Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir heilbrigðisráðuneytis

Úrskurður nr. 18/2024

Úrskurður nr. 18/2024

 

Föstudaginn 30. ágúst 2024 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Með kæru, dags. 2. apríl 2024, kærði […] (hér eftir kærandi), kt. […], ákvörðun embættis landlæknis frá 11. mars 2024 um að synja kæranda um breytingu á rekstri í heilbrigðisþjónustu.

Kærandi krefst þess að ákvörðun embættis landlæknis verði felld úr gildi og að staðfest verði að fyrirhugaðar breytingar á rekstri í heilbrigðisþjónustu uppfylli faglegar kröfur og önnur skilyrði í heilbrigðislöggjöf, sbr. 6. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu.

Ákvörðun embættis landlæknis er kærð á grundvelli 4. mgr. 6. gr. laga um landlækni og lýðheilsu og 3. mgr. 26. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, og barst kæra innan kærufrests.

Meðferð málsins hjá ráðuneytinu.

Ráðuneytinu barst kæra frá kæranda þann 3. apríl 2024 á grundvelli 4. mgr. 6. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Ráðuneytið óskaði eftir umsögn embættis landlæknis um kæruna með bréfi, dags. 4. apríl 2024. Ráðuneytið veitti embætti landlæknis frest til að skila inn umsögn í málinu en umsögn embættisins barst 29. apríl. Ráðuneytið sendi lögmanni kæranda umsögn embættis landlæknis ásamt fylgiskjölum þann 2. maí og bauð kæranda að gera athugasemdir við umsögn embættis landlæknis og veitti til þess frest til 17. maí. Engar athugasemdir bárust frá kæranda vegna umsagnar embættisins. Lauk þá gagnaöflun og var málið tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsatvik.

Með tilkynningu, dags. 22. desember 2023, tilkynnti kærandi embætti landlæknis um fyrirhugaðar breytingar á rekstri í heilbrigðisþjónustu, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Í tilkynningunni kom fram að kærandi hygðist bjóða einstaklingum upp á segulómrannsóknir án þess að þeir þyrftu tilvísun fyrir rannsókninni en kærandi hafði þá þegar starfsleyfi til að bjóða upp á segulómrannsóknir samkvæmt tilvísun. Eftir breytinguna gæti hver sem er óskað eftir segulómrannsókn á líkama sínum, hvort sem væri á einstökum líkamshlutum eða öllum líkamanum.

Með bréfi embættis landlæknis til kæranda þann 10. janúar 2024 kom fram að vegna eðlis tilkynntrar starfsemi og með vísan til viðtekinna læknisfræðilegra sjónarmiða teldi embættið nauðsynlegt að gera frekari faglegar lágmarkskröfur á grundvelli 13. gr. reglugerðar nr. 786/2007, um eftirlit landlæknis með rekstri heilbrigðisþjónustu og faglegar lágmarkskröfur. Fara þyrfti fram heildstætt mat á fyrirhugaðri skimunarstarfsemi byggt á rannsóknum á gagnsemi hennar fyrir heilsu og velferð einstaklinga, gæði, öryggi og afkastagetu heilbrigðiskerfisins og hagsmuni íslensks þjóðfélags. Auk þess taldi embættið að ekki væri til staðar fullnægjandi röksemdafærsla né gagnastuðningur fyrir réttlætingu þess að bjóða myndgreiningarþjónustu gegn eigin tilvísun sjúklinga. Bauð embættið kæranda að koma á framfæri rökstuðningi og gögnum varðandi réttlætingu myndgreiningarrannsókna án faglegra tilvísana lækna.

Kærandi svaraði embættinu með bréfi þann 14. febrúar 2024. Í bréfinu gerði kærandi margvíslegar athugasemdir við afstöðu embættisins um nauðsyn á frekari rökstuðningi. Þá áréttaði kærandi að sú breyting sem hann hygðist gera á rekstri sínum fæli ekki í sér skimun í læknisfræðilegum skilningi þess hugtaks heldur væri um að ræða skimun líkt og hún er skilgreind í áliti skimunarráðs frá október 2020. Taldi kærandi í bréfinu að mörg dæmi væru til staðar um það í heilbrigðiskerfinu að einkennalausir einstaklingar gætu bókað tíma hjá heilbrigðisstarfsmanni í þeim tilgangi að kanna ástand eigin líkama án tilvísunar. Færði kærandi fram röksemdir fyrir gildi segulómrannsókna án tilvísana.

Með ákvörðun embættisins, dags. 11. mars 2024, var tilkynningu kæranda um breytingu á rekstri í heilbrigðisþjónustu synjað. Í ákvörðuninni kom fram að myndgreiningarþjónusta af því tagi sem kærandi tilkynnti fyrirætlanir um uppfyllti ekki faglegar lágmarkskröfur sem gera verði til starfrækslu myndgreiningarþjónustu. Er það sú ákvörðun embættisins sem kærð hefur verið til ráðuneytisins.

Málsástæður kæranda.

Kærandi byggir á því að tilkynntur rekstur hans uppfylli öll lagaskilyrði sem kveðið er á um í heilbrigðislöggjöf, m.a. lög um landlækni og lýðheilsu sem og reglugerð nr. 786/2007. Engin lagaheimild sé fyrir þeirri ákvörðun embættisins um að synja tilkynningu kæranda um breytingu í rekstri heilbrigðisþjónustu.

Í fyrsta lagi byggir kærandi á því að ákvæði 13. gr. reglugerðar nr. 786/2007, um að landlæknir geti gert „frekari kröfur“ til rekstraraðila heilbrigðisþjónustu en fram koma í lögum og reglugerðinni eigi sér ekki fullnægjandi lagastoð og feli í sér of víðtækt framsal lagasetningarvalds.

Í öðru lagi byggir kærandi á því að þrátt fyrir að 13. gr. reglugerðar nr. 786/2007 ætti sér fullnægjandi lagastoð verði að túlka greinina með hliðsjón af þeirri lagaheimild sem hún sækir stoð í, þ.e. 1. mgr. 6. gr. og 3. mgr. 7. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Þær kröfur sem landlæknir gerir til kæranda á grundvelli 13. gr. reglugerðarinnar verði að rúmast innan þeirra lagaákvæða. Þar sem 13. gr. reglugerðarinnar er hluti af ákvæðum IV. kafla hennar, sem fjallar um faglegar lágmarkskröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu, telur kærandi að ákvæði 13. gr. verði að skýra í samræmi við önnur ákvæði kaflans sem varða tiltekin skilyrði til reksturs heilbrigðisþjónustu.

Í þriðja lagi heldur kærandi því fram að landlæknir hafi þegar staðfest að rekstur kæranda uppfylli þau skilyrði sem mælt er fyrir um í heilbrigðislöggjöf. Kærandi hefur því leyfi til að sinna segulómrannsóknum. Landlæknir geti því ekki byggt á því að starfsemi kæranda uppfylli ekki kröfur um öryggi. Ef landlæknir ætli að banna kæranda að taka á móti sjúklingum án tilvísana verður slíkt að byggja á skýrri lagaheimild.

Í fjórða lagi byggir kærandi á því að ákvörðun landlæknis feli í sér brot á réttmætisreglu stjórnsýsluréttar. Af ákvörðun embættisins verði ráðið að þar sé einkum stuðst við markmið reglugerðarinnar um gæði heilbrigðisþjónustu. Kærandi byggir á að þau reglugerðarákvæði sem stuðst er við geti ekki ein borið svo íþyngjandi ákvörðun að synja kæranda að framkvæma segulómrannsóknir án tilvísana.

Í fimmta lagi byggir kærandi á að landlæknir hafi brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga auk rannsóknarskyldu, skv. 10. gr. laganna. Embættinu hafi borið, á grundvelli rannsóknar- og meðalhófsreglu, að kanna hvort önnur og þá vægari úrræði hafi verið möguleg og til þess fallin að ná fram sama markmiði og stefnt var að með ákvörðuninni.

Að lokum byggir kærandi á því að landlæknir hafi brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga þar sem fyrir liggur að staðfestingar embættisins á rekstri annarra myndgreiningarfyrirtækja voru í engu takmarkaðar m.t.t. nauðsynjar á tilvísunum lækna.

Umsögn embættis landlæknis.

Embætti landlæknis hafnar alfarið kröfu kæranda um að ákvörðun þessi verði felld úr gildi og staðfest verði að fyrirhugaðar breytingar á rekstri uppfylli faglegar lágmarkskröfur og önnur skilyrði í heilbrigðislöggjöf, sbr. 6. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.

Embættið bendir á að því er falið veigamikið hlutverk þegar meta skal hvort heilbrigðisþjónusta uppfylli faglegar lágmarkskröfur. Embættið hafi rakið þau málefnalegu sjónarmið sem það er bundið af og skylt að hafa í hávegum þegar kemur að jafn fræðilegu og faglegu mati og raun ber vitni í málinu. Telur embættið engum vafa undiropið að sú lagastoð sem embættið styðst við í ákvörðunarferli sínu stendur styrkum fótum.

Allt að einu tekur embættið fram að fullyrðingar um tilkynntan rekstur fá ekki staðist fræðilega og faglega skoðun.

Embættið hafnar því að vinnsla málsins hafi með einhverjum hætti verið ómálefnaleg eða í andstöðu við meðalhóf. Ítarleg rannsókn embættisins á tilkynntum rekstri kæranda sýni fram á það sem og að myndgreiningarrannsóknir án læknisfræðilegrar réttlætingar eða tilvísunar læknis séu ótvírætt í andstöðu við viðurkenndar og samdóma ráðleggingar sérfræðinga, alþjóðlegra sem innlendra. Að öðru leyti vísar embætti landlæknis um röksemdir til ákvörðunar sinnar, dags. 11. mars 2024.

Niðurstaða.

Í máli þessu er til skoðunar hvort ákvörðun embættis landlæknis um að synja tilkynningu kæranda um breytingu í rekstri heilbrigðisþjónustu hafi verið lögum samkvæmt.

Lagagrundvöllur

Samkvæmt 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, er öllum frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Því frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Hefur atvinnufrelsi í heilbrigðiskerfinu verið settar ýmsar skorður í lögum og reglugerðum með vísan til öryggis og hagsmuna sjúklinga og til að halda uppi gæðum heilbrigðisþjónustu.

Fjallað er um hlutverk landlæknis varðandi rekstrartilkynningar í 6. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu sem ber heitið faglegar kröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu. Í 1. mgr. 6. gr. segir að ráðherra skuli, að fengnum tillögum landlæknis og að höfðu samráði við viðkomandi heilbrigðisstéttir, kveða í reglugerð á um faglegar lágmarkskröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu á einstökum sviðum. Reglugerðin skuli byggjast á þekkingu og aðstæðum á hverjum tíma og skuli hún endurskoðuð reglulega. Í reglugerðinni skuli m.a. kveða á um lágmarkskröfur um mönnun, húsnæði, aðstöðu, tæki og búnað til reksturs heilbrigðisþjónustu.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. skulu þeir sem hyggjast hefja rekstur heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. ríkið og sveitarfélög, tilkynna fyrirhugaðan rekstur til landlæknis. Með tilkynningunni skulu fylgja fullnægjandi upplýsingar um starfsemina, svo sem um tegund heilbrigðisþjónustu, starfsmenn, búnað, tæki og húsnæði. Landlæknir getur óskað eftir frekari upplýsingum og gert úttekt á væntanlegri starfsemi telji hann þörf á því. Með sama hætti skal tilkynna landlækni ef meiri háttar breytingar verða á mönnun, búnaði, starfsemi og þjónustu rekstraraðila. Sé rekstri heilbrigðisþjónustu hætt skal tilkynna landlækni um það.

Í 3. mgr. 6. gr. kemur m.a. fram að landlæknir staðfesti hvort fyrirhugaður rekstur heilbrigðisþjónustu uppfyllir faglegar kröfur og önnur skilyrði í heilbrigðislöggjöf og að óheimilt sé að hefja starfsemi á sviði heilbrigðisþjónustu nema staðfesting landlæknis liggi fyrir. Þá er landlækni heimilt að gera frekari kröfur sé það talið nauðsynlegt vegna eðlis þeirrar starfsemi sem um er að ræða. Staðfesting landlæknis verði jafnframt að liggja fyrir við meiri háttar breytingar skv. 2. mgr.

Í VI. kafla laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, sem fjallar um gæði heilbrigðisþjónustu, er að finna sambærileg ákvæði og framangreind ákvæði laga um landlækni og lýðheilsu.

Á grundvelli 1. mgr. 6. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, sbr. einnig 24. gr. og 5. mgr. 26. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, hefur ráðherra sett reglugerð nr. 786/2007, um eftirlit landlæknis með rekstri heilbrigðisþjónustu og faglegar lágmarkskröfur en í III. kafla hennar eru ákvæði um tilkynningu vegna breytinga í rekstri heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar verður staðfesting landlæknis að liggja fyrir þegar meiri háttar breytingar verða á mönnun, búnaði, starfsemi og þjónustu rekstraraðila heilbrigðisþjónustu, en óheimilt er að hefja starfsemi eða breytta starfsemi nema slík staðfesting, um að rekstur uppfylli faglegar lágmarkskröfur samkvæmt IV. kafla reglugerðarinnar og eftir atvikum kröfur samkvæmt reglugerðum um faglegar lágmarkskröfur á einstökum sviðum og önnur ákvæði heilbrigðislöggjafar, liggi fyrir. Þá segir í 2. málsl. 1. mgr. 7. gr. að landlækni sé heimilt að gera frekari kröfur sé það talið nauðsynlegt vegna eðlis þeirrar starfsemi sem um ræðir, sbr. einnig 13. gr. reglugerðarinnar.

Niðurstaða ráðuneytisins

Í tilkynningu kæranda um breytingu á rekstri í heilbrigðisþjónustu kemur fram að kærandi hyggist bjóða upp á myndgreiningarþjónustu til einstaklinga án tilvísunar frá lækni. Þannig geti hver sem er óskað eftir, og fengið, segulómrannsókn á líkama sínum, hvort sem er á einstökum líkamshlutum eða öllum líkamanum.

Niðurstaða embættisins um að staðfesta ekki fyrirhugaðar breytingar kæranda á rekstrinum í samræmi við tilkynningu hans byggir á því að embættið hafi ekki fundið rök sem hreki viðurkenndar ráðleggingar sérfræðinga um að myndgreiningarþjónusta af því tagi sem kærandi tilkynnti fyrirætlanir um uppfylli ekki faglegar lágmarkskröfur sem gera verði til starfrækslu myndgreiningarþjónustu. Engar sannreyndar vísbendingar liggi fyrir sem styðji gagnsemi, öryggi, notagildi og kostnaðarhagkvæmni þeirrar nálgunar sem kærandi hyggst bjóða upp á. Af ákvörðun embættisins má því ráða að það hafi gert þær kröfur til rekstursins að hann samrýmdist viðurkenndum ráðleggingum sérfræðinga um tilhögun heilbrigðisþjónustu og að reksturinn yrði að uppfylla kröfur um gagnsemi, öryggi, notagildi og kostnaðarhagkvæmni.

Kærandi hefur byggt á því að 13. gr. reglugerðarinnar eigi sér ekki fullnægjandi lagastoð og feli í sér of víðtækt framsal lagasetningarvalds. Þá telur kærandi einnig að þrátt fyrir að gengið yrði út frá því að 13. gr. reglugerðarinnar ætti sér fullnægjandi lagastoð þá yrði að túlka greinina með hliðsjón af þeirri lagaheimild sem hún sækir stoð í. Þær körfur sem landlæknir gerir til kæranda á grundvelli 13. gr. reglugerðarinnar verði að rúmast innan IV. kafla hennar.

Krafa 75. gr. stjórnarskrárinnar um að atvinnufrelsi verði ekki skert nema með lögum hefur í dómaframkvæmd Hæstaréttar verið túlkuð á þá leið að löggjafinn geti ekki falið stjórnvöldum óhefta ákvörðun um þessi efni heldur verði í lögunum sjálfum að mæla fyrir um meginreglur þar sem fram komi takmörk og umfang þeirrar réttindaskerðingar sem talin eru nauðsynleg. (Sjá m.a. dóm Hæstaréttar frá 13. apríl 2000 í máli nr. 15/2000.) Enn fremur er það löggjafans en ekki stjórnvalda að taka afstöðu til þess hver eigi að vera tilgangur skerðinga á stjórnarskrárvörðum réttindum (Páll Hreinsson: Lagaheimild reglugerða, Tímarit lögfræðinga, 2. hefti 2015, bls. 259).

Þrátt fyrir þetta getur verið nauðsynlegt að setja matskenndar lagareglur og eftirláta stjórnvöldum nánari útfærslu þeirra. Nútímaheilbrigðisþjónusta er í senn margslungin og flókin. Meðferðarúrræði breytast hratt og verða stöðugt sérhæfðari vegna framfara í læknavísindum og öðrum heilbrigðisgreinum. Af þeim sökum meðal annars er ekki með tæmandi hætti hægt að kveða á um þær kröfur sem gera verði til heilbrigðisþjónustu framtíðarinnar í lögum. Því hefur verið talið nauðsynlegt að veita embætti landlæknis heimild til að gera frekari kröfur til reksturs með tilliti til öryggis sjúklinga og gæða heilbrigðisþjónustu.

Gengið hefur verið út frá því að á íslenska ríkinu hvíli stjórnskipuleg skylda til að gera ráðstafanir til að vernda líf og heilsu almennings í tilteknum tilvikum. Slík skylda kann enn fremur að vera leidd af 2. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur lagagildi hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu, en samkvæmt ákvæðinu skal réttur hvers manns til lífs verndaður með lögum (Sjá dóm Landsréttar frá 12. maí 2023 í máli nr. 74/2022).

Í 6. gr. laga um landlækni og lýðheilsu koma fram meginreglur um hvaða kröfur skuli gera til reksturs í heilbrigðisþjónustu, þ.e. faglegar lágmarkskröfur um m.a. mönnun, húsnæði, aðstöðu, tæki og búnað. Þá segir í 1. gr. laga um landlækni og lýðheilsu að markmið laganna sé að stuðla að heilbrigði landsmanna, m.a. með því að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og að heilbrigðisþjónusta byggist á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma. Samkvæmt 2. málsl. 1. gr. laga um heilbrigðisþjónustu er markmið þeirra laga að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði. Markmið laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, er að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga.

Í 3. mgr. 6. gr. laga um landlækni og lýðheilsu er tiltekið að landlækni sé heimilt að gera frekari kröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu ef það er talið nauðsynlegt vegna eðlis þeirrar starfsemi sem um er að ræða, sbr. einnig 13. gr. reglugerðar nr. 786/2007. Ekki er í lögunum að finna nánari útlistun eða afmörkun á því til hvaða þátta rekstrar frekari kröfur landlæknis megi ná eða hver takmörk eða umfang heimildar landlæknis geti verið. Séu settar frekari kröfur á grundvelli þessa ákvæðis verða þær því að samræmast þeim viðmiðum sem koma fram í umræddum lagaákvæðum og markmiðum laganna. Þannig þurfa þær að vera faglegar, byggjast á þekkingu og aðstæðum á viðkomandi sviði heilbrigðisþjónustu, og eiga sér stoð í markmiðum laganna auk þess að samræmast sjónarmiðum um meðalhóf.

Af framangreindu má ráða að landlæknir geti, með stoð í 4. málsl. 3. mgr. 6. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, svo og framangreindum markmiðsákvæðum, gert frekari kröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu til að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu til verndar öryggi sjúklinga, enda eru líf og heilsa fólks hagsmunir sem njóta stjórnskipulegrar verndar. Hins vegar verður ákvörðun landlæknis um að synja tilkynningu um rekstur heilbrigðisþjónustu almennt ekki reist á kröfum um gagnsemi þjónustunnar, notagildi hennar eða kostnaðarhagkvæmni enda hafa þau sjónarmið ekki viðhlítandi lagastoð. Þá er einnig til þess að líta að í athugasemdum um 7. mgr. 26. gr. frumvarps þess er varð að lögum um heilbrigðisþjónustu kemur fram að staðfesting landlæknis á því að rekstur uppfylli faglegar kröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu hafi enga þýðingu varðandi greiðsluþátttöku ríkisins vegna þjónustu. Tekið skal fram að ekki er útilokað að ákvörðun um synjun á tilkynningu um breyttan rekstur eða setning skilyrða við rekstur geti átt sér stoð í öðrum lögum á sviði heilbrigðisþjónustu, sem stefna að sama markmiði. (Sjá til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis fá 5. janúar 2024 í máli nr. 12291/2023). Það á ekki síst við þar sem að af 25. gr. laga um heilbrigðisþjónustu leiðir að rekstur heilbrigðisþjónustu þarf að uppfylla ákvæði heilbrigðislöggjafar á hverjum tíma. Þannig geta m.a. komið til skoðunar ákvæði laga um heilbrigðisstarfsmenn og laga um réttindi sjúklinga. Það verður hins vega ekki séð að ákvæði þessara laga skjóti nægilega styrkum stoðum undir ákvörðun landlæknis í þessu máli.

Af framanröktu leiðir að ekki er útilokað að landlæknir geti sett frekari faglegar kröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu, en þær sem koma beinlínis fram í lögunum eða reglugerðinni, í þeim tilgangi að tryggja öryggi sjúklinga og gæði heilbrigðisþjónustu. Svigrúm landlæknis til að setja slíkar kröfur er hins vegar takmarkað og því verður að telja að þær verði ekki settar nema sýnt sé fram á að öryggi sjúklinga, og þar með lífi þeirra eða heilsu, stafi bein ógn af starfseminni.

Í ákvörðun embættisins er vísað til þess að einstaklingar geti upplifað falskt öryggi vegna hættu á falskt neikvæðri niðurstöðu og að einstaklingar með einkenni freistist til að leita í ósértækar eða rangar rannsóknir. Þá byggir embættið einnig á að segulómrannsóknir feli í sér beinar hættur í formi slysahættu vegna sterks segulsviðs og hættur vegna öflugra rafsegulbylgja sem geti valdið þekktum hættum. Af ákvörðuninni verður ekki annað séð en að hún sé ekki nema að hluta byggð á sjónarmiðum um öryggi sjúklinga. Þótt þar sé vísað til slysahættu vegna sterks segulsviðs og rafsegulbylgja er það ekki rökstutt nánar, s.s. hversu líkleg slík slys séu og alvarleg og því ekki unnt að vega gagnvart atvinnufrelsi kæranda. Þá verður ekki litið fram hjá því að bæði kærandi og aðrir rekstraraðilar hafa leyfi til myndgreininga með þessum sömu eða sambærilegum tækjum og ekki er rökstutt hvers vegna tilvísun frá lækni geri slíkar rannsóknir hættuminni.

Að öllu framangreindu virtu er það því niðurstaða ráðuneytisins að skort hafi viðhlítandi lagastoð til að skilyrða tilkynntan rekstur kæranda til myndgreininga við tilvísun frá lækni á þeim forsendum sem embætti landlæknis byggði á. Þá hefur landlæknir ekki sýnt fram á að öryggi sjúklinga sé ógnað með þeim hætti að aðeins sé réttlætanlegt að bjóða upp á myndgreiningar á grundvelli tilvísunar. Ber því að fella synjun embættis landlæknis á breyttum rekstri kæranda úr gildi.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun embættis landlæknis, dags. 11. mars 2024, um að synja tilkynningu kæranda um breytingu á rekstri í heilbrigðisþjónustu, er felld úr gildi.

Lagt er fyrir embætti landlæknis að taka málið til meðferðar að nýju.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum