Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 109/2024 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 109/2024

Þriðjudaginn 25. júní 2024

db. A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 4. mars 2024, kærði B lögfræðingur, f.h. db. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 5. desember 2023 um bætur til kæranda úr sjúklingatryggingu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 25. október 2021, sem barst Sjúkratryggingum Íslands 28. október 2021, sótti A um bætur úr sjúklingatryggingu vegna meðferðar sem hún hlaut á C þegar hún leitaði þangað í X og fram að greiningu hennar. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn hennar með ákvörðun, dags. 5. desember 2023, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra B lögfræðings, f.h. db. A, barst úrskurðarnefnd velferðarmála 4. mars 2024. Með bréfi, dags. 6. mars 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 18. mars 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. mars 2024, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi telji sig eiga rétt til bóta samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu vegna þess að ekki hafi verið rétt staðið að sjúkdómsgreiningu A sem hafi látist. Andlát hennar hafi mátt koma í veg fyrir ef rannsókn eða meðferð hefði verið hagað eins vel og vandlega og kostur hafi verið, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

A hafi fyrst leitað til læknis vegna verkja í brjósti í X og X, en hafi þá verið búin að upplifa andþrengsli og erfiðleika við öndun, og finna fyrir hröðum hjartslætti um tíma. Hún hafi leitað á tveggja ára tímabili margsinnis og ítrekað til C og fleiri lækna án þess að orsök óþæginda og verkja hafi fundist. Tveimur árum eftir fyrstu lækniskomu, hafi hún leitað á C vegna bólgu á hálsi og höfði og hafi enn verið talið að orsökin væri ofnæmi. Þegar lyfjameðferð í samræmi við þá greiningu, hafi ekki borið árangur hafi hún leitað aftur á sjúkrahúsið og hafi sneiðmyndataka leitt í ljós að hún hafi verið með stórt æxli í brjóstholi, sem hafi þrýst á æð sem liggi frá hjarta og upp í heila. Í X hafi legið fyrir að meinið hafi dreift sér víðar og að hún mundi koma til með að þurfa á meðferð að halda ævilangt. A hafi látist þann X.

Kærandi telji að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 5. desember 2023 varðandi meðferð A sem hafi farið fram á C sé röng og kæri ákvörðunina til úrskurðarnefndar í velferðarmála. Kærandi telji að tjón A sé bótaskylt úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000.

Krafa kæranda feli í sér að úrskurðarnefndin endurskoði ákvörðun Sjúkratryggingar Íslands um vangreiningu á krabbameini A og að vangreining hafi orðið fyrr en Sjúkratryggingar Íslands hafa áætlað. Þannig feli krafan í sér, að þess sé beiðst af úrskurðarnefndinni að samþykkja að vangreining hafi orðið fyrr en Sjúkratryggingar Íslands hafi áætlað, auk þess sem skilyrði séu til greiðslu bóta fyrir bæði tímabundið og varanlegt tjón á grundvelli 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu, enda megi ætla að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn og meðferð við þær aðstæður sem um ræði hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Þá sé farið fram á að tjón A verði metið og bætur greiddar í samræmi við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000.

Kærandi telji að óeðlileg töf hafi orðið á greiningu krabbameinsins. Tíðar komur A til C, þar sem hún hafi kvartað undan brjóstverk og erfiðleikum við öndun, hafi gefið ástæðu til að gruna krabbamein og gefið tilefni til að bregðast við með frekari rannsóknum til að útiloka alvarlega sjúkdóma, eins og krabbamein. Hún hafi verið ítrekað vangreind og hafi meðal annars verið látin gangast undir aðgerð á brjóstum, þar sem brjóstapúðum hafi verið skipt út fyrir aðra minni brjóstapúða að ósekju. Talið hafi verið að veikindi hennar hafi stafað af ofnæmisviðbrögðum sem hafi ekki lagast þrátt fyrir meðferð og hafi ástand hennar einungis versnað.

Gera verði ráð fyrir því að þegar A hafi fyrst leitað til C í X og X hafi krabbameinið þegar verið farið að gera vart við sig og hafi síðan fengið að dreifa sér óáreitt, þrátt fyrir ítrekaðar heimsóknir hennar til lækna þar sem hún hafi leitað sér aðstoðar. Sérfræðingur í krabbameinslækningum á Landspítalanum hafi sagt við A og eiginmann hennar að telja mætti að meinið hefði átt að greinast við fyrri rannsóknir á lungum, meðal annars X. Þrátt fyrir að ekki hafi sést ummerki um meinið á röntgenmyndum sem teknar hafi verið í X, megi gera ráð fyrir því að betra eftirlit í framhaldinu og rannsóknir lungnalæknis hefðu fljótlega leitt í ljós æxli í brjóstholi. Kærandi geri sér grein fyrir því að erfitt geti verið að greina krabbamein, en það breyti ekki þeirri staðreynd að um vangreiningu á sjúkdóminum hafi verið að ræða og að tjón A sé augljóst, þar sem hún hafi ekki fengið tækifæri til að berjast við sjúkdóminn fyrr en það hafi verið of seint. Ekki sé hægt að segja með fullvissu um batahorfur ef hún hefði hlotið rétta greiningu á fyrri stigum sjúkdómsins. Kærandi fái aldrei að vita hvort það hefði breytt einhverju um horfur A og líkur á að sigra sjúkdóminn eða að minnsta kosti lengja líf sitt. Yfir tveggja ára tímabil hafi A verið vangreind og meðferðartöfin hafi haft í för með sér að hún hafi látist vegna sjúkdómsins. Hún hafi af þessum ástæðum misst af því tækifæri að fá að berjast við sjúkdóminn á fyrri stigum hans og mögulega sigra þá baráttu. Það sé í hæsta máta óeðlilegt að hún hafi þurft að bera hallann af því að sanna að sú vangreining hafi valdið henni tjóni, enda hafi hún látist úr sjúkdómnum og ekki haft möguleika á að láta á það reyna hvort hún gæti sigrað sjúkdóminn, lifað með honum og átt þannig möguleika á lengra og betra lífi vegna vanrækslu og vangreiningar af hálfu heilbrigðisstarfsfólks og því sé eðlilegt að hún njóti vafans í þessu tilfelli.

Kærandi telji að sú meðferð sem A hafi hlotið á C og rannsóknir stórlega ábótavant. Annars vegar bendi kærandi á að A hafi upplifað neikvætt viðhorf og afstöðu í sinn garð þegar hún hafi leitað á C vegna veikinda sinna. Kærandi telji að starfsfólk C hafi stokkið á ályktanir án tilheyrandi rannsókna sem hafi getað rennt stoðum undir þær sjúkdómsgreiningar sem talið hafi verið að hrjáðu A. Hins vegar bendi kærandi á ófullnægjandi rannsóknir eða skort á rannsóknum heilbrigðisstarfsfólks. Í því sambandi bendi kærandi á að A hafi verið greind með lungnaþembu án þess að nokkur rannsókn, þ.e. röntgenrannsókn eða önnur sambærileg rannsókn hafi legið til grundvallar greiningunni.

Í lögum um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 segi í 1. mgr. 1. gr. að rétt til bóta samkvæmt lögunum eigi sjúklingar, sbr. 2. gr. laga um réttindi sjúklinga, sem verði fyrir líkamlegu eða geðrænu tjóni hér á landi í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð á sjúkrahúsi, heilsugæslustöð eða annarri heilbrigðisstofnun, í sjúkraflutningum eða hjá heilbrigðisstarfsmanni sem starfi sjálfstætt og hafi hlotið löggildingu landlæknis til starfans. Sama eigi við um þá sem missi framfæranda við andlát slíkra sjúklinga. A hefði þegar sent inn tilkynningu um sjúklingatryggingaratburð fyrir andlát sitt og byggi kæran á synjun Sjúkratrygginga Íslands á bótum vegna atburðarins, enda hafi þar verið um sjúkling að ræða sem hafi byggt kröfu sína á lögmætum rétti til bóta sem falli ekki niður við andlát hans, enda sé það afleiðing af þeim sjúklingatryggingaratburði sem um ræði.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu séu talin upp þau tjónsatvik sem lögin taki til og byggi kæra þessi á 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. þar sem segi að bætur skuli greiða án tillits til þess hvort einhver beri skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til þess að ætla megi að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræði hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Þessa grein laganna verði að lesa í samhengi við 3. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga þar sem fram komi hvaða kröfur sjúklingar geti gert til heilbrigðisþjónustu. Þar segi meðal annars að sjúklingur eigi rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma sé völ á að veita, að sjúklingur eigi rétt á þjónustu sem miðist við ástand hans og horfur á hverjum tíma og bestu þekkingu sem völ sé á og að sjúklingur eigi rétt á samfelldri þjónustu og að samstarf ríki á milli allra heilbrigðisstarfsmanna og stofnana sem hana veiti.

Kærandi telji aðallega að tjón A sé bótaskylt samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Samkvæmt 1. tölul. skuli greiða bætur úr sjúklingatryggingu vegna tjóns sem að öllum líkindum megi ætla að komast hefði mátt hjá, ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræði hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000 lúti að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið taki til allra mistaka sem verði við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segi að orðið mistök sé notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkist í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu. Átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segi enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skuli greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars séu talin röng meðferð eða ófullnægjandi rannsókn. Þetta feli í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón á grundvelli laganna verði rakið til dæmis til mistaka þá skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Kærandi bendi á að töf á meðferð vegna vangreiningar hafi verið rétt tæp tvö ár. A hafi leitað ítrekað til lækna en hvað eftir annað hafi verið beitt rangri meðhöndlun eða hún ranglega sjúkdómsgreind. Þessi vangreining hafi valdið versnum á einkennum og framgangi krabbameinsins. Afstaða kæranda sé ótvírætt sú að orsakasamband sé til staðar. Meðferð og rannsóknir hafi ekki verið í samræmi við alvarleg og þrálát einkenni, og líðan og kvartanir hennar. Af hálfu kæranda sé einnig vísað til þess að lögum um sjúklingatryggingu sé ætlað að tryggja sjúklingum víðtækari rétt til bóta en flestum öðrum tjónþolum, meðal annars vegna sönnunarvandkvæða í þessum málaflokki, eins og rakið sé í frumvarpi til laganna. Af þeim sökum byggi kærandi á því að ekki sé hægt að gera strangar kröfur til sönnunar á orsakatengslum í málinu. Við mat á því hvort nauðsynlegt orsakasamband sé milli tjóns og meðferðar sé nægilegt að sýna fram á að tjón hafi öllum líkindum hlotist af meðferðinni, sbr. og orðalag 1. mgr. 2. gr. laganna.

Hvað varðar skilyrði 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu, þá byggi kærandi á því að ákvæðið taki til allra mistaka sem verði við rannsókn, meðferð o.s.frv. Kærandi bendi á að samkvæmt lögskýringargögnum feli orðið mistök í þessum skilningi í sér mun víðtækari merkingu en almennt tíðkist í lögfræði og ekki skipti máli hvernig mistökin séu. Meðal annars sé átt við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining eða annað sem verði til þess að annað hvort sé beitt meðferð sem ekki eigi læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Sama eigi við ef notaðar séu rangar aðferðir eða tækni eða sýnt sé gáleysi við meðferð sjúklings eða eftirlit með honum.

Samkvæmt öllu framangreindu byggi kærandi á því að það hefði mátt afstýra tjóni A með því að haga meðferð eins vel og unnt hefði verið, og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði, og/eða með því að beita annarri meðferðartækni. Kærandi krefjist þess að tjón A verði bætt á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Kærandi telji að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands sé ekki í samræmi við reglur laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 og óski hann því eftir að málið verði tekið til endurskoðunar hjá úrskurðarnefnd velferðarmála.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að þann 28. október 2021 hafi stofnuninni borist umsókn um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000. Sótt hafi verið um bætur vegna afleiðinga meðferðar sem hafi farið fram á C frá X. Aflað hafi verið gagna frá meðferðaraðilum og málið verið yfirfarið af lækni og lögfræðingum stofnunarinnar. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 5. desember 2023, hafi umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu verið synjað á þeim forsendum að ekki væri um að ræða tjón sem félli undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Sú ákvörðun sé nú kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Í ljósi þess að ekki verði annað séð en að afstaða Sjúkratrygginga Íslands til kæruefnisins hafi nú þegar komið fram í ákvörðun stofnunarinnar, dags. 5. desember 2023, þyki ekki efni til að svara kæru efnislega með frekari hætti. Sjúkratryggingar Íslands vísi því til þeirrar umfjöllunar sem fram komi í gögnum málsins. Engin ný gögn hafi verið lögð fram sem taka þurfi afstöðu til.

Í hinni kærðu ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 5. desember 2023, segir um málavexti:

„Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum leitaði umsækjandi til C þann X með ónot yfir brjóstkassa, sem staðið höfðu yfir í langan tíma og umsækjandi tengdi brjóstapúðum. Rannsóknir gerðar í X sýndu ekki sjúklegar breytingar í lungum umsækjanda og hjartalínurit sýndi ekki bráðar breytingar. Grunur var um að einkenni umsækjanda tengdust brjóstapúðum og voru púðarnir fjarlægðir og minni púðum komið fyrir. Þá kom fram í sjúkraskrá að umsækjandi hafi farið í uppvinnslu hjá hjartalækni sem taldi verkina ekki hjartatengda.

Umsækjandi kvartaði enn ítrekað undan brjóstverkjum. Þann X er því lýst í sjúkraskrá að umsækjandi hafði mikla sögu um brjóstverki, sem ekki hafi breyst við brjóstapúðaaðgerðina. Umsækjanda var þá vísað áfram til skoðunar hjá meltingarlækni.

Þann X fór umsækjandi í rannsókn hjá meltingarlækni sem leiddi ekkert sérlegt í ljós. Í X og X kvartaði umsækjandi enn undan brjóstverk og mikilli mæði, einnig hósta. Þann X kom fram í sjúkraskrá að umsækjandi hafi leitað á C vegna andþyngsla og hósta. Í samskiptaseðli læknis frá X kom fram að umsækjandi hafi verið með brjóstverk til lengri tíma og hafi átt það til að vakna með verkina.

Samkvæmt læknabréfi dags X lagðist umsækjandi inn vegna mæði og bjúgs í efri hluta líkama. Tekin var sneiðmynd af brjóstholi umsækjanda, sem sýndi stóra fyrirferð í hægra lunga sem þrýsti á hjarta og efri holæð. Umsækjandi reyndist vera með smáfrumukrabbamein.

Samkvæmt sjúkraskrá LSH þann X vaknaði grunur um meinvörp í beinum umsækjanda, slík meinvörp staðfestust með vissu með segulómrannsókn í X.

Umsækjandi lést þann X.“

Um forsendur niðurstöðu segir í hinni kærðu ákvörðun:

„Við ákvörðun um hvort einstaklingur eigi rétt til bóta samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er litið til þess hvort tjón megi rekja til þess að ekki hafi verið rétt staðið að meðferð sjúklings, mistaka heilbrigðisstarfsmanna, vangreiningar, tækjabúnaðar og/eða áhalda, hvort beita hefði mátt annarri meðferðaraðferð eða tækni eða hvort heilsutjón hafi orðið vegna sýkingar eða annars fylgikvilla sem ósanngjarnt þykir að sjúklingur þoli bótalaust. Fylgikvilli þarf að vera alvarlegur í samanburði við veikindi sjúklings og tiltölulega sjaldgæfur svo skilyrði séu fyrir greiðslu bóta.

Það umkvörtunarefni umsækjanda sem helst hefði getað vakið grun um umrætt mein umsækjanda, var brjóstverkur. Sá verkur kom fyrst til skoðunar heilbrigðisstarfsmanna C dagana X og X. Þá lýsti umsækjandi ónotum yfir brjóstkassa og tengdi þau brjóstapúðum. Röntgenmynd var tekin af umsækjanda sem sýndi ekki sjúklegar breytingar í lungum. Þar sem grunur var um að verkir umsækjanda væru tengdir umræddum brjóstapúðum var tekin ákvörðun um að fjarlægja þá og setja minni púða. SÍ gera ekki athugasemd við þessi vinnubrögð.

Þegar umsækjandi kvartaði enn undan brjóstverkjum gekkst hún undir skoðun hjartalæknis sem leiddi ekkert sérlegt í ljós. Þá var það mat heilbrigðisstarfsfólks að brjóstverkirnir gætu samrýmst brjóstsviða og einkennum frá vélinda. Umsækjandi gekkst því undir skoðun meltingarlæknis sem leiddi ekkert sérlegt í ljós. SÍ gera ekki athugasemd við þessi vinnubrögð. Brjóstverkur er ekki meðal algengustu einkenna lungnakrabbameins.[1] Helstu einkenni slíks meins eru langvarandi hósti, endurteknar lungnasýkingar, blóðhósti o.fl., auk einkenna fjarlægra meinvarpa.

Umsækjandi kvartaði enn um brjóstverk og mikla mæði í X og X. Hefði lungnamynd og sneiðmynd af brjóstholi verið tekin á þeim tíma hefðu þær eflaust leitt lungnaæxlið í ljós og flýtt þannig sjúkdómsgreiningu um fjóra til fimm mánuði. Við greiningu æxlisins í X var það 10 x 15 cm á stærð. Tvöföld stærðaraukning smáfrumuæxla í lungum er um 54 -132 dagar.[2] Í tilviki umsækjanda var um að ræða mjög hraða tíðni frumufjölgunar, og má því ætla að tvöföldunartími æxlisins hafi verið hraður. Í X hefði æxlið því verið auðgreinanlegt með röntgen eða sneiðmyndatöku.

Lífshorfur sjúklinga með smáfrumuæxli í lunga eru almennt ekki hagstæðar, jafnvel þó þeir séu teknir til skurðaðgerðar í von um lækningu. Rannsóknir sýna að fimm ára lífslíkur eftir slíka skurðaðgerð séu 15- 48%.[3] Þegar æxlið greindist í X hafði það vaxið inn í efri holæð. Við þær aðstæður kemur brottnám með skurðaðgerð vart til greina.[4] Er það mat SÍ að meiri líkur en minni séu til þess að lungnaæxli umsækjanda hafi þegar verið vaxið inn í umhverfi sitt fjórum til fimm mánuðum fyrr, og því líkur til þess að æxlið hafi verið óskurðtækt í X – X. Hefði æxlið greinst í X X hefði krabbameinsmeðferð umsækjanda líkast til verið beitt fyrr en raun bar vitni. Þó eru að mati SÍ engar líkur til þess að sjúkdómsgreining fjórum til fimm mánuðum fyrr hefði breytt miklu um framgang sjúkdóms umsækjanda.

Sjúklingatryggingu er ekki ætlað að bæta tjón sem er afleiðing grunnsjúkdóms og er því skilyrði bóta úr sjúklingatryggingu að orsakatengsl séu á milli heilsutjóns umsækjanda og þeirrar meðferðar sem hún gekkst undir. Að mati SÍ er það orsakasamband ekki til staðar í máli umsækjanda. Með vísan til þessa er SÍ ekki heimilt að verða við umsókn umsækjanda um bætur úr sjúklingatryggingu, þar sem meðferð þarf að hafa leitt til tjóns til að skilyrði laganna um greiðslu bóta sé uppfyllt og tjónsupphæð að ná lágmarksfjárhæð skv. 2. mgr. 5. gr. laganna.“

Með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að afleiðingar tafa á greiningu séu bótaskyldar samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hljótist af sjúkdómi sem sjúklingur sé haldinn fyrir. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Sé niðurstaðan hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkist í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Kærandi byggir kröfu sína um bætur úr sjúklingatryggingu á 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að A hafi verið beitt rangri meðhöndlun og ranglega sjúkdómsgreind í tæplega tvö ár fyrir greiningu. Hún hafi ítrekað leitað á C frá X en hafi ekki verið greind með æxli í brjóstholi fyrr en í byrjun árs X. Sú vangreining hafi valdið versnun á einkennum og framgangi krabbameinsins og hún hafi því ekki fengið tækifæri til að berjast við sjúkdóminn fyrr en það hafi verið of seint.

Í samskiptaseðli D, hjúkrunarnema, dags. X, segir:

„A kemur á bráðamótökuna vegna öndunarefiðleika. Er með ofnæmi fyrir […] og […].

Mettar 92 við komu. Læknir ord 10 mg decortin per os sem ég gef henni. Gef henni atrovent og ventolin friðarpípu. Slær lítið á. Fær súrefni 2L fer þá upp í 95% mettun. Læknir ord tavegyl 2mg í 10ml nasl IM, zantac 20mg í 20ml nasl IV og solocortef 100mg IV. Hálftíma síðar líður henni betur. Fær aftur samkvæmt ord atrovent og ventolin í friðarpípu. Líður betur. Fer heim og fær lyfseðil fyrir nasonex og adrenalin penna. Fer heim.“

Í samskiptaseðli E, heilsugæslulæknis, dags. X, segir:

„Brjostnám bil f 4 árum, expansion græjur

[…]

Verkur í höndum á nóttunni

Ónot í brjótkassa

Reykir

plan

spelka hendur

EKG rtg pulm blpr

bréf á skurð mtt brjósta.“

Í samskiptaseðli F heilsugæslulæknis, dags. X, er skráð að A hafi leitað á heilsugæsluna vegna hjartsláttar. Í sjúkraskrá segir að hún hafi verið send þann sama dag í hjartalínurit. 

Í samskiptaseðli E, heilsugæslulæknis, dags. X, segir meðal annars: 

„RTG LUNGU:

Til samanburðar rannsókn frá X.

Hjarta er eðlilega stórt og ekki merki um stasa, engar þéttingar í lungnaparenchymi eða fleiðruvökvi. Rtg.þéttir ventlar í brjósta prothesum beggja vegna.

NIÐURSTAÐA:

Sjúklegar breytingar greinast ekki í lungum.

Lýsri nú brjóstverkjum seinna EKG X ekki eðlielgt. þarf nýtt og meta TnT.“

Í samskiptaseðli G, læknanema, dags. X, segir meðal annars: 

„X ára gömul kona er send á bmt vegna brjóstverks sem hún hefur haft undanfarið. Segir brjóstverkinn vera nánast stöðugan en mismikinn. Verkurinn er meira í maganum en brjóstverkur. Er aum við djúpa kviðskoðun á epigastrial svæði. Verkirnir eru stöðugir en það koma köst þar sem verkurinn er mikill. Segir að parkódin hafi hjálpað við verkinn en omeprazol hefur ekkert að segja. Fór í afnám af brjóstum og uppbyggingu brjósta eftir það.

Lungnahlustun eðl

hjartahlustun s1 og s2 enginn auka eða óhljóð.

Blpr eðl.

EKG eðl

Ekki um bráða verki að ræða.

Sendi hana heim og segi henni að koma aftur ef hún finni fyrir einkennum hjartaverks.“

Í samskiptaseðli H, heilsugæslulæknis, dags. X, segir meðal annars: 

„UTI einkenni í 3 daga. Sviði, lykt, oft fengið áður og biður um lyf. Vill ekki bíða eftir ræktun. Profum selexid.

Einnig þekktir verkir vegna tognuðum vðva í brjóstkassa, búin i uppvinnslu hjá hjartalækni sem töldu verkina ekki hjartatengda. Prófum cox-2 hemla. Nýlega seponerað p. forte hjá henni.“

Í samskiptaseðli H, heilsugæslulæknis, dags. X, segir meðal annars: 

„Brjóstaaðgerð fyrir 2 vikum. Kemur til að láta líta á skurðsár. Telur það ekki vera að gróa rétt og eins og sárið sé að víkka.

Inframammary incision á hægra brjósti og er medial brúnin aðeins glennt. Ekki purulent vessar, roði, bólga eða önnur sýkingarmerki.“

Í samskiptaseðli I, hjúkrunarfræðings, dags. X, segir meðal annars: 

„Aðdragandi og ástand við komu: Kemur vegna verkja undir hægra rifjaboga. Var hjá lækni sl mánudag sem telur hana vera með herniu. í morgun þegar hún sest upp poppar eitthvað undan hægri rifjaboga. Hún leggst aðeins niður og ýtir á eftir þessu og nær að láta það hverfa.

Þetta hefur komið fyrir áður og þá hefur hún náð að láta verkina hverfa en í dag eru stanslausir verkirog henni líður mjög illa yfir þessu og er kvíðin.

Fyrir komu er hún búin að taka paratabs og kvíðastillandi.

Lífsmörk við komu:

-Bþ. 154/101 p. 92

- H. 37,1

- Spo2: 99

Meðferð:

Færskoðun hjá lækni.

Fer í TS af kvið.

Fer heim.“

Í samskiptaseðli Í, læknis, dags. X, segir að A hafi farið í ómun sem hafi komið eðlilega út. Þá kemur fram að blóðprufa hafi verið pöntuð. Í samskiptaseðli Í, dags. X, kemur fram að allar blóðprufur hafi komið vel út.

Í samskiptaseðli J, sérnámslæknis, dags. X, segir meðal annars: 

„ofnæmi: er með þekkt […]ofnæmi. á […]. notar antihistamin. þarf stundum sterakúr.

[…]

skoðun:

ekki stridor eða wheezing. vesicular hlustun bilateralt.

ekki urticariur.

á ventolin og fær stera.“

Í samskiptaseðli K, læknanema, dags. X, segir meðal annars: 

„er búin að vera með sársauka í brjósti í a.m.k. 2 ár og nú aukningu á brjóstsviða og einkennum frá vélinda síðasta mánuð.

Mikil saga um brjóstverk og farið í ýmsar skoðanir v. þessa. Meðal annars uppvinnslu af hjartalækni þar sem kom fram að ekkert væri að hjarta. Einnig varið í aðgerð á brjóstum, var með stærri sílíkon brjóst eftir double mastectomy aðgerð, það var gerð minnkun á þeim vegna gruns um að verkurinn væri að stafa þaðan en eftir þá aðgerð breyttist sársaukinn ekkert. Mestmegnis verið sársauki í brjóstkassa, stingandi sársauki, annað hvort um allt brjóstið eða akkúrat í miðjunni.

Alltaf verið með indigestion og rop, núna orðið verra síðasta mánuð. Finnur nú einnig mikið fyrir því þegar hún kyngir mat. Finnur fyrir matnum ferðast niður. Finnur einnig fyrir auknum þrýstingi frá maga Þau einkenni byrjuðu að koma fyrir mánuði síðan.

Lyf: Er að taka Omeprazol 40mg x2 og Gaviscon aukalega sem er ekki að hafa mikil áhrif á þetta.

Á/P: sendi tilvísun á Meltingarsetrið, öllum líkindum er þetta vandamál frá vélinda sem þarf betra mat.“

Í læknabréfi L, sérfræðings í lyf- og meltingarsjúkdómum, dags. X, segir meðal annars: 

„Pre-med: inj Dormicum 5 mg í æð, xylocain kokdeyfing

Vélinda: Eðlileg vélindaslímhúð, ekki þindarslit. Sýni frá distal og miðhluta í PAD.

Magi: Eðlileg magaslímhúð. Sýni frá antrum í CLO test sem er neikvætt. Hiatus gapir ekki við J-inversion í maga. Pylorus eðlilegurog auðveld þræðing niður í skeifugörn.

Skeifugörn: eðlileg skeifugarnarslímhúð.

Álit: Eðlileg magaspeglun. Bíð eftir PAD.

Vefjagreining:

A og B: Slímhúðarsýni frá distal og mið. vélinda án marktækra sjúklegra breytinga

A mun panta tíma hjá M varðandi ev […]ofnæmi.“

Í samskiptaseðli H, heilsugæslulæknis, dags. X, segir meðal annars: 

„Brjóstverkur í 2 ár og núna 4d saga um productive hósta. Reykir. […]ofnæmi og býr með […]. Verið hjá kardiolog vegna þessum brjóstverk og er með t-bylgju inversionir í v2-v5 eins og áður hér á riti.

Hrein lungnahlustun og hjartahlustun án auka eða óhljóða.

Hitalaus og með eðlileg lifsmörk.

Á/P: Bronchitis, reykur og […]ofnæmi sem triggera versnun.

-Flixotide sem hún er vön að nota í versnunum.

-Ráðlegg betri uppvinnslu mtt COPD og astma eftir þessi veikindi.“

Í samskiptaseðli N, læknakandídats, dags. X, segir meðal annars: 

„X ára gömul kona sem er með þekkt ofnæmi fyrir […] o.fl. -- Hefur verið að taka Telfast og Diphenhydramin vegna þessa en hún fær öndunarfæraeinkenni aðalega og verður móð og finnur fyrir andþygslum. Hefur einnig verið með brjóstverk til lengri tíma; tengir það ekki við álag, streitu eða líkamlegt athæfi. Á það til að vakna með verkina, stundum engir verkir og verkir sem koma yfir daginn.

Hefur reykt frá X ára aldri en hennar helsta vandamál núna er mikil mæði sem virðist ekki vera að ganga til baka.

Er með púst heimafyrir sem hefur ekki hjálpað; stuttur sterakúr hjálpaði ekki heldur.

Förum í uppvinnslu mtt. COPD, hjarta- og æðasjúkdóma.

Ekki laust í Spiro fyrr en í september, bóka hana þá.

Sendi beiðni fyrir hjartaómun til hjartaverndar.

Lyf:

- Seloken

- Flixotide

- Ventoline

- Omeprazole

HFS:

-GERD

- X keisaraskurðir, X börn

- Hjartsláttaróregla (inverted T-waves í VI-6)

- Brjóstverkur

- Mæði“

Í umsögn O hjartasérfræðings um rannsókn, dags. X, segir

„Rannsóknardagur: X 14:30

Svar - Texti: RANNSÓKNARSVAR:

Svar einnig sent með læknabréfi í þeim tilgangi að hægt sé að senda ítarlegar niðurstöður í PDF skjali í viðhengi:

Left Ventricle

- Eðlileg stærð vinstri slegils.

- Eðlileg veggþykkt .

- Varðveittur samdráttur í vinstri slegli, útfallsbrot 55-60% .

- Eðlileg hlébilsstarfsemi.

Right Ventricle

- Eðlileg stærð hægri slegils.

- Eðlileg starfsemi hægri slegli.

Left Atrium

- Eðlileg stærð vinstri gáttar.

Right Atrium

- Eðlileg stærð hægri gáttar.

Mitral Valve

- Eðlilegt útlit og starfsemi míturloku.

- Óverulegur míturlokuleki.

Aortic Valve

- Ósæðarlokan hefur þrjár blöðkur og opnast eðlilega.

- Engin ósæðarlokuþrenging.

- Enginn ósæðarlokuleki.

Tricuspid Valve

- Eðlilegt útlit og starfsemi.

- Óverulegur þríblöðkulokuleki.

Pulmonic Valve

- Eðlilegt útlitog starfsemi lungnaloku.

- Ekki lungnalokuleki.

Pericardium Pericardial Effusion:

- Merki um perikardial fitu í gollurshúsi.

Samantekt:

1. Varðveittur samdráttur í vinstri slegli, útfallsbrot 55-60% .

2. Eðlileg hlébilsstarfsemi.

3. Ekki lokuvanstarfsemi

4. Lungnaþrýstingur eðlilegur.

5. Ekki gollurhúsvökvi.“

Í samskiptaseðli Ó, læknanema, dags. X, segir

„Komuástæði verkir við öndun.

Segist hafa verið með verki við öndun síðastliðnar 1-2 vikurnar. Segist eiga erfitt með að anda eðlilega, sé þungt að anda og hún heyri wheezing. Hefur klínískt verið metin með líklegan öndunarfærasjúkdóm en vegna covid hefur ekki verið hægt að gera blásturspróf. Er þó kominn á meðferð með sterapústum og hefur fengið stutta skammta af sterum. Fékk síðast sterakúr X vegna þessa vandamáls prednisolone 5mgx5 í 5 daga sem hún segir að hafi ekki slegið á vandann.

Við komu á deild virðist hún ekki eiga erfitt með öndun, notar ekki hjálparvöðva, andar 16x á min. Er talsvert  hrædd og kvíðin, stutt í grátur.

bþ 153/103 púls 104 mettun 99% hiti 36,6

Skoðun:

ekki bráðveikindarleg

Notar ekki aðstoðarvöðva við öndun,

Lungu: hrein öndunarhljóð bilat, ekki wheezing

Fyrra heilsufar:

Grunur um COPD/asthma ekki verið gerð spyrometria til staðfestingar tvöfallt brjóstnám og uppbygging, fyrirbyggjandi vegna BRACA

Lyf:

seretide diskus 275 mcg/sk

alprazolam 0,5mg pn

panodil 1g x3

esomeprazole 40mg x1

Norgesic 2x3 ( ef hún tekur ekki panodil)

Á/P: færfriðarpípu, er að metta vel, ekki að nota aðstoðarvöðva við öndun. Eðlileg öndunartíðni. Þekkt ástand vegna hennar líklega COPD og kvíða. Fær almennar ráðleggingar varðandi næstu daga“

Í samskiptaseðli J, sérnámslæknis, dags. X, segir

„ástæða: mæði

eiginmaður viðstaddur. frekar flókið mál. margar komur á hg. var nýlega fyrir jól hjá ofnæmislækni sem greinir hana með ofnæmi fyrir […]. áður var hún greind með COPD eftir spirometriu og sett á seretide og ventolin. hún hefur verið mjög mæðin og segist hafað farið í uppvinnslu á hjarta og ekki talið vera ástæða. núna voru þau að losa sig við […] og óska eftir sterum til að minnka einkennin. er að pústa sig í botn að eigin sögn. er að fara ícontrol spiro eftir 2 mánuði.

á/p:

set inn stuttan sterakúr í 5d set svo á viðtalstíma eftir viku í endurmat.“

Í samskiptaseðli P, læknis, dags. X, segir

„X ára kona með ofnæmissögu og er í uppvinnslu og eftirliti hjá ofnæmislækni. Þekkt ofnæmi fyrir […] en ekki neinum lyfjum. í gær og í dag bólgnar upp á höndum, hálsi og andliti, sérstaklega í kringum augu og leitar því á BMT. Neitar öndunarfæraeinkennum en líður eins og hafi aðeins bólgnað í hálsinum. Tengir þetta ekki við neitt sérstakt nema mögulega benylan sem hún hefurtekið pn.

Við skoðun ekki veikindaleg, vel vakandi og gefur góða sögu.

BÞ 167/96 SpO2 100% P 86 H 36,2

Ber á bjúg i andliti en alls ekki áberandi (þó að hitta hana í fyrsta skipti). Roði og væg bólga á höndum. Engin útbrot að sjá. Lungnahlustun er jöfn og hrein.

Ofnæmisviðbrögð

- Ord 100mg solu-cortef og 2mg t avegyl æð

- Ráðlegg að hætta með benylan. Rx atarax po pn. Á svo tíma hjá sínum ofnæmislækni á næstunni. Endurkoma ef einkenni frá öndunarfærum, meltingarfærum eða almenn versnun á ástandi.“

Í samskiptaseðli Q, læknis, dags. X, segir meðal annars svo:

„X ára gömul kona með sögu um astma. Hefur verið að koma endurtekið á bmt vegna þrengslatilfinningu í koki og bólgu í andliti. Finnst hún sjá það greinilega í spegli. Hverfur svo aftur. Kvartarennig um slappleika, andþyngsli og um verk í vi. brjósti.

Sk: Ekki meðtekin. Ekki dyspnea/tachypnea. Symmetrísk öndunarhljóð. Ekki ronkí eða brak. Ekki þreifieymsli yfir brjóstkassa og kviður mjúkur/eymslalaus. Ekki perifer bjúgur.

Blóðprufur: Hyponatremia 124.

Álit: SIADH?

Úrlausn: Panta TS brjósthol- og kvið til að útloka malignitet og læt mæla natrium/osmolariitet í þvagi. Fær 500 ml NaCI iv og kemur í eftirlit á morgun með nýjum blóðprufum..“

Í samskiptaseðli R, læknis, dags. X, segir meðal annars svo:

„TS thorax sýnir stóra fyrirferð í hæ lunga sem vex inn í SVC og er hún nánast lögð saman á köflum.

Konsúltera T lungalækni sem vill útiloka SVC og uppvinnslu í kjölfarið á fyrirferðinni sem greinist á TS.

Ráðleggur að senda hana á BMT á LSH.

Melda A inn á BMT.

Upplýsi A um niðurstöðu myndarinnar. Hún meðtekur segir hún hluta af því sem ég segi en ekki allt saman. Ræði einnig við unnusta A í síma og upplýsi hann um svarið.“

Í læknabréfi U, kandídats, dags. X, segir meðal annars svo:

„Lega: X- X

Læknabréf Kandídats

Ábyrgur sérfræðingur: I

Innlagnarástæða: Mæði og tumor í lunga

#Saga

X ára kona laggðist inn vegna mæði og bjúgs í efri hluta líkama. Á TS mynd þar sást stór tumor í hæ. lunga sem að þrýsti á hjarta og sup. vena cava. Hún lýsir upphafi einkenna fyrir 2 árum þegar hún fann ósértækan brjóstverk hæ. megin í brjóstkassa án leiðni. Hún hefur farið í brottnám á brjóstum bilat og verið með óþægindi frá því krónískt ásamt því að fá öndunarfæraeinkenni vegna […]ofnæmis sökum […]. Hún reykir einnig. Þetta leiddi til þess að hún var greind með ofnæmi og síðar COPD. Einn viku áður komu hefur hún svo fundið fyrir vaxandi mæði í hvíld og sérlega við áreynslu ásamt bjúg í efri hluta líkama.

#HSF

- Bilat brjóstnám, ekki greind með krabbamein hinsvegar.

- Óreglulegur hjartsláttur, farið í ómun skv henni og með structurel eðl hjarta, ekki a. fib. Líklega einhver SVT.

[…]

#Gangur í legu

1. Lung cancer

-Stórt tumor í hægri lungu sem þrýsti á SVC sem sýndi á TS X. Fékk stent í SVC X.

-RTG lungu X: "Ekki pneumothorax. Svolítill fleiðruvökvi hæ.megin þekkt frá TS rannsókn X. Stent í efra fremra miðmæti sem að liggur að öllum líkindum í vena cava."

- Fór í sýnatöku í brjostholi X

[…]

#Útskriftarplan

1. Göngudeild Krabbameins hjá Ú krabameinslæknir. X

2. Blóðprufur á X er pantað“

Í samskiptaseðli N, læknakandídats, dags. X, segir meðal annars svo:

„X ára gömul kona, nýlega greind með SCLC í hægra lunga sem þrýsti á SVC. Leitar á BMT HSS vegna vaxandi slappleika, tinnitus og doða tilfinningu yfir höfði / svima. Skv. blóðprufu tekin X er hún 124 í Na, versnandi lifrarprufur (erá cisplatin). Neitar nýjum einkennum frá öndunarfærum; neitar vandamálum með þvag en lýsir fersku blóði með hægðum og verkjum við hægðir (gyllinæð). Neitar brjóstverk, neitar vaxandi mæðis.

Það var áætlað að hún myndi koma á göngudeild X til að fá NaCI en hún fær Ringer 1L hér nú á BMT HSS.

Skoðun:

Lungnahlustun: Greini ekki vökva eða brakhljóð, ekki slímhljóð.

Hjartahlustun: S1, S2 greini ekki auka eða óhljóð.

Kviður: Án athugasemda

Tauga: CN án athugasemda, jafnvægi ekki skoðað vegna slappleika.

Á/P:

1. Hyponatremia og slappleiki vegna lyfjameðferðar.

2. Fær Ringer 1L hér mjög hægt á BMT, innlögn á D-deild.

3. Endurtaka prufur í fyrramálið og meta mtt. NaCI gjafar.

#CRP <8.“

Í göngudeildarnótu Ú yfirlæknis, dags. X, segir:

„GREINING: Smáfrumukrabbamein hæ. lunga

DAGSETNING GREININGAR: X

MEÐFERÐAR YFIRLIT:

X: Stent í SVC.

Palliative chemotherapy cisplatin/etoposid byrjaði X

Kúr #2 breytt í carboplatin/etoposide iv og etoposide 250 mg dag 2 og 3. Neulasta á dag 4. Lauk 6 kúrum X.

FYRIRHUGUÐ MEÐFERÐ

pallitive irinotecan á 2ja vikna fresti byrjar X nk. A kemur ásamt eiginmanni sínum í viðtal í dag. Þetta er X ára gömul kona sem greindist með stóran tumor í lunga í X á síðasta ári. Tumorinn staðsettur í hæ. lunga og olli supra vena cava syndrome og er hún með supra vena cava stent inniliggjandi. Það var tekið sýni úr þessari greiningu og sýndi það smáfrumukrabbamein en það voru lítil hreiður af adenocarcinoma, ekki var hægt að gera PD-L1 þar sem þetta eru of fáar frumur.

Hún fór í meðferð fyrst með Cisplatin/Etoposide og svo kom í ljós að ekki var unnt að gefa geislameðferð ennfremur þannig að þá var skipt yfir í Carbo/Etoposide og svaraði hún þeirri meðferð mjög vel. Eftir 3 meðferðarlotur sáust sclerotiskar breytingar í hrygg en hún hefur verið einkennalaus að mestu frá stoðkerfi en segist þó þreytast ef hún liggur mikið fyrir, líður betur ef hún er á hreyfingu.

Hún lauk 6 kúrum af Cisplatin/Carboplatin í X sl. Í júlí fór hún í endurstigunarrannsókn sem sýndi stabilan sjúkdóm. Það voru mjög litlar tumor restar eftir en samt sclerotiskar breytingar í beinum komu ekki fram á beinaskanni sem var gert einnig þarna í X en eru þó áfram grunsamlegar.

A lætur bara vel af sér í dag og hún hefur aðeins hóstað upp blóði, finnur aðeins fyrir eins og þyngslum fyrir brjósti og hefur verið á sýklalyfjum núna síðustu 3 daga, líklega Zithromax. Var í stigunarrannsóknum í síðustu viku og kemur til þess að fá niðurstöður hennar.

Við skoðun lítur hún vel út og gefur góða sögu. Við lungnahlustun aðeins bronchial öndunarhljóð hæ. megin, aðeins meira en vi. Ekki miklir ronchi og engar crepitationir og engar deyfur. Enginn bjúgur á höfði eða hálsi, engar eitlastækkanir á hálsi.

RANNSÓKNIR:

Förum yfir niðurstöður sneiðmyndarannsóknar sem sýna að í lobus superior hæ. megin er fyrirferð sem mælist 2,5x3,5 í axial plani og 4,2 cm cranicaudalt. Það er því stækkun á þessari fyrirferð og ennfremur stækkun á eitlum í miðmæti. Ekki eru meinvörp neðan þindar. Fjölmargar sclerotiskar breytingar sem áður hafa sést eru óbreyttar.

Álit og plan:

X ára gömul kona með smáfrumukrabbamein, núna recurrence í hæ. lunga. Hún er með grunsamlegar lesionir í beinum sem hafa þó ekki komið fram á beinaskanni.

Ræði þessar niðurstöður við A og eiginmann hennar í dag. Það er ljóst að hún er ekki með læknanlegan sjúkdóm en tilgangur meðferðar að halda niðri sjúkdómnum og ræði ég það við hana í dag einnig. Þá ræðum við einnig um að þessar lesionir sem sjást í beinum eru grunsamlegar fyrir meinvörp.

Ég mæli með 2. línumeðferð með Irinotecan á tveggja vikna fresti og stefnum á að hefja meðferð í næstu viku. Aðeins hefur borið á hemoptysu í síðustu viku, ekki þó mikil. Þá einnig er hún stundum með blæðingar per rectum. Blóðhagur er eðlilegur sem og Natrium, Kalíum og Krea. og lifrarpróf. Spurningum svarað, mun hefja meðferð í næstu viku. Endurkoma 2 vikum síðar og mun þá hitta deildarlækni og næst viðtal við mig eftir 4 vikur. Stefnum að endurstigunarrannsókn eftir 2-3 mán. Fer eftir einkennum. Förum yfir helstu aukaverkanir Irinotecan í dag og fær hún upplýsingar á ensku um lyfið.“

Í göngudeildarnótu Ú yfirlæknis, dags. X, segir að A sé líklega komin með meinvörp. Í sjúkraskrá þann X kemur fram að Ú hafi látið hana vita að niðurstöður segulómunar hafi sýnt útbreidd beinameinvörp.

Í læknabréfi V, sérnámslæknis, dags. X, segir svo:

„Lega: X- X:

Læknabréf við andlát

Ábyrgur sérfræðingur í legu: Æ

X ára kona með lokastigs smáfrumukrabbamein. Greindist í byrjun árs X. Verið í eftirliti hjá Ú og á palliatífri krabbameinslyfjameðferð. Svaraði ekki lengur meðferð og því var ákveðið að hætta krabbameinsmeðferð í X og leggja áherslu á líkn.

Kemur á bráðamóttöku X í öndunarbilun. Reyndist hafa mikinn fleiðruvökva og var sett dren til aftöppunar. Fékk einnig stera og sýklalyf ef mögulegt væri að bæta ástand hennar á þann hátt.

Heilsu hrakaði hratt þrátt fyrir þessa meðferð og óskaði A sjálf eftir að ekki yrði frekari lífslengjandi meðferð heldur áhersla á líknandi meðferð.

Fékk lyfjadælu til einkennameðferðar og síðan skráð formlega á lífslokameðferð X í samráði við hennar óskir og fjölskyldu hennar.

Lést á deild að morgni X.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Fyrir liggur að A var þann X greind með stóra fyrirferð í hægra lunga sem þrýsti á hjarta og stóra bláæð (e. superior vena cava) og var svo síðar greind með smáfrumukrabbamein. A fór á líknandi meðferð og lést þann X. Fyrir liggur að A átti allmargar komur til lækna frá árinu X áður en hún er greind með fyrirferð í hægra lunga. Þann X var tekin lungnamynd af henni sem var án sjúklegra breytinga. Brugðist var við kvörtunum hennar og henni var meðal annars vísað til meltingar- og hjartalækna. Skoðanir meltingarlæknis, dags. X, og hjartalæknis, dags. X, gáfu ekki skýringar á meinum hennar. Þann X leitar A til læknis vegna verkja við öndun og var þá talið líklegt að það væri vegna lungnaþembu (COPD). Í X kom svo í ljós að hún var lág í natríum og var hún send í sneiðmynd af lungum til frekari uppvinnslu. Í kjölfar þeirrar rannsóknar var hún greind með fyrirferð í hægra lunga. Úrskurðarnefndin telur að viðbrögð lækna á C hafi verið eðlileg og að A hafi verið skoðuð í samræmi við kvartanir og vísað til sérfræðilækna. Bótaskylda er því ekki fyrir hendi á grundvelli 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. 

Með vísan til þess, sem rakið er hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði bótaskyldu samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu séu ekki uppfyllt í tilviki A. Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja db. A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 



[1] National Health Service (UK).

[2] Clin Med Insights Oncol. 2012; 6:199-203.

[3] Lancet 2011; 378: 1741-5 og UpToDate.

[4] Int J Angiol. 2008 Spring; 17(1): 43-46.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum