Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 27/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 27/2023

Fimmtudaginn 23. mars 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 13. janúar 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. janúar 2023, um að staðfesta ákvörðun frá 12. ágúst 2021 þar sem réttur hans til atvinnuleysisbóta var felldur niður í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á tímabilinu júní 2020 til ágúst 2021. Þann 29. júní 2021 var kærandi boðaður í viðtal hjá Vinnumálastofnun sem fara átti fram daginn eftir. Kæranda var greint frá því að skyldumæting væri í viðtalið og að öll forföll bæri að tilkynna án ástæðulausrar tafar. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 8. júlí 2021, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda til þess að hafa ekki mætt í boðað viðtal. Skýringar bárust frá kæranda 26. júlí 2021. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. ágúst 2021, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi hóf störf hjá B ehf. í september 2021 og var því skráður af atvinnuleysisbótum. Þann 1. desember 2022 sótti kærandi að nýju um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun í kjölfar starfsloka hjá B ehf. Með ákvörðun, dags. 22. desember 2022, var kæranda tilkynnt að með vísan til starfsloka hans hjá fyrrum vinnuveitanda væri bótaréttur felldur niður í þrjá mánuði á grundvelli 54. gr., sbr. 61. gr. laga nr. 54/2006.

Þann 3. janúar 2023 bárust skýringar frá kæranda vegna viðtalsboðunar í júní 2021. Í kjölfarið var mál kæranda tekið til endurumfjöllunar og með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. janúar 2023, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun frá 12. ágúst 2021 hefði verið staðfest þar sem hún hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu, þrátt fyrir ný gögn í málinu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. janúar 2023. Með bréfi, dags. 16. janúar 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 9. febrúar 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. febrúar 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann skrifi úrskurðarnefnd velferðarmála þar sem hann hafi lent í mjög erfiðri aðstöðu. Eftir að hafa misst vinnuna hafi honum verið refsað með því að missa atvinnuleysisbætur í þrjá mánuði. Kærandi ætli ekki að reyna að sannfæra nefndina um að sú refsing hafi verið algjörlega óréttmæt en hann vilji að einhver skoði mál hans betur. Kærandi hafi gert mistök þar sem hann hafi misskilið gildandi reglur en hann hafi ekki verið að vanvirða reglurnar. Öll samskipti við Vinnumálastofnun séu á íslensku sem kærandi kunni ekki vel og þær þýðingar sem hann geri á netinu séu stundum rangar eða merkingarlausar.

Vandræði kæranda hafi byrjað í júlí 2021. Það hafi verið mjög erfitt tímabil fyrir kæranda og fjölskyldu hans því að þau hjónin hafi bæði verið atvinnulaus í nokkra mánuði. Af fyrri reynslu hafi kærandi vitað að hann fengi vinnu fyrr eða síðar því að það sé alltaf auðveldara fyrir karlmann en konu að fá vinnu, sérstaklega þar sem eiginkona hans hafi ekki talað íslensku og tali litla ensku. Einnig hafi starfsreynsla hennar verið gagnslaus hér á landi. Til þess að bæta kjör sín og koma á stöðugleika fyrir hana á vinnumarkaði hafi þau ákveðið að nýta atvinnuleysisstyrkinn til að skapa henni starf frá grunni. Þau hafi selt íbúð sína í Póllandi og nýtt allt fjármagn sitt til að koma af stað verkstæði. Það hafi verið mjög átakanlegt fyrir þau bæði. Þau hafi bæði unnið  undirbúningsvinnu á sama tíma og kærandi hafi ákaft leitað að starfi því að þau hafi átt æ minni pening. Kærandi viðurkenni að hann hafi hægt og rólega verið að missa vonina um að hann fengi vinnu í gegnum Vinnumálastofnun og hafi því einbeitt sér eindregið að því að leita að vinnu upp á eigin spýtur. Kærandi hafi farið í mörg viðtöl og eftir eitt þeirra hafi hann fengið loforð um vinnu. Þetta og stuðningur hans við eiginkonuna hafi dregið athygli hans frá því að fylgjast með bréfaskriftum og því hafi honum yfirsést viðtalsboðun hjá Vinnumálastofnun. Eftir nokkra daga hafi kærandi fengið símtal til að útskýra ástæður fjarverunnar en hann hafi misskilið það og haldið að það væri áminning og viðvörun um að passa upp á svona aðstæður svo að þær kæmu ekki fyrir aftur. Kærandi hafi því ekki skrifað neina skýringu. Dagana á eftir hafi fólk frá B ehf. haft samband við kæranda og hann hafi fengið staðfestingu á því að það væri bráðum tilbúið að byrja að þjálfa hann. Þetta hafi glatt kæranda mjög því að mánuðir í atvinnuleit hafi haft mikil áhrif á líðan hans. Þegar kærandi hafi skrifað fyrstu skýringu á því að hafa misst af viðtali hafi hann tekið fram að hann væri nú þegar kominn með vinnu og þyrfti því ekki á neinum stuðningi að halda á þeim tímapunkti. Kærandi hafi ekki áttað sig á því hversu mikilvægt þetta skjal væri og hafi skrifað það án þess að beina athygli að smáatriðum. Kærandi hafi ekki minnst á marga þætti í stöðunni, aðeins nefnt að þau hjónin hafi haft mikið að gera í sambandi við opnun vinnustaðarins fyrir eiginkonuna. Þar sem kærandi hafi margoft verið í sambandi við starfsmenn Vinnumálastofnunar, bæði í síma og í eigin persónu á þessum tíma, hafi hann haldið að allar upplýsingar væru til staðar. Það séu hans mistök, viðurlögum hafi verið beitt. Kærandi hafi byrjaði í nýju starfi og hafi umfram allt verið fullur bjartsýni. Kærandi hafi ekki skilið að honum yrði refsað. Hann hafi trúað því að það að hafa fengið vinnu myndi sjálfkrafa fella niður viðurlögin. Því hafi hann ekki haft fyrir því að útskýra málið rækilega.

Eftir að hafa misst vinnuna hjá B ehf. í lok árs 2022 hafi kæranda verið tjáð að hann ætti ekki rétt á neinni framfærslu vegna þess að refsingin væri enn í gildi. Auk þess hefði hún verið framlengd um einn mánuð. Kærandi hafi reynt að útskýra fyrir starfsmönnum Vinnumálastofnunar að hann gæti ekki lifað af í svona langan tíma án stuðnings. Kærandi ætti dóttur til að styðja sem væri enn að læra og gangast undir meðferð, þrátt fyrir að vera orðin fullorðin. Viðskipti eiginkonunnar séu enn að þróast og gefi enn ekki stöðugan grunn fyrir fjárhag heimilisins. Til þess að byggja upp lánshæfismat og halda áfram að þróa fyrirtækið sé eiginkonan með lágmarkstekjur en algengt sé að rauntekjur hennar séu allt að helmingi hærri. Árið 2021 hafi þau þegar notað sparnaðinn sinn og til að lifa af hafi kærandi þurft að taka lán hjá vinum og vandamönnum. Kærandi viti að sá stuðningur muni ekki duga í þrjá mánuði.

Það að kærandi hafi ekki farið eftir gildandi reglum sé ekki vegna vanvirðingar á reglunum, heldur vegna misskilnings og mannlegra mistaka. Kærandi eigi enga fjölskyldu á Íslandi sem geti hjálpað honum að aðlagast. Eina manneskjan sem hafi aðstoðað hann á þessum tíma hafi verið félagsráðgjafi en hún vinni bara í nokkra tíma einn dag í viku. Á þessum tíma hafi verið langar biðraðir eftir henni og því hafi kærandi ekki náð að tala við hana í nokkur skipti þegar hann hafi þurft á að halda. Nú sé tilvera fjölskyldu kæranda í húfi. Kærandi sé skuldbundinn til að segja upp leigusamningi með tveggja mánaða fyrirvara. Þau hafi ekki einu sinni efni á að borga reikninga. Þau geti ekki treyst á neina aðstoð frá borginni þar sem eiginkonan sé sjálfstætt starfandi og það komi í veg fyrir stuðning. Frá því að kærandi hafi komið til Íslands hafi hann alltaf unnið. Jafnvel þegar hann hafi skipt um vinnuveitanda hafi það verið án rofs í starfi. Þegar kærandi hafi lent í vandræðum hafi hann verið mjög ákafur og síðast en ekki síst hafi honum tekist að finna lausn. Hann sé þó ekki nógu sterkur til að þola slíka refsingu. Kærandi hafi ekki viljað fara fram á niðurfellingu refsingar því að honum skiljist að það hafi orðið einhverjir annmarkar af hans hálfu og að hann hefði getað staðið betur að málum. Kærandi vilji þó biðja um að refsingin verði minnkuð, annars verði hann að hætta að leigja íbúð og leita að eins manns herbergi fyrir þau hjónin. Það yrði mjög erfið ákvörðun sem hann bíði með að taka þangað til úrskurður berist.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 1. júní 2020. Með erindi, dags. 27. júlí 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.

Kærandi hafi verið boðaður til viðtals á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Akureyri á milli klukkan 10:00 og 12:00 þann 30. júní 2021. Kæranda hafi verið tjáð að um skyldumætingu væri að ræða og að öll forföll þyrfti að boða án ástæðulausrar tafar. Athygli kæranda hafi jafnframt verið vakin á því að ótilkynnt forföll kynnu að leiða til þess að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hans yrðu stöðvaðar. Boðunin hafi verið send á netfang kæranda klukkan tæplega 09:00 morguninn 29. júní 2021. Kærandi hafi aftur á móti hvorki mætt til umrædds viðtals né boðað forföll.

Með erindi, dags. 8. júlí 2021, hafi verið óskað eftir skriflegum skýringum kæranda á ástæðum þess að hann hafi ekki mætt til boðaðs viðtals þann 30. júní 2021. Áréttað hafi verið að atvinnuleitandi gæti þurft að sæta biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysistrygginga hefði hann hafnað þátttöku í vinnumarkaðsaðgerð án gildra ástæðna. Skýringar kæranda hafi borist Vinnumálastofnun þann 26. júlí 2021. Kærandi hafi greint frá því að hann hafi verið þeirrar trúar að í ljósi þess að hann hefði nýlega átt í samskiptum við starfsmenn Vinnumálastofnunar bæri honum ekki að mæta til umrædds viðtals. Hann hafi haldið að ef Vinnumálastofnun hefði viljað koma einhverjum upplýsingum áleiðis til hans hefði slíkt komið fram í fyrri samskiptum hans við stofnunina. Hann hafi því ekki athugað tölvupósthólf sitt og því ekki séð viðtalsboðunina. Með erindi, dags. 12. ágúst 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að í ljósi þess að hann hafi ekki mætt til boðaðs viðtals þann 30. júní 2021 væri bótaréttur hans felldur niður í tvo mánuði. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi hafið störf hjá B ehf. í september 2021 og því verið afskráður í kerfum stofnunarinnar, en kærandi hafi starfað þar til 4. desember 2022. 

Kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga að nýju með umsókn, dags. 1. desember 2022. Óskað hafi verið eftir upplýsingum um ástæðu starfsloka kæranda hjá B ehf. með erindi, dags. 21. desember 2022. Skýringar kæranda hafi borist sama dag, eða þann 21. desember 2022. Kærandi hafi greint frá því að tilhögun starfsins hafi reynst honum afar erfið. Hann hafi þjáðst af langvarandi þreytu sem hafi valdið því að hann hafi gert mistök í starfi. Mistökin hafi verið hættuleg, bæði honum og öðrum starfsmönnum. Þá hafi kærandi valdið atvinnurekanda sínum fjárhagslegu tjóni með mistökum sínum. Honum hafi því verið sagt upp störfum. Kærandi hafi afhent Vinnumálastofnun uppsagnarbréf sitt en þar komi fram að honum hafi verið sagt upp vegna skorts á öryggisatriðum og vegna þess að hann hafi ekki sinnt veittum áminningum.

Í kjölfar þess að framangreindar upplýsingar hafi borist Vinnumálastofnun hafi kæranda verið greint frá því með erindi, dags. 22. desember 2022, að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt. Með vísan til starfsloka hans hjá B ehf. væri réttur hans til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í þrjá mánuði. Skýringar kæranda á ástæðu þess að honum hafi verið sagt upp störfum hafi því ekki verið metnar gildar og hann talinn hafa orðið valdur að uppsögn sinni. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. og 2. mgr. 61. gr. sömu laga.

Þann 3. janúar 2023 hafi Vinnumálastofnun borist frekari skýringar frá kæranda. Kærandi hafi tekið fram að á þeim tíma sem hann hafi verið boðaður til viðtals þann 30. júní 2021 hefði hann verið að leita að starfi með virkum hætti. Að lokum hafi hann verið ráðinn til starfa hjá B ehf. Hann hafi því ekki lengur leitað eftir starfi og ekki skoðað ,,Mínar síður“. Því hafi hann ekki séð að hann hefði verið boðaður til viðtals. Kærandi hafi óskað eftir því að mál hans yrði tekið til endurumfjöllunar.

Í kjölfar þess að Vinnumálastofnun hafi borist framangreindar skýringar hafi umsókn kæranda verið tekin til endurumfjöllunar. Með erindi, dags. 4. janúar 2023, hafi kæranda verið greint frá því að það væri mat stofnunarinnar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun í máli hans frá 12. ágúst 2021, enda hefði sú ákvörðun að geyma efnislega rétta niðurstöðu, þrátt fyrir að ný gögn hefðu borist í máli hans.

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. janúar 2023, er varði staðfestingu á fyrri ákvörðun stofnunarinnar, dags. 12. ágúst 2021, hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála 13. janúar 2023. Í kæru taki kærandi fram að mál hans sé byggt á misskilningi af hans hálfu. Hann greini meðal annars frá því að í júlí 2021 hafi hann verið undir miklu álagi í atvinnuleit sinni. Á einhverjum tímapunkti hafi hann fengið vilyrði fyrir starfi hjá B ehf. og hann hafi því ekki beint fullri athygli að ,,Mínum síðum“ og tölvupóstum. Þegar Vinnumálastofnun hafi óskað eftir ástæðum þess að hann hafi ekki mætt til umrædds fundar hafi hann ekki haft miklar áhyggjur því að hann hafi þegar verið kominn með vilyrði fyrir starfi og þyrfti því ekki á atvinnuleysisbótum að halda lengur. Því hafi skýringar hans ekki verið nægilega nákvæmar. Í kjölfar þess að honum hafi verið sagt upp störfum hjá B ehf. í lok árs 2022 hafi Vinnumálastofnun hins vegar greint honum frá því að hann ætti ekki rétt til atvinnuleysisbóta þar sem viðurlög vegna fjarveru í umræddu viðtali væru enn í gildi.

Sú ákvörðun sem hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála í máli þessu sé ákvörðun frá 4. janúar 2023 er varði staðfestingu á fyrri ákvörðun stofnunarinnar, dags. 12. ágúst 2021. Eins og rakið hafi verið hér að framan hafi kærandi verið beittur viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar með ákvörðun, dags. 12. ágúst 2021. Í 3. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að taki hinn tryggði starfi sem ekki sé hluti af vinnumarkaðsaðgerð meðan á viðurlagatíma samkvæmt 1. mgr. standi falli viðurlögin niður eftir að hinn tryggði hafi starfað í að minnsta kosti hálfan mánuð áður en hann sæki aftur um atvinnuleysisbætur, enda hafi hann sagt starfi sínu lausu eða misst það af gildum ástæðum. Kærandi hafi tekið starfi hjá B ehf. meðan á viðurlagatíma samkvæmt 1. mgr. 58. gr. hafi staðið og starfað þar í nærri 16 mánuði. Aftur á móti, í ljósi þess að það hafi verið mat Vinnumálastofnunar að kærandi hefði sjálfur orðið valdur að uppsögn sinni, sbr. 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, hafi viðurlagatími hans haldið áfram að líða þegar hann hafi sótt að nýju um atvinnuleysisbætur, sbr. lokamálslið 3. mgr. 58. gr. laganna. Jafnframt hafi komið til ítrekunaráhrifa fyrri viðurlaga hans, sbr. 1. og 2. mgr. 61. gr. sömu laga.

Í kjölfar stjórnsýslukæru til úrskurðarnefndar velferðarmála hafi Vinnumálastofnun farið yfir gögn í máli kæranda að nýju. Niðurstaða stofnunarinnar sé sú að ranglega hafi verið staðið að ákvörðun, dags. 22. desember 2022. Sú ákvörðun er varði biðtíma á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi því verið afturkölluð. Slíkt hafi þau áhrif að viðurlagatími samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laganna haldi ekki áfram að líða. Þar að auki falli sá viðurlagatími niður sem eftir standi, sbr. 3. mgr. 58. gr. laganna. Kærandi þurfi því ekki að sæta frekari biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta. Vinnumálastofnun þyki þó rétt að árétta að sú niðurstaða hafi ekki þau áhrif að viðurlög þau sem kærandi hafi fengið samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laganna verði felld niður. Viðurlögin standi enn, enda sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að rétt hafi verið staðið að þeirri ákvörðun. Verði kærandi beittur einhvers konar viðurlögum eða biðtíma í seinni tíð hafi þetta þau áhrif að komið gæti til ítrekunaráhrifa fyrri viðurlaga hans, sbr. 1. mgr. 61. gr. laganna.

Eins og að framan sé rakið sé kærð sú ákvörðun stofnunarinnar, dags. 4. janúar 2023, er varði staðfestingu á fyrri ákvörðun stofnunarinnar, dags. 12. ágúst 2021. Ágreiningur í máli þessu lúti að því hvort skýringar kæranda á ástæðum þess að hann hafi ekki mætt til umrædds viðtals séu gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Eitt af almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna sé að viðkomandi sé í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt [h-lið] 1. mgr. 14. gr. felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er standi til boða. Í 13. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsúrræði komi einnig fram skylda þess sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun ákveði. Ákvæði 13. gr. sé svohljóðandi:

„Atvinnuleitandi skal fylgja eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum skv. 11. gr. og gera það sem í hans valdi stendur til að bæta vinnufærni sína til þess að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Þar á meðal skal atvinnuleitandi ávallt mæta í viðtöl til ráðgjafa Vinnumálastofnunar skv. 14. gr. og taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum er standa honum til boða. Atvinnuleitandi skal jafnframt tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.“

Þá sé í 1. mgr. 14. gr. kveðið á um að ráðgjafar Vinnumálastofnunar skuli hafa eftirlit með því að atvinnuleitendur fylgi eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum. Ráðgjafar stofnunarinnar skuli boða atvinnuleitendur reglulega í viðtöl eftir þörfum hvers og eins atvinnuleitanda.

Á grundvelli 7. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri atvinnuleitendum að hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði. Í tilfelli kæranda hafi hann verið boðaður til viðtals hjá stofnuninni en samkvæmt 3. mgr. 13. gr. laganna sé Vinnumálastofnun heimilt að boða atvinnuleitendur til stofnunarinnar með sannanlegum hætti, meðal annars til að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum þeirra sem kunni að hafa áhrif á rétt þeirra til atvinnuleysisbóta. Atvinnuleitendur skuli þá vera reiðubúnir að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.

Fyrir liggi að kærandi hafi ekki mætt til viðtals á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Akureyri þann 30. júní 2021. Áður hafi kærandi fengið senda boðun á netfang sitt þar sem tímasetning hafi verið tilgreind sem og staðsetning. Kærandi hafi fengið rétt rúmlega sólarhringsfyrirvara til að verða við boðun stofnunarinnar. Á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi kæranda verið gert að sæta viðurlögum vegna þessa. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.“

Í 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Hið sama gildi þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma. Í greinargerð með frumvarpi til laga laga um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna nánar skýrt. Þar segi að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Kærandi hafi veitt Vinnumálastofnun skýringar á fjarveru sinni til umrædds viðtals. Kærandi segist hafa verið þeirrar trúar að í ljósi þess að hann hefði nýlega átt í samskiptum við starfsmenn Vinnumálastofnunar bæri honum ekki að mæta til umrædds viðtals. Hann hafi því ekki athugað tölvupósthólf sitt og séð viðtalsboðunina. Að mati Vinnumálastofnunar geti framangreindar skýringar kæranda ekki talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Af þeim lagaákvæðum sem hér hafi verið rakin sé ljóst að heimildir Vinnumálastofnunar til að boða til sín atvinnuleitendur, og sömuleiðis skyldur atvinnuleitanda til að verða við slíkri boðun, séu ríkar. Þá sé það fortakslaust skilyrði svo að unnt sé að aðstoða umsækjanda um atvinnuleysisbætur við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðum að atvinnuleitandi sinni þeim boðunum sem honum séu send. Í skilmálum sem umsækjendur um atvinnuleysisbætur samþykki þegar þeir sæki um komi fram að viðkomandi sé upplýstur um að honum sé skylt að mæta í þau viðtöl, á þá fundi, námskeið og önnur úrræði sem Vinnumálastofnun boði hann til. Kæranda hefði því átt að vera fulljóst að honum bæri að mæta á alla þá fundi sem stofnunin kynni að boða hann til.

Þá telji Vinnumálastofnun að skýringar kæranda þess efnis að hann hafi ekki séð umræddan tölvupóst með boðun til viðtals séu ekki gildar. Eins og áður segi hafi Vinnumálastofnun sent boðun á uppgefið netfang kæranda. Við samþykkt umsóknar kæranda hafi honum verið tilkynnt að Vinnumálastofnun myndi framvegis koma skilaboðum til hans með tölvupósti, skilaboðum inn á „Mínum síðum“ eða með smáskilaboðum. Kærandi hafi því verið upplýstur með fullnægjandi hætti um það hvernig honum yrðu send mikilvæg skilaboð og tilkynningar. Boðun til umrædds viðtals hafi því borist kæranda með sannanlegum hætti, sbr. lokamálslið 7. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Jafnframt sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi geti ekki borið fyrir sig að hann hafi í ljósi þess að hann hafi verið kominn með vilyrði fyrir starfi ekki skoðað tölvupóst sinn eða ,,Mínar síður“. Kærandi hafi ekki hafið störf hjá B ehf. fyrr en í september 2021, eða tveimur mánuðum eftir að umrætt viðtal hafi átt að eiga sér stað. Það að kærandi hafi verið kominn með vilyrði fyrir starfi leiði ekki til þess að allar skyldur hans samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar hafi fallið niður. Þvert á móti hefði sú staðreynd að honum stæði mögulega starf til boða átt að kalla á samskipti við Vinnumálastofnun, til að mynda með mætingu í viðtal.

Með vísan til framangreinds og þeirrar ríku skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum sé það mat Vinnumálastofnunar að skýringar þær sem kærandi hafi fært fram teljist ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Með því að hafa ekki mætt til umrædds viðtals hafi kærandi brugðist skyldum sínum samkvæmt 7. mgr. 9. gr. og 3. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Honum beri því að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að staðfesta ákvörðun stofnunarinnar frá 12. ágúst 2021 þar sem réttur kæranda til atvinnuleysisbóta var felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Segir þar í 1. mgr. að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma samkvæmt 6. mgr. 9. gr., nú 7. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. laganna.

Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 134/2009, um breytingu á lögum nr. 54/2006, segir meðal annars um viðurlög við að virða ekki boðun Vinnumálastofnunar:

„Í ljósi þess að mikilvægt er að Vinnumálastofnun geti haldið reglulegu sambandi við þá sem fá greiddar atvinnuleysisbætur, ekki síst til að geta fylgst með gangi atvinnuleitar og hvort stofnunin þurfi að koma að frekari stuðningi við viðkomandi, er lagt til að það kunni að varða viðurlögum á grundvelli laganna í þeim tilvikum er atvinnuleitendur virða ekki boðun stofnunarinnar skv. 1. gr. frumvarps þessa. Á þetta ekki síst við þegar fá störf eru í boði og auknar líkur eru á að atvinnuleitin dragist á langinn. Jafnframt er lagt til að sama gildi þegar atvinnuleitendur eru boðaðir til stofnunarinnar í því skyni að kanna hvort sá hinn sami uppfylli enn skilyrði laganna, sbr. 4. og 6. gr. frumvarps þessa. Er því gert ráð fyrir að sömu viðurlög komi til og eiga við þegar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað.“

Í 7. mgr. 9. gr. kemur fram að sá sem telst tryggður á grundvelli laganna skuli eftir að umsókn hans hafi verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði. Þegar Vinnumálastofnun upplýsi umsækjanda um að stofnunin hafi samþykkt umsókn um atvinnuleysisbætur skuli hún jafnframt upplýsa hlutaðeigandi um með hvaða hætti stofnunin muni koma upplýsingum eða öðrum boðum til hans meðan á atvinnuleit hans standi. Komi Vinnumálastofnun upplýsingum eða boðum til umsækjanda með þeim hætti sem stofnunin hafi tiltekið við hlutaðeigandi teljast upplýsingarnar eða boðin hafa borist með sannanlegum hætti.

Þá segir í 3. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 að Vinnumálastofnun sé heimilt að boða þann tryggða til stofnunarinnar með sannanlegum hætti á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum, meðal annars til að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum hans sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Hinn tryggði skuli þá vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.

Í gögnum málsins liggur fyrir að kærandi var boðaður í viðtal hjá Vinnumálastofnun sem fara átti fram þann 30. júní 2021. Kæranda var greint frá því að skyldumæting væri í viðtalið og að öll forföll bæri að tilkynna án ástæðulausrar tafar. Jafnframt var kærandi upplýstur um að ótilkynnt forföll gætu valdið stöðvun greiðslna eftir viðeigandi ákvæðum laganna. Kærandi hefur borið því við að hafa forfallast vegna þess að honum hafi yfirsést boðun í viðtalið.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi var boðaður til Vinnumálastofnunar með sannanlegum hætti, þ.e. með tölvupósti, smáskilaboðum og skilaboðum á „Mínum síðum“. Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 kemur skýrt fram að sá sem hafni þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins og hið sama gildi þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur kærandi ekki fært fram viðunandi skýringar sem réttlæta að hann hafi ekki mætt í boðað viðtal hjá Vinnumálastofnun.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. janúar 2023, um að staðfesta ákvörðun stofnunarinnar frá 12. ágúst 2021 þar sem réttur A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði var felldur niður, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum