Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 647/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 647/2021

Fimmtudaginn 10. febrúar 2022

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 9. nóvember 2021, kærði A, Reykjavík, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 13. október 2021, um að veita kæranda 58.668 kr. í fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. til 31. júlí 2021.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 1. júlí 2021, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. til 31. júlí 2021. Með ákvörðun þjónustumiðstöðvar, dags. 26. ágúst 2021, var umsókn kæranda synjað með vísan til þess að hann hafi ekki skilað yfirliti yfir eignir og tekjur, sbr. 8. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Á fundi áfrýjunarnefndar velferðarráðs þann 13. október 2021 var samþykkt að veita kæranda fjárhagsaðstoð að fjárhæð 58.668 kr. fyrir tímabilið 1. til 31. júlí 2021.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 9. nóvember 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. desember 2021, var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst úrskurðarnefndinni 10. janúar 2022 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. janúar 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að umsókn hans um fjárhagsaðstoð fyrir júlímánuð 2021 hafi upphaflega verið synjað en eftir áfrýjun hafi verið samþykkt að greiða fjárhagsaðstoð að hluta. Kærandi kæri þá ákvörðun og óski eftir að úrskurðarnefndin samþykki kæruna eða að minnsta kosti hlýði á hann.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé einhleypur og barnlaus flóttamaður. Hann hafi fengið alþjóðlega vernd þann 22. maí 2020 og þegið fjárhagsaðstoð frá því tímamarki. Kærandi sé í virkri atvinnuleit og hafi sótt íslenskunámskeið. Kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. til 31. júlí 2021 með umsókn, dagsettri 1. júlí 2021 til greiðslu þann 1. ágúst 2021. Honum hafi verið synjað að hluta til um fjárhagsaðstoð, 179.206 kr., og því fengið greiddar 58.668 kr. Frádráttur hafi verið framkvæmdur vegna inneignar á reikningi hans, 299.744 kr. í júní 2021 samkvæmt 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar. Kærandi hafi hins vegar átt 379.757 kr. inneign í banka í júnímánuði 2021. Hann hafi tekið út í erlendum gjaldeyri 299.744 kr. þann 21. júní 2021 en vegna mannlegra mistaka hafi sú fjárhæð verið talin heildarinneign í júní 2021. Frádráttur á fjárhagsaðstoð hafi því orðið minni en ella hefði verið.

Tekið er fram að samkvæmt 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga skuli sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er meti þörf og ákveði fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veiti þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilji veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga sé mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veiti. Núgildandi reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hafi tekið gildi 1. apríl 2021.

Litið sé svo á að fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi sé neyðaraðstoð sem ekki beri að veita nema engar aðrar bjargir séu fyrir hendi. Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg komi fram að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991. Sú meginregla gildi að umsækjandi fái einungis greidda fjárhagsaðstoð ef hann geti ekki framfleytt sér sjálfur. Umrædd meginregla eigi sér stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð og 19. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, sem kveði meðal annars á um skyldu hvers og eins að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára.

Í III. kafla reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavík sé að finna ákvæði sem lúti að rétti til fjárhagsaðstoðar. Við mat á því hvort umsækjandi geti átt rétt til fjárhagsaðstoðar samkvæmt reglunum skuli meðal annars horft til 12. gr. reglnanna sem kveði á um hvernig skuli litið til tekna og eigna umsækjanda. Í 1. mgr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg segi:

„Með tekjum er átt við allar tekjur einstaklings/maka sem ekki eru sérstaklega til framfærslu barna, þ.e. atvinnutekjur, allar skattskyldar tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins, greiðslur úr lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, leigutekjur og fl.“

Í 2. mgr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg segi:

„Allar tekjur einstaklingsins/maka, í þeim mánuði sem sótt er um og mánuðinn á undan, aðrar en greiðslur vegna barna og húsaleigubætur/vaxtabætur, koma til frádráttar við ákvörðun um upphæð fjárhagsaðstoðar. Mæðra- og feðralaun reiknast umsækjanda til tekna. Með tekjum er hér átt við allar tekjur einstaklings/maka sem ekki eru sérstaklega til framfærslu barna, þ.e. atvinnutekjur, allar skattskyldar tekjur TR, greiðslur úr lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, leigutekjur o.s.frv. Eigi umsækjandi rétt á atvinnuleysisbótum, skal reikna atvinnuleysisbætur honum til tekna, hvort sem hann hefur skilað minnisblaði atvinnuleitanda eða ekki nema framvísað sé læknisvottorði.“

Óumdeilt sé að kærandi hafi átt 379.757 kr. inneign í banka í júní 2021 sem hafi orðið til þess að honum hafi verið synjað um fjárhagsaðstoð að hluta til vegna júlímánaðar með vísan til frádráttar, sbr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Hann hafi tekið út í erlendum gjaldeyri 299.744 kr. þann 21. júní 2021 en vegna mannlegra mistaka hafi sú fjárhæð verið talin heildarinneign í júní 2021. Frádráttur frá fjárhagsaðstoð hafi því orðið minni en ella.

Þá hafi kæranda verið synjað um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. júní til 30. júní 2021 vegna inneignar á reikningi í maímánuði 2021, að fjárhæð 1.379.607 kr., sem hafi verið fjallað um í máli nr. 480/2021 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála. Nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að staðfesta bæri niðurstöðu áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar um að staðfesta synjun þjónustumiðstöðvar um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. júní til 30. júní 2021. Að öðru leyti vísist til málavaxta í máli nr. 480/2021 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Ítrekuð sé sú meginregla að umsækjandi fái einungis greidda fjárhagsaðstoð ef hann geti ekki framfleytt sér sjálfur en umrædd meginregla eigi sér stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar og 19. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Með hliðsjón af öllu framansögðu hafi áfrýjunarnefnd velferðarráðs talið ljóst að kærandi hefði undir höndum fjármuni sem honum bæri að nýta sér til framfærslu áður en leitað væri eftir fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs hafi því talið rétt að framkvæma bæri frádrátt á fjárhagsaðstoð á grundvelli 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð og að staðfesta bæri ákvörðun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um frádrátt á fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. til 31. júlí 2021.

Samkvæmt framansögðu sé ljóst að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991.

 

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að veita kæranda ekki fulla fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. til 31. júlí 2021.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um lagagrundvöll fjárhagsaðstoðar. Þar kemur fram í 1. mgr. að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Samkvæmt 3. gr. reglnanna skal við ákvörðun á fjárhagsaðstoð leggja til grundvallar grunnfjárþörf til framfærslu og frá henni dregnar heildartekjur. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. reglnanna getur grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings 18 ára og eldri sem rekur eigið heimili numið allt að 212.694 kr. á mánuði. Í 7. mgr. 12. gr. reglnanna kemur fram að eigi umsækjandi, maki hans eða sambýlingur, eignir umfram íbúðarhúsnæði til eigin nota og eina bifreið, eða hafi hann nýlega selt eignir sínar, skuli honum vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða þó að tekjur hans séu lægri en grunnfjárhæð. Ef umsækjandi, maki hans eða sambýlisaðili eigi eignir sem nýst geta til framfærslu eigi hann ekki rétt á fjárhagsaðstoð.

Reglur Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð ganga út frá því að allar eignir, aðrar en íbúðarhúsnæði til eigin nota og bifreið, sé eðlilegt að nota sér til framfærslu áður en fengin er fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu. Fjárhagsaðstoðin er þannig neyðarúrræði fyrir þá sem hafa ekki aðgang að fjármunum sér til framfærslu.

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda synjað um fulla fjárhagsaðstoð fyrir júlímánuð 2021 vegna inneignar á bankareikningi í júnímánuði. Sú fjárhæð var yfir framangreindri grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, en vegna mistaka hjá starfsmanni Reykjavíkurborgar við úrlestur bankareikningsyfirlits var kæranda engu að síður veitt fjárhagsaðstoð að hluta. Ljóst er að um eign var að ræða sem kæranda bar að nýta sér til framfærslu í júlí 2021 áður en til fjárhagsaðstoðar kæmi frá sveitarfélaginu. Með vísan til þess er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að veita kæranda 58.668 kr. í fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. til 31. júlí 2021 staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 13. október 2021, um að veita A, 58.668 kr. í fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. til 31. júlí 2021, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira