Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 559/2021-Endurupptekið

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Endurupptekið mál nr. 559/2021

Fimmtudaginn 6. október 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. október 2021, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. apríl 2021, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði greiðslur atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun á tímabilinu 15. mars til 31. maí 2020 samhliða minnkuðu starfshlutfalli hjá C. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. apríl 2021, var kæranda tilkynnt að honum bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir mars, apríl og maí 2020, samtals að fjárhæð 461.224 kr., á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar velferðarmála 28. október 2021. Úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð í máli kæranda 3. febrúar 2022 þar sem kærunni var vísað frá á þeirri forsendu að kærufrestur væri liðinn. Í kjölfarið kvartaði kærandi til umboðsmanns Alþingis vegna úrskurðarins. Með bréfi umboðsmanns Alþingis, dags. 9. maí 2022, óskaði hann eftir nánari skýringum og upplýsingum frá nefndinni. Í ljósi þeirra upplýsinga sem fram komu í erindi umboðsmanns ákvað úrskurðarnefndin að endurupptaka málið. Kæranda og umboðsmanni Alþingis var greint frá þeirri ákvörðun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. júlí 2022. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. júlí 2022, var óskað eftir greinargerð Vinnumálastofnunar vegna kærunnar. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 12. ágúst 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. ágúst 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 19. ágúst 2022 sem voru kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. ágúst 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.  

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi fyrst fengið útgefið dvalarleyfi hér á landi vegna starfs sem krefjist sérfræðiþekkingar þann 29. apríl 2013. Hann hafi starfað samfellt á íslenskum vinnumarkaði í mörg ár og aldrei fengið atvinnuleysisbætur þar til í mars 2020. Kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls 27. mars 2020, með aðstoð yfirmanns síns. Kærandi hafi ekki getað farið sjálfur inn á ,,Mínar síður’’ á vefsíðu Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í mars, apríl og maí árið 2020. Kærandi hafi fengið innheimtubréf vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta 16. apríl 2021. Rök Vinnumálastofnunar hafi verið þau að stofnunin hafi talið að kærandi væri ekki með atvinnuleyfi á því tímabili sem hann hafi fengið atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls, þ.e. mars, apríl og maí árið 2020.

Kærandi hafi ekki getað sótt um atvinnuleysisbætur sjálfur vegna tungumálaerfiðleika og notkunar tölvutækninnar. Yfirmaður hans í vinnunni hafi þurft að hjálpa honum í gegnum ,,Mínar síður“ til að staðfesta gögn og fleira. Þannig hafi hann ekki vitað um innheimtubréfið sem Vinnumálastofnun hafi sent honum á rafrænan hátt. Hann hafi ekki vitað um bréfið fyrr en hann hafi séð kröfu um ofgreiddar atvinnuleysisbætur í heimabanka sínum í ágúst árið 2021. Kærufrestur sé því miður liðinn. Umboðsmaður kæranda hafi þann 2. september 2021 skrifað bréf til Vinnumálastofnunnar til að óska eftir að mál kæranda yrði tekið til meðferðar á ný en ekki fengið svar. Því telji hann að ákvörðun Vinnumálastofnunar sé byggð á ófullnægjandi upplýsingum. Umboðsmaður kæranda hafi einnig kvartað til umboðsmanns Alþingis 11. október 2021 vegna þess að málið sé óvenjulegt og snúist um réttindi útlensks launamanns. Umboðsmaður Alþingis hafi bent á ákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem kveðið sé á um að kæra geti verið tekin til meðferðar þrátt fyrir að hún berist að liðnum kærufresti.

Kærandi tekur fram að hann hafi ekki vitað um innheimtubréfið og því ekki getað tjáð sig um þá ákvörðun vegna tungumálaerfiðleika. Ákvörðunin sé íþyngjandi gagnvart honum og fjölskyldu hans. Andmælaréttur kæranda hafi ekki verið tryggður í málinu. Ágreiningur sé um hvort kærandi hafi átt rétt á atvinnuleysisbótum því tímabili sem hann hafi fengið atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls, þ.e. mars, apríl og maí árið 2020. Samkvæmt bréfi Útlendingastofnunnar frá 18. maí 2020 hafi umsókn kæranda um dvalar- og atvinnuleyfi verið móttekin hjá Útlendingastofnun 21. febrúar 2020. Það hafi tekið þrjá mánuði (nákvæmlega tímabilið sem hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur) hjá Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun að veita kæranda atvinnuleyfi. Á þessum tíma hafi verið ljóst að úrvinnslutími innkominna umsókna um tímabundin atvinnuleyfi hjá Vinnumálastofnun hafi lengst nokkuð vegna Covid-19 faraldursins. Kærandi spyrji hvort það hafi verið kæranda að kenna.

Í 15. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um ávinnslutímabil launamanns. Samkvæmt því eigi launamaður rétt á atvinnuleysisbótum ef hann hafi starfað lengur en þrjá mánuði (megi skilja að greiða skatt af launum sínum) síðustu tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kærandi hafi starfað samfellt í mörg ár síðan hann hafi komið til Íslands árið 2013 og aldrei fengið atvinnuleysisbætur áður en Covid-19 faraldurinn hafi skollið á. Þannig telji kærandi að réttindi sem hafi safnast upp ráðist af því hvort hann eigi rétt á þessum atvinnuleysisbótum í þessu tilviki eða ekki. Úrræði um atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls sé sérstök tegund atvinnuleysisbóta í þeim tilfellum sem atvinnurekandi og starfsmaður geri með sér tímabundið samkomulag um minnkað starfshlutfall. Megintilgangurinn sé að aðstoða og gera atvinnurekendum og starfsmönnum þeirra kleift að viðhalda ráðningarsambandi. Hins vegar geti fólk með tímabundið dvalarleyfi sótt um og átt rétt á þessum atvinnuleysisbótum. Með öllum framangreindum rökum telji kærandi að það sé ósanngjarnt að hann eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum vegna minnkaðs starfshlutfalls og að ákvörðun Vinnumálastofnunar sé byggð á ófullnægjandi upplýsingum.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar kemur fram að hann sé sammála þeim atriðum er fram komi í greinargerðinni. Þar komi fram að ranglega hafi verið gerð krafa um endurgreiðslu atvinnuleysistrygginga frá 14. maí til 31. maí árið 2020. Með öðrum orðum hafi kærandi átt rétt á atvinnuleysisbótum vegna minnkaðs starfshlutfalls á umræddu tímabili. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hvíli skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að málsatvik séu nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Ljóst sé að stofnunin hafi ekki aflað réttra og fullnægjandi upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun hafi verið tekin þann 16. apríl 2021. Sú ákvörðun hafi verið tekin án þess að líta til þess að atvinnuleyfi kæranda hafi verið veitt frá 14. maí árið 2020. Kærandi telji að Vinnumálastofnun eigi að afturkalla ákvörðun sína og leiðrétta hana samkvæmt VI. kafla laganna. Hafi kærandi greitt skuld sína að upphæð 461.224 kr. beri stofnuninni að endurgreiða kæranda mismuninn.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 27. mars 2020, sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga á meðan hann starfaði í minnkuðu starfshlutfalli, eða á svokallaðri hlutabótaleið, sbr. þágildandi ákvæði XIII til bráðabirgða í lögum um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi starfað í 100% starfi hjá C en í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru hafi fyrirtækið og kærandi sótt um greiðslu hlutabóta fyrir tímabilið mars til maí 2020. Þann 4. apríl 2020 hafi kæranda og atvinnurekanda hans verið tilkynnt að umsókn um minnkað starfshlutfall hefði verið samþykkt. Á tímabilinu 15. mars til 31. maí 2020 hafi kærandi fengið greiddar 75% atvinnuleysisbætur á móti 25% greiðslu frá atvinnurekanda sínum.

Þann 27. október 2020 hafi Greiðslustofu Vinnumálastofnunar borist þær upplýsingar að kærandi hefði ekki verið með atvinnuleyfi þann tíma sem hann hafi þegið greiðslu atvinnuleysistrygginga á meðan hann starfaði í minnkuðu starfshlutfalli. Kæranda hafi í kjölfarið verið tilkynnt með bæði tölvupósti og tilkynningu inn á „Mínum síðum“ að skuld hefði myndast við Vinnumálastofnun að fjárhæð 461.224 kr. Umrædd skuld hafi jafnframt verið tilkynnt kæranda með útgefnum greiðsluseðli, dags. 2. nóvember 2020. Skuld kæranda hafi enn verið ógreidd í apríl 2021 og því hafi með erindi, dags. 16. apríl 2021, verið farið þess á leit við kæranda að umrædd skuld yrði greidd samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Þann 9. júlí 2021 hafi kærandi óskað frekari upplýsinga um umrædda skuld. Honum hafi verið tjáð að ástæða skuldamyndunar væri sú að hann hefði ekki verið með atvinnuleyfi þann tíma sem hann hafi þegið greiðslu atvinnuleysistrygginga á meðan hann starfaði í minnkuðu starfshlutfall. Kærandi hafi aftur á móti talið að það hefði verið umsókn um atvinnuleyfi í ferli hjá Vinnumálastofnun. Þann 19. júlí hafi atvinnurekandi kæranda hringt í Vinnumálastofnun. Atvinnurekandi hafi sagt kæranda vera kominn með atvinnuleyfi en vegna seinkunar og sérstakra aðstæðna hefði umsókn hans verið lengi í ferli. Atvinnurekanda kæranda hafi verið ráðlagt að koma öllum gögnum um atvinnuréttindi á næstu þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og óska eftir endurumfjöllun. Umbeðin gögn hafi þó ekki borist Vinnumálastofnun.

Þann 2. september 2021 hafi Vinnumálastofnun borist tölvupóstur frá aðila sem hafi sagst vera umboðsmaður kæranda. Hann hafi greint frá því að kærandi hefði aldrei farið inn á „Mínar síður“ Vinnumálastofnunar en vegna tækni- og tungumálaörðugleika ætti kærandi erfitt með að nálgast efni og upplýsingar þar. Kæranda hafi því ekki verið kunnugt um umrædda skuld. Umboðsmaður kæranda hafi bent á að kærandi hefði ekki fengið tækifæri til þess að tjá sig um ákvörðunina en um væri að ræða íþyngjandi ákvörðun. Aftur á móti væri kærufrestur liðinn hjá úrskurðarnefnd velferðarmála og því stæði þeim ekki til boða að kæra ákvörðunina. Umboðsmaður kæranda hafi talið ákvörðun Vinnumálastofnunar byggða á ófullnægjandi upplýsingum og að rök stæðu til þess að taka mál hans til meðferðar að nýju. Framangreindum tölvupósti hafi ekki verið svarað af Vinnumálastofnun sem stofnunin biðjist velvirðingar á.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um skuldamyndun hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 28. október 2021. Úrskurðarnefndin hafi óskað eftir málsgögnum stofnunarinnar í máli kæranda sem hafi verið afhent nefndinni þann 4. nóvember 2021. Í kjölfarið hafi nefndin vísað kæru kæranda frá á grundvelli 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Í kjölfar erindis umboðsmanns Alþingis, dags. 9. maí, hafi nefndin þó ákveðið að endurupptaka málið, sbr. 24. gr. sömu laga.

Í kæru, dags. 28. október, sé greint frá því að kærandi hafi starfað samfellt á íslenskum vinnumarkaði í mörg ár en hann hafi fyrst fengið útgefið dvalarleyfi hér á landi þann 29. apríl 2013 sem hafi verið gefið út vegna starfs sem krefðist sérfræðiþekkingar. Þá segi að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfall þann 27. mars 2020 með aðstoð yfirmanns síns en kærandi hafi ekki getað það sjálfur vegna tækni- og tungumálaörðugleika. Það hafi jafnframt verið ástæða þess að honum hafi ekki verið kunnugt um skuldamyndun sem hafi verið tilkynnt honum inn á „Mínum síðum“. Hann hafi ekki vitað að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrr en honum hafi birst krafa í heimabanka í ágúst 2021. Kæranda hafi því ekki gefist færi á að nýta andmælarétt sinn vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar sem sé íþyngjandi gagnvart bæði honum og fjölskyldu hans. Þá segi að kærandi hafi fengið bréf frá Útlendingastofnun þann 18. maí 2020 þar sem fram hafi komið að umsókn hans um dvalar- og atvinnuleyfi hefði verið móttekin þann 21. febrúar 2020. Aftur á móti hafi það tekið þrjá mánuði fyrir Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun að veita kæranda atvinnuleyfi en þá hafi úrvinnslutími umsókna um atvinnuleyfi hjá Vinnumálastofnun vegna heimsfaraldurs kórónuveiru lengst töluvert. Kærandi ætti þó ekki að gjalda fyrir það. Í kæru sé jafnframt vísað til þess að kærandi hafi lengi starfað á íslenskum vinnumarkaði og hafi áunnið sér rétt til atvinnuleysistrygginga samkvæmt 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá sé hin svokallað hlutabótaleið sérstök tegund atvinnuleysisbóta sem veiti fólki með tímabundið atvinnuleyfi rétt til atvinnuleysistrygginga samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Með vísan til framangreinds sé ákvörðun Vinnumálastofnunar ósanngjörn og byggð á ófullnægjandi upplýsingum.

Vinnumálastofnun tekur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Eins og rakið hafi verið í málsatvikum hafi kærandi þegið greiðslur frá Vinnumálastofnun á tímabilinu 15. mars til 31. maí 2020 á meðan hann hafi starfað í minnkuðu starfshlutfalli samkvæmt 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Um svokallaða hlutabótaleið hafi verið að ræða samkvæmt þágildandi ákvæði XIII til bráðabirgða. Ágreiningur í máli þessu snúi að því hvort kærandi hafi átt rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga á meðan hann hafi starfað í minnkuðu starfshlutfalli en ástæða þess að kæranda hafi verið gert að endurgreiða þær atvinnuleysistryggingar sem hann hafi fengið greiddar sé sú að hann hafi ekki verið með atvinnuleyfi á umræddu tímabili.

1. mgr. ákvæðis XIII til bráðabirgða hafi verið svohljóðandi:

„Þegar atvinnuleysisbætur eru greiddar samhliða minnkuðu starfshlutfalli skv. 17. gr. vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda skulu föst laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall ekki koma til skerðingar á fjárhæð atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. enda hafi fyrra starfshlutfall lækkað um 20 prósentustig hið minnsta og launamaður haldið að lágmarki 25% starfshlutfalli. Atvinnurekanda er óheimilt að krefjast vinnuframlags frá launamanni umfram það starfshlutfall sem eftir stendur þegar starfshlutfall hefur verið minnkað.“

Þá hafi í 5. mgr. bráðabirgðaákvæðisins verið kveðið orðrétt:

„Heimilt er að greiða bætur samkvæmt þessu ákvæði þótt launamaður teljist ekki tryggður í skilningi laganna, svo sem vegna náms, sbr. 52. gr., eða skilyrða um ávinnslutímabil, sbr. 15. gr., enda sé skilyrðum ákvæðisins fullnægt. Önnur ákvæði laganna gilda um greiðslu bóta samkvæmt þessu ákvæði eftir því sem við getur átt. Greiðslur atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæði þessu skerða ekki áunnin réttindi til greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt lögunum.“

Samkvæmt 5. mgr. þágildandi ákvæðis XIII til bráðabirgða hafi verið vikið frá ákveðnum skilyrðum laga um atvinnuleysistryggingar. Önnur ákvæði laganna kynnu þó að gilda um greiðslu bóta samkvæmt ákvæðinu eftir því sem við gæti átt.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í máli kæranda hafi honum verið veitt atvinnuleyfi á grundvelli 8. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga þann 14. maí 2020. Gildistími leyfisins hafi verið til 6. júní 2021 og bundið við atvinnurekandann C. Áður hafi kærandi verið með atvinnuleyfi sömu gerðar hjá D en gildistími þess hafi verið 7. janúar 2019 til 6. janúar 2020. Samkvæmt 5. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga veiti atvinnuleyfi rétt til að vinna hér á landi samkvæmt þeim lögum sem gildi á íslenskum vinnumarkaði. Útlendingi sé óheimilt að ráða sig til starfa hér á landi nema leyfi hafi verið veitt og sömuleiðis sé atvinnurekanda óheimilt að ráða útlending til starfa án atvinnuleyfis, sbr. 2. og 4. mgr. 6. gr. sömu laga. Með vísan til framangreinds sé ljóst að kærandi hafi ekki verið með útgefið atvinnuleyfi á því tímabili sem hann hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga á meðan hann hafi starfað í minnkuðu starfshlutfalli, þ.e. á tímabilinu 15. mars til 13. maí 2020, og því hafi honum verið óheimilt að starfa á íslenskum vinnumarkaði. Ekki hafi verið um að ræða framlengingu tímabundins atvinnuleyfis sem hefði heimilað kæranda að halda starfi sínu áfram á afgreiðslutíma umsóknar samkvæmt 5. mgr. 19. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga, enda hafi kærandi ekki áður fengið útgefið leyfi til að starfa hjá C. Þá hafi kærandi ekki verið undanþeginn kröfu um atvinnuleyfi samkvæmt 22. gr. laganna.

Í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Í d-lið 1. mgr. 13. gr. sé kveðið á um það skilyrði að launamaður þurfi að hafa heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana. Ljóst sé að kæranda hafi verið óheimilt að starfa á íslenskum vinnumarkaði á því tímabili sem hann hafi þegið greiðslu atvinnuleysistrygginga á meðan hann hafi starfað í minnkuðu starfshlutfalli, þ.e. á tímabilinu 15. mars til 13. maí 2020. Hann hafi því ekki uppfyllt skilyrði d-liðar 1. mgr. 13. gr. laganna. Jafnframt leiði það af eðli máls að aðili, sem óheimilt sé að starfa hér á landi, eigi ekki rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga á meðan viðkomandi starfi í minnkuðu starfshlutfalli. Með 5. mgr. ákvæðis XIII til bráðabirgða hafi í engu verið vikið frá ákvæðum laga um atvinnuréttindi útlendinga. 

Með vísan til alls framangreinds hafi kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 15. mars til 13. maí 2020. Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli sá sem hafi fengið hærri atvinnuleysisbætur en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd. Skuld kæranda sé að fjárhæð 461.224 kr. en Vinnumálastofnun þyki rétt að benda á að sú upphæð samanstandi jafnframt af þeim atvinnuleysistryggingum sem kærandi hafi fengið greiddar eftir að atvinnuleyfi hafi verið gefið út. Vinnumálastofnun telji að kærandi hafi þó átt rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga frá 14. maí og því hafi ranglega verið gerð krafa um endurgreiðslu atvinnuleysistrygginga frá 14. maí til 31. maí 2020.

Í kæru séu gerðar athugasemdir við málsmeðferðartíma, bæði Vinnumálastofnunar og Útlendingastofnunar og að kærandi eigi ekki að gjalda fyrir það. Það sé þó niðurstaða stofnunarinnar að úrvinnslutími umsóknar kæranda um atvinnuleyfi breyti ekki framangreindri niðurstöðu, enda sé skýrt kveðið á um það í lögum um atvinnuréttindi útlendinga að óheimilt sé að ráða sig til starfa hér á landi nema leyfi hafi verið veitt.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kæranda beri að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysistryggingar, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, enda hafi honum verið óheimilt að starfa á íslenskum vinnumarkaði og því ekki uppfyllt almenn skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysistrygginga, sbr. 13. gr. laganna.

 

 

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 15. mars til 31. maí 2020, samtals að fjárhæð 461.224 kr., á þeirri forsendu að kærandi hafi ekki haft heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana, sbr. d-lið 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, en kærandi þáði atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli á því tímabili. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefndinni féllst Vinnumálastofnun á að kærandi hafi átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 14. maí til 31. maí 2020 eftir að atvinnuleyfi hafi verið gefið út. Málið verður því tekið til úrslausnar á þeim grunni, þ.e. að endurgreiðslukrafan lúti að tímabilinu 15. mars til 13. maí 2020.   

Í þágildandi ákvæði XIII til bráðabirgða í lögum nr. 54/2006 sagði svo:

„Þegar atvinnuleysisbætur eru greiddar samhliða minnkuðu starfshlutfalli skv. 17. gr. vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda skulu föst laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall ekki koma til skerðingar á fjárhæð atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. enda hafi fyrra starfshlutfall lækkað um 20 prósentustig hið minnsta og launamaður haldið að lágmarki 25% starfshlutfalli. Atvinnurekanda er óheimilt að krefjast vinnuframlags frá launamanni umfram það starfshlutfall sem eftir stendur þegar starfshlutfall hefur verið minnkað.“

Þá sagði svo í 5. mgr. ákvæðisins:

„Heimilt er að greiða bætur samkvæmt þessu ákvæði þótt launamaður teljist ekki tryggður í skilningi laganna, svo sem vegna náms, sbr. 52. gr., eða skilyrða um ávinnslutímabil, sbr. 15. gr., enda sé skilyrðum ákvæðisins fullnægt. Önnur ákvæði laganna gilda um greiðslu bóta samkvæmt þessu ákvæði eftir því sem við getur átt. Greiðslur atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæði þessu skerða ekki áunnin réttindi til greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt lögunum.“

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að hafa heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana, sbr. d-lið 1. mgr. 13. gr. Í athugasemdum með 13. gr. í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars:

„Áfram verður gert skilyrði um ótakmarkaða heimild til að ráða sig til starfa hér á landi. Þar er um að ræða íslenska ríkisborgara og þá sem hafa leyfi til að starfa á innlendum vinnumarkaði án takmarkana eða hafa verið undanþegnir kröfu um sérstök leyfi til að starfa hér samkvæmt íslenskum lögum.“

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi með tímabundið atvinnu- og dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 8. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga, fyrst hjá D frá 7. janúar 2019 til 6. janúar 2020 og svo hjá C frá 14. maí 2020 til 6. júní 2021. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 97/2002 veitir atvinnuleyfi rétt til að vinna hér á landi samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. Atvinnurekanda er óheimilt að ráða útlending til starfa án atvinnuleyfis, enda sé hann ekki undanþeginn kröfu um atvinnuleyfi samkvæmt lögum nr. 97/2002, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna. Þá er útlendingi óheimilt að ráða sig til starfa hér á landi nema leyfi hafi verið veitt samkvæmt lögum nr. 97/2002, sbr. 4. mgr. 6. gr. laganna. Samkvæmt framangreindu er ljóst að skilyrði d-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana var ekki uppfyllt þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 27. mars 2020. Að mati úrskurðarnefndarinnar vék þágildandi 5. mgr. í ákvæði XIII til bráðabirgða í lögum nr. 54/2006 ekki því almenna skilyrði til hliðar.

Þrátt fyrir að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði d-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 var umsókn hans um atvinnuleysisbætur samþykkt og þáði hann greiðslur á tímabilinu 15. mars til 31. maí 2020. Úrskurðarnefndin telur ástæðu til að brýna fyrir Vinnumálastofnun að leggja fullnægjandi mat á umsóknir áður en ákvörðun er tekin um hvort einstaklingur uppfylli skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum, enda miklir hagsmunir í húfi fyrir viðkomandi.

Í 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil er skilyrði laganna er ekki uppfyllt. Líkt og að framan greinir var kærandi ekki með gilt atvinnuleyfi á tímabilinu 15. mars til 13. maí 2020 og átti því ekki rétt á atvinnuleysisbótum frá Vinnumálastofnun. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Í máli þessu hefur ekkert álag verið lagt á skuld kæranda og því er ekki ágreiningur um það atriði.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að kæranda beri að endurgreiða atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 15. mars til 13. maí 2020 staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að A, beri að endurgreiða  atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 15. mars til 13. maí 2020, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira