Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 3/2014

Á fundi úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 15. apríl 2014 var tekið fyrir mál nr. 3/2014:

 

Kæra A

á ákvörðun

Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 7. janúar 2014, skotið til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður), dags. 11. desember 2013, þar sem hann var krafinn um endurgreiðslu hluta útborgaðrar fjárhæðar frá Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið frá mars til júlí 2012.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna barns hans sem fæddist þann Y. mars 2012. Tvær tilkynningar bárust frá kæranda um tilhögun fæðingarorlofs og var hann afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við þær, sbr. greiðsluáætlun til hans, dags. 20. júlí 2012. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 20. ágúst 2012, var athygli kæranda vakin á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hans vegna hugsanlegrar ofgreiðslu fyrir tímabilið mars til júlí 2012 og óskað frekari gagna og skýringa frá kæranda. Kærandi lagði fram umbeðin gögn með bréfi til Fæðingarorlofssjóðs, dags. 24. ágúst 2012. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 19. september 2012, var kærandi krafinn um endurgreiðslu hluta útborgaðrar fjárhæðar fyrir tímabilið frá mars til júlí 2012. Kærandi var endurkrafinn um X kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð X kr. Kærandi fékk leiðrétta greiðsluáskorun, dags. 7. nóvember 2013, þar sem fellt var niður 15% álag.

Kærandi kærði ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála með kæru, dags. 25. október 2012. Í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7022/2012 o.fl. ákvað úrskurðarnefnd að vísa ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs aftur til sjóðsins til nýrrar málsmeðferðar. Þeirri málsmeðferð lauk með nýrri greiðsluáskorun Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 11. desember 2013 þar sem kærandi var krafinn um endurgreiðslu hluta útborgaðrar fjárhæðar fyrir tímabilið frá mars til júlí 2012. Kærandi var endurkrafinn um X kr. Þar sem hann hafði endurgreitt X kr. var eftirstandandi skuld X kr.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála með tölvupósti þann 2. janúar 2014. Með bréfi, dags. 7. febrúar 2014, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Fæðingarorlofssjóðs barst með bréfi, dags. 10. febrúar 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. febrúar 2014, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir að kæra á ný ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs. Í kærunni er ekki að finna nýjar málsástæður frá fyrri kæru. Í kæru, dags. 25. október 2012, vegna ákvörðunar Fæðingarorlofssjóðs frá 19. september 2012, kemur fram að samkvæmt staðfestingu X hafi kærandi verið í fullu starfi hjá fyrirtækinu á tímabilinu 5. febrúar til 17. mars 2012 og 7. júní til 15. júlí 2012. Kærandi vísar til útprentunar frá Siglingamálastofnun um lögskráningardaga kæranda á tímabilinu. Kærandi heldur því fram að hann hafi ekki verið í launaðri vinnu í apríl og maí 2012 en samkvæmt kröfu Fæðingarorlofssjóðs sé farið fram á fulla endurgreiðslu vegna þessara tveggja mánaða. Tekið skuli fram að sjómenn á íslenskum fiskiskipum fái greidd laun sín á löngum tímabilum og fari það eftir skipaflokkum og jafnvel eftir samkomulagi um skiptingu hluta við aðra áhafnarmeðlimi eins og hér eigi í hlut. Jafnvel sé um að ræða samkomulag við útgerð um dreifingu launa á lengri tímabil. Þó kærandi hafi fengið greidd laun í apríl og maí þá sé það vegna vinnu sem hann hafi unnið af hendi á tímabilinu 5. febrúar til 17. mars 2012. Þar af leiðandi sé ekki hægt að krefja hann um endurgreiðslu vegna apríl og maí. Kærandi bendir á að í greiðsluáskoruninni komi fram að eingöngu skuli greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar séu fyrir það tímabil sem foreldri sé í fæðingarorlofi koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Fæðingarorlofssjóðs, dags. 7. nóvember 2012, áréttar hann að hann og aðrir sjómenn fái eingöngu greitt fyrir þær veiðiferðir sem þeir fari með sínum skipum, en greiðslur og uppgjör vegna þeirra veiðiferða sem þeir fari séu í mörgum greiðslum og geti loka uppgjör borist löngu síðar. Dæmi séu um útgerðir sem geri jafnvel upp allt að sex mánuðum síðar fyrir vinnu sem unnin sé. Þar af leiðandi sé greiddur af þeim tekjuskattur og tryggingargjald fyrir mánuði sem þeir séu ekki í vinnu hjá viðkomandi útgerð. Þau laun sem kærandi hafi haft árið 2012 hjá X hf. séu vegna eftirfarandi tímabila:

Frá 5. febrúar 2012 til 20 mars 2012.

Frá 7. júní 2012 til 18. júlí 2012.

Frá 24. ágúst til 6. október 2012.

Því til sönnunar sé meðfylgjandi lögskráningar dagar kæranda en útgerð beri að lögskrá sjómenn þá daga sem þeir séu um borð í íslenskum fiskiskipum samkvæmt lögum nr. 35/2010 um lögskráningu sjómanna.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs vegna málsins kemur fram að sjóðurinn hafi endurskoðað mál kæranda til samræmis við álit setts umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7022/2012 o.fl. Endurskoðunin hafi leitt til lækkunar á fyrri kröfu sjóðsins úr X kr. í X kr. Kæranda hafi verið send greiðsluáskorun þann 11. desember 2013 en hann hafi þá endurgreitt X kr. og eftirstöðvar kröfunnar hafi því verið X kr. Ekki hafi verið gerð krafa um 15% álag. Fæðingarorlofssjóður vísar að öðru leyti til greinargerðar sinnar, dags. 7. nóvember 2012.

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs, dags. 7. nóvember 2012, vegna fyrri kæru kæranda eru meðal annars rakin með nokkuð ítarlegum hætti ákvæði laga um fæðingar- og foreldraorlof og laga nr. 113/1990 um tryggingagjald. Fæðingarorlofssjóður bendir á að launafyrirkomulag og vinnutími sjómanna sé með öðrum hætti en almennt gerist hjá launþegum í landi. Við mat á því hvort sjómenn hafi fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði sé þó ekki önnur leið fær en að horfa til þess hvort greiðslur frá vinnuveitanda séu hærri en sem nemi mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltali heildarlauna þeirra á viðmiðunartímabili 2. eða 5. mgr. 13. gr. ffl. að teknu tilliti til launabreytinga, ef um það sé að ræða, á greiðslutímabili Fæðingarorlofssjóðs. Við það mat sé ávallt horft á hvern og einn almanaksmánuð og hlutfall fæðingarorlofs í hverjum mánuði og skipti þá engu hvort sjómaður hafi verið lögskráður um borð eða ekki hafi foreldrið fengið tekjutapið bætt frá vinnuveitanda. Sjóðurinn telur að ákvæði 2. mgr. 10. gr. laganna opni ekki á það að sjómenn geti valið að vera í fæðingarorlofi hluta mánaðar og lagt niður vinnu þann tíma en síðan bætt upp það tekjutap sem af því hljótist með frekari vinnu á öðrum tíma mánaðarins eða að fæðingarorlof sé tekið þegar sjómaður eigi hvort sem er að vera í frítúr. Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði kæmu þá í raun til viðbótar við greiðslur frá vinnuveitanda að hluta eða öllu leyti. Með þeim hætti væri tilgangi greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði ekki náð en þeim sé aðallega ætlað að gera foreldrum kleift að leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi án þess að fjárhagsleg hagnaðarsjónarmið liggi þar að baki.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að á viðmiðunartímabili kæranda skv. 2. mgr. 13. gr. ffl., hafi viðmiðunarlaun hans verið X kr. á mánuði en frá því að viðmiðunartímabili hafi lokið og fram að fæðingu barnsins hafi þau verið komin í X kr. sem miðað hafi verið við. Þannig hafi verið tekið mið af hækkuðum launum kæranda honum til hagsbóta við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu skv. 10. mgr. 13. gr. laganna.

Í mars 2012 hafi kærandi þegið X kr. í laun frá vinnuveitanda sínum. Hafi þá verið tekið tillit til launatímabils kæranda samkvæmt launaseðli og skýringum vinnuveitanda en samkvæmt staðgreiðsluskrá hafi laun kæranda í mars verið 0 kr. Kærandi hafi því fengið sem svaraði 159% af meðaltali heildarlauna sinna frá vinnuveitanda í mánuðinum og hafi því mátt þiggja 0% greiðslu frá sjóðnum. Ofgreiðsla fyrir mars 2012 sé því X kr. útborgað. Í apríl 2012 hafi kærandi þegið X kr. í laun frá vinnuveitanda sínum. Hafi þá verið tekið tillit til launatímabils kæranda samkvæmt launaseðli og skýringum vinnuveitanda en samkvæmt staðgreiðsluskrá hafi laun kæranda í apríl verið X kr. Hann hafi því fengið sem svaraði 150% af meðaltali heildarlauna sinna frá vinnuveitanda í mánuðinum og hafi því mátt þiggja 0% greiðslu frá sjóðnum. Ofgreiðsla fyrir apríl 2012 sé því X kr. útborgað. Í maí 2012 hafi kærandi þegið X kr. í laun frá vinnuveitanda sínum. Hafi þá verið tekið tillit til launatímabils kæranda samkvæmt launaseðli og skýringum vinnuveitanda en samkvæmt staðgreiðsluskrá hafi laun kæranda í maí verið X kr. Hann hafi því fengið sem svari 100% af meðaltali heildarlauna sinna frá vinnuveitanda í mánuðinum og hafi því mátt þiggja 0% greiðslu frá sjóðnum. Ofgreiðsla fyrir maí 2012 sé því X kr. útborgað. Í júní 2012 hafi kærandi þegið X kr. í laun frá vinnuveitanda sínum. Hafi þá verið tekið tillit til launatímabils kæranda samkvæmt launaseðli og skýringum vinnuveitanda en samkvæmt staðgreiðsluskrá hafi laun kæranda í júní verið X kr. Hann hafi því fengið sem svari 123% af meðaltali heildarlauna sinna frá vinnuveitanda í mánuðinum og hafi því mátt þiggja 0% greiðslu frá sjóðnum. Ofgreiðsla fyrir júní 2012 sé því X kr. útborgað. Í júlí 2012 hafi kærandi þegið X kr. í laun frá vinnuveitanda sínum. Hafi þá verið tekið tillit til launatímabils kæranda samkvæmt launaseðli og skýringum vinnuveitanda en samkvæmt staðgreiðsluskrá hafi laun kæranda í júlí verið X kr. Hann hafi því fengið sem svari 64% af meðaltali heildarlauna sinna frá vinnuveitanda í mánuðinum og hafi því mátt þiggja 0% greiðslu frá sjóðnum. Ofgreiðsla fyrir júlí 2012 sé því X kr. útborgað. Fæðingarorlofssjóður hafi því ofgreitt kæranda X kr. útborgað. Ekki hafi verið gerð krafa um 15% álag.

 

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að endurkrefja kæranda um greiðslur fyrir tímabilið frá mars til júlí 2012 úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingar barns þann Y. mars 2012.

Úrskurðarnefndin telur ástæðu til að gera athugasemdir við greinargerð Fæðingarorlofssjóðs í málinu en þar er meðal annars að finna nokkuð ítarlega reifun á fjölmörgum ákvæðum laga um fæðingar- og foreldraorlof. Bent skal á að beiðni úrskurðarnefndarinnar til Fæðingarorlofssjóðs um rökstuðning fyrir kærðri ákvörðun er þáttur í rannsókn nefndarinnar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Rannsókn úrskurðarnefndarinnar á að leiða hið sanna og rétta í ljós í máli og er gengið út frá því að umbeðinn rökstuðningur fyrir kærðri ákvörðun sé skrifleg greinargerð um þau sjónarmið sem voru ráðandi við úrlausn máls, en sérstaklega var óskað eftir afstöðu sjóðsins til þeirra málsástæðna sem fram komu í kærunni. Úrskurðarnefndin telur rétt að umbeðinn rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun sé orðaður á einfaldan og skýran hátt ásamt því að hann sé gagnorður og í skipulegu samhengi. Telja verður eðlilegt og skylt að Fæðingarorlofssjóður vísi til þeirra réttarheimilda sem hin kærða ákvörðun byggist á en gæta verði að því að tilvísun til réttarheimilda verði ekki svo ítarleg að ekki verði ráðið á hvaða grundvelli hin kærða ákvörðun var tekin. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Fæðingarorlofssjóðs að gæta að framangreindu þegar óskað er upplýsinga frá sjóðnum við meðferð kærumála hjá nefndinni.

Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna barns hans sem fæddist þann Y. mars 2012 og var umsókn hans samþykkt. Kærandi var endurkrafinn um hluta útborgaðrar fjárhæðar fyrir tímabilið mars til júlí 2012. Endurkrafa Fæðingarorlofssjóðs byggðist á því að kærandi hafi þegið of há laun frá vinnuveitanda sínum á sama tíma og hann þáði greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði. Kærandi heldur því fram að hann hafi ekki verið í launaðri vinnu í apríl og maí 2012. Laun sem hann hafi fengið greidd í apríl og maí séu vegna vinnu á tímabilinu 5. febrúar til 20. mars 2012. Kærandi líkt og aðrir sjómenn fái eingöngu greitt fyrir þær veiðiferðir sem þeir fari með sínum skipum, en greiðslur og uppgjör vegna þeirra veiðiferða séu í mörgum greiðslum og geti loka uppgjör borist löngu síðar.

Barn kæranda er eins og fyrr greinir fætt þann Y. mars 2012. Viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna kæranda skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. er því tímabilið frá september 2010 til ágúst 2011. Í greiðsluáætlun, dags. 20. júlí 2012, kemur fram að meðaltekjur kæranda á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. voru alls X kr. og greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði miðað við 100% fæðingarorlof væri samkvæmt því X kr. Af útreikningi sem fylgdi hinni kærðu ákvörðun frá 11. desember 2013 má hins vegar sjá að litið var til launa kæranda eftir að viðmiðunartímabili lauk og fram að fæðingu barns hans og miðað við X kr. meðallaun við útreikning á endurgreiðslukröfu Fæðingarorlofssjóðs. Er það samkvæmt heimild í 10. mgr. 13. gr. ffl. til hækkunar á meðaltals heildarlaunum vegna launahækkana eftir lok viðmiðunartímabils en fyrir fæðingu barns. Er það kæranda til hagsbóta.

Samkvæmt 10. mgr.13. gr. ffl. skulu greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru hærri en nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris skv. 2. eða 5. mgr. koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Eingöngu skuli greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar eru fyrir það tímabil sem foreldri er í fæðingarorlofi koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, en úrskurðarnefndin hefur miðað við almanaksmánuði í þessu sambandi. Þar sem kærandi þáði greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði í mars til júlí 2012 var honum einungis heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem námu mismuni meðaltals heildarlauna hans eins og þau voru hækkuð og greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði án þess að greiðslur vinnuveitanda til hans kæmu til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Úrskurðarnefndin telur að Fæðingarorlofssjóður hafi réttilega borið endurgreiðslukröfu á hendur kæranda við meðaltals heildarlaun að fjárhæð X kr. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði í samræmi við 57% fæðingarorlof í mars 2012 að fjárhæð X kr., 100% fæðingarorlof í apríl 2012 að fjárhæð X kr., 100% fæðingarorlof í maí 2012 að fjárhæð X kr., 10% fæðingarorlof í júní 2012 að fjárhæð X kr., 66% fæðingarorlof í júlí 2012 að fjárhæð X kr. Kæranda var því heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda að fjárhæð X kr. í mars 2012, X kr. í apríl 2012, X kr. í maí 2012, X kr. í júní 2012, X kr. í júlí 2012. Er þessi túlkun í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7022/2012 o.fl. frá 28. ágúst 2013.

Í málinu liggja fyrir launaseðlar kæranda vegna launa fyrir tímabilin 5. febrúar-17. mars 2012, 20. mars-29. apríl 2012, 10. maí-5. júní 2012 og 7. júní-15. júlí 2012. Við útreikning Fæðingarorlofssjóðs var tekið tillit til launatímabils kæranda samkvæmt launaseðli og skýringum vinnuveitanda. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi því greidd laun frá vinnuveitanda sínum X kr. fyrir mars 2012, X kr. fyrir apríl 2012, X kr. fyrir maí 2012, X kr. fyrir júní 2012 og X kr. fyrir júlí 2012. Líkt og að framan greinir kveðst kærandi ekki hafa verið í launaðri vinnu í apríl og maí 2012 og laun sem hann hafi fengið greidd á því tímabili hafi verið vegna vinnu á tímabilinu 5. febúar til 20. mars 2012.

Samkvæmt launaseðlunum var skráð „Frí“ fyrir tímabilin 20. mars-29. apríl 2012 og 10. maí-5. júní 2012. Úrskurðarnefndin tekur undir sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs er fram hafa komið í málinu og telur að við mat á því hvort kærandi hafi fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði verði að horfa til greiðslna frá vinnuveitanda fyrir það tímabil er hann var í fæðingarorlofi, hvort sem um sé að ræða greiðslur fyrir tímabil þar sem kærandi hafi verið í fríi eða um borð. Úrskurðarnefndin hefur enda byggt á því að lögin heimili ekki að foreldri geti valið að vera í fæðingarorlofi hluta dags eða hluta mánaðar og lagt niður vinnu þann tíma en síðan bætt upp það tekjutap sem af því hlýst með frekari vinnu, til dæmis með yfirvinnu, seinni hluta sama dags eða mánaðar og það leiði þannig til þess að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði komi í raun til viðbótar við greiðslur frá vinnuveitanda að hluta eða öllu leyti. Verður að líta svo á að hið sama gildi um kæranda að hann geti ekki valið að vera í fæðingarorlofi þá mánuði sem hann er í fríi og fengið greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til viðbótar við greiðslur frá vinnuveitanda. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að líta verði svo á að greiðslur sem kærandi fékk frá vinnuveitanda sínum fyrir apríl og maí 2012 hafi verið ætlaðar fyrir það tímabil, sbr. 10. mgr. 13. gr. ffl. Samkvæmt framangreindu þáði kærandi þannig hærri greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði en honum er heimilt lögum samkvæmt fyrir mars til júní 2012. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 11. desember 2013, um að endurkrefja A um hluta útborgaðrar fjárhæðar fyrir tímabilið mars til júlí 2012 er staðfest.

 

Haukur Guðmundsson formaður

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira