Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 9/2014

Á fundi úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 10. júní 2014 var tekið fyrir mál nr. 9/2014:

 

Kæra A

á ákvörðun

Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 6. mars 2014, skotið til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður), dags. 23. janúar 2014, þar sem umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna var synjað.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 6. janúar 2014, sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna í sex mánuði vegna væntanlegrar fæðingar barns hennar þann Y. febrúar 2014. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 23. janúar 2014. Kærandi lagði þá fram ný gögn og óskaði endurskoðunar sjóðsins á synjuninni. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 30. janúar 2014, var kæranda tilkynnt að viðbótargögn gæfu ekki tilefni til að breyta fyrri ákvörðun í málinu.

 

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála með bréfi, dags. 6. mars 2014. Með bréfi, dags. 18. mars 2014, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Fæðingarorlofssjóðs barst með bréfi, dags. 28. mars 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 31. mars 2014, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kveðst hafa sótt um fæðingarstyrk námsmanna hjá Fæðingarorlofssjóði í janúar 2014. Hún hafi fengið synjun þar sem hún hafi ekki uppfyllt 75% námsskyldu. Samt sem áður heimili lög um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) greiðslu fæðingarstyrks ef um brautskráningu sé að ræða og eigi það við í tilfelli kæranda en hún útskrifist úr námi í júní 2014. Hún geti ekki uppfyllt einingafjöldann sem þurfi til að fá styrkinn þar sem hún sé búin með allan undanfara og sé að fara að útskrifast. Meðfylgjandi kærunni sé staðfesting á brautskráningu. Kærandi telur sig eiga rétt á fullum fæðingarstyrk námsmanna þar sem hún útskrifist í júní 2014 og vegna uppbyggingar námsins geti hún ekki tekið meira en 20 ECTS einingar á haustönn 2013 og 20 ECTS einingar á vorönn 2014. Kærandi geti ekki breytt námskrá B-deildar.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í athugasemdum Fæðingarorlofssjóðs vegna málsins kemur fram að samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. eigi foreldrar sem hafi verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi laganna teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Fæðingardagur barns kæranda hafi verið hinn Y. febrúar 2014 og verði því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins Y. febrúar 2013 fram að fæðingardegi barnsins. Samkvæmt heimasíðu B-deildar Háskóla Íslands og skipulagi grunnnáms í B samkvæmt kennsluskrá sé um að ræða 180 ECTS einingar fullt nám í þrjú námsár eða 30 ECTS eininga nám á misseri miðað við fullt nám. Á námsferilsyfirliti Háskóla Íslands, dags. 29. janúar 2014, komi fram að kærandi hafi hafið nám á haustmisseri 2010 og samkvæmt skipulagi námsins hefði hún getað lokið því í júní 2013 hefði hún stundað fullt nám. Kærandi hafi ekki verið skráð í nám á vormisseri 2013. Hún hafi lokið 20 ECTS einingum á haustmisseri 2013 og hafi verið skráð í 20 ECTS einingar á vormisseri 2014. Í staðfestingu verkefnisstjóra B-deildar Háskóla Íslands, dags. 25. mars 2014, komi fram að ástæða þess að kærandi hafi ekki getað stundað fullt nám í B skólaárið 2013–2014 sé sú að hún hafi ekki stundað fullt nám síðasta skólaárið sitt 2012–2013 eins og skipulag námsins samkvæmt kennsluskrá segi til um og hafi því einungis átt þessi fög eftir. Í sama bréfi sé staðfest að hefði kærandi stundað fullt nám á þeim tíma sem hún hafi verið skráð í nám í B-deild hefði hún getað útskrifast í júní 2013.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að þegar um er að ræða nám við háskóla teljist 30 einingar á önn vera 100% nám og því teljist 22–30 einingar vera fullt nám samkvæmt ffl. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggi um námsframvindu og uppsetningu náms kæranda líti sjóðurinn svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns.

Í 16. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, komi meðal annars fram að heimilt sé á grundvelli umsóknar að greiða foreldri fæðingarstyrk skv. 19. gr. ffl., þótt foreldri fullnægi ekki skilyrðum um fullt nám þegar foreldri eigi eftir minna en sem nemi 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst sé að viðkomandi sé að ljúka tiltekinni prófgráðu. Skuli foreldri jafnframt fullnægja öðrum skilyrðum 19. gr. ffl. Af gögnum málsins verði hvorki séð að undanþágan eigi við í tilviki kæranda né breyti neinu um niðurstöðu þess enda hafi kærandi ekki verið í fullu námi á öðrum misserum sem falli innan tólf mánaða tímabilsins. Með vísan til framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað.

 

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni með bréfi, dags. 23. janúar 2014.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og staðist kröfur um námsframvindu. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl. segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Barn kæranda fæddist Y. febrúar 2014. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. er því frá Y. febrúar 2013 fram að fæðingu barnsins. Kærandi stundaði nám í B við Háskóla Íslands en um er að ræða 180 ECTS eininga fullt nám í þrjú námsár eða 30 ECTS eininga nám á misseri miðað við fullt nám. Fullt nám er því 22–30 ECTS einingar á önn, sbr. 4. mgr. 7. gr. ffl. Í málinu liggur fyrir að kærandi var ekki skráð í nám á vorönn 2013, hún lauk 20 ECTS einingum á haustmisseri 2013 og var skráð í 20 ECTS einingar á vorönn 2014. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki fullnægt skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um að hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Í 16. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1218/2008 kemur fram að heimilt sé á grundvelli umsóknar að greiða foreldri fæðingarstyrk skv. 19. gr. ffl., með síðari breytingum, og 15. gr. reglugerðarinnar, þótt foreldri fullnægi ekki skilyrði um fullt nám, sbr. c-lið 2. gr., þegar foreldri á eftir minna en sem nemur 75% af námi á síðustu önn í námi og ljóst er að viðkomandi er að ljúka tiltekinni prófgráðu. Skal foreldri jafnframt fullnægja öðrum skilyrðum 19. gr. ffl., með síðari breytingum.

Fæðingarorlofssjóður byggir á því að af gögnum málsins verði hvorki séð að undanþága 16. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 eigi við í tilviki kæranda né breyti neinu um niðurstöðu þess enda hafi kærandi ekki verið í fullu námi á öðrum misserum sem falli innan tólf mánaða tímabilsins.

Úrskurðarnefndin telur að fallast verði á þetta sjónarmið sjóðsins. Í 16. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 er sérstakt ákvæði sem er ætlað að koma til móts við þá námsmenn sem stundað hafa fullt nám í skilningi laganna, en fullnægja ekki skilyrði um einingafjölda á lokaönn þar sem þeir eiga færri einingar eftir af námi sínu en áskilinn er í lögunum. Nefndin telur hins vegar að ákvæðið veiti ekki heimild til að greiða fæðingarstyrk til námsmanna sem ekki hafa fullnægt skilyrðinu um einingafjölda í fleiri en eina önn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 23. janúar 2014, um synjun á umsókn A er staðfest.

 

Haukur Guðmundsson formaður

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira