum.

IV.  Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um styrk að fjárhæð 355.000 kr. til að greiða fyrir dvöl á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, sem voru í gildi þegar kærandi sótti um umræddan styrk, var kveðið á um aðstoð vegna sérstakra erfiðleika. Samkvæmt því var heimilt að veita einstaklingum, hjónum eða sambúðarfólki lán eða styrk vegna mikilla fjárhagslegra og félagslegra erfiðleika, að uppfylltum öllum neðangreindum skilyrðum:

  1. umsækjandi hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum undanfarna sex mánuði eða lengur
  2. staðfest sé að umsækjandi hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu banka, sparisjóða eða annarra lánastofnana
  3. fyrir liggi yfirlit starfsmanns þjónustumiðstöðvar eða Umboðsmanns skuldara um fjárhagsstöðu umsækjanda og tillögur að úrbótum þegar við á
  4. fyrir liggi á hvern hátt lán eða styrkur muni breyta skuldastöðu umsækjanda til hins betra þegar til lengri tíma er litið
  5. fyrir liggi samkomulag um félagslega ráðgjöf og/eða fjármálaráðgjöf þegar það á við

Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi ekki notið fjárhagsaðstoðar sér til framfærslu frá Reykjavíkurborg síðastliðna sex mánuði eða lengur þegar umsókn um styrk vegna sérstakra erfiðleika barst Reykjavíkurborg. Þegar af þeirri ástæðu uppfyllti kærandi ekki skilyrði 24. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð en líkt og að framan greinir þurfa öll skilyrði ákvæðisins að vera uppfyllt til að eiga rétt á styrk vegna sérstakra erfiðleika. Þá verður ekki séð að umsókn kæranda uppfylli skilyrði annarra ákvæða reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 19. maí 2021, um synjun á umsókn A, um styrk að fjárhæð 355.000 kr. til að greiða fyrir dvöl á Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira