Hoppa yfir valmynd

Nr. 275/2021 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 22. júní 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 275/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21060012

 

Kæra […]

á ákvörðun

lögreglustjórans á Suðurnesjum

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 2. júní 2021 kærði […], fd. […], ríkisborgari Georgíu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 1. júní 2021, um frávísun frá Íslandi.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom til Íslands með flugi Wizz Air nr. W61773 frá Gdansk, Póllandi, hinn 1. júní 2021. Með ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum þann 1. júní 2021 var kæranda frávísað frá landinu. Samkvæmt gögnum málsins samþykkti kærandi að kaupa sér sjálfur farmiða til baka og fór með flugi til Varsjár, skömmu eftir miðnætti þann 2. júní 2021. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 2. júní 2021 en meðfylgjandi kæru voru athugasemdir kæranda ásamt fylgigögnum.

III.          Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kæranda væri frávísað frá Íslandi á grundvelli a. og c. liða 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. reglugerð um för yfir landamæri nr. 866/2017, sbr. reglugerð nr. 338/2021. Í lögregluskýrslu, dags. 3. júní 2021, kemur fram að lögreglumenn hafi verið í komusal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar að taka á móti farþegum sem komu með flugi W61773 frá Gdansk hinn 1. júní 2021. Hafi komið til þeirra landamæravörður og tilkynnt um farþega frá Georgíu sem væri óbólusettur. Hafi farþeginn, kærandi, verið tekinn til hliðar í komusalnum til þess að skoða málið frekar. Við skoðun á ferðagögnum hafi komið í ljós að hann væri með vegabréf frá Georgíu og skírteini til staðfestingar á því að hann hefði dvalarleyfi í Póllandi. Aðspurður hafi kærandi sagst vera óbólusettur, ekki hafa fengið Covid-19 sjúkdóminn en framvísað gildu neikvæðu PCR-prófi. Hafi uppgefnar ástæður kæranda um komu til landsins verið metnar af lögreglu þannig að þær væru ekki gildar ástæður fyrir inngöngu í landið. Þar sem kærandi væri þriðja ríkis borgari hafi verið ákveðið að frávísa honum samkvæmt a. og c. liðum 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess að hann sé georgískur ríkisborgari með dvalarleyfi í Póllandi. Honum hafi verið frávísað frá Íslandi hinn 1. júní 2021 og hann hafi ekki fengið lögmætar skýringar á ákvörðuninni. Hann hafi fylgt leiðbeiningum um fyrirhugaða landgöngu á Íslandi, m.a. um forskráningu og neikvæða niðurstöðu úr Covid-prófi. Þá hafi hann jafnframt verið tilbúinn að fara í sóttkví í 5 daga. Vísar kærandi til þess að tilgangur dvalar hafi verið að heimsækja vini og ferðast um landið auk þess sem hann sé menntaður tannlæknir og hafi ætlað sér að skoða atvinnumöguleika hérlendis. Eigi hann rétt á því að fá skýringar á hinni kærðu ákvörðun en tilkominn kostnaður vegna þess hafi allur lent á honum.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um frávísun kæranda byggir á a. og c-liðum 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. reglugerð um för yfir landamæri nr. 866/2017, sbr. breytingarreglugerð nr. 328/2021.

Í 106. gr. laga um útlendinga er kveðið á um frávísun við komu til landsins. Heimilt er að vísa útlendingi frá landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum frá komu ef hann fullnægir ekki reglum sem settar eru um vegabréf, vegabréfsáritun eða komu til landsins, sbr. a-lið ákvæðisins, og þegar hann hefur ekki tilskilið leyfi til dvalar eða vinnu eða getur ekki leitt líkur að þeim tilgangi sem gefinn er upp fyrir dvölinni, sbr. c-lið ákvæðisins. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að ákvæðið mæli fyrir um að heimilt sé að vísa útlendingi frá landi ef hann geti ekki leitt líkur að þeim tilgangi sem gefinn sé upp fyrir dvölinni. Sé ákvæðið efnislega samhljóða c-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 562/2006 um för fólks yfir landamæri (Schengen-landamærareglurnar). Þá er í greinargerðinni vísað til 5. gr. reglugerðar um för yfir landamæri nr. 866/2017. Samkvæmt 1. mgr. 106. gr. a. tekur lögreglustjóri ákvörðun um frávísun við komu til landsins skv. a-j lið 1. mgr. 106. gr. Útlendingastofnun tekur ákvörðun um frávísun eftir komu til landsins og aðrar ákvarðanir samkvæmt XII. kafla laganna.

Þann 6. apríl 2021 setti dómsmálaráðherra reglugerð nr. 328/2021 sem fól í sér að sett var ákvæði til bráðabirgða við reglugerð nr. 866/2017 um för yfir landamæri. Samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu er útlendingum, sem hvorki eru EES- eða EFTA-borgarar né ríkisborgarar Andorra, Mónakó, San Marínó eða Vatíkansins, óheimilt að koma til landsins þrátt fyrir að þeir fullnægi skilyrðum sem fram koma í 5. gr. reglugerðar nr. 866/2017 og 106. gr. laga um útlendinga. Í ákvæðinu er einnig mælt fyrir um að það eigi ekki við um útlendinga sem hafa gilt dvalarleyfi eða annars konar dvalar- eða búseturétt hér á landi, í öðru EES- eða EFTA-ríki eða í Andorra, Mónakó, San Marínó eða Vatíkaninu eða aðstandendur þeirra. Þá á ákvæði 1. mgr. ekki við um útlendinga sem koma til landsins vegna brýnna erindagjörða, þ. á m. þeirra atriða sem rakin eru í a-h liðum ákvæðisins.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 866/2017, með síðari breytingum, er mælt fyrir um skilyrði fyrir komu útlendinga til landsins sem hvorki eru EES- né EFTA-borgarar. Kemur þar fram að útlendingur sem hvorki er EES- né EFTA-borgari, sem hyggst dvelja á Schengen-svæðinu, þ.m.t. Íslandi, í allt að 90 daga á 180 daga tímabili verður, auk þeirra skilyrða sem koma fram í 106. gr. laga um útlendinga, að uppfylla þau skilyrði sem fram koma í a-d liðum ákvæðisins. Eru skilyrðin eftirfarandi: Að framvísa gildum, lögmætum og ófölsuðum ferðaskilríkjum eða öðru kennivottorði sem heimilar honum för yfir landamæri, sbr. viðauka 3. Ferðaskilríki skal vera gefið út á sl. 10 árum til þess að það teljist gilt og gildistími ferðaskilríkis vera í a.m.k. þrjá mánuði umfram brottfarardag, sbr. a-lið. Hafa gilda vegabréfsáritun sé hann ekki undanþeginn áritunarskyldu, nema hann hafi gilt dvalarleyfi eða gilda vegabréfsáritun til langs tíma, sbr. viðeigandi viðauka í reglugerð um vegabréfsáritanir, sbr. b-lið. Má ekki vera skráður í Schengen-upplýsingakerfið í þeim tilgangi að meina honum komu til landsins, sbr. c-lið. Má ekki vera talinn ógna þjóðaröryggi, allsherjarreglu, almannaheilsu eða alþjóðasamskiptum ríkisins eða annars Schengen-ríkis, sbr. d-lið.

Samkvæmt 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga er útlendingi, sem ekki þarf vegabréfsáritun til landgöngu, heimilt að dveljast hér á landi í 90 daga frá komu til landsins. Dvöl í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu telst jafngilda dvöl hér á landi.

Kærandi er ríkisborgari Georgíu og þarf því ekki vegabréfsáritun til landgöngu hér á landi, sé hann handhafi vegabréfs með lífkennum. Þá er kærandi með dvalarleyfi í Póllandi en framlagt dvalarskírteini er með gildistíma til 12. apríl 2024. Eins og að framan er rakið gildir bráðabirgðaákvæði reglugerðar nr. 328/2021, sem lá til grundvallar hinni kærðu ákvörðun, ekki um útlendinga sem hafa gilt dvalarleyfi í öðru EES- eða EFTA-ríki. Með vísan til þess var ekki heimilt að vísa kæranda frá landinu á þeim grundvelli. Af fyrirliggjandi gögnum málsins verður auk þess ráðið að þessar upplýsingar hafi legið fyrir strax frá upphafi en af lögregluskýrslu, dags. 3. júní 2021, má ráða að við afskipti lögreglu af kæranda í komusal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hafi kærandi framvísað skírteini til staðfestingar á því að hann hefði dvalarleyfi í Póllandi. Þá kemur jafnframt fram að kærandi hafi framvísað gildu neikvæðu PCR-prófi. Í lögregluskýrslu, dags. 3. júní 2021, kemur fram að kærandi hafi aðspurður kvaðst vera koma til landsins til þess að skoða eldgosið í Geldingadal. Hafi lögregla tjáð honum að það væri ekki gild ástæða fyrir inngöngu í landið. Hafi kærandi þá sagst vera að koma til að leita sér að vinnu og hafi framvísað skjölum til staðfestingar á tannlæknanámi sínu. Hafi kæranda verið tjáð af lögreglu að hann þyrfti að  vera kominn með vinnu á Íslandi áður en hann kæmi til landsins svo það teldist ekki næg ástæða fyrir komu til landsins. Því næst hafi kærandi sagst vera að koma til að hitta kærustu sína sem væri íslensk og hafi hann gefið lögreglu upp nafn hennar og kennitölu. Hafi lögregla haft samband við umrædda konu sem hafi tjáð lögreglu að hún væri ekki kærasta hans en að þau væru vinir.

Líkt og að framan greinir gaf kærandi upp þrenns konar skýringar á tilgangi dvalar hér á landi. Fyrirliggjandi lögregluskýrsla ber hins vegar ekki annað með sér en að mat lögreglu á tilgangi dvalar kæranda hafi einungis tekið mið af undantekningarheimild bráðabirgðarákvæðis reglugerðar nr. 328/2021, þ.e. hvort koma kæranda til landsins væri vegna „brýnna erindagjörða“ í skilningi ákvæðisins. Kærunefnd hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að bráðabirgðaákvæði reglugerðar nr. 328/2021 eigi ekki við um kæranda enda er hann með útgefið dvalarleyfi í Póllandi og bar því ekki að rökstyðja dvöl sína með vísan til „brýnna erindagjörða“. Að mati kærunefndar hefur lögregla ekki skotið nægum stoðum undir þá ákvörðun sína að frávísa kæranda á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga.

Að framangreindu virtu voru skilyrði til frávísunar samkvæmt a. og c. liðum 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga ekki uppfyllt. Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi.

 

 

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum er felld úr gildi.

The decision of the Police Commissioner of Suðurnes District is vacated.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira