Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 299/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 299/2022

Miðvikudaginn 7. september 2022

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 8. júní 2022, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 1. júní 2022, um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi varð fyrir slysi á leið úr vinnu X. Tilkynning um slys, dags. 26. september 2019, var send til Sjúkratrygginga Íslands sem samþykktu bótaskyldu. Með ákvörðun, dags. 1. júní 2022, var kæranda tilkynnt að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins hefði verið metin 10%.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. júní 2022. Með bréfi, dags. 9. júní 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 16. júní 2022, og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. júlí 2022. Athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda með bréfi, dags. 27. júlí 2022, og voru þær sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. ágúst 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar endurskoðunar á hinni kærðu ákvörðun og að viðurkennt verði að örorka hennar sé hærri en þar komi fram og að hún verði hið minnsta 15%.

Í kæru er greint frá því að samkvæmt ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 1. júní 2022, sé komist að þeirri niðurstöðu að varanleg læknisfræðileg örorka kæranda þyki hæfilega metin 10%. Í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands sé vísað til miskataflna örorkunefndar, liðar I.A.1. vegna örs, 2%, liðar VII.A.c.1., 3%, vegna miðhandarbrots og liðar VI.A.a.2., 5%, vegna hálstognunar.

Fyrir liggi ítarleg örorkumatsgerð C læknis, dags. 19. febrúar 2021, vegna slyssins sem aflað hafi verið samkvæmt skilmálum slysatrygginga starfsmanna D á grundvelli gr. 8.1. í kjarasamningi […]. Matsmaður hafi þar komist að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski (læknisfræðileg örorka) kæranda þætti hæfilega ákveðinn 15 stig.

Í kaflanum „Núverandi kvartanir“ í matsgerð C, dags. 19. febrúar 2021, komi fram að þau einkenni sem kærandi eigi við að stríða og hún reki til slyssins tengist öri á enni ofan við vinstra auga, verkjum í hálsi og höfuðverkjum, einnig verk í kjálka og einkennum frá hægri hendi. C hafi hitt kærandi á sérstökum matsfundi og framkvæmt læknisskoðun á henni. Um læknisskoðunina komi eftirfarandi fram:

„Við skoðun á háls er hún stirð, tvær fingurbreiddir vantar á að haka nemi við bringu í frambeygju, reigja er lítið eitt skert. Snúningur er 40° til hvorrar hliðar, hallahreyfing 10° til hægri og 20° til vinstri. Það tekur í með óþægindum aftan í hálsi í lok hreyfiferla, einkum vinstra megin.

Ofan við vinstra auga er 4 cm vel gróið ör með vægum eymslum um kring. Lítt áberandi ör er yfir nefrótum. Skyn í andliti er innan eðlilegra marka.

Við þreyfingu koma fram eymsli í hnakkavöðvafestum og langvöðvum háls einkum vinstra megin og eymsli eru yfir kjálkalið og tyggingarvöðvum vinstra megin. Hún gapir eðlilega. Lausir gómar eru í munnholi og skoðun munnhols að öðru leyti eðlileg.

Hreyfigeta í öxlum er innan eðlilegra marka varðandi frá- og aðfærslu, fram- og afturfærslu og snúningshreyfingar. Hendur eru samhverfar að sjá, hreyfigeta í úlnliðum og fingrum eðlileg. Skyn og kraftar í höndum eru sambærileg en eymsli eru yfir miðhandarbeinum IV og V á hægri hendi.“

Í kafla matsgerðarinnar „Svör við spurningum matsbeiðninnar“ komi fram að við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku sé horft til taflna örorkunefndar um miskastig þar eð ekki sé að finna viðeigandi tilvísanir í reglum 1/90. Því næst taki C meðal annars eftirfarandi fram:

„Metin eru 2% vegna lítt áberandi örs í andliti með vísan til liðs I.A í töflu örorkunefndar. Vegna tognunaráverka á háls með einkennum í hálsi og hægri kjálka auk annarra einkenna frá höfði eru metin 8% með vísan til liðs VI.A.a. Vegna áverka á hægri hendi eru metin 5% með vísan til VII.A.c. varðandi daglegan áreynsluverk, þó ekki sé um hreyfiskerðingu að ræða. Í heild er varanleg læknisfræðileg örorka metin 15% ...“

Kærandi bendi á að ólíkt matsgerð C sé í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands ekki að finna neinn rökstuðning fyrir því hvernig stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að varanleg læknisfræðileg örorka hennar vegna slyssins teljist hæfilega ákveðin 10%. Í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands sé einungis eftirfarandi tekið fram:

„SÍ hefur borist matsgerð C læknis, dags. 19.2.2021 vegna slyssins. Tryggingayfirlæknir SÍ hefur yfirfarið matsgerðina. Er það niðurstaða stofnunarinnar að vísa skuli til miskataflna Örorkunefndar, I.A.1 vegna örs 2%, VII.A.c.1 3% vegna miðhandarbrots og VI.A.2. 5% vegna hálstognunar. Byggja SÍ því ákvörðun sína um læknisfræðilega örorku skv. 12. gr. laga nr. 45/2015 vegna slyssins á framangreindri niðurstöðu.

Með vísan til framangreinds er það mat SÍ að varanleg læknisfræðilega örorka vegna slyssins teljist hæfilega ákveðin 10%.“

Kærandi telji niðurstöðu C fyrir metinni læknisfræðilegri örorku betur rökstudda þegar litið sé til þeirra afleiðinga sem hún sé sannarlega að kljást við eftir slysið, enda hafi C hitt hana á sérstökum matsfundi. Ein af grundvallarskyldum matsmanna sé sú að hitta tjónþola og framkvæma sjálfstæða læknisskoðun vegna þeirra áverka sem til skoðunar séu hjá viðkomandi, ekki sé einungis nóg að líta til þeirra skriflegu gagna sem í málinu liggi. Þá vilji kærandi benda á að í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands sé einungis vísað til matsgerðar C um þau gögn sem Sjúkratryggingar Íslands hafi byggt ákvörðun sína á.

Kærandi telji með vísan til framanritaðs að ekki verði hjá því komist að taka undir niðurstöðu C um 15% læknisfræðilega örorku hennar og að Sjúkratryggingum Íslands beri því að greiða henni örorkubætur samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga nr. 45/2015 í samræmi við það.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Sjúkratrygginga Íslands er tekið fram að stofnunin vísi til þess að samkvæmt gögnum málsins sé kærandi með þekktar slitbreytingar í kjálkaliðum en fyrir slysið hafi kærandi ekki verið að glíma við einkenni frá kjálka líkt og hún geri í kjölfar slyssins. Þannig komi til að mynda eftirfarandi fram í læknisvottorði  E, dags. 12. janúar 2021:

„A kom á stofu til mín þann X. Við ræddum afleiðingar slyssins þann X. A lýsir verkjum í kjálkasvæði vinstra megin. Hafi þessi einkenni verið að gera vart við sig síðustu all marga mánuði, hún kannast ekki við að hafa haft þessi einkenni fyrir slysið sem um ræðir. Verkir í kjálka hafa versnað mikið síðastliðið ár. A leitaði til tannlæknis síns sem reyndi að laga þetta með sprautumeðferð í vinstri kjálkalið. Sú meðferð bar ekki árangur. A vísað áfram til kjálkasérfræðings, F. Niðurstaða kjálkasérfræðingsins er að um sé að ræða slit í kjálkalið. Virðist sem áverki sá er A varð fyrir í slysinu þann X kunni að hafa sett í gang verkjaferli í slitnum kjálkaliðnum. Einkenni í kjálka koma upp fljótlega eftir að A lenti í slysinu ... Aldrei kvartanir af þessu tagi fyrir slysið.“

Einnig vísi Sjúkratryggingar Íslands til þess að tveimur mánuðum eftir slys hafi eymsli kæranda í hálsi og hnakka verið það útbreidd að öðrum skýringum hafi verið velt upp eins og vefjagigt. Það sé vissulega rétt að öðrum skýringum hafi verið velt upp, en kærandi vilji benda á það sem fram komi í læknisvottorði E:

„Í skoðun á stofu hjá mér þann X er A enn aum yfir hálsi og hnakka og hefur nú talsvert af dreifðum verkjum yfir baki víða. Við skoðun kemur fram að A er talsvert aum yfir mörgum svæðum sem nefnd eru klassískir triggerpunktar fyrir fibromyalgiu. Kemur í hugann að hún kunni að vera koma sér upp vefjagift, vefjagigtarlík einkenni sem getur gerst í kjölfar slæms tognunaráverka ...“.

Þá vísi Sjúkratryggingar Íslands einnig til þess að eftir það hafi kærandi ekki lýst viðvarandi einkennum heldur hafi hún nefnt stundum höfuðverk sem hún hafi þó gert lítið úr. Í því sambandi vilji kærandi benda á að í læknisvottorði E, sem hafi verið heimilislæknir hennar í yfir þrjá áratugi, komi fram að kærandi beri sig vel eins og hún jafnan geri, enda sé „konan hörð af sér.“ Þá taki E einnig fram að hann meti örorku hennar vegna slyssins umtalsverða og „ekki minnst þegar haft er í huga að A er afar seint til að kvarta þótt á bjárti, hörð af sér ...“.

Að framangreindu sögðu telji kærandi niðurstöðu C um læknisfræðilega örorku hennar vegna tognunaráverka á háls með einkennum í hálsi og hægri kjálka, auk annarra einkenna frá höfði til 8 stiga miska með vísan til liðar VI.A.a., rétta.

Að lokum telji kærandi niðurstöðu C um varanlega læknisfræðilega örorku hennar vegna áverka á hægri hendi til 5 stiga með vísan til liðar VII.A.c. rétt metna, en C hafi meðal annars komist að þeirri niðurstöðu með því að framkvæma læknisskoðun á kæranda.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að þann 26. september 2019 hafi Sjúkratryggingum Íslands borist tilkynning um slys sem hafi átt sér stað þann X. Að gagnaöflun lokinni hafi Sjúkratryggingar Íslands tilkynnt með bréfi, dags. 13. november 2019, að um bótaskylt slys væri að ræða. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 1. júní 2022, hafi stofnunin samþykkt umsókn kæranda. Með ákvörðun, dags. 20. apríl 2022, hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda verið metin 10% vegna umrædds slyss

Í hinni kærðu ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands komi meðal annars fram að stofnuninni hafi borist matsgerð C læknis, dags. 19. febrúar 2021, vegna slyssins. Tryggingalæknir Sjúkratrygginga Íslands hafi yfirfarið matsgerðina og það sé niðurstaða stofnunarinnar að vísa skuli til miskataflna örorkunefndar, liðar I.A.1. vegna örs, 2%, liðar VII.A.c.1., 3%, vegna miðhandarbrots og liðar VI.A.a.2., 5%, vegna hálstognunar. Byggi Sjúkratryggingar Íslands því ákvörðun sína um læknisfræðilega örorku samkvæmt 12. gr. laga nr. 45/2015 vegna slyssins á framangreindri niðurstöðu. Með vísan til framangreinds sé það mat Sjúkratrygginga Íslands að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins teljist hæfilega ákveðin 10%.

Kærandi óski endurskoðunar á hinni kærðu ákvörðun, þ.e. að viðurkennt verði að örorka hennar sé hærri en þar komi fram og að hún nemi hið minnsta 15%. Með kæru hafi borist ný gögn, þ.e. beiðni um sjúkraþjálfun, dags. 30. september 2019, og læknisvottorð, dags. 12. janúar 2021. Sjúkratryggingar Íslands telji að gögnin breyti ekki niðurstöðu stofnunarinnar í málinu.

Þá segir að í málinu liggi fyrir matsgerð C læknis, dags. 19. febrúar 2021, vegna framangreinds slyss. Þar komi meðal annars fram:

„Við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku er horft til töflu örorkunefndar um miskastig, þar eð ekki er að finna viðeigandi tilvísanir í Reglum 1/90. Metin eru 2% vegna lítt áberandi örs í andliti með vísan til liðs I.A. í töflu örorkunefndar. Vegna tognunaráverka á háls með einkennum í hálsi og hægri kjálka auk annarra einkenna frá höfði eru metin 8% með vísan til liðs VI.A.a. Vegna áverka á hægri hendi eru metin 5% með vísan til liðs VII.A.c. varðandi daglegan áreynsluverk, þó ekki sé hreyfiskerðing að ræða. Í heild er varanleg læknisfræðileg örorka metin 15%.“

Yfirtryggingalæknir Sjúkratrygginga Íslands hafi farið yfir framangreinda matsgerð. Í málinu meti C varanlega læknisfræðilega örorku kæranda vegna tognunaráverka á háls með einkennum í hálsi og hægri kjálka, auk annarra einkenna frá höfði, til 8 stiga miska með vísan til liðar VI.A.a. Samkvæmt gögnum málsins sé kærandi með þekktar slitbreytingar í kjálkaliðum. Þá beri að líta til þess að tveimur mánuðum eftir slys hafi eymsli kæranda í hálsi og hnakka verið það útbreidd að öðrum skýringum hafi verið velt upp eins og vefjagigt. Eftir það hafi kærandi ekki lýst viðvarandi einkennum heldur hafi hún stundum nefnt höfuðverk sem hún hafi þó gert lítið úr samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Að mati Sjúkratrygginga Íslands sé varanleg læknisfræðileg örorka kæranda því réttilega metin 5% með vísan til miskataflna örorkunefndar (2020), liður VI.A.a.2.

Í málinu hafi C metið varanlega læknisfræðilega örorku kæranda vegna áverka á hægri hendi 5% með vísan til liðar VII.A.c. „Daglegur áreynsluverkur með vægri hreyfiskerðingu“. Þar sem ekki sé um hreyfiskerðingu að ræða í tilviki kæranda sé það mat Sjúkratrygginga Íslands að varanleg læknisfræðileg örorka hennar sé rétt metin 3% með vísan til sama liðar í miskatöflum örorkunefndar (2020).

Að lokum taki Sjúkratryggingar Íslands ekki undir þær athugasemdir í kæru að það sé ein af grundvallarskyldum matsmanna að hitta tjónþola og framkvæma sjálfstæða læknisskoðun vegna þeirra áverka sem til skoðunar séu hjá viðkomandi og að ekki sé nóg að líta einungis til þeirra skriflegu gagna sem í málinu liggja. Alkunnugt sé að mat á miska fari gjarnan fram án viðtals og skoðunar tjónþola, liggi fullnægjandi gögn fyrir í málinu. Sjúkratryggingar Íslands telji að fyrirliggjandi gögn í málinu séu þess eðlis að unnt sé að meta varanlega læknisfræðilega örorku kæranda án viðtals og skoðunar.

Með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ágreining um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X. Með ákvörðun, dags. 1. júní 2022, mátu Sjúkratryggingar Íslands varanlega læknisfræðilega örorku kæranda vegna slyssins 10%. Í bráðamótttökuskrá frá X, segir um slysið:

Greiningar

Opið sár á höfði, hluti ótilgreindur, S01.9

Fracture of other metacarpal bone, S62.3

Saga

X ára gömul kona sem var að ganga þegar hún rak tána í og datt, mekanískt fall, ekki svimi eða syncop. Bar fyrir sig hendur en lenti á andliti. Er með skurð á enni, finnur til þar í kring en ekki höfuðverkur, ógleði eða sjóntruflanir. Einnig verkur í hæ. hendi. Er ekki á blóðþynningu.

Skoðun

Höfuð: Ca. 2,5 cm langur skurður vi. megin á enni ofan við augabrún, nær niður í fitulag en ekki vöðvalag. Svolítið óreglulegar brúnir. Eymsli við þreifingu í kringum skurðinn. Einnig ca. 8 mm langur skurður yfir nefbeini og grunnur skurður á nefbroddi, liggja báðir vel. Hrufl ofan við efri vör. Ekki eymsli annars staðar yfir andlitsbeinum eða höfði, tennur eru fastar og getur opnað munn á vandkvæða.

Útlimir: Bólga og eymsli við þreifingu yfir MC5 á hæ. hendi, ekki verkur við hreyfingar um úlnlið og MCP5.

Álit og áætlun

Deyfi skurði með xylocain m. adrenalíni. Sár hreinsuð. Sauma 9 spor í skurð á enni með Ethilon 6-0 og 3 spor í skurð á nefbeini með 6-0. Grunnur skurður á nefbroddi límdur með histoacryl. Obs afrifubrot á basis á MC4 eða 5, ekki mikil einkenni, ekki þörf á spelku skv. Ab. sérfr., fær teygjusokk.“

Í örorkumatsgerð C læknis, dags. 19. febrúar 2022, segir svo um skoðun á kæranda 18. febrúar 2021:

„A kemur mjög vel fyrir og svarar spurningum greiðlega. Aðspurð um verkjasvæði sem rekja megi til slyssins sem hér er til umfjöllunar bendir hún á aftanverðan háls einkum vinstra megin og svæði upp í vinstri kjálka. Þá nefnir hún ör ofan vinstra auga og óþægindi í hægri hendi.

A gengur við tvær hækjur vegna nýlegrar aðgerðar, hún kveðst vera X cm og X kg sem getur vel staðist. Hún er rétthent.

Við skoðun háls er hún stirð, tvær fingurbreiddir vantar á að haka nemi við bringu í frambeygju, reigja er lítið eitt skert. Snúningur er 40° til hvorrar hliðar, hallahreyfing 10° til hægri og 20° til vinstri. Það tekur í með óþægindum aftan í hálsi í lok hreyfiferla, einkum vinstra megin.

Ofan við vinstra auga er 4 cm vel gróið ör með vægum eymslum um kring. Lítt áberandi ör er yfir nefrótum. Skyn í andliti er innan eðlilegra marka.

Við þreifingu koma fram eymsli í hnakkavöðvafestum og langvöðvum háls einkum vinstra megin og eymsli eru yfir kjálkalið og tyggingarvöðvum vinstr megin. Hún gapir eðlilega. Lausir gómar eru í munnholi og skoðun munnhols að öðru leyti eðlileg.

Hreyfigeta í öxlum er innan eðlilegra marka varðandi frá- og aðfærslu, fram- og afturfærslu og snúningshreyfingar. Hendur eru samhverfar að sjá, hreyfigeta í úlnliðum og fingrum eðlileg. Skyn og kraftar í höndum eru sambærileg en eymsli eru yfir miðhandarbeinum IV og V á hægri hendi.“

Í umræðu og niðurstöðu í matsgerðinni segir:

„A hafði að mestu verið heilsuhraust fyrir slysið sem hér er til umfjöllunar. Hún átti þó sögu um aðgerð vegna brjóstakrabbameins og hafði gengist undir liðskiptaaðgerð á vinstra hné.

Slysið X varð með þeim hætti að tjónþoli hnaut um gangstétt, féll fram fyrir sig og hlaut skurð á nef og ofan við vinstri augabrún, jafnframt áverka á hægri hendi. Gert var að áverkum hennar á slysadeild og síðan var hún til eftirlits hjá heimilislækni. Fljótlega eftir slysið gætti óþæginda í háls og höfuðverkjar og með tímanum einnig verkjar frá kjálka. Tjónþoli var til meðferðar hjá sjúkraþjálfara vegna einkenna frá hálsi og hún hefur gengist undir skoðun hjá kjálkasérfræðingi. Á matsfundi kvartar tjónþoli um óþægindi út frá öri á enni, verki í hálsi og vinstri kjálka og um óþægindi í hægri hendi. Hún kveðst þola hávaða illa og eiga erfiðara með einbeitingu en fyrr. Við skoðun gætir stirðleika í hálsi, ör eru ofan vinstri augabrúnar og eymsli eru yfir miðhandarbeinum IV og V hægra megin.

Það er álit undirritaðs að ofangreind einkenni tjónþola sé að rekja til slyssins X. Slysaatburðurinn varð með þeim hætti og tjónþoli skall í jörðina, fékk höfuðhögg og eðli máls samkvæmt hnykk á háls og telst líklegra en ekki að einkenni frá kjálka séu afleidd frá hálsi eins og títt er. Þá er þekkt að hálstognanir líkt og bein höfuðhögg geta valdið almennum einkennum svo sem þreytu, einbeitingarskorti og minnistruflunum.“

Um mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku í matsgerðinni segir svo:

„Við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku er horft til töflu örorkunefndar um miskastig, þar eð ekki er að finna viðeigandi tilvísanir í Reglum 1/90. Metin eru 2% vegna lítt áberandi örs í andliti með vísan til liðs I.A. í töflu örorkunefndar. Vegna tognunaráverka á háls með einkennum í hálsi og hægri kjálka auk annarra einkenna frá höfði eru metin 8% með vísan til liðs VI.A.a. Vegna áverka á hægri hendi eru metin 5% með vísan til liðs VII.A.c. varðandi daglegan áreynsluverk, þó ekki sé um hreyfiskerðingu að ræða. Í heild er varanleg læknisfræðileg örorka metin 15%. Tafla örorkunefndar frá júní kveður á um notkun hlutfallsreglu við útreiknig miska (læknisfræðilegrar örorku). Beiting reglunnar hefur ekki áhrif á niðurstöðuna.“

Ákvörðun slysaörorku samkvæmt þágildandi ákvæðum laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga er eingöngu læknisfræðileg þar sem tilteknir líkamsáverkar eru metnir til ákveðins örorkustigs. Félagslegir þættir, svo sem vinnufærni og áhrif örorku á getu til tekjuöflunar, koma ekki til álita. Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatsskrár/ miskatöflur örorkunefndar frá árinu 2020 og/eða eftir atvikum hliðsjónarrit taflnanna þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka eru metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum, án tillits til starfs eða menntunar tjónþola.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á örorku kæranda og byggir mat sitt á fyrirliggjandi gögnum sem hún telur nægileg. Fyrir liggur að í slysinu þann X fékk kærandi högg á andlit og griplim með þeim afleiðingum að hún fékk ör á andlit og tognunaráverka á háls með allnokkurri hreyfiskerðingu og eymslum. Einnig eru eymsli yfir kjálkalið vinstra megin í kjölfarið. Þá brotnuðu handarbein og situr hún eftir með eymsli yfir IV. og V. miðhandarbeini hægri handar. Ekki er til staðar hreyfiskerðing eða skyntruflun og þó að liðið sé meira en ár frá áverkanum er ekki munur á kröftum.

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin rétt að meta varanlega læknisfræðilega örorku kæranda vegna öra í andliti 2% með vísan til liðar I.A.1. í miskatöflum örorkunefndar.  Vegna tognunaráverka í hálsi með allnokkurri hreyfiskerðingu, eymslum í hægri kjálka og höfði  þykir nefndinni rétt að meta varanlega læknisfræðilega örorku 8% með hliðsjón af lið VI.A.a.2. í miskatöflunum en samkvæmt þeim lið leiðir hálstognun með eymslum og ósamhverfri hreyfiskerðingu til allt að 8% örorku. Vegna eymsla yfir IV. og V. miðhandarbeini horfir úrskurðarnefndin til liðar VII.A.c.1. í miskatöflunum en samkvæmt þeim lið leiðir daglegur áreynsluverkur  með vægri hreyfiskerðingu til 5% örorku. Í ljósi þess að kærandi býr hvorki við hreyfiskerðingu né kraftskerðingu í hægri hendi metur nefndin örorku hennar 3% með hliðsjón af lið VII.A.c.1. Varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vegna slyssins í heild er því metin 13%.

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 10% varanlega læknisfræðilega örorku kæranda er því felld úr gildi. Varanleg læknisfræðileg örorka er ákvörðuð 13%.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 10% varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem A, varð fyrir X, er felld úr gildi og varanleg læknisfræðileg örorka ákvörðuð 13%.

 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira