Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um matvæli og landbúnað

Staðfesting á ákvörðun Matvælastofnunar um skyldu til daglegs eftirlits með meindýravörnum.

Stjórnsýslukæra

Með bréfi, dags. 25. febrúar 2020, kærði [A ehf.], hér eftir nefndur kærandi, ákvörðun Matvælastofnunar frá 26. nóvember 2019, um að kæranda beri að hafa daglegt eftirlit með meindýragildrum sem kærandi notar í starfsstöð sinni.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og barst erindi kæranda innan kærufrests.

 

Kröfur

Þess er krafist að staðfest verði að Matvælastofnun hafi brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar með því að gera þá kröfu um úrbætur að kærandi sinni daglegu eftirliti með meindýragildrum á starfsstöð sinni.

 

Málsatvik

Hinn 27. september 2019 fór fulltrúi Matvælastofnunar í reglubundið eftirlit til kæranda sem er matvælafyrirtæki. Samkvæmt fyrirliggjandi skoðunarskýrslu stofnunarinnar, dags. 3. október 2019, voru gerðar kröfur um úrbætur í fjórum skoðunaratriðum sem öll féllu undir svokölluð „önnur frávik“ samkvæmt flokkun Matvælastofnunar. Þau tvö frávik sem deilt er um í máli þessu lutu að verklagi og tíðni eftirlits með meindýravörnum. Nánar tiltekið var annars vegar um að ræða frávik sem sneri að því að ekki kæmi fram í verklagi kæranda hver viðbrögð væru ef nagdýrs yrði vart í vinnslustöðinni.  Hins vegar frávik sem laut að því að mánaðarlegt eftirlit með meindýragildrum taldist ófullnægjandi. Kæranda var gefinn kostur á að andmæla efni skoðunarskýrslunnar og bárust andmæli 3. október 2019. Kærandi andmælti athugasemdum um frávik sem gerðar voru í skoðunarskýrslu og lutu að verklagi og tíðni eftirlits með meindýragildrum í starfsstöð sinni. Matvælastofnun tók ákvörðun í málinu 26. nóvember 2019. Í erindi stofnunarinnar var sjónarmiðum kæranda hafnað og nánar útskýrt í hverju kröfur um úrbætur Matvælastofnunar fælust.

            Með bréfi, dags. 25. febrúar 2020, var ákvörðun Matvælastofnunar kærð til ráðuneytisins. Með bréfi, dags. 27. febrúar s.á. óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar og veitti frest til 12. mars 2020. Með tölvubréfi, dags 12. mars sl., óskaði stofnunin eftir viðbótarfresti til 13. mars sl. sem veittur var af hálfu ráðuneytisins. Umsögn Matvælastofnunar barst ráðuneytinu 18. mars sl. Í kjölfarið var kæranda gefinn kostur á andmælum vegna umsagnarinnar og bárust andmæli 6. apríl sl.

 

Sjónarmið kæranda

Kærandi byggir á því að Matvælastofnun hafi brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar með því að gera þá kröfu að kærandi sinni daglegu eftirliti með meindýragildrum í starfsstöð sinni. Kærandi mótmælir auk þess efni framangreindrar skoðunarskýrslu, dags. 3. október 2019 varðandi frávik er varða meindýravarnir. Daglegt eftirlit með meindýravörnum sé ónauðsynlegt í starfsstöð kæranda enda hafi þar hvorki fundist né sést nagdýr í 16 ár. Því til stuðnings vísar kærandi til gagna sem ná aftur til ársins 2009 og tekin eru úr skýrslum fyrirtækisins. Auk þess bendi áhættumat fyrirtækisins til þess að litlar líkur séu á því að nagdýr finnist í starfsstöð kæranda. Með vísan til framangreinds telur kærandi hverfandi líkur á því að nagdýr sé að finna í vinnslu fyrirtækisins eða í gildrum sem staðsettar séu í starfsstöð fyrirtækisins. Með vísan til framangreinds telur kærandi að Matvælastofnun hafi kosið að líta fram hjá áhættumati kæranda en áhættumat sé eitt af grundvallaratriðum í HACCP matvælaöryggiskerfisins. Að mati kæranda sé ekki unnt að draga þá ályktun af ákvæði 28. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra, að daglegt eftirlit með meindýragildrum sé nauðsynlegt enda lúti ákvæðið að veiðum á meindýrum utandyra, s.s. minkum og rottum.

Í erindi kæranda kemur fram að hann noti svokölluð „músahótel“ í sínum meindýravörnum en um sé að ræða gildrur þar sem mýs lokast inni í litlu hólfi, ein eða fleiri saman, og komast ekki út. Kærandi hafnar þeirri fullyrðingu Matvælastofnunar að daglegt eftirlit með meindýragildrum sé nauðsynlegt út frá sjónarmiðum matvælaöryggis. Þá vísar kærandi til þess að ótækt sé að sinna daglegu eftirliti með meindýravörnum um helgar og á öðrum frídögum, þar sem kostnaður við eftirlitið myndi hlaupa á milljónum á ársgrundvelli.

Fram kemur í erindi kæranda að Matvælastofnun leggi til að fóður og vatn sé sett í „músahótelin“ þegar fyrirséð er að daglegt eftirlit falli niður vegna lokunar. Kærandi telur að slíkt geti lokkað nagdýr inn í starfsstöðina. Því til stuðnings vísar kærandi til þess að meindýraeyðar ráðleggi að flugnabönum sé ekki stillt upp með þeim hætti að þeir blasi við þegar dyr eru opnaðar þar sem ljósið frá þeim laði að flugur. Að mati kæranda eigi hið sama við um meindýragildrur

Kærandi hafi kannað þann möguleika að nota annars konar búnað sem gerir viðvart ef nagdýr kemur í gildru en slíkur búnaður henti ekki í matvælavinnslu kæranda þar sem bleyta og raki er til staðar. Auk þess sé slíkur búnaður kostnaðarsamur myndi og viðhaldskostnaður kæranda aukast.

Í erindi kæranda kemur fram að í skoðunarhandbók fyrir matvæli úr dýraríkinu sem Matvælastofnun gaf út í nóvember 2016 sé hvergi að finna tilvísun um æskilega tíðni eftirlits í gildrur. Á meðan Matvælastofnun hafi ekki gert úrbætur á kafla 4.2. sem ber heitið „Meindýr/Smitvarnir“ sé stofnuninni ekki stætt á að gera kröfur um úrbætur á tíðni eftirlits kæranda með meindýragildrum í starfsstöð sinni. Þá bendir kærandi á þá mótsögn að samkvæmt kafla 4.2.3 í skoðunarhandbókinni sem ber heitið „Meindýr/Forvarnir“ sé heimilt að nota eitur sem forvörn. Með því sé ákvæðum um dýravelferð í skilningi laga nr. 55/2013, um velferð dýra, ekki virt þar sem eitrun hafi kvalafullan dauðdaga í för með sér. Auk þess séu mun meiri líkur á að dýr sem eitrað er fyrir hljóti kvalafullan dauðdaga heldur en að nagdýr drepist úr hungri og þurrki í gildru innanhúss. Þá bendir kærandi á formgalla í sama kafla skoðunarhandbókarinnar þar sem ekki sé tiltekið hvar notkun eiturs sé leyfð, þ.e. hvort hún sé leyfð innan- eða utandyra.

Kærandi bendir á að með því að þvinga kæranda til þess að viðhafa daglegt eftirlit með meindýragildrum sé farið fram á óþarflega umfangsmikið eftirlit sem muni leiða til þess að kærandi muni skrá eftirlitið án þess að framkvæma það.

 

Sjónarmið Matvælastofnunar

Matvælastofnun byggir á því að stofnunin geri kröfu um að meindýragildrur sé að finna í öllum matvælafyrirtækjum og að daglegt eftirlit sé viðhaft með þeim alla þá daga sem fyrirtækið sé starfandi. Slík krafa byggi á matvælaöryggi enda sé meindýr í gildru sem staðsett er í matvælafyrirtæki, sem látið er liggja þar, lifandi eða dautt, ógn við matvælaöryggi þar sem uppspretta sýkla getur skapast í rotnandi dýri. Slíkar kröfur séu óháðar líkum á því að meindýr sé að finna í starfsstöðvum matvælafyrirtækja.

Matvælastofnun vísar til þess að samkvæmt ákvæði 28. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra, sé óheimilt að beita meindýr óþarfa limlestingum eða kvölum við aflífun. Matvælastofnun byggir á því að daglegt eftirlit með meindýragildrum sé nauðsynlegt með vísan til ákvæðisins. Stofnunin bendir á að ef notaðar eru meindýragildrur sem ekki tryggja dauða samstundis þá eykst óþarfa töf á þjáningum, kvölum og dauðastríði dýranna. Sé dýr fangað í svokallað „músahótel“ og situr þar fast dögum saman þar til það drepst úr þurrki og hungri er um að ræða óþarfa þjáningu sem auðveldlega er unnt að komast hjá með daglegu eftirliti og mannúðlegri aflífun. Þá bendir stofnunin á að ef notaðar eru smelligildrur þá hafi rannsóknir sýnt að slíkar gildrur nái tilætluðum árangri í 7-14% tilfella og þannig valda þær mögulega ekki dauða á hraðvirkan hátt heldur kunni útlimur eða annað að festast í gildrunni. Fast dýr á það til að naga af sér útlim til þess að sleppa, auk þess sem það getur setið fast þar til það sveltur, þornar í hel eða örmagnast. Hvoru tveggja flokkast sem óþarfa kvalir og þá eins mögulega sem óþörf limlesting.

Í umsögn Matvælastofnunar kemur fram að kærandi vísi til þess að ákvæði 28. gr. laganna sé óskýrt og geti lotið að veiðum á meindýrum utandyra. Matvælastofnun hafnar þeirri túlkun kæranda þar sem tekið sé fram í 2. gr. laganna að lögin taki til hryggdýra. Með vísan til þess taka lögin til nagdýra og að mati stofnunarinnar sé gildissvið ákvæðis 28. gr. laganna skýrt. Ákvæðið nái jafnt til meindýra innan dyra sem utan og ef notaðar eru aðferðir við aflífun meindýra sem geta dregið dauðastríð á langinn og valdið óþarfa kvölum, þá teljist þær andstæðar framangreindu ákvæði.

Fram kemur í umsögn stofnunarinnar að kærandi vísi til þess að í skoðunarhandbók Matvælastofnunar sé ekki að finna umfjöllun um æskilega tíðni eftirlits í gildrur. Um réttmæta ábendingu sé að ræða og úr því verði bætt. Hvað sem upplýsingum í skoðunarhandbók líði er matvælafyrirtækjum skylt að uppfylla kröfur laga og reglugerða.

Í umsögn Matvælastofnunar kemur fram að kærandi vísi til þess að eftirlit verði óvirkt ef starfsstöðvar séu þvingaðar til þess að viðhafa daglegt eftirlit með meindýragildrum enda leiði það til þess að matvælafyrirtæki muni skrá eftirlit sem ekki er sannarlega framkvæmt. Í því sambandi bendir stofnunin á að matvælafyrirtæki sem falsa eftirlitsskýrslur brjóti gegn ákvæðum laga nr. 93/1995, um matvæli.

Kærandi hafi vísað til þess að eftirlit með meindýragildrum á frí- og helgidögum sé ótækt. Stofnunin fallist á að þá daga sem fyrirtækið sé ekki með starfsemi sé heimilt að sleppa eftirliti með meindýragildrum að því gefnu að umræddar gildrur séu með búnað sem láti vita ef meindýr kemur í gildruna og dýrsins sé þá vitjað. Sé um að ræða svokallað „músahótel“ skuli vatn og fóður staðsett í gildrunni þegar fyrirséð er að daglegt eftirlit falli niður vegna lokunar hjá kæranda.

Matvælastofnun hafnar því að stofnunin hafi brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að hafa gert kröfu um daglegar vitjanir með meindýragildrum kæranda sem ekki hafi sjálfvirkan viðvörunarbúnað. Á meðal markmiða laga nr. 55/2013, um velferð dýra, sé að tryggja að við aflífun meindýra sé beitt aðferðum sem valda dýrunum ekki óþarfa limlestingum eða kvölum. Slíku markmiði sé ekki unnt að ná nema með daglegu eftirliti með meindýragildrum. Í umsögn sinni vísar stofnunin auk þess til skýrslu frá Noregi þar sem fjallað er um rannsóknir á afleiðingum vegna eyðingar á músum og rottum er varða dýravelferð. Í skýrslunni komi fram að í því skyni að forða meindýrum frá óþarfa þjáningum sé nauðsynlegt að viðhafa eftirlit tvisvar á dag með meindýragildrum, sem ekki eru með sjálfvirkan tilkynningabúnað sem gefur til kynna að meindýr sitji fast í gildrunni. Jafnframt bendir Matvælastofnun á að í greinargerð hinna norsku laga um velferð dýra sem séu í mörgu fyrirmynd hinna íslensku laga um velferð dýra, sé vísað til nefndrar skýrslu hvað varðar mannúðlegar afleiðingar við aflífun meindýra.

Auk þess hafi stofnunin leiðbeint kæranda um hvaða kröfur séu gerðar er varða „músahótel“, þ.e. að vatn og fóður sé til staðar þegar fyrirséð er að daglegt eftirlit falli niður. Því til viðbótar hefur stofnunin upplýst kæranda um aðrar ásættanlegar lausnir varðandi meindýravarnir, s.s. gildrur með sjálfvirkan tilkynningarbúnað, sem ekki eru kostnaðarsamar. Slíkra gildra þarf almennt ekki að vitja umfram eðlilegt viðhald nema tilkynning berist um að meindýr sé komið í gildru og þykja slíkar meindýragildrur ásættanlegar út frá bæði dýravelferðar- og hollustuháttasjónarmiðum auk þess að vera notaðar um heim allan.

 

Forsendur og niðurstaða

Málið lýtur að ákvörðun Matvælastofnunar um að gera kröfu um úrbætur í skoðunarskýrslu í kjölfar eftirlits á starfsstöð kæranda en athugasemdir vegna tveggja skoðunaratriða lutu að framkvæmd eftirlits og tíðni eftirlits með meindýragildrum. Samkvæmt skoðunarhandbók Matvælastofnunar fyrir matvæli úr dýraríkinu sem útgefin var í nóvember 2016 geta athugasemdir vegna skoðunaratriða sem fram koma í skoðunarskýrslu fengið þrenns konar vægi:

  • Lagfært á staðnum (LS),
  • frávik (F) og
  • alvarlegt frávik (A).

Í máli þessu voru skráðar fjórar athugasemdir í skoðunarskýrslu sem skilgreindar eru sem frávik (F). Um slík frávik segir í framangreindri skoðunarhandbók stofnunarinnar í kafla 1.5.1 sem ber heitið „Mat á athugasemdum við skoðunaratriði“:Þegar gerð er athugasemd við starfsemi sem víkur frá ákvæðum laga eða reglugerða, sem með óbeinum hætti getur leitt til framleiðslu óöruggra matvæla, en það eru matvæli sem eru álitin heilsuspillandi og/eða óhæf til neyslu. Úrbætur verða metnar í næstu reglubundinni skoðun eða að loknu næsta áætlaða vinnslu- og viðgerðarstoppi. Athugasemdin leiðir að öllu jöfnu ekki til sérstakrar eftirfylgni.

Kærandi byggir á því að Matvælastofnun hafi brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með því að gera þá kröfu að kærandi sinni daglegu eftirliti með meindýragildrum í starfsstöð sinni. Samkvæmt ákvæðinu skal stjórnvald aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Matvælastofnun byggir kröfu sína um daglegt eftirlit með umræddum meindýragildrum á matvælaöryggi og dýravelferð.

Hið lögmæta markmið Matvælastofnunar, var að tryggja öryggi matvæla sem framleidd eru í starfsstöð kæranda í samræmi við ákvæði laga nr. 93/1995, um matvæli. Þá verður einnig að líta til þess að Matvælastofnun hefur eftirlit með því að ákvæðum laga nr. 55/2013, um velferð dýra, sé framfylgt. Með því að krefja kæranda um úrbætur á eftirliti með meindýragildrum í starfsstöð sinni sem fól ekki í sér sérstaka eftirfylgni, telur ráðuneytið að stofnunin hafi ekki getað náð hinu lögmæta markmiði með öðru og vægara móti.

Af gögnum málsins fæst ráðið að Matvælastofnun leiðbeindi kæranda um önnur úrræði hann gæti nýtt sér við meindýravarnir í starfsstöð sinni. Í því sambandi benti stofnunin kæranda á að í boði væru ýmis konar meindýragildrur með búnaði sem tilkynnir ef meindýr er komið í gildrurnar en þeirra þarf ekki að vitja umfram eðlilegt viðhald, nema þegar tilkynning berst frá gildrunni um að meindýr sitji þar fast. Í umsögn Matvælastofnunar kemur fram að þess konar gildrur séu notaðar víða og þykja ásættanlegar út frá bæði hollustuhátta- og dýravelferðarsjónarmiðum. Þá benti stofnunin kæranda á að hann geti haldið áfram notkun sinni á „músahótelum“ og komist hjá því að sinna daglegu eftirliti þá daga sem starfsstöðin er lokuð með því að tryggja að vatn og fóður sé fyrir hendi í gildrunni þá daga. Ljóst þykir af gögnum málsins að kærandi kýs að notast við svokölluð „músahótel“ í starfsstöð sinni sem leiðir til þess að mati Matvælastofnunar að nauðsynlegt er að eftirlit með gildrunum sé daglegt. Líkt og Matvælastofnun hefur bent á hefur kærandi kost á því að notast við annars konar meindýragildrur sem leiða til þess að þeirra þarf ekki að vitja nema tilkynnt sé um að dýr sé fast í gildrunni. Ráðuneytið telur að Matvælastofnun hafi veitt kæranda tækifæri á áframhaldandi notkun á þeim meindýragildrum sem hann kýs að nota í starfsstöð sinni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og þar af leiðandi ekki gengið harðar fram en skyldi.

Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að kröfur Matvælastofnunar um úrbætur varðandi framkvæmd eftirlits og tíðni þess með meindýragildrum flokkast sem „frávik“ í skoðunarskýrslu sem leiðir almennt ekki til sérstakrar eftirfylgni ólíkt því sem á við athugasemd um „alvarlegt frávik“. Hið lögmæta markmið Matvælastofnunar var að tryggja matvælaöryggi og dýravelferð og að að mati ráðuneytisins gekk Matvælastofnun ekki lengra en tilefni gaf til í málinu með því að gera framangreindar kröfur um úrbætur. Með vísan til þess telur ráðuneytið að stofnunin hafi ekki farið strangar í sakirnar en nauðsyn bar til og þar af leiðandi ekki brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.

Kærandi byggir á því að ekki séu haldbær rök fyrir því að Matvælastofnun byggi kröfur sínar um daglegt eftirlit með meindýragildrum á sjónarmiðum um matvælaöryggi enda sé slíkan skilningin ekki að finna í gildandi regluverki. Í umsögn Matvælastofnunar kemur fram að meindýr sem sitja föst í meindýragildru í matvælafyrirtæki, lifandi eða dauð, teljast vera ógn við matvælaöryggi þar sem uppspretta sýkla geti skapast í rotnandi dýri. Tilgangur laga nr. 93/1995, um matvæli, er að tryggja meðal annars gæði, öryggi og hollustu matvæla sbr. 1. gr. laganna. Í 2. gr. er mælt fyrir um gildissvið laganna og segir þar m.a. að lögin taki til framleiðslu og dreifingar á öllum stigum. Framleiðsla er skilgreind í 9. tl. 4. gr. sem meðferð hráefnis, vinnsla, pökkun og matreiðsla. Þá segir að hér sé einnig átt við húsnæði, störf, hreinlæti og heilbrigði starfsfólks og annað sem tengist framleiðslu. Í IV. kafla laga nr. 93/1995, um matvæli, er mælt fyrir um matvælaöryggi, framleiðslu, markaðssetningu og rekjanleika. Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 8. gr. a. er óheimilt að markaðssetja matvæli sem ekki eru örugg, þ.e. heilsuspillandi eða óhæf til neyslu. Í 1. mgr. 8. gr. b. laganna er fjallað um ábyrgð stjórnanda matvælafyrirtækis en samkvæmt ákvæðinu ber sá aðili ábyrgð á að uppfylltar séu kröfur laga- og stjórnvaldsreglna sem gilda um starfsemi þess á hverjum tíma. Samkvæmt 10. gr. laganna skulu matvælafyrirtæki haga starfsemi sinni í samræmi við reglur um almenna hollustuhætti og tryggja að matvæli óhreinkist ekki eða spillist á annan hátt. Í 22. gr. laganna, er mælt fyrir um að Matvælastofnun fari með opinbert eftirlit með matvælum sem falla undir ákvæði 6. gr. laganna. Samkvæmt h. lið 6. gr. laganna hefur stofnunin opinbert eftirlit með meðferð, flutningi, geymslu, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, að undanskilinni smásölu.

Til viðbótar gilda ákvæði reglna sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn og hafa verið innleiddar í íslenskan rétt, þar sem einnig er kveðið á um eftirlitsskyldu stofnunarinnar sem og ábyrgð og skyldur matvælaframleiðenda. Má þar nefna reglugerð (EB) nr. 852/2004 um sérstakar reglur um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu og innleidd er í íslenskan rétt með reglugerð nr. 103/2010. Í 4. tölul. IX. kafla II. viðauka við reglugerð (EB) nr. 852/2004 segir að matvælafyrirtæki skuli beita fullnægjandi ráðstöfunum til þess að verjast „skaðvöldum“.

Með vísan til framangreinds er ljóst að gildandi reglur um matvæli leggja ríka áherslu á öryggi þeirra til þess að tryggja neytendum öfluga vernd. Nauðsynlegt þykir að tryggja öryggi matvæla í öllu matvælaferlinu og hvílir frumábyrgð á öryggi matvæla á stjórnanda matvælafyrirtækisins. Opinberir eftirlitsaðilar hafa það hlutverk að tryggja að hinu lögmæta markmiði, að matvæli séu örugg, sé náð. Uppspretta sýkla í rotnandi meindýri sem fast er í meindýragildru í lengri tíma kann að leiða til þess að öryggi matvæla sé stefnt í hættu. Að mati ráðuneytisins leiðir af gildandi regluverki matvæla að fullnægjandi eftirlit matvælaframleiðenda með meindýragildrum er nauðsynlegt til þess að tryggja matvælaöryggi. Fellst ráðuneytið á það mat Matvælastofnunar að daglegt eftirlit með þeim tegundum meindýragildra sem kærandi notar sé nauðsynlegt. Þetta eru þær kröfur sem stofnunin gerir til annarra fyrirtækja í matvælaframleiðslu, og kærandi hefur ekki sýnt fram á að þær gangi lengra en nauðsynlegt er til að tryggja að skýrum markmiðum matvælalöggjafar hvað þetta atriði varðar verði náð.

Kærandi byggir á því að ekki megi draga þá ályktun af ákvæði 28. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra, að daglegt eftirlit með meindýragildrum sé nauðsynlegt enda lúti ákvæðið að veiðum á meindýrum utandyra. Markmið laga nr. 55/2013, um velferð dýra er að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur, þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma sbr. 1. gr. laganna. Af. 28. gr. laganna leiðir að þau taka til meindýra og samkvæmt ákvæðinu er óheimilt við eyðingu þeirra að beita aðferðum sem valda þeim óþarfa limlestingum eða kvölum. Ráðuneytið fellst á þá túlkun Matvælastofnunar að nauðsynlegt sé að vitja meindýragildra líkt og þeirra sem kærandi kýs að nota daglega ellegar sjá til þess að vatn og fóður sé í meindýragildrunum þá daga sem daglegt eftirlit fellur niður, enda vandséð að markmiðum laganna verði náð að öðrum kosti.

Kærandi byggir á því í málinu að tilvísun um æskilega tíðni eftirlits með meindýragildrum sé ekki að finna í skoðunarhandbók Matvælastofnunar sem útgefin var í nóvember 2016. Með vísan til þess geti Matvælastofnun ekki gert umræddar kröfur til daglegs eftirlits með meindýragildrum.

Skoðunarhandbók Matvælastofnunar fyrir matvæli úr dýraríkinu eru leiðbeiningar ætlaðar starfsmönnum stofnunarinnar sem starfa við leyfisveitingar og eftirlit á matvælafyrirtækjum sem framleiða matvæli úr dýraafurðum og hefur þann tilgang að veita starfsfólki sem starfar við eftirlit með matvælafyrirtækjum leiðbeiningar um hvernig skuli skipuleggja og framkvæma leyfisúttektir og eftirlit. Skoðunarhandbókin er byggð á gildandi regluverki og í henni er vísað til ákvæða þeirra laga og reglugerða sem gilda um einstaka skoðunarþætti en hún hefur ekki ígildi laga. Í umsögn Matvælastofnunar tók stofnunin undir ábendingu kæranda og upplýsti um að gerðar yrðu úrbætur á skoðunarhandbókinni. Ráðuneytið tekur undir ábendingar kæranda en ekki fæst séð að brugðist hafi verið við ábendingunni. Ráðuneytið beinir því til stofnunarinnar að gera úrbætur á skoðunarhandbókinni hið fyrsta en sú afstaða ráðuneytisins hefur ekki áhrif á niðurstöður þessa máls.

Tilgangur matvælalöggjafarinnar er að tryggja gæði, öryggi og hollustu matvæla og matvælafyrirtækjum ber að haga starfsemi sinni í samræmi við reglur um almenna hollustuhætti og tryggja að matvæli óhreinkist ekki eða spillist á annan hátt og sú ábyrgð hvílir á stjórnendum matvælafyrirtækja að tryggja að svo sé. Með tilliti til þeirra ríku krafna sem gerðar eru til öryggis matvæla annars vegar og með hliðsjón af dýrvelferðarsjónarmiðum hins vegar, fellst ráðuneytið á það með Matvælastofnun að kæranda beri að hafa daglegt eftirlit með þeim meindýravörnum sem hann kýs að nota í starfsstöð sinni.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 26. nóvember 2019, um að kæranda beri að viðhafa daglegt eftirlit með þeim meindýravörnum er hann notast við, er hér með staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum