Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir heilbrigðisráðuneytis

Úrskurður nr. 23/2023

Úrskurður nr. 23/2023

 

Miðvikudaginn 1. nóvember 2023 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

Með kæru, dags. 24. maí 2023, kærði […] (hér eftir kærandi), kt. […], gjaldtöku Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (hér eftir HH) vegna beiðni hans um afhendingu á sjúkraskrá.

 

Kærandi krefst þess að gjaldtakan verði felld niður og að HH verði gert að endurgreiða honum.

 

Málið er kært á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

I. Málavextir og meðferð málsins hjá ráðuneytinu.

Samkvæmt gögnum málsins óskaði lögmaður, f.h. kæranda, eftir sjúkraskrá hans frá HH frá 18. desember 2021. Stofnunin krafði kæranda um 15.791 kr. vegna beiðninnar.

 

Ráðuneytið óskaði eftir umsögn HH um kæruna, en athugasemdir bárust þann 19. júlí sl. Þann 8. ágúst sl. lýsti kærandi því yfir að hann hefði ekki frekari athugasemdir. Lauk þá gagnaöflun og var málið tekið til úrskurðar.

II. Málsástæður og lagarök kæranda.

Kærandi byggir á því að gjaldtaka HH vegna afhendingar á sjúkraskrá eigi sér ekki stoð í lögum. Gjaldatakan hafi verið reist á 9. tölul. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 1551/2022 en kærandi telur ákvæðið ekki eiga sér lagastoð og gangi í berhögg við ákvæði laga nr. 55/2009, um sjúkraskrár. Í þeim lögum sé kveðið á um almennan rétt sjúklinga til afrits af sjúkraskrám sínum en í lögunum sé hvergi kveðið á um gjaldtöku. Vísar kærandi til meginreglunnar um að stjórnvöldum sé ekki heimilt að innheimta þjónustugjöld nema samkvæmt ótvíræðri lagaheimild. Af hálfu kæranda er byggt á því að umrætt ákvæði reglugerðar nr. 1551/2022, sem fjalli um vottorð til lögmanna, eigi sér þannig ekki lagastoð. Engin lagastoð sé fyrir því að kveða sérstaklega á um gjaldtöku þegar borgari hafi umboðsmann en ekki í þeim tilvikum þar sem hann komi fram fyrir eigin hönd. Feli það í sér ólögmæta mismunun og brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

 

III. Umsögn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Í umsögn HH kemur fram að innheimta gjalds fyrir afhendingu sjúkraskrár byggi á 9. tölul. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 1551/2022, um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu.

 

IV. Niðurstaða.

Mál þetta varðar kæru á gjaldtöku Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna beiðni um afhendingu á sjúkraskrá.

 

Í 14. gr. laga um sjúkraskrár eru ákvæði um aðgang sjúklings að eigin sjúkraskrá. Samkvæmt 1. mgr. á sjúklingur eða umboðsmaður hans rétt á aðgangi að eigin sjúkraskrá í heild eða hluta og til að fá afhent afrit af henni ef þess er óskað. Skal beiðni þar að lútandi beint til umsjónaraðila sjúkraskrárinnar. Fram kemur í 2. mgr. að sé um að ræða sjúkraskrárupplýsingar sem hafðar eru eftir öðrum en sjúklingi sjálfum eða heilbrigðisstarfsmönnum skal leita samþykkis þess sem upplýsingarnar gaf áður en þær eru sýndar honum.

 

Í reglugerð nr. 1551/2022 eru ákvæði um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Er reglugerðin sett með stoð í lögum um sjúkratryggingar, lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um Heyrna- og talmeinastöð. Fram kemur í 5. tölul. 1. mgr. 29. gr. laga um sjúkratryggingar að heimilt sé að innheimta gjald vegna útgáfu læknisvottorða heilsugæslu og á sjúkrahúsum í reglugerð sem ráðherra setur. Í 14. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um gjöld fyrir vottorð í heilsugæslu og á sjúkrahúsum. Sú gjaldtökuheimild sem málið varðar er í 9. tölul. 2. mgr., sem segir að að fyrir vottorð til lögmanna og tryggingafélaga vegna sjúkdóma eða slysa, til tryggingafélaga vegna líf- og sjúkdómatrygginga eða umsókna um örorkubætur eða ættleiðingu, til lögreglu, sýslumanna, vegna dvalar- og/eða atvinnuleyfa hér á landi og dvalar eða starfa erlendis, fyrir ítarlegt vottorð um heilsufar einstaklings vegna beiðni þriðja aðila (skóla, atvinnurekanda, sjómannavottorð) og fyrir vinnu við yfirferð sjúkraskrár fyrir afhendingu skuli að lágmarki greitt fyrir klukkutímavinnu læknis, 15.216 kr. og síðan 5.072 kr. til viðbótar fyrir hverjar byrjaðar 20 mínútur.

 

Í málinu er til skoðunar hvort 9. tölul. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 1551/2022 veiti heilsugæslum heimild til að krefja einstakling, sem óskar eftir afhendingu á sjúkraskrá, um gjald vegna vinnu læknis við yfirferð á sjúkraskrá fyrir afhendingu.

 

Við úrlausn málsins verður að líta til þeirrar meginreglu að gjald verður ekki innheimt fyrir þjónustu stjórnvalda nema heimild sé til gjaldtökunnar í lögum, sbr. til hliðsjónar umfjöllun í áliti umboðsmanns Alþingis í áliti nr. 5002/2007 frá 9. september 2009. Segir í álitinu að regluna megi leiða af 40. og 77. gr. stjórnarskrár og almennum reglum stjórnsýsluréttar um að gjaldtaka ríkisins skuli byggjast á lagaheimildum. Þegar gjaldtaka fari fram í beinu og almennu tekjuöflunarskyni fyrir ríkissjóð leiði af stjórnarskrá að gera verði ríkar kröfur til þess að Alþingi hafi ákveðið slíka gjaldtöku með skýrum og afdráttarlausum hætti. Sé gjaldtökunni einungis ætlað að standa straum af kostnaði við að veita ákveðna opinbera þjónustu sem veitt sé á grundvelli laga sé aftur á móti almennt ekki áskilið annað en að í lagaheimild komi fram sú afstaða að slík gjaldtaka sé heimil.

 

Ljóst er að lög um sjúkraskrár veita sjúklingi eða umboðsmanni hans rétt á að fá afrit af sjúkraskrá afhenta í heild eða hluta. Í lögunum er engin heimild til stjórnvalda til að innheimta gjald af sjúklingi í tengslum við beiðni um afhendingu á sjúkraskrá. Ákvæði 14. gr. reglugerðar nr. 1551/2022 eiga sér stoð í 5. tölul. 1. mgr. 29 gr. laga um sjúkratryggingar sem veitir heimild til gjaldtöku vegna útgáfu læknisvottorða á heilsugæslu. Beiðni kæranda laut aðeins að afhendingu á sjúkraskrá en ekki læknisvottorði skv. 14. gr. reglugerðar nr. 1551/2022. Þótt skilja megi orðalag 9. tölul. 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar á þann veg að heimilt sé að taka gjald fyrir vinnu við yfirferð á sjúkraskrá fyrir afhendingu,  án þess að vinnan sé í tengslum við útgáfu læknisvottorðs, verður að horfa til þess að engin heimild er til slíkrar gjaldtöku í lögum um sjúkraskrár. Liggur þannig ekki fyrir með skýrum hætti vilji löggjafans til að krefja sjúklinga um sérstakt gjald vegna vinnu við yfirferð á sjúkraskrá fyrir afhendingu. Með vísan til þeirra meginreglna sem raktar hafa verið um lagastoð fyrir gjaldtöku vegna þjónustu sem stjórnvöld veita er það mat ráðuneytisins að sjúklingar verði ekki krafðir um gjald vegna afhendingar á sjúkraskrá ef vinnan lýtur ekki að útgáfu læknisvottorðs skv. 14. gr. reglugerðar nr. 1551/2022. Á þetta við jafnvel þó svo afhendingin hafi í för með sér vinnu læknis við yfirferð á sjúkraskrá fyrir afhendingu, svo sem til að gæta að 2. mgr. 14. gr. laga um sjúkraskrár.

 

Með vísan til framangreinds er gjaldtaka HH vegna beiðni kæranda um afhendingu á sjúkraskrá ógilt, enda eigi hún sér ekki stoð í lögum. Lagt er fyrir stofnunina að endurgreiða kæranda útlagðan kostnað vegna beiðninnar.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Gjaldataka Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna afhendingar á sjúkraskrá er ógilt. Lagt er fyrir stofnunina að endurgreiða kæranda útlagðan kostnað vegna afhendingar á sjúkraskrá.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum