Hoppa yfir valmynd

Nr. 366/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 20. júní 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 366/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23050160

 

Kæra [...] á ákvörðun Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 29. maí 2023 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgara Úganda (hér eftir kærandi) á ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. maí 2023, þess efnis að synja beiðni kæranda um skipun tiltekins talsmanns í tengslum við umsókn hans um alþjóðlega vernd.

Kærandi krefst þess að viðurkennt verði að stjórnvaldsákvörðun Útlendingastofnunar þess efnis að hafna beiðni um skipun talsmanns hafi byggt á ómálefnalegum og ólögmætum sjónarmiðum og að hún sé því ógildanleg.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

II.        Málsmeðferð og málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins leitaði kærandi til tiltekinnar lögmannsstofu þar sem hann hugðist sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi en hann var þá staddur á landinu. Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 21. apríl 2023. Með tölvubréfi kæranda hinn sama dag óskað hann eftir því að nafngreindur einstaklingur lögmannsstofunnar yrði skipaður talsmaður hans en sá einstaklingur sé á lista Útlendingastofnunar yfir talsmenn. Beiðni kæranda var hafnað af Útlendingastofnun 2. maí 2023 og barst honum rökstuðningur fyrir ákvörðuninni 16. maí 2023. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi þegar hlotið alþjóðlega vernd á Íslandi.

III.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi leitað til framangreindrar lögmannsstofu til að sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi. Hafi kærandi valið framangreinda lögmannsstofu til að sjá um málarekstur sinn fyrir íslenskum stjórnvöldum. Á næstu tveimur vikum hafi kærandi fengið ráðgjöf og upplýsingar frá lögmannsstofunni, m.a. á fundi 12. apríl 2023 og þegar hann var keyrður til Útlendingastofnunar 21. apríl 2023, svo hann gæti sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi. Kærandi vísar til þess að trúnaðarsamband hafi skapast milli sín og lögmannsstofunnar. Kærandi vísar til þess að 21. apríl 2023 hafi starfsmaður lögmannsstofunnar sent tölvubréf til Útlendingastofnunar þar sem óskað hafi verið eftir því að hann yrði skipaður talsmaður kæranda en hann sé á lista Útlendingastofnunar yfir talsmenn.

Kærandi fjallar um 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og athugasemdir með greininni í frumvarpi því sem varð að lögunum. Ákvæðið fjalli um rétt umsækjenda um alþjóðlega vernd til að tryggja að sjónarmið hans komist á framfæri á öllum stigum máls þeirra. Kærandi gerir því athugasemd við það mat Útlendingastofnunar í bréfi til þáverandi talsmanns kæranda að stofnunin telji sig sjá alfarið um skipun talsmanna. Kærandi vísar til þess að stofnunin hljóti að þurfa líta til sjónarmiða og óska viðkomandi umsækjenda. Þá tiltaki lagaákvæðið sérstaklega orðasambandið „á öllum stigum máls“ hans og telur því kærandi að túlkun stofnunarinnar gangi ekki upp. Þá vísar kærandi til þess að um sé að ræða rétt umsækjenda um alþjóðlega vernd en þennan rétt þurfi Útlendingastofnun að kynna fyrir viðkomandi og þá eftir atvikum leyfa viðkomandi að velja sér talsmann sjálfur. Það sé rótgróið í meginreglunni um réttláta málsmeðferð að einstaklingur eigi þann rétt að geta valið sér málsvara sjálfur. Eins og framkvæmd Útlendingastofnunar sé í dag þá séu talsmenn boðaðir í viðtal umsækjenda um alþjóðlega vernd án nokkurrar aðkomu umsækjenda og þeim svo kynntur þar talsmaður sinn. Kærandi telur að þessi framkvæmd sé ekki í anda laganna og góðra stjórnsýsluhátta.

Kærandi gerir þá athugasemd við rökstuðning Útlendingastofnunar og vísar til 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í ákvæðinu komi fram að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds byggi á auk þess sem greina skuli frá meginsjónarmiðum sem ráðandi hafi verið við matið. Kærandi telur að skilyrði ákvæðisins séu ekki uppfyllt um efni rökstuðnings. Þá mótmælir kærandi því að 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, mæli fyrir um það tilvik sem kærandi hafi staðið frammi fyrir. Í ákvæðinu segi aðeins að kjósi útlendingur að velja sér annan talsmann en honum sé skipaður skuli hann sjálfur greiða kostnað vegna starfa hans. Ákvæði 4. mgr. 42. gr. reglugerðarinnar geri þannig ráð fyrir því að kjósi umsækjandi um alþjóðlega vernd að skipta um talsmann eftir að eiginleg málsmeðferð umsóknar hans sé byrjuð skuli hann greiða sjálfur fyrir kostnað nýs talsmanns. Kæranda hafi ekki enn verið skipaður talsmaður þegar hann óskaði eftir því að ákveðinn einstaklingur lögmannsstofunnar væri skipaður talsmaður sinn. Eiginleg málsmeðferð umsóknar kæranda hafi ekki verið byrjuð en hann hafði rétt náð að leggja fram umsókn sína.

Þá vísar kærandi til 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga. Í ljósi langrar réttarfarssögu þegar komi að tilraunum framkvæmdavaldsins ýmist með almennum stjórnvaldsfyrirmælum og reglum eða með stjórnvaldsákvörðunum, til að þrengja rétt aðila samkvæmt lögum sé ljóst að þetta svigrúm framkvæmdavaldsins til að skerða lögbundinn rétt einstaklinga sé afar takmarkað. Þannig þurfi löggjafinn að mæla fyrir um meginreglur, m.a. um takmörk og umfang þeirrar réttindaskerðingar sem talin séu nauðsynleg, áður en framkvæmdavaldið geti sett almenn stjórnvaldsfyrirmæli sem skerði réttindi samkvæmt almennum lögum. Almennt orðað reglugerðarákvæði 6. mgr. 30. gr. laga um útlendinga mæli ekki fyrir um nokkrar slíkar meginreglur og ekki sé hægt að skilja málsgreinina á þann hátt að ráðherra sé falið nokkuð vald til að skerða þann rétt sem 1. mgr. sama ákvæðis kveði á um. Sama gildi um sjónarmið um birtar og óbirtar reglur sem Útlendingastofnun kunni að setja sjálf vegna skipunar talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Með hliðsjón af framangreindu telur kærandi ljóst að synjun Útlendingastofnunar á beiðni hans um skipun ákveðins talsmanns hafi verið ómálefnaleg og ólögmæt. Því beri kærunefnd að viðurkenna að sú ákvörðun sé ógildanleg. Þá breyti engu sú staðreynd að kærandi hafi nú þegar fengið alþjóðlega vernd á Íslandi. Við málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi verið brotið á réttindum kæranda og þá hafi lögmannsstofan sjálf ríka lögvarða hagsmuni af niðurstöðu þessa máls en hin kærða ákvörðun var bindandi fyrir lögmannsstofuna og batt enda á þátttöku hennar.

IV.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda skipaður talsmaður samkvæmt 30. gr. laga um útlendinga og í kjölfarið hlaut hann alþjóðlega vernd hér á landi 4. maí 2023. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Er hinni kærðu ákvörðun því vísað frá nefndinni.

 

Úrskurðarorð:

 

Kæru kæranda er vísað frá.

 

The Appeal is dismissed.

 

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

 

 

Sindri M. Stephensen                                                            Þorbjörg I. Jónsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum