Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 8/2024. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 17. maí 2024
í máli nr. 8/2024:
Opin Kerfi hf.
gegn
Reykjanesbæ og
Origo hf.

Lykilorð
Örútboð. Tilboðsgögn. Val tilboðs. Jafnræði. Málskostnaður.

Útdráttur
Fallist var á kröfu OK um ógildingu á ákvörðun R um val á tilboði O í örútboði á fartölvum innan rammasamnings Ríkiskaupa um tölvubúnað.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 13. mars 2024 kæra Opin Kerfi hf. örútboð Reykjanesbæjar (hér eftir varnaraðili) á fartölvum fyrir Menntasvið Reykjanesbæjar. Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála lýsi samning varnaraðila og Origo hf. óvirkan. Þá krefst hann þess að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði kæranda og ganga að tilboði Origo hf. Auk þess verði varnaraðila gert að taka tilboði kæranda. Einnig krefst kærandi álits á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart sér og málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess í greinargerð 26. mars 2024 að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Athugasemdir Origo hf. vegna kærunnar bárust 10. apríl sama ár.

Með ákvörðun 17. apríl 2024 féllst nefndin á kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Kærandi lagði fram lokaathugasemdir sínar 17. maí 2024.

I

Í febrúar 2024 óskaði varnaraðili eftir tilboðum í fartölvur með örútboði innan rammasamnings Ríkiskaupa um tölvubúnað. Í kröfulýsingu, sem send var seljendum í rammasamningnum, var almennum tæknilegum kröfum til boðinnar vöru lýst. Var þar meðal annars tiltekið að myndavél hefði IR stuðning með næðislokun og að hún styddi Windows Hello. Loks kom fram að myndvél væri HD myndavél er styddi 720p upplausn eða FHD myndavél er styddi 1080p upplausn. Fyrir þennan lið fengust 5 stig. Í svörum varnaraðila við fyrirspurnum á tilboðstíma er lutu að myndavél kom fram að „tilboð með IR myndvél“ fengi fullt hús stiga og að krafa væri um að „myndavél virki með Windows Hello og hafi IR stuðning“. Í örútboðslýsingunni kom fram að bjóðendur skyldu skila fullnægjandi tæknilýsingu á boðnum búnaði þar sem skýrt kæmi fram hvernig hann uppfyllti skilyrði útboðs. Sagði þar einnig að fylla bæri út tilboðsblað og senda allar upplýsingar um boðna tölvu og að mikilvægt væri að fá ýtarlegar upplýsingar til að geta lagt mat á tölvurnar. Samkvæmt útboðslýsingunni yrði það tilboð sem hlyti hæstu einkunn samkvæmt matsþáttum matslíkans valið og tekið og gerður samningur þar að lútandi.

Tilboð í örútboðið voru opnuð 4. mars 2024 og bárust tilboð frá þremur birgjum. Í tölvupósti 6. sama mánaðar tilkynnti varnaraðili um val á öðru af innsendum tilboðum frá Origo hf. sem fengið hefði hæstu einkunn. Tekið var fram að gengið yrði til samninga við Origo hf. á grundvelli útboðsgagna, viðauka og tilboðs fyrirtækisins að liðnum fimm daga biðtíma. Samkvæmt stigablaði fékk tilboð Origo hf. 49 stig fyrir boðið verð og 50 stig fyrir gæði, samtals 99 stig, en tilboð kæranda 50 stig fyrir verð og 45 stig fyrir gæði eða samtals 95 stig en það var ekki talið uppfylla þá kröfu að myndavél væri með IR stuðningi. Í tölvupósti kæranda til varnaraðila 6. mars 2024 voru gerðar athugasemdir við stigagjöf tilboðsins. Tók kærandi fram að boðnar vörur hefðu IR myndavélar sem styddu Windows Hello og væru með næðisloku. Benti kærandi á að tilvísun til þess að myndavélar í HP fartölvum styddu Windows Hello merkti að þær væru með IR myndavélar og vísaði því til stuðnings til upplýsinga á vef framleiðanda vélarinnar. Þá hefði komið fram í „datasheet“ og „quickspecs“ með tilboðinu að hinar boðnu vélar styddu IR myndavélar. Í svari varnaraðila í tölvupósti degi síðar kom fram að við mat á tilboðum hafi ekki verið unnt að staðfesta með óyggjandi hætti að tölva kæranda kæmi með IR myndavél. Vísað var til þess að hvergi kæmi fram á tilboðsblaði kæranda að myndavélin byggi yfir IR eiginleikum og að í fylgigögnum hafi komið fram að um valkvæðan eiginleika vélarinnar væri að ræða frekar en staðlaðan búnað.

Kærandi byggir kröfur sínar á því að tilboð hans hafi uppfyllt allar kröfur kröfulýsingar. Í tilboðinu hafi komið fram að boðnar tölvur væru með myndavél með næðisloku og styddu notkun Windows Hello. Kærandi kveður augljóst að myndavél með næðisloku sem styður notkun Windows Hello sé af því tagi sem krafist sé. Hafi verið vafi um eiginleika boðinnar fartölvu hafi varnaraðila verið í lófa lagið að óska eftir nánari skýringum kæranda á tilboðinu. Jafnframt vísar kærandi til þess að í „QuickSpecs“ hafi komið fram að hægt væri að fá boðna vél, HP Elitebook 840 G10, með 5MP myndavél, 5MP myndavél með IR eða 5MP myndavél með IR og Windows Hello stuðningi. Þannig hafi ekki væri hægt að fá vél með Windows Hello stuðningi sem ekki væri búin IR myndavél. Hafi varnaraðila ekki getað dulist að boðin tölva væri búin IR myndavél. Kærandi byggir á því að þar sem tilboð hans hafi uppfyllt allar kröfur útboðsganga og tilboðsverð verið lægra en það tilboð Origo hf. er varð fyrir valinu, hafi varnaraðili með réttu átt að meta það hagstæðast þeirra tilboða sem bárust í útboðinu.

Varnaraðili kveður Windows Hello bæði geta verið notað með IR stuðningi og 3D myndavél fyrir andlitsgreiningu. Þegar tölva styðji IR fangi myndavélin innrautt ljós sem andlit gefur frá sér og geri vélinni þannig kleift að þekkja andlit eiganda vélarinnar við litla eða enga birtu. Í tilviki 3D myndavélar fangi hún dýptarupplýsingar samhliða sjónrænni mynd. Slík lausn virki ekki í myrkri. Hvergi í tilboði kæranda hafi verið að finna upplýsingar um hvort tölvan sem boðin hafi verið hafi IR eða 3D myndavél. Í gögnum frá kæranda hafi mátt sjá að möguleiki væri á að fá vélina með IR en á tilboðsblaðinu hafi ekki verið tekið fram að myndavélin hefði þann eiginleika. Varnaraðili byggir á því að kæranda hafi mátt vera ljóst að ekki yrðu veitt stig fyrir umræddan matslið nema tekið færi fram að myndavél innihéldi IR stuðning. Af hálfu Origo hf. er einkum bent á að kaupanda sé ekki stætt að meta eiginleika til gæða sem ekki komi skýrt fram í tilboði.

II

Kæra í máli þessu lýtur að örútboði varnaraðila innan rammasamnings Ríkiskaupa um fartölvur og þeirri ákvörðun varnaraðila að velja tilboði Origo hf. í örútboðinu. Lúta kröfur kæranda í málinu í fyrsta lagi að því að nefndin lýsi samning varnaraðila og Origo hf. óvirkan. Í öðru lagi að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila um að hafna tilboði kæranda og ganga að tilboði Origo hf., og að varnaraðila verði þess í stað gert að taka tilboði kæranda. Í þriðja lagi krefst kærandi álits á skaðabótaskyldu varnaraðila. Byggir kærandi kröfur sínar í öllum tilvikum á því að vara hans hafi uppfyllt þær kröfur sem gerðar voru í útboðsgögnum til myndavélar og varnaraðili hafi því með réttu átt að gefa honum stig fyrir þann þátt. Tilboð hans hafi þar með átt að hljóta flest stig í útboðinu og vera valið til samningsgerðar.

Í 115.- 118. gr. laga nr. 120/2016 er kveðið á um að samningar sem er yfir viðmiðunarfjárhæðum skv. 4. mgr. 23. gr. laganna og gerðir eru heimildarlaust án útboðsauglýsingar, meðan á biðtíma stendur eða stöðvun samningsgerðar vegna meðferðar hjá kærunefnd, skuli lýstir óvirkir eða önnur viðurlög lögð á kaupanda. Þegar kæra barst hafði ekki komist á bindandi samningur á milli varnaraðila og Origo hf. og með ákvörðun 17. apríl 2024 féllst nefndin á kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir. Ekki hefur komið fram að samningur hafi síðar verið gerður og því óhjákvæmilegt að hafna þeirri kröfu kæranda að slíkur samningur sé lýstur óvirkur.

Kærunefndin hefur kynnt sér tilboð kæranda, þar á meðal upplýsingablað sem kærandi skilaði inn um eiginleika boðinnar vélar en í því kom annars vegar fram boðin vél hefði „5MP FHD myndavél með næðisloku“ og hins vegar að myndavél styddi „Windows Hello með næðisloku“. Í tæknilýsingu framleiðanda sem fylgdi tilboðinu kom fram að hægt væri að fá boðna vél með 5MP myndavél, 5MP myndavél með IR eða 5MP myndavél með IR og Windows Hello stuðningi. Í tilboði Origo hf. sagði um myndavél ThinkPad T14 fartölvu er fyrirtækið bauð: „FHD IR m. ThinkShutter loku“. Þá kom fram í tæknilýsingu framleiðanda vélarinnar sem fylgdi tilboðinu um myndavél: „Up to 5MP + IR camera with webcam shutter“. Í tilboðsgögnum Origo hf. var þess hvergi sérstaklega getið að boðin vél styddi Windows Hello.

Af hálfu varnaraðila voru ekki gerðar einhlítar kröfur um form þeirra upplýsinga sem veittar skyldu um eiginleika boðinnar vöru. Eins og atvikum er háttað verður því að gera þá kröfu til varnaraðila að jafnræðis sé gætt við mat tilboða þannig að ekki séu gerðar strangari kröfur til eins bjóðanda umfram annan, sbr. 15. gr. laga nr. 120/2016. Af matsgögnum varnaraðila er ljóst að þegar eiginleikar boðinnar tölvu Origo hf. voru skoðaðir var lagt til grundvallar að myndavélin væri „FHD IR m. ThinkShutter loku“ en í tilviki kæranda að myndavélin hefði „5MP FHD myndavél með næðisloku“. Af þessu má leiða að í tilviki tilboðs Origo hf. hafi upplýsingar Origo hf. um að vélin hefði IR myndavél verið talin gefa vissu fyrir því að Windows Hello stuðningur væri til staðar, líkt og krafist var, en í tilviki tilboðs kæranda hafi verið litið fram hjá þeim upplýsingum kæranda að boðin vél styddi Windows Hello, og hefði þar með IR myndavél líkt og einnig mátti ráða af öðrum gögnum. Með hliðsjón af þessu var varnaraðila óheimilt að gefa kæranda engin stig fyrir þennan matslið. Því til viðbótar má síðan nefna að sú lýsing varnaraðila í greinargerð til nefndarinnar að Windows Hello geti verið notað annars vegar með IR myndavél og hins vegar með 3D myndavél, og tilboð kæranda hafi því ekki verið skýrt um að kröfu um IR myndavél væri fullnægt, er engum gögnum studd.

Að öllu framangreindu virtu er óhjákvæmilegt að fella úr gildi ákvörðun varnaraðila um að taka tilboði Origo hf. í hinu kærða útboði. Á hinn bóginn er það utan valdheimilda kærunefndar útboðsmála að skylda kaupanda til að ganga til samninga á grundvelli útboðs, sbr. 111. gr. laga nr. 110/2016 þar sem úrræði kærunefndar útboðsmála eru tæmandi talin.

Þar sem fallist hefur verið á kröfu kæranda um að ákvörðun varnaraðila um val á tilboði Origo hf. verði felld úr gildi er útboðið enn í gangi. Þykir því ekki tímabært að fjalla um kröfu kæranda um álit á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart honum og verður þeirri kröfu því vísað frá nefndinni.

Í ljósi málsúrslita verður varnaraðila gert að greiða kæranda 750.000 krónur í málskostnað.

Úrskurðarorð

Ákvörðun varnaraðila, Reykjanesbæjar, um að velja tilboð Origo hf. í örútboði á fartölvum fyrir Menntasvið Reykjanesbæjar, er felld úr gildi.

Kröfu kæranda, Opinna Kerfa hf., um álit á skaðabótskyldu varnaraðila gagnvart kæranda er vísað frá.

Öðrum kröfum kæranda er hafnað.

Varnaraðili greiði kæranda 750.000 krónur í málskostnað.


Reykjavík, 17. maí 2024


Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður Finnbogadóttir

 



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta