Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir heilbrigðisráðuneytis

Úrskurður nr. 2/2024

Úrskurður nr. 2/2024

Þriðjudaginn 16. janúar 2024 var kveðinn upp í heilbrigðisráðuneytinu svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

Þann 14. júlí 2023 bárust ráðuneytinu gögn frá […] (hér eftir kærandi), kt. […], vegna afgreiðslu embættis landlæknis á kvörtun sem hann lagði fram á grundvelli 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu. Kærandi upplýsti ráðuneytið síðar að hann hygðist kæra málsmeðferð embættisins til ráðuneytisins.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að málsmeðferð embættis landlæknis verði ómerkt.

Málið er kært á grundvelli 6. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu og barst kæra fyrir lok kærufrests.

I. Málavextir og málsmeðferð ráðuneytisins.

Kærandi kvartaði til embættis landlæknis þann 29. nóvember 2022 vegna augasteinsaðgerðar sem framkvæmd var árið 2016. Byggir kærandi á því að aðgerðin hafi skemmt augnbotn í vinstra auga. Embætti landlæknis taldi ekki tilefni til að taka málið til meðferðar skv. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu og lauk málinu með bréfi til kæranda þann 26. júní 2023.

Ráðuneytinu bárust gögn frá embætti landlæknis 28. september 2023. Ráðuneytið óskaði eftir skýringum frá embætti landlæknis sem bárust 4. desember sl. Kærandi mætti á fund í ráðuneytinu þann 19. desember sl. Lágu þá fyrir allar upplýsingar í málinu og var það tekið til úrskurðar.

II. Málsástæður og lagarök kæranda.

Kærandi hefur lýst því yfir að hann vilji kæra málsmeðferð embættis landlæknis en lagði ekki fram rökstuðning með kærunni.

III. Niðurstaða.

Mál þetta lýtur að kæru kæranda á málsmeðferð embættis landlæknis í kvörtunarmáli. Hvað kæruheimild varðar er það mat ráðuneytisins, að virtum þeim sjónarmiðum sem fram koma í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 11471/2012, frá 23. ágúst 2022, að ákveðin málsmeðferð hafi átt sér stað um kvörtun kæranda á grundvelli 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu. Embætti landlæknis beri þannig að leiðbeina þeim einstaklingum, sem fái sambærilega niðurstöðu, um heimild til að kæra meðferð slíkra mála til ráðuneytisins á grundvelli 6. mgr. 12. gr. sömu laga.

Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu er heimilt að beina formlegri kvörtun til embættisins vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. laganna skal landlæknir að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Þá segir í ákvæðinu að um meðferð kvartana gildi að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við geti átt. Að lokinni málsmeðferð gefi landlæknir skriflegt álit, þar sem embættið skuli tilgreina efni kvörtunarinnar, málsatvik og rök fyrir niðurstöðu. Í 6. mgr. 12. gr. laganna er kveðið á um að heimilt sé að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæðinu til ráðherra.

Samkvæmt gögnum málsins varðar efni kvörtunar aðallega meint mistök við augasteinsaðgerð á vinstra auga. Kærandi gerir einnig athugasemdir við skráningu dagsetningar á aðgerð á vinstra auga, en hann kveður aðgerðir á báðum augum hafa verið gerðar á sama tíma í mars 2016. Kemur fram í gögnum málsins að kærandi telji skráningu á aðgerð þann 4. maí 2016 hafa verið búna til af Landspítala.

Meðal gagna málsins er t.a.m. tölvupóstur frá [A] lækni, dags. 21. júní sl., þar sem tímalína aðgerðanna er rakin. Kemur þar fram að 22. mars 2016 hafi forskoðun fyrir aðgerðirnar verið gerð af hjúkrunarfræðingi í samræmi við vinnulag deildar og þar undirritað samþykki fyrir aðgerð. Í tilfelli kæranda hafi verið skrifað undir „augasteinsaðgerð“ en ekki tilgreint hvort um annað eða bæði augu hafi verið að ræða. Aðgerð á hægra auga hafi verið framkvæmd 30. mars 2016 en í eftirskoðun vegna aðgerðarinnar, þann 5. apríl, hafi verið getið um ský á augasteini vinstra auga. Þann 4. maí 2016 hafi aðgerð verið framkvæmd á vinstra auga. Segir í tölvupóstinum að samþykki frá 22. mars 2016 hafi verið látið gilda fyrir báðar aðgerðirnar en betur hefði farið á að undirrita samþykki fyrir hvora aðgerðina fyrir sig. Þá segir að útilokað sé að aðgerð hafi verið gerð á báðum augum [kæranda] þann 30. mars 2016 miðað við fyrirliggjandi gögn frá skurðlækni, skurðhjúkrunarfræðingum og deildarlækni.

Ráðuneytið óskaði ráðuneytið eftir skýringum frá embætti landlæknis um meintan skort á samþykki fyrir aðgerð. Í svörum embættisins kemur fram að óheppilegt sé að ekki hafi legið fyrir upplýst samþykki fyrir hvorri aðgerð fyrir sig. Það hafi hins vegar ekki haft áhrif þar sem kvörtunin hafi varðað læknisfræðileg atriði. Á fundi kæranda í ráðuneytinu þann 19. desember sl. kvaðst kærandi hafa veitt samþykki fyrir aðgerðum á báðum augum og að hann gerði ekki athugasemdir við að aðgerð hefði verið framkvæmd á vinstra auga. Hann gerði hins vegar athugasemdir við að aðgerðin á vinstra auga væri skrá í maí en ekki mars 2016.

Gögn málsins gefa ekki annað til kynna en að aðgerðirnar hafi verið framkvæmdar annars vegar mars 2016 og hins vegar í maí sama ár. Er kæranda hins vegar bent á að samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 55/2009, um sjúkraskrár, getur hann óskað eftir því að athugasemd verði skráð í sjúkraskrá ef hann telur að upplýsingar þar séu rangar eða villandi. Sé sýnt fram á að upplýsingar í sjúkraskrá séu bersýnilega rangar eða villandi er heimild með samþykki umsjónaraðila að leiðrétta þær í sjúkraskrá. Neiti umsjónaraðili að leiðrétta sjúkraskrárupplýsingar sem sjúklingur telur bersýnilega villandi getur sjúklingur skotið þeirri synjun til embættis landlæknis. Verður slíkri ákvörðun ekki skotið til ráðuneytisins, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga um réttindi sjúklinga.

Samkvæmt framangreindu brestur ráðuneytinu heimild að lögum til að taka ákvarðanir er varða upplýsingar í sjúkraskrár. Hvað varðar sjálft samþykki fyrir aðgerð á vinstra auga liggur fyrir að Landspítalinn telji að betur hefði mátt standa að samþykki. Þar sem kærandi gerir ekki sérstakar athugasemdir að þessu leyti telur ráðuneytið að embættinu hafi ekki borið að taka þennan þátt málsins til frekari athugunar á grundvelli 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.

Kemur þá til skoðunar hvort embætti landlæknis hafi borið að taka kvörtun kæranda til formlegrar meðferðar skv. síðastnefndu ákvæði.

Með vísan til eftirlitshlutverks embættis landlæknis með heilbrigðisþjónustunni og þeim markmiðum sem að er stefnt með í því sambandi, einkum að viðhalda gæðum þjónustunnar, telur ráðuneytið að þegar ekkert í kvörtun eða þeim gögnum sem embættið aflar við meðferð hennar bendi til þess að hún varði meint mistök eða vanrækslu við veitingu heilbrigðisþjónustu sé embættinu heimilt að ljúka máli án útgáfu álits. Við þær aðstæður standi engin rök til þess að láta kvörtun sæta efnislegri meðferð, með öflun umsagnar óháðs sérfræðings og þeim málsmeðferðartíma sem slíkt hefur í för með sér, og útgáfu formlegs álits um það hvort mistök eða vanræksla hafi átt sér stað. Að þessu sögðu telur ráðuneytið að kvörtunarmáli verði aðeins lokið með þessum hætti í undantekningartilvikum þegar bersýnilegt er af þeim gögnum sem liggja fyrir í máli að engin mistök eða vanræksla hafi átt sér stað við veitingu heilbrigðisþjónustu. Telur ráðuneytið að mat á meintum mistökum eða vanrækslu geti ekki verið eingöngu á forræði þess sjúklings sem leggur fram kvörtun heldur verið kvörtun að gefa með einhverju móti til kynna, á því sviði heilbrigðisþjónustu sem um ræðir, að hún varði meint mistök eða vanrækslu við veitingu þeirrar þjónustu til að falla undir gildissvið 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.

Í 3. mgr. 12. gr. laganna er mælt fyrir um að kvörtun skuli vera skrifleg og að þar skuli skýrt koma fram hvert tilefni hennar sé. Ber kvörtun kæranda með sér að kvartað sé undan augnsteinsaðgerð á vinstra auga. Er rökstuðningur fyrir kvörtun aðeins „skemmdur augnbotn á v. auga“. Embætti landlæknis aflaði í framhaldinu gagna [B] og [A] læknum. Í bréfi hins fyrrnefnda, sem ber með sér að hafa haft kæranda til meðferðar, segir að ekki séu ummerki um að augnbotn hafi skemmst við aðgerðina, en sjónin hafi verið mjög góð einum mánuði og sjö mánuðum eftir aðgerðina. Í bréfi [A], yfirlæknis á augndeild Landspítala, segir að aðgerðin hafi gengið áfallalaust fyrir sig og sjón góð að henni lokinni. Um þremur og hálfu ári síðar verði versnun á fyrirliggjandi augnbotnahrörnun, sem sé þróun sem hægt sé að búast við. Vísar [A] einnig til fræðigreinar þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að augnsteinsaðgerð auki ekki áhættu á versnun augnbotnahrörnunar. Að mati [A] hafi mistök ekki átt sér stað við framkvæmd aðgerðarinnar og að hún hafi ekki valdið skaða á augnbotni vinstra auga.

Ljóst er að rökstuðningur kæranda fyrir því að meint mistök eða vanræksla hafi átt sér stað við aðgerðina var af skornum skammti og aðeins vísað til skemmda á augnbotni. Þá hefur enginn rökstuðningur borist á kærustigi. Eftir gagnaöflun embættisins og mat tveggja lækna lá ekkert fyrir í málinu sem renndi stoðum undir mistök eða vanrækslu við umrædda aðgerð. Bentu gögnin á hinn bóginn til þess að engin ummerki hafi verið um skemmdir á augnbotni og að versnun á augnbotnahrörnun nokkrum árum síðar sé þróun sem hægt sé að búast við. Telur ráðuneytið, þegar gögn málsins eru virt í heild, að ekkert í málinu hafi bent til þess að mistök eða vanræksla hafi átt sér stað.

Með vísan til alls framangreinds telur ráðuneytið að embætti landlæknis þannig verið heimilt að ljúka málinu með fyrrgreindu bréfi til kæranda án þess að taka kvörtunina til frekari meðferðar á grundvelli 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Verður málsmeðferð embættisins í málinu því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Málsmeðferð embættis landlæknis í máli kæranda er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum