Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 134/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 134/2020

Fimmtudaginn 18. júní 2020

A

gegn

Mosfellsbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. mars 2020, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Mosfellsbæjar, dags. 18. desember 2019, á umsókn kæranda um liðveislu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi var með samþykkta 40 tíma í liðveislu á tímabilinu 1. janúar til 31. desember 2019. Með erindi fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar, dags. 18. desember 2019, var umsókn kæranda um áframhaldandi liðveislu synjað.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 16. mars 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. apríl 2020, var óskað eftir greinargerð Mosfellsbæjar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst úrskurðarnefndinni 27. apríl 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. apríl 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að í ljósi synjunar fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar óski kærandi eftir að úrskurðarnefnd endurskoði ákvörðunina. Kærandi hafi fengið væga heilablæðingu X og verið sendur til C í aðgerð. Aðgerðin hafi ekki gengið vel og dagana á eftir hafi orðið súrefnisskortur í æðum í heila. Í dag sé kærandi með algjört málstol, lamaður að öðru leyti, en hann geti svarað já og nei með augnblikki. Þá sé ósjálfráða kerfið hans virkt eins og til dæmis geisp, hlátur og svo framvegis.

Kærandi hafi dvalið á sjúkrahúsi þar til hann hafi flutt á D í ágúst 2019 en þá hafi hann verið með leyfi fyrir liðveislu í rúmt ár. Uppsögn á liðveislunni hafi verið mjög skyndileg og tekið gildi 1. september 2019 en liðveislan hafi síðan fengist framlengd til 31. desember sama ár. Í framhaldi af uppsögninni hafi verið send inn beiðni og óskað eftir að mál kæranda yrði tekið fyrir hjá fjölskyldunefnd vegna þess hve mikil líkamleg fötlun hans sé en hann sé mjög vel áttaður og meðvitaður um ástand sitt. Þar af leiðandi hafi hann mikla þörf fyrir venjulega örvun og félagsskap, meiri heldur en ef hann væri með mikla andlega þroskaskerðingu.

Kærandi sé fráskilinn og eigi X ára gamlan son og mikilvægt sé að reynt verði að gera drengnum hans þessa lífsreynslu eins bærilega og unnt sé. Þeir feðgar hafi alltaf verið mjög samrýmdir og mikið saman fyrir veikindi kæranda. Drengurinn stundi íþróttir og óski eftir að kærandi mæti ef aðstæður og úthald leyfi sem veiti þeim báðum mikla ánægju í annars flóknum samskiptum og aðstæðum. Kærandi þurfi áfram að fá að taka þátt í einhverju félagslífi.

Þegar kærandi þurfi að fara á bráðamóttöku eða á spítala vegna veikinda, sem gerist ósjaldan í hans stöðu, þurfi hann alltaf manninn með sér nánast allan sólarhringinn. Einhvern sem þekki hans þarfir, túlki fyrir heilbrigðisstarfsmenn og umönnunaraðila og dingli á bjöllu. Þá þurfi hann aðstoð við alla afþreyingu.

Kærandi vísar til þess að starfsmenn sambýla, í þessu tilfelli starfsmenn D, eigi að sjá um að veita alla þessa „aukaþjónustu“. Á D búi X einstaklingar sem allir þurfi mikla aðstoð og sé umframgeta til annars en að sinna daglegum störfum ekki mikil. D sé ekki nægilega vel mannað til að hægt sé að vera með starfsmann úr húsi nema í undantekningartilfellum sem sé stundum gert, en þá í þágu sem flestra íbúanna einu.

Móðir kæranda hafi alfarið helgað sig veikindum hans og umsjón frá upphafi hans veikinda eða í nær þrjú ár. Systir kæranda sé einnig dugleg að hjálpa til við að sinna kæranda en faðir hans, sem hafi hjálpað mikið í upphafi, sé nú í vinnu erlendis.

Kærandi falli undir lög um málefni fatlaðs fólks og ætti því að vera í þjónustu sveitarfélagsins. Hann fái í dag engar greiðslur né þjónustu frá Mosfellsbæ aðra en ferðaþjónustu sem hann nýti að mjög takmörkuðu leyti.

Kærandi hafi verið með yndislega stúlku í liðveislu sem sé menntaður sjúkraliði og félagsliði og sé með einstaka tengingu við kæranda. Hún sé enn að hitta kæranda en á kostnað fjölskyldu hans núna og óski eftir að halda áfram hjá honum sem sé bæði kæranda og fjölskyldu hans ómetanlega dýrmætt. Með hliðsjón af þessu óski kærandi eftir að mál hans verði skoðað á eins mannlegan hátt og lög leyfi.

III.  Sjónarmið Mosfellsbæjar

Í greinargerð Mosfellsbæjar kemur fram að umsókn um liðveislu fyrir kæranda hafi fyrst borist með símtali móður kæranda og persónulegs talsmanns hans 30. maí 2018. Kærandi hafi fengið samþykkt örorkumat frá 1. mars 2018 eftir veikindi sem hafi orðið þess valdandi að hann glími í dag við alvarlegar skerðingar, bæði líkamlegar og andlegar. Þar sem kærandi þarfnist mjög mikillar umönnunar og aðstoðar í öllu sínu daglega lífi hafi strax verið ljóst að búsetuúrræði fyrir hann þyrfti að vera sértækt og að bið gæti orðið á því að hann fengi viðeigandi búsetu. Vegna þessa hafi honum verið heimiluð tímabundin liðveisla frá fjölskyldusviði Mosfellsbæjar. Í greinargerð, dags. 31. maí 2018, vegna umsóknar hans um liðveislu, sem hafi verið lögð fram á trúnaðarmálafundi fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar, segi meðal annars:

„Ljóst er að A mun þurfa mikla sérhæfða aðstoð í komandi framtíð og er nú verið að vinna að úrlausn vegna búsetumála hans hjá Mosfellsbæ þar sem foreldrar hans hafa neitað dvöl á hjúkrunarheimili. Liðveisla er ætluð til að rjúfa félagslega einangrun A á meðan á dvöl hans stendur á Grensásdeildinni sem og til þess að létta álagi af foreldrum hans og nánustu ættingjum varðandi yfirsetu á daginn“

Kærandi hafi fengið samþykktar 20 stundir í liðveislu á mánuði á trúnaðarmálafundi 31. maí 2018 og samþykktin gilt frá 1. mars 2018 þegar hann hafi fengið samþykkt örorkumat til 31. desember 2019.

Í byrjun árs 2019 hafi verið óskað eftir aukningu á liðveislutímum þar sem kærandi hafi enn dvalið á endurhæfingardeild Grensáss og hafi fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar samþykkt 40 stundir á mánuði, eða 20 stundir umfram þann tímafjölda sem almennar reglur Mosfellsbæjar heimili. Við þá samþykkt, sem hafi gilt tímabilið 1. febrúar 2019 til 31. desember 2019, segi í greinargerð til stuðnings umsókninni, dags. 14. febrúar 2019:

„Í Mosfellsbæ hefur verið unnið að því undanfarið ár að finan viðeigandi búsetuúrræði fyrir hann en ljóst er að A mun þurfa mikla sérhæfða aðstoð í komandi framtíð. Á meðan A bíður lausn sinna mála er mjög mikilvægt fyrir hann að fá örvun og félagsskap sem hann getur nýtt með liðveislu“

Í greinargerð vegna riftunar á samningi um liðveislu, sem lögð hafi verið fram á túnaðarmálafundi fjölskyldusviðs 19. júní 2019, komi fram að samkvæmt samtali við forstöðuþroskaþjálfa á heimilinu D hafi kæranda verið boðin búseta þar og áætlað að hann myndi flytja þangað 13. júní 2019. Í greinargerðinni komi fram að móðir kæranda hafi með símtali óskað eftir að kærandi fengi enn að vera á búsetulista hjá Mosfellsbæ, auk þess að halda þeim 40 tímum í liðveislu sem hefðu verið samþykktir 1. febrúar 2019 til 31. desember 2019. Í símtalinu hafi móðir kæranda verið upplýst um að liðveislutímar hans myndu falla niður þar sem í reglum Mosfellsbæjar sé veitt liðveisla til þeirra sem búi utan stofnana eða sérstakrar búsetu, sbr. 2. gr. reglna Mosfellsbæjar um liðveislu. Þar sem kærandi hafi fengið það sértæka búsetuúrræði sem hafi verið beðið eftir hafi verið lögð fyrir fjölskyldunefnd tillaga, dags. 19. júní 2019, um að rifta fyrrgreindum samningi um liðveislu þar sem liðveislutímum hans hafi verið ætlað að koma tímabundið til móts við þarfir kæranda á meðan beðið væri eftir varanlegri lausn fyrir hann sem væri nú fengin.

Móðir kæranda kveðist aldrei hafa fengið bréf þess efnis að liðveislusamningi hefði verið rift né verið upplýst um það á annan hátt. Því hafi verið samþykkt að kærandi fengi að njóta vafans og heimild veitt til áframhaldandi nýtingar liðveislutíma til 31. desember 2019, með það að markmiði að styðja við aðlögun hans í nýju búsetuúrræði.

Umsókn um endurnýjun á liðveislu hafi borist 14. nóvember 2019 og verið synjað af fjölskyldunefnd þann 17. desember 2019 á þeim forsendum að kærandi sé búsettur á sambýlinu D sem sé sérsniðið að fólki sem hafi fatlast af völdum slysa eða sjúkdóma. Starfsemi heimilisins sé sniðin að þörfum fólksins sem þar búi, en samkvæmt markmiðum þess sé vinnuhæfing og félagslegur þáttur mikilvægur hluti starfseminnar og öll umönnun heimilisfólks einstaklingshæfð. Þá komi fram að í þeim tilvikum sem heimilað hafi verið að veita liðveislu inni á sjúkrastofnun hafi verið um að ræða ungt fólk sem dveldi á hjúkrunarheimilum þar sem þjónustan sé sérsniðin að þörfum aldraðra en ekki yngra fólks.

Í 26. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 segi um skyldur sveitarfélaga vegna stuðningsþjónustu:

Sveitarfélagi er skylt að sjá um stuðningsþjónustu til handa þeim sem búa á eigin heimilum og þurfa aðstoð vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda eða fötlunar. Stuðningsþjónustu skal veita svæðisbundið með þeim hætti sem best hentar á hverjum stað. Aðstoð skal veitt fjölskyldum barna sem metin eru í þörf fyrir stuðning. Aðstoð skal veitt innan og utan heimilis samkvæmt reglum sem sveitarfélagið setur.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er sveitarfélagi ekki skylt að veita stuðningsþjónustu á stofnunum, svo sem sjúkrahúsi og öldrunarstofnun. Samvinna skal þó alltaf höfð við viðkomandi stofnun, sbr. 62. gr.“

Heimilið D sé rekið sem deild út frá E. Samkvæmt skilgreiningu, sem finna megi á heimasíðu E um starfsemi heimilisins D, segi að vinnuhæfing og félagslegur þáttur skipti miklu máli í markmiðum heimilisins og því sé öll umönnun heimilisfólks einstaklingshæfð.

Til samræmis við 26. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, reglur Mosfellsbæjar um liðveislu frá 1. nóvember 2017 sem og markmið þjónustunnar að D, sé það afstaða Mosfellsbæjar að ekki sé heimilt að veita liðveislu inn í slíka starfsemi, enda sé þjónustu heimilisins ætlað að taka meðal annars mið af félagslegum þörfum þeirra íbúa sem þar búi.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Mosfellsbæjar á umsókn kæranda um liðveislu. Umsókninni var synjað á þeirri forsendu að kærandi sé búsettur á sambýli. Starfsemi heimilisins sé sniðin að þörfum fólksins sem þar býr, en samkvæmt markmiðum þess sé vinnuhæfing og félaglegur þáttur mikilvægur hluti starfseminnar og öll umönnum heimilisfólks einstaklingshæfð.

Í VII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er fjallað um stuðningsþjónustu. Markmið stuðningsþjónustu er að aðstoða og hæfa notendur sem þurfa aðstæðna sinna vegna á stuðningi að halda við athafnir daglegs lífs og/eða til þess að rjúfa félagslega einangrun. Stuðningsþjónusta skal stefna að því að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsi, sbr. 25. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er sveitarfélagi skylt að sjá um stuðningsþjónustu til handa þeim sem búa á eigin heimilum og þurfa aðstoð vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda eða fötlunar. Stuðningsþjónustu skal veita svæðisbundið með þeim hætti sem best hentar á hverjum stað. Aðstoð skal veitt fjölskyldum barna sem metin eru í þörf fyrir stuðning. Aðstoð skal veitt innan og utan heimilis samkvæmt reglum sem sveitarfélagið setur.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laganna er sveitarfélagi ekki skylt að veita stuðningsþjónustu á stofnunum, svo sem á sjúkrahúsi og öldrunarstofnun. Samvinna skuli þó alltaf höfð við viðkomandi stofnun, sbr. 62. gr. laganna. Í athugasemdum við 26. gr. í frumvarpi til laga nr. 37/2018 um breytingu á lögum nr. 40/1991 kemur fram að ekki sé skylt að veita þjónustu á öðrum stofnunum en sveitarfélagi sé þó alltaf heimilt að gera slíkt, til dæmis að veita stuðningsþjónustu fyrir einstakling sem vistast á slíkri stofnun til að rjúfa félagslega einangrun og fara úr slíkri stofnun og sinna tómstundun. Slíkt yrði þó alltaf að gera í samvinnu við þjónustuveitanda þar sem viðkomandi býr eða vistast.

Í 3. mgr. 26. gr. laganna kemur fram að ráðherra skuli gefa út leiðbeiningar um framkvæmd stuðningsþjónustu, tímafjölda og mat á þörf fyrir þjónustu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Þá segir að sveitarstjórn skuli setja nánari reglur um stuðningsþjónustu á grundvelli leiðbeininga ráðherra. Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti. Mosfellsbær hefur útfært nánar framkvæmd stuðningsþjónustu með reglum um liðveislu sem samþykktar voru í bæjarstjórn 1. nóvember 2017.

Í 2. gr. reglna Mosfellsbæjar um liðveislu er kveðið á um rétt til liðveislu. Þar segir í 1. mgr. ákvæðisins að heimilt sé að veita fötluðu fólki liðveislu sé það búsett utan stofnana eða sértækrar búsetu. Líkt og áður greinir er kærandi búsettur á sambýli og því var umsókn hans um liðveislu synjað.

Þegar metið er hvort sú þjónusta sem deilt er um í málinu uppfylli kröfur laga um félagsþjónustu sveitarfélaga verður að líta til þess að af hálfu Mosfellsbæjar hafa verið settar reglur um fyrirkomulag þeirrar þjónustu sem í boði er. Tekið skal fram að það er ekki á valdsviði úrskurðarnefndar velferðarmála að taka ákvarðanir um þjónustuþörf einstaklinga heldur fjallar nefndin meðal annars um málsmeðferð samkvæmt XVI. kafla laga nr. 40/1991, rétt til aðstoðar, sbr. IV. kafla, og hvort samþykkt þjónusta sé í samræmi við reglur viðkomandi sveitarstjórnar, sbr. 64. gr. laganna. Reglur Mosfellsbæjar gera ráð fyrir að liðveisla sé eingöngu veitt fötluðu fólki sem búsett er utan stofnana eða sértækrar búsetu. Þar sem kærandi uppfyllir ekki það skilyrði reglnanna er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta verði hina kærðu ákvörðun.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Mosfellsbæjar á umsókn A um liðveislu er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira