Hoppa yfir valmynd

Nr. 101/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 23. febrúar 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 101/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU21110039

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 9. nóvember 2021 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Filippseyja (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. október 2021, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn hennar til meðferðar á ný.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið hinn 7. maí 2021. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. október 2021, var umsókninni synjað. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina hinn 26. október 2021 og hinn 9. nóvember 2021 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd hinn 24. nóvember 2021.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að við vinnslu umsóknar hafi komið í ljós að fylgigögn með umsókn hafi verið ófullnægjandi og hafi kæranda því verið sent bréf, dags. 10. ágúst 2021, þar sem frekari gagna hafi verið óskað, þ. á m. greinargerð þar sem greint væri frá ýmsum tengslum kæranda, m.a. fjölskyldu-, vina- og menningartengslum við Ísland og heimaríki auk umönnunarsjónarmiða. Einnig hafi verið óskað gagna til stuðnings greinargerðinni, gögnum sem sýndu fram á afturvirka framfærslu milli tengdra aðila og framfærslugögnum sem sýndu fram á trygga og sjálfstæða framfærslu á dvalartímanum. Hafi greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum borist stofnuninni hinn 23. ágúst 2021. Með tölvupósti Útlendingastofnunar, dags. 31. ágúst 2021, hafi verið lagt fyrir kæranda að leggja fram gögn sem sýndu fram á afturvirka framfærslu milli tengdra aðila ásamt gögnum sem sýndu fram á trygga og sjálfstæða framfærslu á dvalartímanum. Hinn 7. september 2021 hafi umboðsmaður kæranda lýst því yfir að kærandi þægi ekki framfærslu en fjölskylda þeirra í Filippseyjum hefði aðstoð hana eftir þörfum. Þá hefði umboðsmaður kæranda lagt fram bankayfirlit í eigin nafni, þar sem væri næg innistæða til að halda uppi framfærslu fyrir kæranda.

Kærandi hefði dvalist í heimaríki alla sína ævi en hún og móðir hennar væru báðar búsettar í höfuðborg landsins. Þá ætti kærandi aðra ættingja í heimaríki sem aðstoðuðu hana með framfærslu. Þá hefðu engin gögn verið lögð fram í málinu sem bentu til þess að kærandi hefði þörf á sérstakri umönnun. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. og 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, sbr. 20. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, til útgáfu dvalarleyfis og var umsókninni því synjað.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð er vísað til þess að kærandi hafi verið búsett í Filippseyjum frá fæðingu. Árið [...] hafi kærandi verið tekin í varanlegt fóstur af dóttur móðursystur kæranda, sem sé ríkisborgari Filippseyja, og eiginmanni hennar, sem sé íslenskur ríkisborgari. Hafi fósturforeldrar hennar á þessum tíma búið á Filippseyjum og alið kæranda upp. Á árinu 2016 hafi fósturforeldrar kæranda flutt til Íslands og búið hér á landi frá þeim tíma. Ástæða þess að kærandi hafi verið tekin í varanlegt fóstur sé sú að [...] og kærandi hafi ekki verið [...]. Ekki hafi komið til þess að fósturforeldrar kæranda ættleiddu hana af þeirri ástæðu að ferli ættleiðinga í Filippseyjum sé mjög snúið, geti varað í mörg ár og sé kostnaðarsamt. Þegar fósturforeldrar kæranda hafi flutt til Íslands árið 2016 hafi kærandi orðið eftir á Filippseyjum, [...] ára gömul, til að klára háskólanám í kerfisfræði og hafi staðfest apostille vottuð gögn verið send með dvalarleyfisumsókn hennar til Útlendingastofnunar því til staðfestingar. Hins vegar hafi hugur kæranda ávallt staðið til þess að flytja með fósturforeldrum sínum til Íslands. Byggir kærandi á því að umsóknarferlið og þær leiðbeiningar sem umboðsmaður kæranda hafi fengið frá Útlendingastofnun séu á margan hátt aðfinnsluverðar, kæranda hafi aldrei verið leiðbeint um að stofnuninni þætti vafi á að kærandi uppfyllti skilyrði til útgáfu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla.

Kærandi byggir á því að henni beri réttur til dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland, sbr. ákvæði 78. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt orðalagi 3. mgr. ákvæðisins eigi að fara fram heildstætt mat á tengslum umsækjanda við landið og við það mat skuli að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Verði ákvæðið ekki skilið á þá leið að fyrri dvöl hér á landi sé skilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis. Þá sé í því sambandi heimilt að líta til fjölskyldutengsla sem og félagslegra og menningarlegra tengsla. Kærandi hafi fjölskyldutengsl við landið þar sem fósturforeldrar hennar séu búsettir á Íslandi, umönnunarsjónarmiðum sé ekki til að dreifa enda teljist kærandi fullorðin í skilningi íslenskra laga og þarfnist því ekki umönnunar. Þá eigi kærandi rík félagsleg og menningarleg tengsl við Ísland með vísan til þess að hún sé alin upp af íslenskum fósturföður sínum og fósturmóður sem bæði búa á Íslandi í dag. Í ljósi búsetu fósturforeldra hennar megi halda því fram að tengsl kæranda við Ísland séu orðin meiri en við heimaríki. Í Filippseyjum séu fjölskyldutengsl gjarnan sterk og tengsl barna við foreldra sína ríkari en gengur og gerist þegar fólk er komið á fullorðinsár. Loks vísar kærandi til þess að ákvæði 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga veiti Útlendingastofnun svigrúm til að meta aðstæður umsækjanda heildstætt og seti ekki skilyrði að rík umönnunarsjónarmið þurfi að vera til staðar heldur nefni slík sjónarmið sem dæmi um aðstæður sem geti verið grundvöllur slíks leyfis. Byggir kærandi á því að það sé bersýnilega ósanngjarnt að henni sé ekki kleift að búa í sama landi og fósturforeldrar hennar með vísan til fyrrgreindra sjónarmiða og með því sé verið að stía henni frá sinni nánustu fjölskyldu.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna, sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra.

Fyrir liggur að kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi og hefur því ekki myndað tengsl við landið með lögmætri dvöl. Þrátt fyrir að útlendingur hafi ekki dvalist hér á landi getur hann í undantekningartilvikum talist hafa sérstök tengsl við landið þegar heildstætt mat á aðstæðum hans leiðir til þess, t.d. ef rík umönnunarsjónarmið eru til staðar og bersýnilega væri ósanngjarnt að veita umsækjanda ekki dvalarleyfi á grundvelli þeirra, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 9. mgr. 78. gr. laga um útlendinga getur ráðherra sett reglugerð um nánari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 78. gr., m.a. hvenær geti komið til beitingar undantekningarreglu 4. mgr. ákvæðisins.

Í 20. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, hefur ráðherra útfært við hvaða aðstæður getur komið til veitingar dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi hefur ekki búið á Íslandi. Kemur þar fram að útgáfa slíks dvalarleyfis sé heimil eigi umsækjandi uppkomið barn eða foreldri sem búi á Íslandi og sé íslenskur ríkisborgari eða hafi ótímabundið dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem geti myndað grundvöll fyrir ótímabundið dvalarleyfi. Umsækjandi þurfi að sýna fram á að hann hafi verið á framfæri þessa aðstandanda í að minnsta kosti ár og að fjölskyldu- og félagsleg tengsl hans við heimaríki séu slík að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita honum ekki dvalarleyfi hér á landi. Þá kemur fram að umönnunarsjónarmið önnur en framfærsla þurfi að jafnaði að mæla með veitingu dvalarleyfis.

Tengsl kæranda við landið eru þau að dóttir móðursystur hennar, maki og börn þeirra eru búsett á Íslandi en í dvalarleyfisumsókn og greinargerð er byggt á því að þau hafi tekið kæranda í fóstur við fjögurra ára aldur. Fyrirliggjandi gögn málsins benda ekki til þess að kærandi hafi verið ættleidd auk þess sem ekki hafa verið lögð fram opinber gögn sem staðfesta að kærandi hafi verið í fóstri hjá þeim. Af þeim gögnum sem kærandi hefur lagt fram, m.a. ljósmyndir af henni ungri með frænku sinni og eiginmanni hennar, verður þó lagt til grundvallar að kærandi hafi í reynd verið í fóstri hjá þeim frá fjögurra ár aldri líkt og byggt er á í málinu.

Gögn málsins benda ekki til annars en að kærandi hafi búið alla tíð í heimaríki þar sem hún hefur hlotið menntun sína. Í bréfi kæranda til Útlendingastofnunar, dags. 21. ágúst 2021, kemur fram að hún sé ekki í daglegri framfærslu frá Íslandi en fjölskylda hennar í heimaríki sjái um að leggja til aðstoð við framfærslu sé þess þörf. Þá kemur fram í greinargerð til kærunefndar að umönnunarsjónarmiðum sé ekki til að dreifa í málinu. Benda gögn málsins ekki til annars en að kærandi sé heilsuhraust, vel menntuð og vinnufær og geti því séð sér farboða í heimaríki.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat kærunefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 78. gr. laga um útlendinga, sbr. 20. gr. reglugerðar um útlendinga, til útgáfu dvalarleyfis. Þá hefur kærunefnd komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun í málinu og gerir ekki athugasemd við málsmeðferð stofnunarinnar.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira