Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 469/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 469/2023

Fimmtudaginn 8. febrúar 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 28. september 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. september 2023 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2022.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2022, dags. 14. september 2023, var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 424.232 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi andmælti niðurstöðunni í tölvupósti 26. september 2023. Tryggingastofnun ríkisins framkvæmdi nýjan endurreikning, dags. 4. október 2023, þar sem niðurstaðan var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur að fjárhæð 365.844 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi andmælti þeirri niðurstöðu með tölvupósti 7. október 2023. Í kjölfarið framkvæmdi Tryggingastofnun nýjan endurreikning sem kæranda var tilkynnt um með bréfi, dags. 9. október 2023. Niðurstaðan var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur að fjárhæð 276.766 kr. að teknu tillit til staðgreiðslu skatta. Með bréfi, dags. 24. október 2023, óskaði Tryggingastofnun eftir nánari upplýsingum um tekjur kæranda í B. Með bréfi, dags. 26. október 2023, bárust upplýsingar frá C, endurskoðendafyrirtæki í B. Tryggingastofnun ríkisins tók nýja ákvörðun í málinu sem kæranda var tilkynnt um með bréfi, dags. 13. nóvember 2023, þar sem niðurstaða nýs endurreiknings og uppgjörs ársins 2022 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar tekjutengdar greiðslur á árinu 2022 að fjárhæð 1.104.327 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Kærandi andmælti niðurstöðu stofnunarinnar með tölvupósti 15. nóvember 2023 sem var svarað með bréfi, dagsettu sama dag.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. september 2023. Með bréfi, dags. 6. október 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Viðbótargögn bárust frá kæranda 8. október 2023 og voru þau send Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 10. október 2023. Með bréfi, dags. 24. október 2023, tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins að stofnunin hefði ákveðið að rannsaka málið frekar og afla nýrra gagna og því væri óskað eftir frávísun málsins. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. október 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til bréfs Tryggingastofnunar ríkisins. Í kjölfarið sendi kærandi úrskurðarnefndinni ný gögn vegna málsins. Með bréfi, dags. 16. nóvember 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir efnislegri greinargerð stofnunarinnar ásamt gögnum málsins. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 30. nóvember 2023, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. desember 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar um endurgreiðslu á ellilífeyri. Því sé til dæmis haldið fram að kærandi hafi leigutekjur og auk þess hafi atvinnutekjur kæranda, sem séu undir 1.000.000 kr., verið taldar með. Á árinu 2022 hafi kærandi ekki haft leigjanda og því ekki verið með leigutekjur á því ári, samkvæmt nýjum lögum megi hafa 2.400.000 kr. í atvinnutekjur án þess að til skerðingar komi.

Árlega fái Tryggingastofnun erlenda skattskýrslu kæranda, þar sem íslenskar tekjur séu einnig tilgreindar. Kærandi telji að á Íslandi séu einungis íslenskar tekjur teknar fram. Í öllum tilfellum hafi kærandi tekið fram að íslensku tekjurnar væru í erlendu skattskýrslunni einnig svo íslensku tekjurnar verði sannarlega ekki tvöfaldaðar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 24. október 2023, kemur fram að kæran varði niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2022.

Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur kæranda á árinu 2022 hafi legið fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum hafi komið í ljós að hún hafði í raun haft meiri tekjur á árinu en áætlað hafði verið. Kærandi hafi því fengið ofgreiddar tekjutengdar bætur á árinu 2022. Með bréfi, dags. 9. október 2023, hafi kæranda verið birt kærð ákvörðun.

Í kjölfar kæru hafi sérfræðingar Tryggingastofnunar ákveðið að óska eftir frekari upplýsingum um tekjur kæranda erlendis.

Þar sem Tryggingastofnun hafi ákveðið að endurupptaka málið óski stofnunin eftir að kærumáli þessu verði vísað frá. Komist úrskurðarnefnd velferðarmála að annarri niðurstöðu, áskilji stofnunin sér hins vegar rétt til að koma að efnislegri greinargerð

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 30. nóvember 2023, kemur fram að kærð sé niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2022.

Um útreikning ellilífeyris sé fjallað í III. kafla þágildandi laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi verið kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun skyldi standa að útreikningi bóta.

Samkvæmt þágildandi 16. gr. laga um almannatryggingar hafi Tryggingastofnun borið að líta til tekna við útreikning bóta, meðal annars ellilífeyris, sbr. 33. gr. núgildandi laga um almannatryggingar. Í 2. mgr. sömu greinar hafi komið fram að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teldust tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teldist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum, sbr. 30. gr. núgildandi laga um almannatryggingar.

Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar hafi ellilífeyrir lækkað um tiltekið hlutfall af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn félli niður.

Í 5. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi sagt að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skyldi leggja 1/12 af áætluðum tekjum greiðsluþegans á bótagreiðsluárinu. Þá hafi sagt að áætlun um tekjuupplýsingar skyldi byggjast meðal annars á nýjustu upplýsingum frá greiðsluþega, sbr. 39. gr. laganna þar sem fram hafi komið að greiðsluþega væri skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem gætu haft áhrif á bætur eða greiðslur.

Í 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009.

Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem komi fram í skattframtölum. Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 34. gr. laga um almannatryggingar. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Kærandi hafi þegið ellilífeyri frá Tryggingastofnun allt árið 2022. Með bréfi, dags. 9. febrúar 2022, hafi kæranda verið send tillaga að tekjuáætlun fyrir árið 2022, þar sem áætlað hafi verið að hún kæmi til með að hafa 1.915.137 kr. í lífeyrissjóðstekjur á árinu. Kæranda hafi einnig verið bent á að það væri á hennar ábyrgð að tekjuáætlunin væri rétt og að mikilvægt væri að upplýsa stofnunina um allar breytingar. Kærandi hafi verið greiddar tekjutengdar greiðslur á grundvelli þeirrar tekjuáætlunar allt árið 2022. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur kæranda hérlendis og erlendis á árinu 2022 hafi legið fyrir hafi komið í ljós að hún hafði í raun haft 1.970.326 kr. í innlendar lífeyrissjóðstekjur, 1.483.782 kr. í erlendar lífeyrissjóðstekjur, 931.392 kr. í hagnað af atvinnustarfsemi og 41.161 kr. í fjármagnstekjur á árinu 2022. Af fjármagnstekjunum hafi 38.565 kr. verið leigutekjur. Samkvæmt því hefðu lífeyrissjóðstekjur, atvinnutekjur og fjármagnstekjur kæranda verið vanáætlaðar á áðurnefndri tekjuáætlun og hafi hún því fengið 424.232 kr. ofgreiddar tekjutengdar greiðslur á árinu að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Kæranda hafi verið tilkynnt um þá ofgreiðslu með bréfi, dags. 14. september 2023.

Í kjölfar andmæla kæranda og nýrra upplýsinga um tekjur erlendis á árinu 2022 hafi fyrri ákvörðun þrívegis verið endurupptekin og tekjutengdar greiðslur kæranda á árinu endurreiknaðar á ný. Fyrst hafi niðurstaða nýs endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna verið birt kæranda með bréfi, dags. 4. október 2023. Samkvæmt nýjustu upplýsingum þá hafði kærandi á árinu 2022 haft 1.970.326 kr. í innlendar lífeyrissjóðstekjur, 973.076 í erlendar lífeyrissjóðstekjur, 2.731.806 kr. í hagnað af atvinnustarfsemi og 2.596 kr. í fjármagnstekjur. Ekki hafi við þann endurreikning, eins og áður hafði verið gert, verið tekið tillit til leigutekna ([…]) kæranda í B við endurreikninginn þar sem hún hafi samkvæmt þá nýjum upplýsingum í raun ekki haft slíkar tekjur í B á árinu 2022. Samkvæmt því hefðu lífeyrissjóðstekjur, atvinnutekjur og fjármagnstekjur kæranda eins og áður hafa verið vanáætlaðar á áðurnefndri tekjuáætlun ársins 2022 og hafi kærandi því fengið 365.844 kr. ofgreiddar tekjutengdar greiðslur að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Ofgreiðslan hafi því verið minni en hún hafi verið samkvæmt fyrri ákvörðun frá 14. september 2023. Niðurstaða nýs endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna hafi verið birt kæranda með bréfi, dags. 9. október 2023. Samkvæmt nýjustu upplýsingum hafði kærandi í raun haft 1.970.326 kr. í innlendar lífeyrissjóðstekjur, 973.076 kr. erlendar lífeyrissjóðstekjur, 931.392 kr. í hagnað af atvinnustarfsemi ([…]) og 2.596 kr. í fjármagnstekjur á árinu 2022. Samkvæmt því hefðu lífeyrissjóðstekjur, atvinnutekjur og fjármagnstekjur kæranda eins og áður verið vanáætlaðar á áðurnefndri tekjuáætlun ársins 2022 og hafi kærandi því fengið ofgreiddar tekjutengdar greiðslur á árinu 2022 um það sem nemi 276.766 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Ofgreiðslan hafi því verið minni en hún hafi verið samkvæmt ákvörðun frá 4. október 2023. Fyrir mistök hafi erlendar lífeyrissjóðstekjur kæranda ekki verið taldar upp í sundurliðun tekna í bréfum, dags. 4. og 9. október 2023. Tryggingastofnun biðji kæranda velvirðingar á því.

Í kjölfar kæru hafi komið í ljós að við endurreikning, dags. 9. október 2023, hafi erlendar lífeyrissjóðstekjur kæranda verið vantaldar. Ákvörðunin hafi því verið afturkölluð og niðurstaða nýs endurreiknings verið birt með bréfi, dags. 23. október 2023. Samkvæmt nýjustu upplýsingum hafi kærandi í raun haft 1.970.326 kr. í innlendar lífeyrissjóðstekjur, 8.715.376 kr. […] í erlendar lífeyrissjóðstekjur, 931.392 kr. […] í hagnað af atvinnustarfsemi og 2.596 kr. í fjármagnstekjur á árinu 2022. Samkvæmt því hafi lífeyrissjóðstekjur, atvinnutekjur og fjármagnstekjur kæranda eins og áður verið vanáætlaðar á áðurnefndri tekjuáætlun ársins 2022 og hafi kærandi því fengið ofgreiddar tekjutengdar greiðslur á árinu 2022 um það sem nemi 1.104.327 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Ofgreiðslan hafi því verið hærri en samkvæmt ákvörðun frá 9. október 2023.

Í 2. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi sagt að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teldust tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teldist til tekna og tiltekinna frádráttarliða í 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga eða takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Í þessu ákvæði hafi því verið tilgreint við hvaða tekjur Tryggingastofnun skyldi miða útreikning og endurreikning bóta og jafnframt hafi verið tilgreindar þær undantekningar sem stofnuninni  hafi borið að hafa hliðsjón af við þá framkvæmd. Til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar hafi verið lagðar 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins í samræmi við 5. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar. Tekjurnar hafi verið áætlaðar á grundvelli upplýsinga um tekjur kæranda á fyrri árum. Með bréfi, dags. 9. febrúar 2022, hafi Tryggingastofnun upplýst kæranda um forsendur bótaútreikningsins, minnt á skyldu hans til þess að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem gætu haft áhrif á greiðslur og gefið honum kost á að koma að athugasemdum, sbr. 9. mgr. 16. gr. þágildandi laga.

Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur greiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda sé Tryggingastofnun skylt að endurreikna fjárhæðir greiðslna á grundvelli endanlegra upplýsinga um tekjur greiðsluþega á árinu sem liggi þá fyrir, sbr. 2. mgr. 33. gr. núgildandi laga um almannatryggingar. Hafi Tryggingastofnun ofgreitt bætur til greiðsluþega sé stofnuninni skylt að endurkrefja það sem ofgreitt hafi verið í samræmi við 34. gr. laganna. Meginreglan sé því sú að ef tekjur sem lagðar séu til grundvallar endurreikningi hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir og ofgreiðsla stafi af því að bótaþegi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður skuli sú ofgreiðsla endurkrafin. Skipti þá ekki máli hvort greiðsluþegi hafi getað séð fyrir þessa tekjuaukningu eða breyttu aðstæður. Samkvæmt upplýsingum frá skattyfirvöldum í B, sem hafi borist stofnuninni þann 6. júní 2023, hafi tekjur kæranda í B verið vanáætlaðar á tekjuáætlun kæranda fyrir árið 2022. Sú vanáætlun hafi leitt til ofgreiðslu um 1.104.327 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta.

Þann 22. nóvember 2023 hafi kærandi leitast eftir því í tölvupósti til stofnunarinnar að umdeild ofgreiðslukrafa yrði felld niður. Kæranda hafi í kjölfarið verið leiðbeint um það hvernig hún skyldi sækja um niðurfellingu ofgreiðslukröfu og hvaða upplýsingar þyrftu að koma fram á slíkri umsókn. Kærandi hafi enn ekki skilað slíkri umsókn.

Kærð ákvörðun sé í samræmi við lög og reglur sem gilda um uppgjör og endurreikning tekjutengdra bóta. Tryggingastofnun fari því fram á að ákvörðun stofnunarinnar frá 23. október 2023 um niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2022 verði staðfest fyrir nefndinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2022.

Kærandi fékk greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun á árinu 2022. Samkvæmt þágildandi 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í þágildandi 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með tilteknum undantekningum. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar skal ellilífeyrir lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. þágildandi 16. gr., uns lífeyririnn fellur niður. Þá segir að ellilífeyrisþegi skuli hafa 300.000 kr. almennt frítekjumark við útreikning ellilífeyris og 1.200.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna.

Á grundvelli 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 34. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. áðurnefndrar reglugerðar nr. 598/2009.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Samkvæmt gögnum málsins sendi Tryggingastofnun 9. febrúar 2022 kæranda tekjuáætlun vegna ársins 2022. Í áætluninni var gert ráð fyrir 1.915.137 kr. í lífeyrissjóðstekjur. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þá áætlun og var henni greiddur ellilífeyri á grundvelli þessara tekjuforsenda allt árið 2022.

Við endurreikning og uppgjör ársins 2022 leit Tryggingastofnun ríkisins til upplýsinga í skattskýrslu kæranda á Íslandi og í B. Eftir að hafa fengið nánari upplýsingar um lífeyrisgreiðslur kæranda frá B undir rekstri málsins framkvæmdi Tryggingastofnun nýjan endurreikning 13. nóvember 2023. Samkvæmt gögnum málsins reyndust tekjur kæranda á árinu vera 931.392 kr. í hagnað af atvinnustarfsemi, 1.970.326 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 4.072.865 kr. í erlendar lífeyrissjóðstekjur og 2.596 kr. í fjármagnstekjur. Niðurstaða endurreiknings Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2022 var sú að sökum tekna hefði kærandi fengið ofgreiddar bætur samtals að fjárhæð 1.104.327 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Samkvæmt framangreindu reyndust tekjur kæranda vegna hagnaðar af atvinnustarfsemi, lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur vegna ársins 2022 vera hærri en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlun en lífeyrissjóðstekjurnar leiddu fyrst og fremst til ofgreiðslu. Lífeyrissjóðstekjur, atvinnutekjur og fjármagnstekjur eru tekjustofnar sem hafa áhrif á bótarétt samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölul. A-liðar og C-lið 7. gr. laga um tekjuskatt. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur.

Af kæru má ráða að kærandi telji að atvinnutekjur og leigutekjur hennar hafi meðal annars leitt til endurgreiðslukröfu. Af gögnum málsins verður aftur á móti ráðið að ekki hafi verið gert ráð fyrir leigutekjum við endurreikninginn og að atvinnutekjur hafi ekki leitt til ofgreiðslu þar sem þær hafi verið undir frítekjumarki.

Kærandi bendir jafnframt á að íslensku tekjurnar hennar hafi einnig verið teknar fram í B skattskýrslunni. Fyrir liggur bréf frá C, dags. 26. október 2023, þar sem útskýrt er hversu stór hluti af tekjunum í skattaskýrslunni séu frá Íslandi. Af gögnum málsins verður ráðið að Tryggingastofnun hafi notast við þær upplýsingar við endurreikning 13. nóvember 2023.

Að öllu framangreindu virtu er niðurstaða endurreiknings og uppgjörs Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2022 staðfest.

Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun hefur kærandi óskað eftir niðurfellingu ofgreiddra bóta á grundvelli undanþáguákvæðis 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Úrskurðarnefndin telur því rétt að benda kæranda á að verði hún ósátt við afgreiðslu Tryggingastofnunar á þeirri umsókn getur hún kært þá niðurstöðu til úrskurðarnefndarinnar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2022, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum