Hoppa yfir valmynd

Nr. 265/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 10. maí 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 265/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23020079

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 28. febrúar 2023 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Gíneu ( hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. febrúar 2023, um að synja umsókn hans um dvalarleyfi sem aðstandandi EES- eða EFTA-borgara.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og fallist verði á umsókn kæranda um dvalarleyfi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 24. maí 2017. Með ákvörðun, dags. 4. júlí 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Með úrskurði nr. 494/2018, dags. 19. nóvember 2018, staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar. Með beiðni, dags. 23. nóvember 2018, óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar. Með úrskurði kærunefndar nr. 557/2018, dags. 7. desember 2018, var þeirri beiðni kæranda hafnað. Hinn 2. janúar 2019 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi hér á landi sem maki EES-borgara. Útlendingastofnun synjaði beiðni kæranda með ákvörðun, dags. 15. janúar 2020. Hinn 3. mars 2020 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi hér á landi vegna skorts á starfsfólki. Útlendingastofnun synjaði beiðni kæranda með ákvörðun, dags. 21. febrúar 2022.

Hinn 27. apríl 2021 lagði kærandi fram beiðni um dvalarleyfi hér á landi vegna fjölskyldusameiningar með við börn sín hér á landi. Útlendingastofnun synjaði beiðni kæranda með ákvörðun, dags. 21. febrúar 2023. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi sé skráður faðir tveggja barna. Fyrir liggi að dóttir kæranda sé flutt úr landi með móður sinni og því hafi aðeins verið fjallað um fjölskyldusameiningu við son kæranda sem búsettur sé hér á landi ásamt móður sinni. Samkvæmt gögnum málsins dvelji sonur kæranda á Íslandi á grundvelli þess að móðir hans sé EES borgari eða á grundvelli XI. kafla laga um útlendinga. Í 2. mgr. 82. gr. laga um útlendinga sé fjallað um það með tæmandi hætti hverjir séu aðstandendur EES- og EFTA-borgara og hafi heimild til að dveljast með EES- eða EFTA-borgara hér á landi. Samkvæmt ákvæðinu teljist m.a. maki EES- eða EFTA-borgara, niðji viðkomandi eða ættingi hans í beinan legg sem sé á framfæri borgarans sem aðstandendur. Ljóst sé að kærandi, sem sé ekki EES- eða EFTA- borgari en sé foreldri EES- eða EFTA-borgara, sem dvelji hér á landi, falli ekki undir gildissvið ákvæðisins enda sé hann ekki á framfæri sonar síns og geti ekki byggt rétt sinn til dvalar á Íslandi á XI. kafla laga um útlendinga, sbr. úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 175/2019 og 320/2021.

Hin kærða ákvörðun barst kæranda með ábyrgðarpósti 24. febrúar 2023. Hinn 28. febrúar 2023 kærði kærandi ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála. Hinn 9. mars 2023 bárust frekari gögn frá kæranda.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Kærandi lagði ekki fram greinargerð í málinu en í tölvubréfi með viðbótargögnum sem kærandi sendi kærunefnd kemur fram að kærandi telji mikilvægt að barn hans fái samveru með báðum foreldrum sínum.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í samræmi við 7. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, hefur tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/38 um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna verið tekin upp í íslenskan rétt, sbr. m.a. XI. kafla laga um útlendinga sem felur í sér sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga um útlendinga gilda ákvæði kafla XI. laganna um rétt útlendinga sem eru ríkisborgarar ríkis sem fellur undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu til að koma til landsins og dveljast hér á landi. Þá segir í 1. málsl. 2. mgr. 80. gr. að ákvæði XI. kafla gildi einnig um aðstandendur EES- og EFTA-borgara sem fylgja honum til landsins eða koma til hans. Í 1. mgr. 82. gr. kemur fram að aðstandandi EES- eða EFTA-borgara sem falli undir ákvæði XI. kafla laganna hafi rétt til að dveljast með honum hér á landi. Í 2. mgr. 82. gr. laga um útlendinga er fjallað um með tæmandi hætti hverjir eru aðstandendur EES- og EFTA-borgara og hafa heimild til að dveljast með EES- eða EFTA-borgara hér á landi. Samkvæmt ákvæðinu teljast m.a. maki EES- eða EFTA-borgara, niðji viðkomandi eða ættingi hans í beinan legg sem er á framfæri borgarans sem aðstandendur. Ljóst er að kærandi, sem foreldri EES- eða EFTA-borgara sem dvelur hér á landi, fellur ekki undir gildissvið ákvæðisins enda er hann ekki á framfæri sonar síns. Kærandi getur því ekki byggt rétt til dvalar á Íslandi samkvæmt XI. kafla laga um útlendinga.

Þá bendir kærunefnd á að sonur kæranda er staddur hér á landi með móður sinni sem fer með forsjá hans samkvæmt framlögðum gögnum.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest. Samkvæmt framansögðu hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Kæranda er því ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi og ber honum að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku úrskurðarins. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Aðilar stjórnsýslumáls hafa alla jafnan ríka hagsmuni af því að mál þeirra hljóti hraða afgreiðslu hjá stjórnvöldum, þótt slíkur hraði megi eðli málsins samkvæmt ekki bitna á gæðum málsmeðferðarinnar og ákvörðunar. Líkt og áður greinir lagði kærandi fram dvalarleyfisumsókn 27. apríl 2021 og tók Útlendingastofnun ákvörðun í málinu 21. febrúar 2023, eða um 22 mánuðum síðar. Jafnvel þótt játa verði Útlendingastofnun svigrúm til að afla gagna og framkvæma fullnægjandi rannsókn skv. 10. gr. stjórnsýslulaga er ljóst að málsmeðferðartími stofnunarinnar fór fram úr því sem eðlilegt getur talist og fer meðferð þessi í bága við fyrirmæli 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða. Kærunefnd beinir því til Útlendingastofnunar að gæta framvegis að þeim sjónarmiðum sem hér hafa verið rakin.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum