Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 13/2018. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 21. ágúst 2018 kærir Hreint ehf. útboð Kópavogsbæjar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. 18061101 auðkennt „Ræstingarþjónusta í fimm grunnskólum Kópavogsbæjar“. Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi samningsgerð varnaraðila og Sólar ehf. í hinu kærða útboði. Þá er þess krafist að felld verði úr gildi sú ákvörðun varnaraðila að velja tilboð Sólar ehf. í útboðinu „að því er varðar ræstingarþjónustu í Hörðuvallaskóla og Smáraskóla“ og jafnframt að varnaraðila „verði gert að velja tilboð Hreint ehf. í umrædda skóla og ganga til samninga við Hreint ehf.“ Til vara er þess krafist að hið kærða útboð verði fellt úr gildi og varnaraðila gert að bjóða þjónustuna út á nýjan leik. Þá er þess krafist að nefndin veiti álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila auk þess sem varnaraðila verði gert að greiða málskostnað. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu kæranda um að stöðva samningsgerðina um stundarsakir, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 4. september 2018
í máli nr. 13/2018:
Hreint ehf.
gegn
Kópavogsbæ og
Sólar ehf.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 21. ágúst 2018 kærir Hreint ehf. útboð Kópavogsbæjar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. 18061101 auðkennt „Ræstingarþjónusta í fimm grunnskólum Kópavogsbæjar“. Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi samningsgerð varnaraðila og Sólar ehf. í hinu kærða útboði. Þá er þess krafist að felld verði úr gildi sú ákvörðun varnaraðila að velja tilboð Sólar ehf. í útboðinu „að því er varðar ræstingarþjónustu í Hörðuvallaskóla og Smáraskóla“ og jafnframt að varnaraðila „verði gert að velja tilboð Hreint ehf. í umrædda skóla og ganga til samninga við Hreint ehf.“ Til vara er þess krafist að hið kærða útboð verði fellt úr gildi og varnaraðila gert að bjóða þjónustuna út á nýjan leik. Þá er þess krafist að nefndin veiti álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila auk þess sem varnaraðila verði gert að greiða málskostnað. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu kæranda um að stöðva samningsgerðina um stundarsakir, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

Í júní 2018 stóð varnaraðili fyrir hinu kærða útboði þar sem óskað var eftir tilboðum í ræstingu, sumarhreingerningu, reglulega bónun og bónbætingu um áramót í fimm grunnskólum í Kópavogi. Í útboðsgögnum kom fram að um „opið“ útboð væri að ræða sem væri auglýst á EES svæðinu. Í grein 1.1.6 í útboðsgögnum kom fram að útboðinu væri skipt upp í fimm hluta þar sem hver og einn skóli teldist til eins hluta. Bjóðendum væri heimilt að bjóða í hvern hluta fyrir sig en bjóða þyrfti í alla verkhluta hvers hluta. Tilboð í hvern hluta skyldu færast á sérstaka tilboðsskrá, tilboðsskrá 1. Í tilboðsskrá 2 gætu bjóðendur boðið afslátt í prósentum af tilboði sínu í tilboðsskrá 1, gegn því að samið yrði við bjóðendur um þá hluta/grunnskóla sem þeir tilgreindu í tilboðsskrá 2. Þá kom fram að varnaraðili áskildi sér rétt til að semja við einn eða fleiri verktaka um einn eða fleiri hluta. Fram kom í grein 1.2.4 að horft yrði til eftirfarandi þriggja þátta við mat á tilboðum sem raðað væri eftir mikilvægi: Tilboðsfjárhæð bjóðenda, gagna sem fylgdu tilboðum sem geymdu almennar upplýsingar um fjárhag og rekstur bjóðenda og val bjóðenda á umhverfisvænum hreinsiefnum, tækjum og ræstingaraðferðum. Í grein 1.2.5 kom fram að varnaraðili myndi taka hagstæðasta gilda tilboði frá bjóðanda í einn eða fleiri hluta/grunnskóla eða hafna öllum. Í málinu liggur fyrir bréf Samtaka verslunar og þjónustu frá 18. júlí 2018 þar sem gerðar voru ýmsar athugasemdir við skilmála útboðsgagna, meðal annars um rangar og misvísandi upplýsingar, um samspil krafna í útboðsgögnum við kjarasamninga starfsmanna ræstingarfyrirtækja og ósanngjarnar kröfur um verðbreytingar. Opnun tilboða fór fram 3. ágúst 2018. Af fundargerð opnunarfundar verður ráðið að Sólar ehf. áttu lægsta heildartilboð í ræstingarþjónustu allra fimm skólanna, en tilboð kæranda hafi verið lægst að fjárhæð í tvo hluta útboðsins, þ.e. í ræstingarþjónustu í Smáraskóla og Hörðuvallaskóla. Bæjarráð Kópavogsbæjar samþykkti 9. ágúst 2018 að ganga til samninga við Sólar ehf. um ræstingarþjónustu í öllum fimm skólum bæjarins. Bjóðendum var tilkynnt um þá ákvörðun með tölvubréfi sama dag. Þá hefur varnaraðili upplýst að skrifað hafi verið undir samning við Sólar ehf. um framangreinda ræstingarþjónustu 20. ágúst 2018.

Málatilbúnaður kæranda byggir að meginstefnu til á því að hann hafi átt lægsta tilboðið í ræstingarþjónustu í Smáraskóla og Hörðuvallaskóla. Hafi því kæranda borið að ganga til samninga við kæranda um þá hluta útboðsins samkvæmt grein 1.1.6 í útboðsgögnum. Þá hafi útboðsgögn verið um margt óskýr og einstakir skilmálar þeirra valfrjálsir sem hafi gert það að verkum að bjóðendur fengu óhæfilegt svigrúm til að bjóða mismunandi þjónustu í andstöðu við meginreglur útboðsréttar um gagnsæi og jafnræði.

Niðurstaða

Í 114. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup kemur fram að eftir að bindandi samningur samkvæmt lögunum hefur komist á verður hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Í máli þessu hefur varnaraðili upplýst að komist hafi á bindandi samningur á milli hans og Sólar ehf. 20. ágúst 2018. Þegar af þeirri ástæðu verður að hafna þeirri kröfu kæranda að hið kærða innkaupaferli verði stöðvað um stundarsakir samkvæmt 110. gr. laga um opinber innkaup.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Hreint ehf., um að útboð varnaraðila, Kópavogsbæjar, nr. 18061101, auðkennt „Ræstingarþjónusta í fimm grunnskólum Kópavogsbæjar“, verði stöðvað um stundarsakir, er hafnað.

Reykjavík, 4. september 2018

Skúli Magnússon

Ásgerður RagnarsdóttirÚrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira